30.04.1964
Neðri deild: 88. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. segja, að ég felli mig ósköp vel við þann skilning, sem hann leggur í þetta mál og þetta frv., og það er ekki nema gott eitt að segja um þá varúð, sem hann vill láta viðhafa í sambandi við þetta mál. Ég held, að ég hafi látið það koma fram hér við 1. umr., að þegar væri áreiðanlega nokkrum vanda bundið um framkvæmd málsins og jafnvel gæti brugðið til beggja vona um það, hvernig gengi, og þetta er ég honum alveg sammála um, að við eigum að gera okkur grein fyrir og enda ekki að rasa um ráð fram. Og það er rétt, að ríkisstj. er fyrst og fremst að afla sér með þessu frv. heimildar, sem hún taldi að væri kominn tími til að hafa í höndum, til þess að halda áfram frekari framgangi þessa máls, með þá von í huga, að svo gæti til tekizt, að framkvæmdir við að reisa þessa verksmiðju kynnu að geta hafizt á næsta vori, 1965, en undirbúningsfélagið, sem hugmyndin að varð til á síðasta stigi þessa máls, er einmitt nokkuð út frá þessum sama hugsanagangi og fram kemur hjá hv. 3. þm. Reykv., að það þyrfti í raun og veru að gera einmitt margt meira enn, áður en sjálft verksmiðjufélagið væri stofnað. Áætlanir, sem hér eru settar fram, eru mjög lauslegar, það er alveg ljóst, bæði um stofnkostnað og um hugsanlega rekstrarafkomu, og ég held, að ég hafi einnig talað um, að við verðum að taka þeim með fyrirvara.

Varðandi áhuga ríkisstj. til þess að koma upp þessari verksmiðju verða menn að hafa í huga, að Alþingi hefur tvívegis verið að hvetja ríkisstj. til og beinlínis að fela henni með ályktunum að gera gangskör að því, að úr því fengist skorið, hvort hægt væri að vinna botnleðjuna í Mývatni sem arðbæra framleiðslu eða kísilgúr. Og það er í framhaldi af þessu og fyrri rannsóknum, sem hafnar voru af opinberra aðila hálfu á árunum eftir 1950, sem ríkisstj, og stóriðjunefnd hafa haft þetta mál til meðferðar nú síðustu þrjú árin. Ég fyrir mitt leyti teldi, að það hefði í sjálfu sér verið miklu æskilegra, að einstaklingar hefðu unnið að þessu máli og að hér hefði verið bæði fjármagn og kraftur af þeirra hálfu til þess að ráðast í slíka framkvæmd eins og þessa. Og við vitum, að þetta er svona hjá okkur, þegar nokkur verulegur tilkostnaður og óvissa er í hlutunum, þá er okkar þjóðfélag ekki stærra en svo, að það er þá oftast ætlazt til þess, að ríkið komi til skjalanna og sé annaðhvort einhvers konar öryggisventill í málunum eða beinlínis verði að taka að sér meira og minna frumkvæðið. Og ég verð að segja það, að þó að ég sé þess heiðurs aðnjótandi að heita iðnaðarmálaráðherra, þá er ég ekki orðinn neinn efnafræðingur, efnaverkfræðingur eða sérfræðingur á sviði hvorki stóriðju né kísilgúrframleiðslu eða í öðru slíku, og við höfum ekki heldur, hvorki þessi ríkisstj. né aðrar ríkisstj., haft úr miklu að spila eða vald á sérfræðingum eða sérfræðilegum stofnunum hér hjá okkur, eins og kunnugt er.

Þetta eru hugleiðingar um það, vegna hvers ríkisstj, hefur verið að vinna að þessu máli, og það er líka rétt til getið, að hennar áhugi er kannske meiri vegna þess, að hér sé hægt að skapa nýja atvinnugrein og einmitt á þeim slóðum landsins, í dreifbýlinu, sem oft er talið og einmitt hér í þingsölunum að vanti atvinnugreinar í til þess að mynda hæfilegt jafnvægi í varðandi byggðina í landinu.

Ég held, að það sé dálítill misskilningur, ef það hefur komið fram í iðnn., að það væri aðallega eitt fyrirtæki, sem gæti byggt þessa verksmiðju, eða þetta ameríska fyrirtæki, Kaiser Corporation, en það hefur í raun og veru ekkert verið við þetta mál annað riðið en það, að stóriðjunefndin hefur ekki alls fyrir löngu til þess að flýta fyrir málinu aðeins gert fsp. til þeirra, hvort þeir mundu hafa aðstöðu til og væru tilleiðanlegir, ef til þess kæmi, að verða ráðunautar um það og þá væntanlega að teikna og skipuleggja slíka verksmiðju, og þessi fsp. var gerð, eins og ég sagði, meira til þess að flýta fyrir, að þegar þetta undirbúningsfyrirtæki, ef þetta frv. yrði að lögum, væri stofnað, þá gæti stjórn þess vitað strax, hvort það hefði þýðingu að snúa sér til þessara aðila eða einhverra annarra. En við höfðum gert ráð fyrir því, að það væri mjög æskilegt að hafa annars vegar erlenda ráðunauta um framkvæmd málsins og hins vegar innlenda ráðunauta, en fram hefur komið, að við höfum bæði sérþekkingu í efnafræðilegu tilliti og svo einnig verklega sérþekkingu, sem er nægjanleg og margreynd af okkar hálfu, til þess að annast byggingarframkvæmdir og annað slíkt. Það h>jóta auðvitað að vera margir fleiri aðilar en þetta fyrirtæki, sem gætu orðið ráðgefandi aðilar um byggingu svona verksmiðja, sem reistar hafa verið í mörgum Evrópulöndum, eins og fram kemur í fylgiskjölum. Í Englandi, Frakklandi og Danmörku eru verksmiðjur, og svo markaðir í Hollandi og Belgíu, og í Þýzkalandi eru slíkar kísilgúrverksmiðjur, ég hygg líka í Ítalíu, svo að sjálfsagt væru til ráðunautar á þessu sviði í Evrópu. En hinu er ekki hægt að neita, að það eru sjálfsagt aðilar með lengsta og kannske víðtækasta reynslu á þessu sviði vestanhafs. Og við höfum ráðið af okkar takmörkuðu þekkingu í þessu og eftir þeim upplýsingum, sem fyrir lágu, að t.d. ef hægt væri að fá fyrirtæki eins og Kaiser fyrirtækið til ráðuneytis fyrir stjórn undirbúningsfyrirtækisins, þegar þar að kæmi, þá mundi það verða til öryggis og sennilega ekki á öðru betra völ.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég tek alveg undir öll þau varnaðarorð, sem hér hafa verið sögð, og geri mér fyllilega ljóst; að það þarf vel að vanda til þessa máls, ef það á vel úr hendi að fara, og það geta verið í því bæði plús og mínus, eins og þar stendur. Þetta kynni vel að geta orðið gott og arðvænlegt fyrirtæki, og það kemur fram í hugleiðingunum um þá stækkunarmöguleika, sem kynnu að geta orðið á þessari verksmiðju, að þeir eru mjög miklir hérlendis, ef við höfum markaðina erlendis.

Um þetta allt er ekki hægt fyrir okkur að segja á þessu stigi málsins, og tíminn, þangað til nokkuð verður hafizt handa um þær ráðagerðir, sem uppi hafa verið, á næsta ári t.d., á náttúrlega fyrst og fremst að fara til þess að afla allra þeirra frekari upplýsinga og nánari, sem nauðsynlegar eru hverju sinni og eðlilegar þeim, er vilja kunna fótum sínum forráð í slíku fyrirtæki eins og þessu, þar sem við erum að fara inn á alveg nýtt svið. Að öðru leyti þakka ég fyrir þær undirtektir, sem málið hefur fengið í n., og vona, eins og fram hefur komið, að það megi ná afgreiðslu nú í þinginu, sem verður nú senn á enda.