07.04.1964
Neðri deild: 75. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., á sér nokkuð langan aðdraganda, og vildi ég leyfa mér að víkja nokkuð fyrst að sögu þessa máls.

Það hefur verið um alllangt skeið kunnugt, að leðju þá, sem safnazt hefur fyrir á botni Mývatns og aðallega er leifar af skeljum örsmárra þörunga, sem lifa í vatninu, hefur mátt að verulegu leyti nýtta til framleiðslu á svokölluðum kísilgúr. Upphaf þeirrar vitneskju hygg ég að sé fyrst og fremst að rekja til rannsókna Baldurs Líndals efnaverkfræðings, en á árunum 1950—1953 annaðist hann á vegum raforkumálastjóra rannsóknir á nýtingarmöguleikum jarðhitans í Námaskarði víð Mývatn, og á þeim tíma vaknaði áhugi hans fyrir möguleikunum á því að vinna þetta hagnýta efni, kísilgúrinn, úr botnleðju vatnsins. Hann hefur verið frá öndverðu frumherji á sviði rannsóknanna í sambandi við þetta mál, og þó að margir hafi lagt hönd á plóginn, hygg ég að öllum ólöstuðum, að Baldur Líndal eigi mestan þátt í þessu máli fram til þessa, að því er snertir tæknihliðina, og get ég sagt það sjálfur, að frá því að ég hef átt samvinnu við hann á vegum stóriðjunefndar, eftir að hún fékk málið til meðferðar 1961, þá hefur verið mjög ánægjulegt að kynnast þeim mikla og lifandi áhuga, sem hann hefur haft fyrir þessu máli, og hefur komið málinu að miklu liði og reyndar bjargað því, þegar aðra þraut trúna á það, sem ég skal síðar að víkja.

Það var svo nokkru seinna, á árunum 1955–1957, að Tómas Tryggvason jarðfræðingur annaðist nánari athuganir á magninu af því hráefni, sem þarna væri fyrir hendi til vinnslu á kísilgúr, og upp úr því mun Baldur Líndal hafa hafið tilraunir á eigin spýtur með vinnslu kísilgúrs úr botnleðju vatnsins. Um sama leyti höfðu Íslendingar samband við tækniaðstoð Vestur-Þýzkalands og voru studdir til þess af þýzka sendiráðinu hér, og sérfræðingar á þessu sviði frá Þýzkalandi voru hér til athugana og gáfu skýrslu um rannsóknir sínar, sem þeir framkvæmdu á árunum 1956–1959. Upp úr því var samin álitsgerð á vegum rannsóknaráðs og raforkumálastjóra, en fram til þessa höfðu rannsóknirnar aðallega farið fram á vegum þessara aðila, – var samin álitsgerð um málið, og hún lá fyrir í marzmánuði 1961, en þessi álitsgerð bar það með sér, að ætla mátti, að hér gæti verið um að ræða möguleika til að hefja arðbæran atvinnurekstur, sem fólst fyrst og fremst í því að framleiða kísilgúr til útflutnings. Það var um þetta leyti, sem stóriðjunefnd fékk þetta mál til meðferðar, en þar sem ýmsar athuganir og fyrirspurnir höfðu farið fram héðan að heiman um málið út í önnur lönd Evrópu, höfðu nokkrir aðilar þar fengið áhuga fyrir málinu, og það kom fyrst í ljós í ágústmánuði eða með bréfi 31. ágúst 1961, að fyrirtæki í Hollandi, AIME, hafði ákveðinn áhuga fyrir því að eiga einhvern hlut að máli og vera þátttakandi í rannsóknunum á möguleika þess að vinna kísilgúr úr Mývatni. Síðan hefur verið náin samvinna milli íslenzkra aðila og þessa hollenzka fyrirtækis um rannsóknir og undirbúning þess, að hægt væri að reisa kísilgúrverksmiðju við Mývatn.

Það er nokkuð nýtt af nálinni, að við Íslendingar ætlum okkur beina samvinnu við erlenda aðila í sambandi við atvinnurekstur hérlendis. En í sambandi við þetta mál, vinnsluna á kísilgúr úr Mývatni, hafa þeir, sem að þessum málum hafa unnið, bæði sérfræðingar og aðrir, frá öndverðu talið, að málið væri nokkuð sérstaks eðlis og væri öðru fremur öruggara að hafa samvinnu við erlenda aðila, bæði af tæknilegum ástæðum og einnig vegna sölumöguleikanna á erlendum markaði, þar sem öll framleiðsla, ef til kæmi, væri ætluð til útflutnings. Um þessar sérstöku ástæður til erlendrar hlutdeildar í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að vísa til grg., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Kísilgúrverksmiðjan við Mývatn yrði ekki mjög stórt iðjufyrirtæki, t.d. samanborið við sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna. Fjárhagslega og tæknilega væri ekki útilokað fyrir Íslendinga eina að reisa verksmiðjuna, enda kæmi erlent lánsfé til. Vandamálið liggur hins vegar í því, að allur kísilgúrinn yrði að seljast úr landi í harðrí keppni við gróna keppinauta um markaðinn, andstætt því, sem gegnir að mestu um sement og köfnunarefnisáburð. Þar við bætist hið sérstaka eðli markaðsins fyrir kísilgúr. Notkun hans er afar margbreytileg, en sjaldnast notað nema mjög litið magn hjá hverjum kaupanda, auk þess sem kröfur um gæði og afhendingu eru mjög mismunandi. Af þessum ástæðum er sala á kísilgúr mjög mikið starf, sem krefst góðrar skipulagningar og ekki síður traustra viðskiptasambanda, þar eð kísilgúrmarkaðurinn í Evrópu er í höndum tiltölulegra fárra, en sterkra aðila. Aðstæður þær, sem lýst hefur verið hér að framan, benda eindregið til, að alíslenzk kísilgúrverksmiðja, sem sjálf mundi annast sölu gúrsins, mundi mæta miklum söluerfiðleikum.“

Hér eru í fáum orðum dregnar saman aðalástæðurnar fyrir því, að talið hefur verið eðlilegt að miða við þátttöku erlendra aðila í því fyrirtæki, sem frv. þetta tekur til.

Fyrsta samkomulag, sem gert var við hina erlendu aðila um þetta mál, er frá því í nóv. 1961, en þá var gert samkomulag við þetta hollenzka félag, sem ég nefndi áðan, AIME, og annað námufélag, sem það hafði samband við, Billiton, um það, að þau létu gera á sinn kostnað umfangsmiklar rannsóknir á stóru sýnishorni af botnleðju úr Mývatni, sem sent var til Hollands í því skyni í árslok 1961. Þetta samkomulag var uppsegjanlegt af beggja aðila hálfu með litlum fyrirvara. Síðan mun það hafa verið síðari hluta árs eða í októbermánuði 1962, að þá komu upp nokkrar efasemdir hjá þessum erlendu aðilum um það, að vinnsla kísilgúrs væri eins hentug eða hagkvæm og gert hafði verið ráð fyrir, og þá voru látnar í ljós skoðanir þeirra um það, að e.t.v. mundi kísilgúrinn lúta í lægra haldi fyrir öðrum efnum, sem unnin væru úr biksteini, og skoðanir hinna erlendu aðila voru það fast mótaðar á þessu stigi málsins, að þeir sögðu upp samkomulaginu, sem við höfðum gert við þá í nóv. 1961. Þá voru stöðvaðar þær tæknirannsóknir, sem opinber hollenzk rannsóknarstöð, TNO, hafði haft með höndum fyrir hönd þessara erlendu aðila og þá okkur á sama tíma. Þá var það, sem Baldur Líndal hélt áfram rannsóknum á vinnslu kísilgúrsins um tíma upp á eigin spýtur og eins og ég vék að sýndi þá öðrum meiri trú á þessu máli og tókst með seiglu og áhuga að sannfæra hina erlendu aðila um, að kísilgúrinn úr Mývatni væri svo góð vara, að það þyrfti ekki að óttast samkeppnina við biksteininn, og færði rök að því og sýndi fram á það með árangri rannsókna sinna, að hér væri hægt að vinna kísilgúr af beztu gerð, sem fyllilega jafnaðist á við þann bezta kísilgúr, sem nú er framleiddur í heiminum og kemur aðallega frá Bandaríkjunum.

Í framhaldi af þessu lifnaði svo áhugi hinna erlendu aðila að nýju, og gert var nýtt samkomulag í aprílmánuði 1963 við félagið AIME. Samkvæmt því átti íslenzka ríkið að standa straum af kostnaði við, að rannsóknarstofnunin í Hollandi, TNO, lyki tæknirannsóknum sínum, og jafnframt skyldi AIME gera fullkomna markaðsrannsókn á sinn kostnað. Og tæknirannsóknirnar skyldu einkum taka til rannsóknar á tæknilegum möguleikum til framleiðslu síunargúrs, sem er dýrasta tegund gúrsins, úr botnleðju Mývatns, svo og áætlunar á stofnkostnaði kísilgúrverksmiðju við Mývatn

og framleiðslukostnaði. Markaðsrannsóknunum var svo ætlað að beinast ekki hvað sízt að samkeppnishæfni biksteinsins við kísilgúrinn, og þessum tvíþættu rannsóknum lauk í des. s.l., 1963, og þá með jákvæðum árangri.

Það komu svo hingað eftir áramótin, í febrúarmánuði, fulltrúar frá hinu hollenzka fyrirtæki, og var þá undirritað samkomulag milli fulltrúa úr stóriðjunefnd og þeirra, sem prentað er sem fskj. með þessu frv., fskj. VII. en þar er lagður grundvöllurinn að áframhaldi þessa máls,. og ríkisstj. fyrir sitt leyti hefur fallizt á þetta samkomulag, en það var gert af hálfu hinna íslenzku fulltrúa með þeim fyrirvara, að Alþingi staðfesti það og veitti ríkisstj. þær nauðsynlegu heimildir, sem hún teldi þurfa, til þess að málið gæti orðið að veruleika. En á þessu stigi málsins var gert ráð fyrir því að mynda fyrst og fremst tvö félög: Annars vegar framleiðslufélag, kísilgúrfélag við Mývatn og væru Íslendingar aðaleigendur þess félags, en Hollendingarnir hluthafar í því. Á hinn bóginn yrði svo stofnað sölufélag í Hollandi, sem kísilgúrfélagið fengi aðstöðu til þess að vera hluthafi í, og Íslendingar hefðu fulltrúa í því félagi og þannig væru á gagnkvæman hátt tvinnaðir saman hagsmunir Íslendinga og þeirra erlendu aðila, sem kynnu að vera þátttakendur í þessari atvinnustarfsemi.

Eins og ég hef vikið að, er vinnsla kísilgúrs alveg nýtt fyrirbrigði fyrir okkur hér á landi, en við höfum nefnt hinar ólífrænu leifar kísilþörunganna kísilgúr. Ég veit, að sumum kemur nafnið nokkuð spánskt fyrir, sem er ekki óeðlilegt. Stóriðjunefnd leitaði á sinum tíma till. um annað heiti, en fékk engar till., sem betur þóttu henta en kísilgúrinn. Það var stungið upp á kísildufti og kísilgeri og einhverju fleira, en kísilgúrinn er sama orð og Þjóðverjar kalla þessa framleiðslu. Við gerum ráð fyrir því, að hún verði fyrst og fremst seld á Evrópumarkað og þess vegna hafi nafnið að því leyti nokkuð til síns gildis að falla vel í eyru útlendinga, sem þekkja þetta áður frá Þjóðverjum, sem hafa verið ein af þeim ekki mörgu þjóðum í Evrópu, sem stundað hafa framleiðslu kísilgúrs.

Það er gerð nánari grein fyrir kísilgúrframleiðslunni og eðli hennar í fskj. nr. í með þessu frv., samin af Baldri Líndal efnaverkfræðingi, og ég sé ekki ástæðu til að víkja nokkuð verulega að því. En hv. þm. og sú nefnd, sem fær þetta til meðferðar, hefur aðstöðu til þess að kynna sér þær upplýsingar, sem þar eru fram settar. En í aðalatriðum eru þessar leifar kísilþörunga mismunandi lagaðar kísilskeljar, því að venjulega er um að ræða margar tegundir af þörungum, og hver tegund um sig hefur sína eigin sérkennilegu lögun. Skeljarnar eru örsmáar, og lögun þeirra sést einungis í smásjá, því að stærðin er yfirleitt milli eins þúsundasta og 200 þúsundustu úr millimetra, eins og fram kemur í grg. Baldurs Líndals. En þessar leifar falla til botns í sjó og vötnum og mynda þar set, sem oft og tíðum finnast síður á þurru landi sökum breytinga, sem þá hafa átt sér stað á afstöðu láðs og lagar.

Það er gerð nokkur grein fyrir því í þessum kafla í fskj. í með frv., hversu stór sú náma er, sem við eigum hér kost á, og þá miðað við heimsframleiðsluna og markaðsmöguleika. Í því sambandi vil ég aðeins vekja athygli á því, að það er talið, að heimsframleiðslan nemi nú um 1 millj. tonna á ári, og er helmingurinn af því talinn vera framleiddur í Bandaríkjunum. Siðan skiptist framleiðslan á nokkur Evrópulönd, eins og fram kemur, Frakkland, Þýzkaland, Danmörku, Ítalíu og Bretland. Um botnleðjuna í Mývatni er það vitað í stórum dráttum, að hún mun vera yfirleitt um 3–4 metrar að þykkt og Mývatn sjálft um 38 km2 að stærð, og er þá heildarmagnið nálægt 100 millj. rúmmetra. Og þessir 100 millj. rúmmetrar eru taldir svara til 10—15 millj. tonna af fullunnum kísilgúr. En þegar miðað er við það, sem Baldur Líndal gerir í þessari grg. sinni, að aðeins 15% af þessu magni væri gott til námugraftar, sem hann telur án efa of lágt, þá væri það nægilegt magn fyrir 50 þús. tonna verksmiðju í 30—45 ár. Það er því ekki talinn neinn efi á því, að nægilegt magn af kísilgúr sé fyrir hendi, enda mun Mývatnsnáman sem heild vera á meðal þeirra stærri, sem þekktar eru. En eins og ég vík að síðar, er gert ráð fyrir, að í öndverðu verði þessi verksmiðja, sem hér er lagt til að reist verði, af þeirri stærð, að hún geti framleitt um 11500 tonn á ári af fullunnum kísilgúr, en hér var talað um, að 50 þús. tonna verksmiðja ætti að hafa nægjanlegt verkefni næstu 30—45 árin.

Um tæknirannsóknir, sem fram hafa farið af hollenzku rannsóknarstofnuninni, TNO, vil ég aðeins árétta þessar niðurstöður, sem fram koma í fskj. nr. II, að helztu niðurstöðurnar eru eftirfarandi:

1. Tilraunirnar sýna, að unnt er að framleiða síunargúr úr botnleðju Mývatns, sem er fyllilega sambærilegur við þann bandaríska hvað gæði snertir.

2. Með því að nýta 100 þús. tonn af botnleðju á ári, 80% af því er vatn, má framleiða 11500 tonn af síunargúr af ýmsum tegundum.

3. Álitið er, að unnt sé að selja minnst 12000 tonn af íslenzkum síunargúr í Evrópu á ári, án þess að það valdi verðlækkun á markaðinum.

Þá eru í fskj. III upplýsingar um stofnkostnað, framleiðslukostnað og arðgjöf, og vil ég í aðalatriðum vitna til þess fskj., en af því kemur fram, að hér virðist vera um hagkvæman atvinnurekstur að ræða. Það er að vísu ekki alveg víst, hvað verðið á kísilgúrnum muni vera, en eins og fram kemur í þessu fskj., er miðað við annars vegar 4 þús. kr. á tonnið og hins vegar 5 þús. Fáist ekki nema 4 þús. kr. á tonn, er talið, að verksmiðjan muni hafa, þegar búið er að borga beinan rekstrarkostnað, afgang upp í vexti, afskriftir og ágóða ca. 11% af stofnkostnaði, en um 20% af stofnkostnaði, ef söluandvirðið verður 5 þús. kr. á tonn. Með söluandvirði 5 þús. kr. á tonn er áætlað, að arðgjöf eigin fjár geti orðið 16% og arðgjöf á heildarfjármagninu 17%, en verði söluandvirðið ekki nema 4 þús. kr. á tonn, er áætluð arðgjöf eigin fjár 1% og heildarfjármagnsins 7%.

Þá eru, ýmis almenn atriði, sem ég vildi víkja að í sambandi við þetta mál, og þá fyrst og fremst það þýðingarmikla atriði, hver sé eignarrétturinn að vatnsbotninum í Mývatni, en um það liggur fyrir fskj. nr. IV, sem felur í sér álitsgerð Ölafs Jóhannessonar prófessors um þetta atriði, hvernig háttað sé eignarrétti að kísilgúr á botni Mývatns. Þar eru rakin bæði lagafyrirmæli og skoðanir fræðimanna í lögfræði, sem fram hafa komið um þetta atriði, og niðurstöður prófessorsins eru þær, sem ég skal nú vitna til, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til alls þess, er að framan greinir," þar á hann við sína álitsgerð, „verður svar mitt við þeirri spurningu, sem hér er til athugunar, þetta: Kísilgúr í netlögum tilheyrir þeirri jörð, er netlög fylgja. Vatnsbotn í stöðuvötnum utan netlaga er almenningur landsmanna allra — er ríkiseign. Kísilgúr á vatnsbotni utan netlaga er því eign þjóðarheildarinnar, sem löggjafinn getur ráðstafað að vild sinni. Getur löggjafinn því einnig að sjálfsögðu veitt landeigendum eða öðrum rétt til kísilgúrsins. Valdi kísilgúrtaka í almenningi netlagaeigendum eða veiðiréttarhöfum í vatninu tjóni, eiga þeir auðvitað rétt á fullum bótum.“

Hér lýkur þessari tilvitnun, en þar eru ótvíræðar niðurstöður um það, að botninn og botnleðjan í Mývatni sé almenningseign eða ríkisins eign, og hygg ég heldur ekki og hef aldrei orðið var við það, að neinn drægi það í efa. Hins vegar styðst bað við fornar venjur og forn lagaákvæði, að botninn á svæði netlaganna, sem miðuð eru við 115 m, tilheyri hverju sinni þeirri jörð, sem land á að vatninu, og fylgi þannig viðkomandi jörð.

Annað almennt atriði í sambandi við þetta mál, sem ástæða er til þess að víkja að, er, að hér háttar svo til, að rétt við Mývatn er Námaskarð með gífurlega miklum jarðhita, sem er í eigu ríkisins, en það er einmitt mjög þýðingarmikill orkugjafi til þess að þurrka upp botnleðjuna í Mývatni, sem er einn þáttur kísilgúrvinnslunnar. Það er því gert ráð fyrir því hér, að ríkið muni vinna jarðhitann eða standa fyrir framkvæmd á nýrri hitaveitu úr Námaskarði og sú hitaveita muni selja verksmiðjunni hita þann, sem hún þarf á að halda við kísilgúrvinnsluna, og jafnframt þá selja öðrum aðilum hita í sambandi við þær byggingar, verksmiðjubyggingar, íbúðabyggingar og annað þess háttar, sem er líklegt að fylgi þessari framkvæmd, ef til hennar verður stofnað. Þetta er mikilvægt atriði og gæti orðið nokkurs virði fyrir sveitina þarna í heild, og gefst þá tækifæri um leið til þess að kanna frekar en áður hefur orðið það orkumagn, sem er í Námaskarði.

Það er gert ráð fyrir því, að við þessa verksmiðju af þeirri stærð, sem ég hef nefnt, 11500 tonn, muni að jafnaði vinna um 50—60 manns, og það er nokkuð fjölmennur hópur miðað við sveitina í kring, en hitt má líka ætla, að það muni sjálfsagt ekki á ýkjalöngum tíma vaxa upp bær eða sveitaþorp í kringum slíka framleiðslu, sérstaklega ef hún gefst vel og verður aukin frá því, sem í öndverðu er áætlað, sem ástæða er til að verða muni. Þá yrði þessi bær eða nýja íslenzka sveitaþorp staðsett á einum fegursta stað á landinu, í Mývatnssveit, sem er orðlögð fyrir fegurð og tign náttúrunnar, og veltur þá á miklu, að slíkt þéttbýli verði frá öndverðu vel og fagurlega skipulagt, og kemur það að sjálfsögðu til álita í sambandi við framkvæmd þessa máls.

Ég átti hlut að því, að í janúarmánuði s.l. fór einn af fulltrúum stóriðjunefndar, Magnús Jónsson alþm., norður í Mývatnssveit til viðræðna við Mývetninga um þetta mál, og þótti tilhlýðilegt á því stigi málsins að kynna þeim, hvernig málið stæði og hvað líklegt væri um framgang málsins og horfur. Hann átti viðræður við sveitarstjórnina í Mývatnssveit og landeigendur, sem nánastan hlut eiga að máli miðað við staðsetningu sjálfrar verksmiðjunnar, en það eru eigendur Voga og Reykjahlíðar. Viðhorf allra þessara aðila, bæði sveitarstjórnanna og þessara landeigenda, voru mjög jákvæð, og ég tel það mjög mikils virði að hafa fengið svo góðar undirtektir frá þeim, sem hér standa nánast að, og að sjáifsögðu er það alltaf viðkvæmnismál fyrir sveitir eins og þessar, hvernig til tekst, þegar á að hefja allverulegar nýjar framkvæmdir, sem leiða af sér margvísleg þáttaskil í tifi og þéttbýli eða sambýli fólksins á viðkomandi stöðum.

Eitt er það enn, sem leiða mundi af þessari framkvæmd, að vegakerfið mundi taka nokkrum stakkaskiptum, og er gert ráð fyrir, að nýr vegur verði lagður niður Hólasand og stytztu leið til Húsavíkur, en það mundi stytta leiðina til Húsavíkur um 25—30 km og vera þýðingarmikið atriði í sambandi við flutningskostnað á framleiðslu þessarar verksmiðju frá Mývatni og til afskipunarhafnar, sem þá yrði Húsavík. Um þetta atriði hefur farið fram athugun á vegum vegamálastjóra, og fylgir um það grg. með frv. í fskj. nr. VI. Þar kemur m.a. fram, hversu mikil hagkvæmni verður að því að fá þessa töluverðu vegastyttingu til Húsavíkur, sem hér um ræðir, og mundi hún vinnast upp á skömmum tíma. En að öðru leyti tel ég einnig mikils virði almennt, að þessi nýja tenging vegakerfisins geti átt sér stað af öðrum ástæðum en þessum einum.

Ég skal svo þessu næst víkja að sjálfu efni frv., en hef viljað láta þessi orð fylgja almennt um sögu málsins og önnur veigamikil atriði, sem snerta þá framkvæmd, sem frv. sjálft tekur til. En efni frv. er í aðalatriðum að veita ríkisstj. heimildir til þess að hefjast handa og beita sér síðan fyrir því, að reist verði kísilgúrverksmiðja við Mývatn. Þetta kemur fram fyrst og fremst í 1.gr. frv., í þeim 5 töluliðum, sem þar eru, þar sem ríkisstj. yrði heimilað í fyrsta lagi að leggja fram allt að 50 millj. kr. af fé ríkissjóðs sem hlutafé í nefndu hlutafélagi og henni einnig heimilað að taka lán í þessu skyni og til greiðslu undirbúningskostnaðar, í öðru lagi að selja verksmiðjunni hráefni úr kísilgúrnámunni í Mývatni utan netlaga eða leigja hlutafélaginu afnot hennar, í þriðja lagi að selja kísilgúrverksmiðjunni jarðnæði við Mývatn og Námaskarð, eftir því sem þarfir hennar krefjast og ríkið á eða kann að eignast, í fjórða lagi að nýta jarðhitasvæðið við Námaskarð í þágu hitaveitu, er ríkisstj. lætur reisa og reka og m.a. skal gegna því hlutverki að selja kísilgúrverksmiðjunni jarðhita til rekstrar síns, og í fimmta lagi heimild til að semja um lækkun aðflutningsgjalda af vörum til byggingar verksmiðjunnar.

Þetta eru meginheimildirnar, sem ríkisstj. telur sig þurfa að fá til þess að halda þessu máli áfram. En sé vilji fyrir því hér í hv. Alþingi, þá er gert ráð fyrir því í 2, gr., að stofnað verði fyrst í stað, áður en framleiðslufélagið er stofnað, sérstakt hlutafélag til bráðabirgða, sem annist skipulagningu kísilgúrverksmiðjunnar og annan undirbúning að byggingu og rekstri hennar, enda sé stefnt að því, að framleiðslufélagið taki við af slíku undirbúningsfélagi. Þetta bráðabirgðaundirbúningsfélag samkv. 2. gr. er aðeins til komið af hagkvæmniástæðum. Málið þykir vera nú á því stigi, að sé vilji fyrir samþykkt þessa frv. í Alþingi, sé eðlilegt, að við málinu taki nú þeir aðilar, sem síðar verða aðaleigendur bæði framleiðslufyrirtækisins og sölufélagsins, sem stofnað yrði í Hollandi, en undirbúningsfélagið hefði fyrst og fremst það verk að vinna að halda áfram markaðsathugunum og annast tækniundirbúning frekar en orðið er með það fyrir sugum, að hægt verði að hefjast handa um byggingarframkvæmdir á árinu 1965 eða vorið 1965, og þá væri gerð gangskör að því að stofna verksmiðju- eða framleiðslufélagið, og þá er gert ráð fyrir því samkv. ákvæðum frv., að hlutafjáreignin í bráðabirgðafélaginu renni að nafnverði inn í framleiðslufélagið. En framleiðslufélagið sjálft er svo gert ráð fyrir að hafi heimild til, að því marki, sem nánar er tilgreint í samkomulaginu við AIME á fskj. VII. að eignast hluta í sölufélaginu, framleiðslufélagið sjálft eignist hluta í því.

Og 6. gr. tekur til þess, að framleiðslufélaginu eða hlutafélagi samkv. 1. gr. skuli heimilt að festa kaup á hlutabréfum í erlendu hlutafélagi, sem stofnað kann að verða til að annast sölu og dreifingu á framleiðslu kísilgúrverksmiðjunnar erlendis. Það eru nokkur skilyrði, sem sett eru fram í þessu frv. í sambandi við hlutafjársöfnunina, en hlutafélagsformið þótti eðlilegast. Þessi skilyrði koma fram í 3. gr., að hlutafélagið greiði ríkissjóði annaðhvort í peningum eða hlutabréfum allan kostnað, sem hann hefur haft af undirbúningsrannsóknum og áætlunum vegna kísilgúrverksmiðjunnar, og í öðru lagi, að hlutabréfin séu skráð á nafn, og er það skilyrði sett fram til þess, að auðveldara sé að fylgjast með hlutabréfaeigninni á hverjum tíma. Loks er svo í 5. gr. 1. mgr., sett það skilyrði, að af hlutafé félaga, sem stofnuð verða samkv. 1. og 2. gr., skal ekki minna en 51% vera í eigu íslenzka ríkisins. Hér er gert ráð fyrir því, að íslenzka ríkið eigi meiri hlutann í framleiðslufélaginu fyrst og fremst, einnig undirbúningsfélaginu. Sjálfsagt getur það orkað nokkurs tvímælis, hvað kveða á um slíkt í sambandi við mál eins og þetta. Á hitt er þó að líta, að af opinberri hálfu hefur verið höfð öll forganga um þetta mál fram til þessa, hráefnið, sem á að vinna úr, botnleðjan í Mývatni, er ríkisins eign, og loks er svo hér um að ræða að selja eða framleiða vöru, sem við þekkjum lítið til enn og öll á að fara til útflutnings og í samvinnu við erlenda aðila, og að öllu þessu athuguðu þótti ríkisstj. ekki óeðlilegt, að þessi háttur yrði hafður á í sambandi við hlutafjáreignina. En þá er gert ráð fyrir því hins vegar, eins og fram kemur í samkomulaginu við AIME á fskj. VII, að heildarhlutafé í kísilgúrfélaginu við Mývatn skuli minnst vera 30 millj. ísl. kr. og þar af skuli hlutafjárframlag íslenzku ríkisstj. nema minnst 51%, en AIME skal leggja fram eigi minna en 10% og eigi meira en 20% hlutafjárins. Þau 29—39%, sem þá eru eftir, skal íslenzka ríkið annaðhvort sjálft leggja fram eða selja tilsvarandi hlutabréf bæjar- og sveitarfélögum eða öðrum aðilum á Íslandi. Það gætu því orðið um 40% af hlutafénu, sem einstaklingar, sveitarfélög eða bæjarfélög ættu kost á að kaupa, og er ekki ólíklegt, að bæði einstaklingar hafi nokkurn hug á því, einkum þeir, sem þarna eiga að standa næst, Norðlendingar, vildu eiga hlutafé þarna sem einstaklingar, einnig sveitarfélagið sem slíkt, bæði sveitarfélagið og landeigendur og jafnvel aðrir, Húsavík eða Húsvíkingar og aðrir aðilar, og það mál verður að sjálfsögðu allt kannað nánar, þegar þar að kemur, en væri hins vegar mjög eðlilegt, að nokkuð víðtæk sameign gæti myndazt um þetta félag, bæði milli ríkisins, sveitarfélaga, bæjarfélaga og einstaklinga, sem ætti að gefa félagsskapnum aukið traust og geta orðið bæði til styrktar og hagræðis.

Þá hefur þótt rétt að taka inn í frv. nokkur sérákvæði í sambandi við hlutafélagsformið, og felast þau í 4. gr. frv., þar sem fjöldi stofnenda hlutafélaga samkv. 1. og 2. gr. skal vera óháður ákvæði l. málsl. 2, málsgr. 4. gr. l. nr. 77 frá 1921, um hlutafélög, og sama máli gegnir um hluthafa þess að því er snertir 38. gr. hlutafélagalaganna, þ.e.a.s. um tölu hluthafanna, sem þarf til þess að stofna félag, gerð undanþága frá ákvæðum í hlutafélagalögunum, að það megi ekki vera færri en 5 við stofnun félags, og einnig undanþága frá því ákvæði, að slíta beri hlutafélagi, verði hluthafarnir færri en 5. Svo er einnig í þessari grein ríkinu og hinum erlenda aðila veittur réttur til að vera fullgildir aðilar að stofnun hlutafélaganna, og er því þar um að ræða undanþágu frá hlutafélagalögunum, sem gera aðeins ráð fyrir því, að einstaklingar geti verið meðal stofnenda.

Íslenzka ríkið og erlendi aðilinn munu tilnefna fulltrúa í stjórn hlutafélaganna, og sem umboðsmenn hluthafa þurfa þeir ekki að fullnægja því skilyrði í 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. hlutafélagalaganna, að engan megi kjósa í stjórn hlutafélags, nema hann eigi hlut í félaginu. Þessar undanþágur eða sérákvæði, sem öll fela í sér undanþágur frá hinum almennu hlutafélagalögum, hefur þótt nauðsynlegt að setja inn í þessa löggjöf eða inn í þetta frv.

Svo er í 7. gr. loks almenn eignarnámsheimild, sem er í sjálfu sér mjög eðlileg, ef framkvæmdir samkv. 1. gr. krefjist kaupa á jarðnæði og annarri aðstöðu í eigu annarra en ríkisins, án þess að samningar náist um kaup þessara réttinda, þá skuli ríkisstj. heimilt að taka þau eignarnámi gegn bótum eftir mati óvilhallra manna og um þetta eignarnám mundi þá fara eftir hinum almennu lögum um eignarnám frá 1917, um framkvæmd þess.

Loks er sérákvæði í 3. gr. varðandi tvísköttun í sambandi við aðild að þessu máli. Við Íslendingar höfum tvísköttunarsamninga við Danmörku og Svía og kannske fleiri nú þegar, en hins vegar ekki tvísköttunarsamning við Holland. En meðan það er ekki, mundi verða mjög örðugt um vik um samvinnu við erlenda aðila, sem yrðu þá að borga skatta af arði í hlutafélaginu bæði hér á landi og í sínu heimalandi. Meðan ekki er gerður tvísköttunarsamningur, felast þess vegna í þessari gr. ákvæði um það, að þá skuli gilda um skatta og útsvarsgreiðslur af arði af hlutabréfum útlendinganna ákvæði 10. gr. í till. Efnahags og framfarastofnunarinnar í París, OECD, að milliríkjasamningi um tvísköttun, en þær till. um tvísköttun fylgja frv, í fskj. nr. V. Það er 10. gr. í till. Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París frá 30. júlí 1963 um skattlagningu arðs af hlutabréfum. Og frv. gerir ráð fyrir því, að farið verði að þessum reglum í sambandi við skattlagninguna, meðan tvísköttunarsamningur hefur ekki verið gerður. Hins vegar er nú verið að hefja undirbúning að tvísköttunarsamningi við Holland og einnig fleiri lönd, sem við höfum rekið okkur á á undanförnum árum, að hefur verið annmörkum bundið, að engir tvísköttunarsamningar hafa verið við, eins og t.d. Noreg.

Ég held, að með því, sem ég nú hef sagt, hafi ég rakið efni frv., öll þau atriði, sem máli skipta. Ég vil mega vænta þess, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi og að framkvæmd þess geti orðíð til hagsbóta, bæði þjóðinni í heild og svo þeim öðrum aðilum, sem að þessu standa. Við erum hér að vinna nokkuð nýtt verk. Má segja, að hér sé um nokkurt landnám á atvinnusvíði okkar Íslendinga að ræða, þar sem stefnt er að því að reisa verksmiðju til framleiðslu á afurðum, sem við höfum ekki framleitt fram til þessa og allar yrðu eða að mestu leyti fluttar á heimsmarkaðinn og þar í samkeppni við sterka aðila. Ég læt í ljós von mína um það, að málinu megi vel af reiða hér í þingi og megi einnig verða til farsælda, þegar til framkvæmdanna kemur.

Að svo mæltu vildi ég mega leggja til, að málinu yrði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.