13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki efna til neinna ýfinga um þetta mál út af smávegis gagnrýni um einstaka þætti þess, sem fram hefur komið hér við 1, umr. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, og ég tel ekkert af því svo mikilvægt, að það sé ástæða til að karpa mikið um það. Aðalatriðíð er hitt, að bæði hv. 1. þm. Austf. og 5. þm. Austf. og svo hv. 3. þm. Norðurl. e., sem nú var að ljúka máli sínu, hafa allir lýst sig í aðalatriðum samþykka þessu máli og lýst ánægju sinni yfir því, að efnt sé til þeirrar framkvæmdar, sem frv. ráðgerir, og má af því ætla, að þeir séu í aðalatriðum — í aðalatriðum segi ég — samþykkir þeim heimildum, sem ríkisstj. nú fer fram á til þess að koma málinu lengra áleiðis og í framkvæmd. Ég verð að vísu að játa það, að ég skil ekki almennilega þann tón, sem fram hefur kamið, að ríkisstj. hafi haft eitthvað óviðurkvæmilegan hátt á meðferð þessa máls og það séu bara menn á sömu línu, sem unnið hafi að undirbúningi málsins og stjórnarandstaðan ekki verið kvödd til ráða, þetta leiði til tortryggni og einangrunar. Þetta fæ ég ekki skilið og alveg sérstaklega það, sem fram hefur komið og lýst af tveimur hv. þm., að tvisvar sinnum er búið að flytja og samþykkja þáltill. hér á hv. Alþingi, sem beinlínis skora á ríkisstj. að láta til sín taka og undirbúa framkvæmd þessa máls, fyrst árið 1958 og þá var það ályktun Alþingis, að á því ári yrði gengið til hreins um það með fullnaðarrannsókn og áætlunum, eins og þar stendur, hvort arðvænlegt sé að vinna til útflutnings kísilleir þann, sem er á botni Mývatns, og svo aftur 1961, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, og voru þá margir flm. og Magnús Jónsson 1. flm., en hún hneig að því sama, sú ályktun, sem þingið samþykkti, að skora á ríkisstj. að láta nú þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fá úr því skorið, hvort ekki sé arðvænlegt að koma upp verksmiðju til vinnslu kísilgúrs úr Mývatni, og kanna þá jafnframt, hverjar leiðir séu heppilegastar til þess að tryggja fjárhagsgrundvöll þeirrar verksmiðju.

Þetta er það, sem ríkisstj. hefur verið að gera. Áður en þessar till, voru fluttar, höfðu farið fram allverulegar rannsóknir, allt frá því rétt eftir 1950, og 1956 hygg ég, að það hafi verið, sem, eins og fram hefur komið, Baldur Líndal beinlínis hóf sínar tilraunir á vinnslu kísilgúrsins. Og ég gerði einnig grein fyrir því, að áður en þessar till. voru fluttar eða um það leyti höfðum við notið samvinnu þýzkra sérfræðinga á þessu sviði og frá þeirra. hendi og svo frá rannsóknaráði ríkisins og raforkumálastjórninni lágu fyrir ýtarlegar skýrslur um málið 1961, þegar stóriðjunefnd var af þáv. iðnmrh., Bjarna Benediktssyni, falið þetta mál til meðferðar, að sjálfsögðu með það fyrir augum, að nú væri kominn tími til þess að fá fullreynt um möguleikana til þess, að úr þessu máli gæti orðið. En ég skal ekki fara fleiri orðum um það.

Ég er mér þess ekki vitandi, að ég hafi gert neina tilraun til þess að gera meira úr þessu máli en efni standa til, eins og aðeins mátti skilja á hv. 5. þm. Austf. Málið er í sjálfu sér, eins og fram hefur komið, ekki ýkjastórt í sniðum. En hins vegar er það nokkuð sérstaks eðlis, og hefur þurft að kanna ýmsar leiðir, áður en málið var talið komið á það stig, sem það nú er, en þegar frv. er lagt fram, vakir það fyrir ríkisstj., að með þeim heimildum, sem hún fer fram á, komist málið inn á nýtt framkvæmdastig og við taki stjórn bráðabirgðafyrirtækis eða undirbúningsfélags, sem hafi með höndum þann undirbúning og rannsókn, sem eftir er, til þess að hægt verði að hefja framkvæmdir á næsta vori eða 1965.

Mér er ekki heldur ljóst, að neitt hafi komið fram í meðferð þessa máls, hvorki fyrr né síðar, sem gefi ástæðu til þess að ætla, að Íslendingar þurfi að sæta einhverjum afarkostum um sölu kísilgúrsins, og það er á misskilningi byggt, að þessu erlenda sölufélagi, sem ekki verður kaupandi að framleiðslunni, heldur félag til að selja framleiðsluna, eigi að tryggja einkasölu til þess um aldur ug ævi. Það fylgir þessu frv. í fskj. nr. VII samkomulag það, sem síðast var gert við hollenzka fyrirtækið AIME í febrúarmánuði s.l., og það, sem þar segir um sölufélagið, er enn það eina, sem samið hefur verið um í sambandi við það, en það er aðeins viljayfirlýsing beggja aðila að hafa þennan hátt á framkvæmd málsins, að við hliðina á framleiðslufélaginu verði sölufélag, sem báðir aðilar séu eigendur að, eins og þar er nánar tilgreint, en samningagerð um það, með hverjum hætti salan fari fram og til hve langs tíma og hvaða fyrirvara framleiðslufyrirtækið geti haft á því að losna undan því samkomulagi, ef svo bæri undir, að það teldist óhagkvæmt á síðara stigi málsins, er enn eftir. En að sjálfsögðu getur ekki komið til mála, að það verði lagt í hendurnar á þessu félagi, sem erlendir aðilar hafa meiri hl. í, fyrirvaralaust og eins og sumir hafa borið í munn sér um aldur og ævi. Það held ég, að engum í raun og veru geti dottið í hug, ef því er að skipta, að hugsað sé um málið málefnalega. Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga, þó að nokkur tortryggni komi fram í þessu sambandi, og meina ég þá, að mér finnst ekki nema eðlilegt, að menn vilji láta í ljós viljayfirlýsingar sínar um það, að þegar að því komi að ganga frá samningsatriðum eins og þessum, þá sé tryggilega um þau búið.

Ég er nú ekki alveg viss um og segi það að gefnu tilefni, að það sé fullvíst, að það hafi verið eitthvert sérstakt happ fyrir okkur Íslendinga, sem við byggðum okkar sjálfstæðu tilveru á, eins og sagt hefur verið, að við hefðum sjálfir kosið að annast söluna á hraðfrysta fiskinum á bandaríska markaðinum. Það er margt, sem þar kemur til álita, og þó að mér sé ljóst, að það sölukerfi, sem þar hefur verið byggt upp, er nú orðið nokkuð gróið og mikils virði, þá hafa verið á því margir annmarkar og snöggir blettir og að mínum dómi alls ekki fullreynt, hvort annað fyrirkomulag á því sviði hefði ekki verið heppilegra. En um það skal ég ekki hafa fleiri orð. En þegar þetta mál hefur verið í undirbúningi, töldu allir aðilar í stóriðjunefnd, og það var einnig skoðun ríkisstj., að það gæti eðli málsins samkv. verið heppilegt og sennilega öruggara fyrir framtíð fyrirtækisins að hafa samvinnu við erlenda aðila um söluna á heimsmarkaðinum, sem væri háð nokkuð harðri samkeppni við fjársterka aðila.

Um þetta fyrirtæki, AIME, sem spurt var um, hvers konar fyrirtæki það er og hvort það hefði reynslu í að selja kísilgúr, þá hefur það enga reynslu í því nema það, sem það hefur veri,ð að byggja upp og undirbúa sölu á kísilgúr úr þeim sýnishornum, sem unnin hafa verið af því magni, sem flutt var á haustinu 1961 til Hollands. En þetta er almennt sölufyrirtæki og nýtur góðs álits í sínu heimalandi, og að svo miklu leyti sem ég hef haft samband við aðila og fulltrúa þessa fyrirtækis, þá finnst mér engin ástæða til að bera í brjósti neina sérstaka tortryggni, þó að rétt sé að gæta allrar varúðar í sérhverjum skiptum, eins og hér um ræðir, við erlenda aðila.

Það er misskilningur, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Austf., að það mundi vera eitthvað á bak við þessa skiptingu á fyrirtækjunum og með því að hafa þau tvö, væri raunverulega verið að gefa hinum erlendu aðilum stærri hlutdeild en ella hefði orðið. Ég var iðnmrh. hér skamman tíma síðari hluta árs 1961 og átti þá viðræður við fulltrúa frá AIME í sambandi við þetta mál, og það kom aldrei neinn vilji í ljós af þeirra hálfu til þess að seilast til neinna meirihlutayfirráða í þessu félagi. Það var rætt, eins og margt annað, en þegar á það reyndi, var það ekki ósk þessara manna og kemur ekki heldur fram í þeirri skiptingu eða hugsanlegri hlutdeild, sem gerð er nánar grein fyrir í fskj. þessa máls.

Það var smáatriði í ræðu hv. 5. þm. Austf. um verðmæti verksmiðjunnar. Það skiptir ekki miklu máli, en ég vil þó leiðrétta það, að í þessum 130 millj., sem áætlaðar eru kostnaðurinn á verksmiðjunni, kemur það fram á bls. 12 í fskj. III. að aðflutningsgjöldin eru meðtalin í þessari upphæð, en heildarkostnaðurinn mundi lækka allverulega, ef sérstaklega væri samið um eftirgjöf þeirra, eins og frv. gerir ráð fyrir í 1. gr. að gæti orðið.

Ég held svo, að það sé ekki ástæða fyrir mig til. þess að hafa um þetta fleiri orð nú. Ég skil ákaflega vel, að það kemur fram hjá hv, þm., að n. sú, sem fær málið til meðferðar, þurfi að skoða það gaumgæfilega. Ég hef sjálfur ekkert á móti því, sem fram kom hjá hv, síðasta ræðumanni, að það væru beinlínis heimildir í lögunum til þess, að sýslufélög og bæjarfélög og sveitarfélög, sem þarna standa nánast að, hefðu heimild til þátttöku í félaginu, Það kemur fram í grg., og það hefur alltaf vakað fyrir mér, og mér finnst það í sjálfu sér mjög eðlilegt og ekki nema skiljanlegt, að slíkir aðilar mundu láta í ljós óskir um það. Á því ætti ekki að vera nein fyrirstaða og er ekki af hálfu stjórnarinnar. Hvort ástæða þyki til af hv. n. að taka það inn í bein ákvæði frv., það kemur betur í ljós, þegar hún skoðar efni þess, en efnislega er ég á engan hátt á móti því.

Ég læt svo lokið þessu máli mínu og legg aðaláherzlu á það, að í heild hafa menn veitt þessu máli góðar undirtektir, og endurtek óskir um það, að framkvæmdin megi fara farsællega úr hendi.