05.05.1964
Neðri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Sunnl. skilur þessa brtt. mína á þskj. 536 þannig, að það eigi að fara að rýra tekjumöguleika veðdeildar Búnaðarbankans, talar um það, að veðdeildin hafi greitt fyrir jarðarkaupum, m.a. vegna þess, að hún hafi fengið fé af skyldusparnaðinum. Það er hreinn misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur það, að þessi till. eigi að hafa það í för með sér að rýra tekjumöguleika veðdeildarinnar. Eins og allir hv. þm. vita, er gert ráð fyrir því í l. um stofnlánadeild landbúnaðarins, að veðdeildin geti selt þar árlega bréf fyrir 10 millj. kr., en stofnlánadeildin getur því aðeins keypt þessi bréf, að hún hafi fé undir höndum. Það er eindregin ósk stjórnar Búnaðarbankans, að þessi breyting verði gerð. Þetta fé, sem skyldusparnaðurinn leggur til, er verðtryggt. Deildin tekur á móti þessu fé og verðtryggir það. Ef hún hins vegar á að lána það út, án þess að það sé vísitölutrygging á lánunum, liggur í hlutarins eðli, að deildin hlýtur að tapa stórfé á þeim lánum. Og ekki væri það til þess að auka möguleika veðdeildarinnar til þess að lána, ef hún ætti að taka á móti fé til ávöxtunar og verðtryggja það, án þess að geta lánað það út aftur með sömu kjörum. Ég er þeirrar skoðunar, að um leið og Búnaðarbankinn, eins og hver önnur stofnun, tekur á móti fé til ávöxtunar og verðtryggir það í geymslu hjá sér, hljóti deildin að lána þetta fé út aftur með sama hætti.

Hins vegar er það útilokað að lána með vísitölutryggingu fé til jarðarkaupa. Það tei ég alveg útilokað, og þess vegna getur veðdeild Búnaðarbankans ekki tekið þetta fé til geymslu. En þá er spurningin, getur stofnlánadeildin þetta frekar? Ég tel það. Stofnlánadeildin hefur margháttaðar heimildir til þess að lána. Hún hefur heimild til þess að lána til bústofnskaupa, hún hefur heimild til þess að lána til stöðva, til hinna ýmsu félaga, og hún hefur heimild til þess að lána út á húsbyggingar, bæði peningshús, íbúðarhús og jarðarbaetur. Ég tel, að það sé mjög vafasamt, að það sé á nokkurn hátt eðlilegt að lána bændum með því að vísitölutryggja, a.m.k. alls ekki til langs tíma. Það er hugsanlegt, að það mætt lána til vélakaupa ræktunarsamböndum eða öðrum aðilum til stutts tíma með vísitölu og þó helzt ýmsum stöðvum landbúnaðarins, sem eiga að fá lán hjá stofnlánadeildinni samkv. lögum.

Það er til fróðleiks hægt að upplýsa það, að veðdeildin hefur þegar tapað allmiklu fé á þessu skyldusparnaðarfé, sem hún hefur tekið til geymslu, talsverðum upphæðum, og slíkt getur ekki gengið áfram.

Ég er á sama máli og hv. 2. þm. Sunnl. um, að það ber að efla veðdeildina og verður að vinna að því, og hv. 2. þm. Sunnl. veit, að þangað til á s.l. ári er gert ráð fyrir að lána 35 þús. kr. til jarðarkaupa og var ekki alltaf hægt að standa við það, vegna þess að veðdeildin var tóm. Á s.l. ári var þessi heimild hækkuð upp í 100 þús. kr. og hafa nú verið veitt allmörg lán með þeirri upphæð. Það er mín skoðun, að þetta sé einnig of lítið, það þurfi að hækka þetta mark enn meira og veðdeildin þurfi árlega að selja a.m.k. 10 millj. kr. verðbréf til stofnlánadeildarinnar, til þess að hún geti orðið aflögufær. Því er það að stofnlánadeildin getur keypt verðbréf af veðdeildinni og stuðlað að því, að hún hafi meiri möguleika en hún hefur haft til þessa til útlána, og stofnlánadeildin hefur miklu meiri möguleika til þess að taka á móti skyldusparnaðinum og verðtryggja hann heldur en veðdeildin. Veðdeildin getur það ekki. Satt að segja átti ég ekki von á því, að það yrði metingur um þetta hér í hv. Alþingi, vegna þess að þetta sýnist liggja svo ljóst fyrir, og ég er sannfærður um það, að þegar hv. 2. þm. Sunnl. áttar sig á málinu og gerir sér grein fyrlr því, hv að hér er um að ræða, hlýtur hann að verða á sömu skoðun og stjórn Búnaðarbankans og ég í þessu máli.