13.02.1964
Efri deild: 47. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

148. mál, tollskrá o.fl.

Helgi Bergs:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur, eins og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir, í sér leiðréttingu á ýmsu, sem sézt hafði yfir eða ekki var séð fyrir, þegar nýja tollskráin var samin á s.l. ári. Í tollskránni, sem þá var samin, fólust svo umfangsmiklar breytingar á formi tollskrárinnar, að það kemur að sjálfsögðu ekki neinum á óvart, þó að nokkur reynsla, sem fengin er, hafi leitt í ljós, að ýmislegt þyrfti að lagfæra. Það virðist svo sem allt, sem þarna er í þessu frv. fólgið, sé til samræmingar og til þess að koma í veg fyrir misskilning, sem ekki hafði verið séður fyrir. Þessar samræmingar, sem þarna er um að ræða, eru, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, flestar heldur 211 lækkunar, en sumar þó einnig til hækkunar. Hvorugt skiptir verulegu máli, hvorki fyrir ríkissjóð né neytendur. Breytingarnar eru smávægilegar, og í öllum tilfellum ná þær aðeins til tiltölulega lítilla, takmarkaðra vöruflokka. Þó er ástæða til þess að láta í ljós ánægju sina með það, að nokkur leiðrétting hefur verið gerð á tollum á handverkfærum, eins og hæstv. ráðh. tók fram, og einnig hefur verið gert ráð fyrir því að lækka varahluti í heimilistæki úr 80%, sem er tollurinn á heimilistækjunum sjálfum, niður í 50%. Hæstv. ráðh. lét þess getið í ræðu sinni, að það þætti æskilegt að hafa varahlutina í sama flokki óg tækin sjálf. Hérna hefur þó verið gerð undantekning. Það hefur oft verið bent á það af hálfu þm. Framsfl. hér á hv. Alþ., að tollar á heimilistækjum séu óþarflega og óeðlilega háir, en hæstv. ríkisstj. hefur nú sýnilega ekki séð sér fært, að lækka þá tolla ofan í 50%, heldur lætur sér nægja að lækka tolla á varahlutunum ofan í 50%, en innflutningur á varahlutum í heimilistæki mun nú ekki vera mjög mikill. Þetta er gott, svo langt sem það nær. Það er í áttina. En þetta eru ekki nein stór atriði, sem ég ætla að fara að gera hér að frekara umræðuefni. Þessi einstöku atriði frv. verða vafalaust athuguð í n. og ekki ástæða til að eyða tíma í að tala um þau á þessu stigi málsins.

Það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, var, að ég vildi ekki láta hjá liða að láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að engar verulegar umbætur í tollamálum skyldu vera lagðar til með þessu frv., heldur aðeins teknískar leiðréttingar. Það hefur oft verið bent á það, og ég hef m.a. bent á það í umr. hér nýlega, að það er mikil nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að lækka stofnkostnaðinn í þjóðfélaginu. Tollarnir eiga drjúgan þátt í stofnkostnaði framleiðslutækjanna. Eins og hæstv. ráðh. nefndi áðan, þá eru tollar á flestum framleiðsluvélum 35%, og útflutningsframleiðslan og önnur framleiðsla í landinu verður að dragast með þann kostnaðarauka, með vexti og afborganir af honum, og það liggur í hlutarins eðli, að slíkt rýrir mjög aðstöðu þessara atvinnugreina til þess að keppa hvort sem er á erlendum markaði eða á innlendum markaði við innfluttar vörur.

Nýja tollskráin, sem sett var á s.l. vori, var fyrst og fremst formbreyting, en jafnframt fór fram nokkur jöfnun á tollum. Það fór fram lækkun á háum tollum og hækkun á lágum tollum á móti. Þessar breytingar voru yfirleitt ekki stórvægilegar, en að svo miklu leyti sem þær höfðu einhver áhrif á aðstöðu iðnaðarins í landinu, þá fóru þær í þá átt að minnka tollvernd hans. Til þess að sætta iðnrekendur í landinu við þessa stefnu var þeim lofað ýmislegri og margvíslegri fyrirgreiðslu til þess að auka og bæta samkeppnishæfni þeirra, bæði erlendis og við erlendar vörur á innlendum markaði. Efndirnar á þessum loforðum hafa fyrst og fremst lýst sér í því, að innflutningur á erlendum iðnaðarvörum hefur verið örvaður með því að veita innflytjendum ótakmarkaðar heimildir til þess að flytja inn vörur á vörukaupalánum, en slík vörukaupalán koma aftur á móti ekki iðnrekendum að neinu gagni, bæði vegna þess, að hráefnin, sem þeir flytja inn, eru í flestum tilfellum aðeins lítill hluti af þeirra kostnaði, og í öðru lagi vegna þess, að þeir þurfa miklu lengri tíma, frá því að þeir kaupa sín hráefni ag þangað til þeir selja fullunnar vörur, heldur en innflytjendur fullunninna vara þurfa. Ég veit ekki, hvort sú breyting, sem gerð var á l. um iðnlánasjóð hér í fyrra, hefur átt að vera einhver þáttur í efndum þessara loforða, en það var, eins og kunnugt er, gert með þeim snjalla hætti, sem núv. hæstv. ríkisstj. notar mjög, að skattleggja menn sjálfa til þess að veita sjálfum sér lán.

Skattlagningin í landinu til ríkissjóðs er nú komin yfir 3000 millj. kr. Það var það, sem hv. 1. þm. Austf. kallaði í umr. í N.d. að fara í gegnum hljóðmúrinn, svo ofbauð þeim hv. þm., sem var annars hér áður fyrr talinn drjúgur tollheimtumaður, þó að hann muni nú ekki eiga nein met lengur í þeim efnum. Það er enginn vafi á því, að það er nauðsynlegt að draga úr þessari miklu skattheimtu. Hins vegar er það auðvitað álitamál, hvar á að gera það, á hvaða sviðum.

Hæstv. ríkisstj. hafði það að stefnumáli í upphafi síns ferlis að lækka beinu skattana og hækka óbeinu skattana í staðinn. Þetta hefur nú orðið þannig í framkvæmd, að beinu skattarnir hafa ekki lækkað neitt svipað því og gert var ráð fyrir, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur engan hemil haft á dýrtíðinni, sem aftur hefur leitt til hækkaðs verðlags og síðan kaupgjalds, þar með hækkaðra tekna í krónutölu, og menn hafa komizt hátt upp í hinn prógressíva skala, jafnvel menn með miðlungstekjur. Það mundi því sjálfsagt ýmsum þykja ástæða til þess — og ekki sízt væntanlega stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. — að draga úr þeim. Aðrir og þ. á m. ég sjálfur mundi álíta, að mikil nauðsyn væri fyrst og fremst til þess að draga úr sölusköttunum, sem hafa svo alvarleg áhrif á verðlagsþróunina í landinu sem raun ber vitni.

En allt um það, hvað sem mönnum kann að finnast um þetta, virðist mér, að nauðsynlegt sé að draga ekki lengur að lækka tolla á framleiðslutækjum, ekki bara til útflutningsframleiðslunnar, heldur einnig til þess atvinnurekstrar, sem vinnur að framleiðslu fyrir innlendan markað í samkeppni við innfluttar vörur. Hæstv. ráðh. gerði þetta nokkuð að umræðuefni í ræðu sinni hér áðan, og nauðsyn þessa er viðurkennd af hæstv. ráðh. og fleirum af hans liðsmönnum, og vil ég láta í ljós ánægju mína yfir því. Hitt er svo annað mál, að ég verð áð láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að undirbúningur þessa máls skuli ekki vera lengra á veg kominn en ræða hæstv. fjmrh. bar vott um. Nauðsynin á þessu fer auðvitað vaxandi, þeim mun lengra sem haldið er inn á þá braut, sem kennd er við fríverzlun.

Og þá er ég kominn að síðasta atriðinu, sem ég ætla aðeins að nefna í þessu sambandi. Í verkfallinu í desember, einhvern daginn, þegar engin blöð komu út, birtist í útvarpi fréttatilkynning frá hæstv. ríkisstj., þar sem skýrt var frá því, að sótt hefði verið um bráðabirgðaaðild fyrir Ísland að almenna tolla- og viðskiptasamkomulaginu, GATT. Þó að þessi tilkynning léti ekki mikið yfir sér í miðju verkfallinu, var hún eigi að síður mjög mikilvæg. Með því var snúið a.m.k. að sinni inn á tollasamningsleiðina í viðskiptum okkar við nágrannaþjóðirnar, leið, sem mjög hafði verið haldið fram af framsóknarmönnum í þeim umr., sem urðu hér á s.l. ári um þessi efni. Nú hlýtur maður að gera ráð fyrir því, þó að ekki hafi verið neitt um það tilkynnt, að um þessar mundir séu að hefjast viðræður milli aðildarríkjanna að tolla- og viðskiptasamkomulaginu annars vegar og íslenzku ríkisstj. hins vegar. Og það er því að mínum dómi mjög nauðsynlegt, að við athugum það, Íslendingar, að undirbúa það sem allra bezt og koma tollamálum okkar fyrir á sem hagkvæmastan hátt einmitt núna. Það er gert ráð fyrir því í almenna tolla- og viðskiptasamkomulaginu, að til þess að þjóðir öðlist að því aðild, skuli þær semja um eða sjálfar lækka eða a.m.k. festa einhverja af tollum sínum. Í framkvæmd hefur þetta verið þannig nú í seinni tíð, að þess hefur yfirleitt ekki verið krafizt af þeim þjóðum, sem gerðust aðilar að þessu samkomulagi, að þær lækkuðu tolla sína. Ég er hins vegar ekki í neinum vafa um það, að hjá þeim þjóðum, sem þarna eiga hlut að máli, sem flestar eru útflytjendur vara af því tagi, sem ég var þarna einmitt að tala um, véla og framleiðslutækja, mundi það mælast mjög vel fyrir í þessu sambandi, ef við lækkuðum tolla okkar á þessum vörum, og mundi vafalaust auðvelda okkur samninga við þessar þjóðir. Ég legg ekkert upp úr því, að beðið væri eftir því, að þessar þjóðir gerðu kröfu um þessar lækkanir. Ég geng út frá því sem vísu, og það liggur raunar í hlutarins eðli, að ekki mundi það síður verða metið, ef við gerðum þær einhliða sjálfir. Það er m.a. af þessum ástæðum, sem ég tel það vera tímabært einmitt núna að athuga þessi mál alveg sérstaklega og vandlega, og ég vil endurtaka það, að mér voru það vonbrigði, að þessum málum voru engin skil gerð í þessu frv., sem hér liggur fyrir, fyrst á annað borð var farið að leggja fram frv. til breytinga á tollskránni.

Ég skal að sjálfsögðu taka það fram, að ég hef ekkert við einstök atriði þessa frv. að athuga á þessu stigi málsins. Við fljótlega yfirferð virðist mér þessar breytingar, sem þarna er gert ráð fyrir, vera eðlilegar, en að sjálfsögðu verður það frekar athugað í nefnd. En ég vildi ekki láta þessa umr. fara fram hjá án þess að vekja athygli á þeim vandamálum, sem ég hef verið að gera hér að umræðuefni.