05.05.1964
Neðri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér þykir mjög leitt, að hv. form. iðnn. skuli ekki hafa getað fallizt á mína brtt. Með henni er raunverulega aðeins stefnt að því að gefa hæstv. ríkisstj. möguleika til þess að nota það fé, sem Alþingi nú er að heimila ýmist að veita eða taka að láni, til þess að bæta úr atvinnuleysi og að öðru leyti efla framleiðslu á Norðurlandi, svo fremi sem þætti tvísýnt að leggja út í kísilgúrverksmiðjuna. Það er vitað, að allt það, sem snertir undirbúning að nýjum iðnaði á Norðurlandi og annað slíkt, ætti eðlilega að vera eitt af því, sem bæði stóriðjunefnd og efnahagsráðuneytið hugsaði um ag skipti sér af, og ef hér væri nokkurt áætlunarráð starfandi eða ef Seðlabankinn fyndi til sín og þeirrar ábyrgðar, sem hann raunverulega ber á atvinnulífi landsins, þá mundi hann hafa slíka stofnun starfandi, þannig að það ætti að vera hægt meira að segja innan þess ramma, sem nú er til í stjórnarfarinu, að vinna nokkuð að slíku. En með minni till. væri þó enn þá frekar gerð ráðstöfun til þess að veita Norðlendingum þarna alveg sérstakan rétt í þessu sambandi. Ríkisstj. hefði málið eftir sem áður í sínum höndum. Hún mundi aðeins tilkynna, ef hún hætti við kísilgúrverksmiðjuna, þessum fulltrúum norðlenzku sýslufélaganna eða bæjarstjórnanna, að hún væri reiðubúin að veita þeim þetta lán, en það yrði náttúrlega að vera með þeim skilyrðum og með þeirri aðstöðu, sem ríkisstj. þætti heppilegt, þannig að það væri ekki verið að neinu leyti að binda þarna hendur hæstv. ríkisstj. öðruvísi en það, að ef henni litist tvísýnt að leggja út í kísílgúrverksmiðjuna, þá missi ekki Norðurland af þeirri atvinnuaukningu, sem ella mundi í henni felast, eða að mínu áliti fær hana margfalda fyrir sama fé, því að ég held, að það sé hægt að verja þessu sama fé, sem nú er hugsað að verja til kísilgúrverksmiðjunnar, til þess að koma upp mjög blómlegum iðnaði á Norðurlandi, sem gefur margfalt útflutningsverðmæti á við það, sem kísilgúrverksmiðja mundi gefa, jafnvel þótt hún borgaði sig, sem ég vil efast um.

Ég mun þess vegna halda fast við mína till. og þykir mjög leitt, að það skuli ekki hafa náðst samkomulag við iðnn. eða formann hennar um það að samþ. hana.