26.11.1963
Neðri deild: 20. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

16. mál, fullnusta refsidóma

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur á nokkrum fundum sínum athugað og rætt frv. til l. um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., og leggur n. einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri orðalagsbreytingu á kaflafyrirsögn II. kafla frv., sem lýst er í nál. á þskj. 87.

Frv. þetta er stjfrv. Var frv. nærri samhljóða því flutt í hv. Ed. í fyrravetur, og afgreiddi sú d. það þá með smávegis orðalagsbreyt. Hins vegar var frv. ekki afgr. í þessari hv. d. á þinginu í fyrravetur, en það stafaði engan veginn af því, að nokkur ágreiningur væri uppi um efni frv., heldur aðeins af því, að þá hafði ekkert hinna Norðurlandanna afgreitt frv. sem lög frá sér, og þótti eðlilegt, að séð yrði, hver yrðu afdrif frv. á hinum Norðurlöndunum, áður en Alþingi Íslendinga afgreiddi frv. fyrir sitt leyti. Nú er hins vegar vitað, að a.m.k. löggjafarþing þriggja Norðurlandanna, þ.e.a.s. Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs, hafa þegar afgreitt frv. efnislega shlj. þessu frv. fyrir sitt leyti, og þykir því ekki eftir neinu að bíða lengur, að leitað verði samþykktar fyrir þessu frv. hér á hv. Alþingi Íslendinga.

Um efni frv. tel ég ekki ástæðu til að vera fjölorður, en eins og segir í aths. með frv., hafa á undanförnum árum farið fram umr. danskra, finnskra, norskra og sænskra stjórnarvalda, sem hafa með dómsmálastjórn að gera, um samstarf þessara þjóða, að því er tekur til fullnustu refsinga, umsjónar með mönnum, sem dæmdir hafa verið skilorðsbundnum dómi, fengið hafa reynslulausn úr refsivist eða fengið skilorðsbundna náðun. Hefur náðst samkomulag um þetta og lagafrv. verið samið í hverju þessara ríkja. Hefur mál þetta einnig verið rætt á sameiginlegum fundum dómsmrh. Norðurlandanna og hefur verið mælzt til þess, að Ísland gerðist aðili að þessu samstarfi, og hefur að athuguðu máli þótt rétt, að við þeim tilmælum yrði orðið. Má segja, að samstarf Norðurlandanna á þessu sviði sé einn liður í norrænni samvinnu, og þetta lýsir því trausti, sem Norðurlönd bera hvert til annars á sviði réttargæzlu og dómsmála.

Eins og ég áður tók fram, herra forseti, leggur allshn. einróma til, að frv. verði samþ. með þeirri smávægilegu orðalagsbreytingu, sem ég áður gat um.