05.05.1964
Neðri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það er um brtt. á þskj. 536, sem hæstv. landbrh. flytur, sem ég vildi segja nokkur orð. A-liður brtt. er um það, að skyldusparnaður sveitaunglinga, sem ávaxtaður hefur verið í veðdeild Búnaðarbankans, verði hér eftir ávaxtaður í stofnlánadeild landbúnaðarins. Veðdeild Búnaðarbankans er eina peningastofnunin í þessu landi, sem hefur því hlutverki að gegna að lána fé til jarðakaupa og greiða á þann hátt fyrir frumbýlingum og öðrum þeim, er vilja eignast ábýlisjörð sína. Þó að veðdeildin hafi oftast verið félítil, hefur hún dálítið getað hjálpað til við eigendaskipti á jörðum. Eitt af því. sem mjög stendur landbúnaðinum fyrir þrifum og á sinn þátt í því að fækka bændum, er einmitt, hversu erfitt er að fá lán til jarðakaupa og hversu litið veðdeildin getur hjálpað í því efni vegna féleysis. Ég tel þess vegna alveg fráleitt að taka af henni þá fjáröflunarmöguleika, sem hinn aukni skyldusparnaður mundi skapa henni.

Fulltrúar Framsfl. í heilbr: og félmn., við Jón Skaftason styðjum þetta frv. um aukinn skyldusparnað, m.a. með tilliti til þeirrar fjáröflunar, sem þar er ráðgerð til veðdeildar Búnaðarbankans. Við hljótum því að vera á móti brtt.

Um b-lið brtt. vil ég í öðru lagi einnig segja það, að ég er á móti því, að sett sé vísitölutrygging á lán, sem veitt eru af skyldusparnaðarfé til þeirra sjálfra, þegar þeir stofna bú. Nú kann einhver að segja sem svo, að B-lán húsnæðismálastjórnar séu vísitölubundin. En þá er því til að svara, að B-lánin eru ekki hluti af skyldusparnaðinum, heldur er þar um að ræða fé. sem fengið er til byggingarlánanna með öðrum hætti samkv. l. um húsnæðismálastofnun. Ef þeir, sem vilja stofna bú í sveit, fengju til þess lán samkv. því, sem brtt. gerir ráð fyrir, þá byggju þeir við annan og minni rétt að mínu viti heldur en annað hliðstætt fólk, því að þau lán, sem þeir fengju, væru þá að öllu leyti vísitölubundin, þegar húsbyggjendur í bæjum og þorpum þurfa ekki að sæta slíkum kjörum nema aðeins á litlum hluta af sínum lánum. Mér virðist því, að hér væri stofnað til nokkurs misréttis, og get ekki stutt þessa till. og mun greiða atkv. á móti henni eins og fyrri liðnum.

Hitt er svo allt annað mál, að ég tel, að nauðsyn beri til þess að taka til athugunar, hvort ekki sé hægt að koma við verðtryggingu sparifjár, og hlýtur þá einnig auðvitað að koma til íhugunar um verðtryggingu á útlánum peningastofnana. Slík athugun hlýtur að verða gerð, ef þeir, sem hafa ábyrgð á stjórn landsins, vilja stöðva verðbólguna. Nýlega hefur Jón Skaftason og fleiri framsóknarmenn lagt fram hér á hinu háa Alþingi till. til þál. um athugan á verðtryggingu sparifjár. Ég álit, að það sé nauðsynjamál, og tel, að þá till. eigi að samþykkja.

Ég skal svo ekki, herra forseti, tefja þessar umr. með fleiri orðum.