28.10.1963
Neðri deild: 6. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

16. mál, fullnusta refsidóma

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem er merkilegt að meginstefnu til, vegna þess að það sýnir fullt og óvenjulegt traust milli Norðurlandaþjóðanna fimm á þeirra réttarskipan, var lagt fyrir Alþingi í fyrra, en varð þá óútrætt. Það var ekki vegna þess, að hér gætti nokkurrar andstöðu við frv., heldur af þeim sökum, að ráð hafði verið fyrir því gert, að frv. yrði afgreitt nokkuð samtímis í öllum Norðurlöndunum fimm, og a.m.k. þótti okkur, sem slógust síðast í þann hóp, sem hefur samið um efni frv., óviðfelldið, að við yrðum fyrstir til þess að lögfesta það. En dráttur varð í hinum löndunum á lögfestingu meiri en í upphafi hafði verið gert ráð fyrir. Nú er hins vegar búið að setja lög um þetta efni bæði í Danmörku og Svíþjóð, það var gert í maí s.l. Ég hygg hins vegar, að málið sé enn óafgreitt í Finnlandi og Noregi, en hef þó ekki heyrt um, að þar vært um meiri háttar andstöðu að ræða, heldur er búizt við, að málið fái afgreiðslu með venjulegum hætti einhvern tíma nú á haustþingum í þessum löndum.

Ég taldi því sjálfsagt að leggja þetta frv. fyrir að nýju. Það má að vísu segja og er rétt að viðurkenna það, að fangelsi okkar eru ekki í því ástandi, að sambærilegt sé við það, sem bezt gerist með frændþjóðum okkar. En hafinn er undirbúningur að því að koma þessum málum í betra horf hér á landi. Og eins og ég sagði, hér er meira um að ræða gagnkvæma viðurkenningu og traustsyfirlýsingu þessara þjóða á réttarskipun þeirra hverrar um sig heldur en búast megi við, að málið hafi ýkjamikla raunhæfa þýðingu fyrir okkur íslendinga. Það er miklu frekar, að raunhæf þýðing verði milli þeirra landa, sem liggja fast hvort upp að öðru, og þeirra samgöngur eru miklu meiri en er í okkar landi. Ég vonast þó til, að frv. fái hér góðar undirtektir, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.