09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

195. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. (Þorvaldur G. Kristjánsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara orðum um þá brtt., sem hér hefur verið lögð fram. Bæði hv. 6. þm. Norðurl. e. og hæstv. landbrh. hafa skýrt það, svo að ég hygg, að allir megi skilja, jafnvel hv. 6. þm. Sunnl., en ég stend hérna upp í tilefni nokkurra orða, sem hann lét falla í minn garð í sambandi við skyldusparnaðinn.

Hann sagði réttilega, að ég hefði vikið fyrr að þeim málum, og það var ærin ástæða til þess. Ég ætla nú ekki að vera langorður hér og ætla því ekki að fara að rifja upp þá sögu, en ég get ekki komizt hjá því að minna á það, að þegar vinstri stjórnin kom fram með frv. sitt um skyldusparnað, hagaði vinstri stjórnin sínum málflutningi á þann veg, að með því frv. væri fundin ein allsherjarlausn á tekjuöflun til þessara mála. Það voru ekki spöruð stóryrði í því sambandi, og það var engu líkara en forsvarsmenn vinstri stjórnarinnar gerðu ekki ráð fyrir því, að það fólk, sem átti að hlíta skyldusparnaðinum til 26 ára aldurs, yrði nokkurn tíma 26 ára, því að það var talað um þetta mál þannig, að þar væri um örugga fjáröflun til íbúðalánakerfisins að ræða. Þetta var að sjálfsögðu á misskilningi byggt, og þegar núv. ríkisstj. reifar þetta mál, þá er það skýrt tekið fram, eins og raunar ég tók fram í minni fyrri ræðu hér áðan, að það fjármagn, sem verður til ráðstöfunar af skyldusparnaðarfé, fer smám saman minnkandi. En ef við tökum dæmið eins og það lá fyrir, þegar vinstri stjórnin bar fram sitt frv. um skyldusparnað, þá kom dæmið þannig út, að að nokkrum árum liðnum, — ég man ekki, hvort það voru 8, 9 eða 10 ár, kannske ekki nema 8 eða 9, þá stóð dæmið þannig, að það raunverulega ráðstöfunarfé, sem kom út úr þessum ráðstöfunum, var ein milljón króna á ári, þ.e.a.s. mismunurinn á því fjármagni, sem kom inn á hverju ári, og því fjármagni, sem varð að greiða út vegna þeirra, sem fóru af skyldusparðnaðaraldri.

En í þessu sambandi er svo rétt að minna á annað, að hér var allt á sömu bókina lært. Framkvæmd þessa kerfis í tíð vinstri stjórnarinnar, sem þýddi til frambúðar einnar millj. kr. tekjur fyrir íbúðarlánakerfið, kostaði árlega 2 1/2 mill jón.

Þetta er það, sem framsóknarmenn geta sérstaklega státað af í sambandi við framkvæmdina í húsnæðismálunum á tímabili vinstri stjórnarinnar. En það eru framsóknarmenn sem hafa gert það að hlutskipti sínu að státa sérstaklega af framferði vinstri stjórnarinnar í þessum málum, sem var þó að vísu unnið undir forustu Hannibals Valdimarssonar, og þeir hafa gengið svo langt í þjónkun sinni við kommúnista og Hannibal Valdimarsson í túlkun sinni á öllum þessum málum, að þeir hafa gleymt því þrásinnis í umr. um þessi mál, þegar þeir hafa verið að halda fram, hvílík afrek hafi verið unnin í tíð vinstri stjórnarinnar, að fyrir tíð vinstri stjórnarinnar var þeirra eigin maður, að vísu í samvinnu við góða menn, sem höfðu áhuga á þessum málum, sem fór með æðstu stjórn húsnæðismálanna, Steingrímur Steinþórsson.

Ég sagði áðan, að þetta var það eina, sem vinstri stjórnin kom fram með í sambandi við fjáröflun til húsnæðismálanna, eina, sem nokkurs virði var. Og ég verð að viðurkenna, að það hefur orðið meira virði en hinir fræðilegu útreikningar gerðu ráð fyrir. Ég skal segja hv. 6. þm. Sunnl., hvers vegna það var. Það var vegna þess, að vinstri stjórnin var dugleg við að magna dýrtíðina í landinu strax á sínum stjórnarárum og það þýddi auknar launatekjur, og þess vegna raskaðist þessi útreikningur. En ég hef alltaf litið þannig á, að skyldusparnaður til öflunar fjár til húsbygginga gæti ekki verið nema einn liður í þeim aðgerðum, sem þyrfti að gera, og það mætti ekki ofmeta þau áhrif og það gagn, sem gæti verið af skyldusparnaði, — og ég segi tímabundna gagn, — það mætti ekki ofmeta það. Og það er einmitt þetta, sem núv. ríkisstj. er að gera. Jafnframt því sem það frv., sem hér er til umr., liggur fyrir þessari hv. d., liggur annað frv. fyrir um ráðstöfun á fé vátryggingarfélaganna í sama skyni, og er yfirlýst af hálfu stjórnarinnar, að víðtækari athuganir séu nú gerðar til þess að efla íbúðalánastarfsemina.

Ég hygg, að þegar þetta er athugað, þurfi þeir, sem styðja núv. stjórn, ekki að bera kinnroða fyrir samanburð á störfum núv. ríkisstj. og ríkisstj. Hermanns Jónassonar í þessum málum, og ég vildi ráðleggja hv. 6. þm. Sunnl. að vera ekki með neinn vindbelging, eins og hann orðar það, um þessi mál.