06.05.1964
Efri deild: 83. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ. með lítils háttar breytingum, eins og það var lagt fram, og að ég ætla samhljóða. Efni málsins er það að hækka skyldusparnaðinn úr 6% upp í 15% fyrir ungt fólk á aldrinum 16–25 ára. Þetta er gert ráð fyrir að þjóni tvenns konar tilgangi. Í fyrsta lagi þeim að auka ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar, og er gert ráð fyrir, að á ársgrundvelli verði þessi aukning skyldusparnaðarins a.m.k. fyrsta árið eða fyrstu árin allt að 30 millj. kr., og í öðru lagi er þetta gert til . þess að freista þess að tryggja ungu fólki, sem ræðst í húsbyggingar, nokkru meira eigið fé en það annars mundi hafa til umráða og geti þannig betur staðið undir þeim lánum, sem það óumflýjanlega þarf að taka. Það er kannske talin nokkuð hart aðgöngu að taka 15% af launatekjum unga fólksins og setja það fast í þessu skyni. En það sama unga fólk nýtur líka við þessar aðgerðir verulegra hlunninda. Þessi skyldusparnaður er undanþeginn bæði tekjuskatti og útsvari. Það er nr. 1. Nr. 2 er það, að hann er gengistryggður. Nr. 3 er svo það, að eigendur þessa skyldusparnaðar eiga að hafa samkv. l. skýlausan forgangsrétt að lánum hjá húsnæðismálastjórn. Nú er það svo í l. um húsnæðismálastjórn, að því er þetta snertir, að þar segir, að þeir. sem leggi fram skyldusparnað og sæki um lán úr húsnæðismálasjóði, eigi að hafa íorgangsrétt að öðru jöfnu. En þessi orð „að öðru jöfnu“ hafa nú verið numin úr l. eða verða numin úr þeim, ef þetta frv. verður samþykkt, þannig að viðkomandi aðili á skýlausan forgangsrétt á láni, þegar hann þarf á því að halda. Og í fjórða lagi fylgja þessu þau hlunnindi fyrir sparifjáreigendurna, að þeirra lán mega vera 25% hærri en venjuleg lán hjá húsnæðismálastjórn. Ég held þess vegna, að þetta frv. stefni í rétta átt og geti þjónað bæði þeim tilgangi að auka starfsfé húsnæðismálastjórnar og um leið að tryggja það, að þeir, sem skyldusparnaðinn eiga, standi betur að vígi með húsbyggingar sínar, þegar að því kemur, að þeir þurfi í þær að ráðast.

Mér er að vísu ljóst, að þessi starfsfjáraukning húsnæðismálastjórnar er hvergi nærri nóg, og auk annars frv. ekki óskylds, sem nú liggur fyrir hv. Nd., hefur ríkisstj. til athugunar ýmsar leiðir, sem hún er að freista að fara til þess að auka þetta starfsfé enn meir og það svo, að e.t.v. væri þá hægt að hækka hin einstöku lán ekki síður en heildarráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnarinnar.

Frv. er ákaflega einfalt, og efni þess er ekki annað en þetta, sem ég nú hef rakið, og ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess að fara um það fleiri orðum. En ég vil leyfa mér að leggja á það áherzlu við hæstv. forseta og þá n., sem fær þetta til meðferðar, að það verði reynt að flýta því, svo að hægt verði að afgreiða það sem lög frá þessu þingi.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að að umr. lokinni verði frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn.