13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., er mjög athyglisvert að því leyti, að hér gæti verið um það að ræða að skapa fordæmi fyrir samvinnu við erlenda aðila um stofnun fyrirtækja hér á landi og framleiðslu hér á landi. Ég skal ekki endurtaka þau varúðarorð og þá gagnrýni á þessu frv., sem komið hefur fram í ræðum hv. 1. þm. Austf. og hv. 5. þm. Austf. Á hitt vildi ég mega benda, að ég tel mikið lán í þessu sambandi fyrir okkur, ef þetta frv. verður samþykkt og úr þeim plönum verður, sem hér eru uppi, hvað málið er litið. Ég tel það mikið lán, vegna þess að hin erlenda aðild að þessu litla máli getur ekki valdið neinu verulegu tjóni á efnahagslífi okkar, þó að hún gefist illa. Og ég vil alveg sérstaklega undirstrika það hér, að verði þetta frv. samþykkt og þessi verksmiðja byggð í megindráttum eins og í frv, því, er lagt er fram af hæstv. ríkisstj., segir, væri ákaflega hyggilegt, held ég, og skynsamlegt að láta líða nokkurn tíma, áður en í önnur fyrirtæki yrði ráðizt með erlendri aðild, til að sjá, hvernig þetta samstarf gæfist, fá reynslu af þessu litla fyrirtæki, áður en við hættum okkur út í stærri fyrirtæki með erlendri aðild, sem gætu, ef illa tækist til, valdið alvarlegu tjóni í okkar efnahagskerfi. Og þannig stendur nú á í dag og mun að minni hyggju verða næstu árin, að við þurfum ekki á því að halda að byggja hér stórfyrirtæki með erlendu fjármagni, vegna þess að okkur skortir ekki framleiðslufyrirtæki í þjóðfélaginu í dag, heldur vinnuafl, og svo mun verða næstu árin. Og meðan svo er, er ástæðulaust og gæti verið beinlínis hættulegt að stofna til stórra fyrirtækja, sem hér hefur verið kallað stóriðja, með erlendu fjármagni og erlendri íhlutun, því að það gæti ekki haft annað í för með sér í fyrstu umferð en það, að lögð yrðu niður íslenzk framleiðslufyrirtæki, sem nú eru starfrækt og í fullum gangi í okkar hefðbundnu atvinnuvegum.

Það voru aðeins þessi atriði, sem ég vildi mega undirstrika til viðbótar við það, sem hér hefur verið sagt um þetta frv, af stjórnarandstöðunni.