09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl. (HB) sagði hér áðan, eins og allir hv. þm. heyrðu, að till. hv. 1. þm. Norðurl. e. væri flutt af misskilningi. Af því leiðir, að till. er óþörf, og þess vegna undrar mig það, að þessi hv. þm. skyldi lýsa því yfir, að hann mundi styðja till. Í fyrsta lagi lýsir hann því yfir, að till. sé flutt af misskilningi, og þar á eftir segir hann, að hann vilji fylgja till. Þetta er málflutningur, sem tæplega á við hér í hv. þd.

Hv. þm. sagði, að það mundi hafa vakað fyrir mér að bæta frv. með því að flytja brtt. í Nd. Það er alveg rétt. Ég flutti till. í þeim tilgangi, og ég get ekki að því gert, þótt hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi ekki áttað sig á orðalaginu, eins og það er hér í frv, skv. 1. gr., og til leiðbeiningar hv. þm., sem hafa ekki lesið fn. vel enn og áttað sig á því, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér 4. mgr. 1. gr., þar sem brtt. er felld inn í. Þar segir:

„Sérhverjum skal heimilt að leggja til hliðar í þessu skyni hærri hlut launa sinna en 15%, byrja sparnaðinn fyrr en tilskilið er og halda honum áfram lengur. Þeir, sem lagt hafa fé í Stofnlánadeild landbúnaðarins og vilja stofna bú í sveit, skulu njóta hliðstæðrar fyrirgreiðslu um lán til bústofnunar úr stofnlánadeildinni, enda verði þau lán veitt með sams konar vísitölutryggingu og hin vísitölutryggðu lán húsnæðismálastjórnar.“

Ég held, að það sé enginn vafi á því, hvað er meint með því, sem hér er sagt. Það er ekki meiningin, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. talaði hér um áðan, það er ekki gert til þess að mismuna einum eða öðrum, sveitafólkinu, sem á að njóta þess, heldur er það gert til þess, að það sé hægt að veita því frekari aðstoð en verið hefur, því að með því að láta þetta fé ganga inn í veðdeildina, eins og gert var, hefur ekki verið unnt að fullnægja þeim tilgangi, sem ætlazt var til, þegar þetta var ákveðið. Með því að koma því inn í stofnlánadeildina, eins og hér er gert ráð fyrir, er miklu rýmra svið og meiri möguleikar til að greiða fyrir þessu. Og eins og hv. 6. þm. Norðurl. e. tók fram, er ekki meiningin — og það er alveg óhætt að treysta því — að haga framkvæmdum þannig, að það verði á nokkurn hátt hægt að segja, að um mismunun sé að ræða. Og eins og hér er tekið fram, þá eru margs konar möguleikar fyrir hendi til þess að dreifa þessu vísitölubundna fé. Þannig er heimilt að lána þetta fé til þeirra, sem ekki eiga vísitölubundið fé inni í stofnlánadeildinni, veita þeim lán, sem er vísitölutryggt, til þess að sá, sem á féð inni, ungi maðurinn, og þarf að nota það, þurfi ekki að taka vísitölubundið lán nema að litlum hluta. Þannig hlýtur þetta að verða í framkvæmdinni. Og það er engin ástæða til að ætla, að stjórn Búnaðarbankans hagi því á annan hátt, og það er þess vegna, sem ég tel, að till. hv. 1. þm. Norðurl. e. sé óþörf.

Hv. þm. spurði mig að því, hvort ég vildi ekki koma hér upp og gefa yfirlýsingu eitthvað í þá átt, að framkvæmdinni yrði hagað á þann veg, sem hann ætlast til og vill að gert verði. Ég get tekið undir það, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að framkvæmdinni verður vitanlega hagað á þann veg. Út af fyrir sig finnst mér ekkert óeðlilegt, þótt hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi flutt till. í þessa átt, úr því að hann áttaði sig ekki í fyrstu á því, hvað er meint með þeirri breyt., sem gerð var í hv. Nd. En ég efast ekki um, að jafnskýr maður og þessi hv. þm. er hefur áttað sig fyllilega á því og sannfærzt um það nú, eins og hv. 6. þm. Sunnl., að till. er óþörf.