09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

201. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Svo sem nál. iðnn. á þskj. 627 ber með sér, hefur n. orðið sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. Að vísu hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., en í n. sjálfri komu engar slíkar till. fram.

Hæstv. iðnmrh. rakti þetta mál nákvæmlega hér við 1. umr., og ég sé því enga ástæðu til að fara að ræða það ýtarlega. Með frv. fylgir að auki mjög nákvæm grg. og áætlanir um rekstur og stofnkostnað fyrirhugaðrar kísilgúrverksmiðju, sem og einnig tæknilegar athuganir, sem gerðar hafa verið, yfirlit um þær, þannig að það er hv. þdm. mjög auðvelt að kynna sér til hlítar, hvað gerzt hefur í þessu mikilvæga máli.

Þessar áætlanir benda allar til þess, að það virðist eiga að mega telja, ef ekki kemur neitt óvænt fyrir á síðustu stigum málsins, að hægt sé hér að leggja grundvöll að mjög sæmilega góðu fyrirtæki, það er kannske ekki vert að orða það meir en svo, vegna þess að það eru ýmis atriði óljós varðandi verðlag og annað, sem verstur að áætla, og hagnaður ekki mjög stórfelldur, ef miðað er við lágmarksverð a.m.k. í framleiðslunni, en hins vegar mjög bærilegur og raunar góður, ef miðað er við það meðalverð, sem nú er á þeim gæðaflokki kísilgúrs, sem gert er ráð fyrir að þessi verksmiðja framleiði. Það er margt ókannað í sambandi við þetta mál, bæði hvað snertir markaðshlið þess og einnig varðandi ýmis tæknileg atriði. Byggingarkostnaðaráætlun hefur ekki endanlega verið gerð, þannig að fullnægjandi megi telja. En þetta mál hefur þó verið rannsakað það ýtarlega frá öllum hliðum, að það ætti ekki að þurfa að reikna með því, að neitt óvænt kæmi fyrir, sem breytti mjög verulega um viðhorf varðandi það, hversu æskilegt þetta fyrirtæki sé.

Það má segja, að sé mikilvægust nýjung í þessu máli, að það er gert ráð fyrir því, að viss samvinna verði tekin upp við erlenda aðila í sambandi við málið, og byggist sú samvinna fyrst og fremst á nauðsyn þess að tryggja sér aðgang að markaði. En hér er um mjög sérhæfða framleiðslu að ræða og markaður mjög þröngur, þannig að þeir aðilar, sem hingað til hafa framleitt þessa vöru, sitja sjálfir yfir meginhluta markaðarins, en ekki einstök fyrirtæki, sem annast dreifinguna. í þessu sambandi er hins vegar gengið þannig frá hnútum, að íslenzk yfirstjórn þessa fyrirtækis er örugglega tryggð og veruleg aðild íslendinga einnig að því sérstaka sölufyrirtæki, sem gert er ráð fyrir að stofnsett verði í Hollandi til að annast sölu og dreifingu á framleiðslu verksmiðjunnar. Það hefur verið gerður bráðabirgðasamningur við hollenzka fyrirtækið AIME, sem er gert ráð fyrir að verði sameignaraðili að fyrirtækinu, og í þeim samningi er gert ráð fyrir því, að samkomulag verði gert á milli þessara tveggja fyrirtækja, framleiðsluhlutafélagsins og sölufélagsins, sem tryggi sanngjarna skiptingu hagnaðar milli félaganna. Þó að talað sé um það, að einkaréttaraðstaða verði veitt sölufélaginu, þá, eins og áður hefur verið lýst yfir, ber að sjálfsögðu ekki að skilja það svo, að ætlunin sé, að það verði um aldur og ævi miðað við slíkt fyrirkomulag ef annað reynist hagkvæmara, og einmitt með eignaraðild íslendinga að sölufyrirtækinu er tryggt, að þeir geti til hlítar fylgzt með, hvað þar er að gerast, og fylgzt með því, hvaða raunverulegur hagnaður er af sölu þessa varnings. Og það tryggir okkur nægilega, að það sé þá hægt að taka upp endurskoðun á því, ef það sýnir sig, að þar sé um óeðlilega skiptingu hagnaðarmöguleika að ræða. Ekkert hefur verið gert í þessu máli, sem á neinn óeðlilegan hátt bindur aðstöðu Íslendinga eða réttindi þeirra. Það er engum námuréttindum hér eða hitaréttindum hér afsalað og gert ráð fyrir því, að ríkið sjálft eigi þá orku áfram, sem þessi verksmiðja notar, og selji verksmiðjunni hana.

Ég held ekki, herra forseti, að sé ástæða til þess að rekja málið nánar. Það hafa allir, sem um það hafa fjallað og hafa látið í ljós skoðun sína á því hér á Alþingi, lýst stuðningi sínum við málið og talið, að hér væri um mjög mikilvæga og nytsama framkvæmd að ræða, og af þeim sökum tel ég ekki ástæðu til að fara að ræða einstök atriði nánar, nema þá tilefni gefist til þess, ef einhverjar umr. verða um það hér, að gera einstök atriði að umtalsefni. Það er því, herra forseti, að lokum till. n., að frv. verði samþykkt.