27.04.1964
Efri deild: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er nú búið að vera alllengi í meðförum hv. d. En ástæðan til þess dráttar, sem á hefur orðið og að ýmsu leyti er óæskilegur af ástæðum, sem ég síðar mun víkja að, er sú, að allmörg erindi hafa borizt frá ýmsum aðilum, þar sem óskað er frekari breytinga á tollskránni en frv. gerir ráð fyrir og gerðar athugasemdir við ýmis atriði frv. Þessum erindum hefur fjhn. yfirleitt vísað til tollskrárnefndarinnar til frekari athugunar. En svo fljótt sem álit tollskrárnefndarinnar lá fyrir um þessi atriði hefur málið verið afgreitt frá n., en þó er rétt að vekja athygli á því, sem raunar er getið um í nál. meiri hl., að fáein erindi eru enn óafgreidd frá tollskrárnefndinni. En álit hennar um þau mun liggja fyrir í dag eða á morgun, svo að að því leyti sem tollskrárnefndin telur æskilegt, að komið sé til móts við þessi erindi, þá munu verða fluttar um það brtt. fyrir 3. umr.

Eins og þau tvö mál, sem fyrir liggja, bera með sér, hefur ekki náðst full samstaða í n. um afgreiðslu málsins. N. stendur þó öll að þeim brtt., sem fluttar eru á þskj. 487, en 2 hv, nm., fulltrúar Framsfl. í n., hafa borið fram till. um allmiklu viðtækari breytingar, sem ég síðar mun víkja að. En áður en lengra er haldið, vil ég víkja nokkrum orðum að þeim brtt., sem n. flytur sameiginlega, þeim til frekari skýringa.

Það er í fyrsta lagi brtt. við 1. gr. frv., í a-lið. Í henni felst ekki annað en það, að gert er ráð fyrir, að tollur á þeim vörum, sem hér er um að ræða, lækki úr 100%, eins og frv. gerði ráð fyrir, í 80%. Tollskrárnefndin taldi, að þetta væri til samræmis við toll á öðrum skyldum vörum. B-liðurinn snertir kexframleiðsluna, þannig að tollur á tilbúnu kexi er lækkaður úr 125% í 80%. Tollskrárn. taldi, að þetta væri í samræmi við tollun á hliðstæðum vörum og innlenda framleiðslan á þessu sviði mundi njóta nægilegrar tollverndar, þó að tollurinn sé lækkaður sem þessu nemur. C-liðurinn, eða sú brtt., sem þar er flutt, er samkv. tilmælum frá Félagi ísl. iðnrekenda. Tel ég hann ekki þurfa frekari skýringa við. Hvað d-liðinn og sömuleiðís f-liðinn snertir, þá þótti eðlilegt, að gervibeitur bæru toll, sem væri í samræmi við toll á hliðstæðum útgerðarvörum. Einnig kemur það hér til, að n. hefur verið tjáð, að sjúklingar á Vífilsstöðum ynnu að þeirri framleiðslu, sem hér er um að ræða, og er það enn frekari ástæða til þess að taka tillit til þeirra óska, sem fram hafa verið bornar hvað þetta snertir. Lækkun á tolli á notuðum hjólbörðum er samkv. tilmælum frá Félagi ísl. iðnrekenda. Sama máli gegnir um g-liðinn um breytingu á tolli á pappír og vaxbornum pappa, að hún er einnig samkv. ábendingum frá Félagi ísl. iðnrekenda. H-liðurinn felur ekki aðra breytingu í sér en þá, að orðinu „kaðla“ er bætt inn í þennan texta til þess að taka af tvímæli, og í samræmi við annað þótti rétt að gera þá breytingu. l-liðurinn, eða sú breyting, sem í honum felst, er einnig gerð samkv. ábendingum frá Félagi ísl. iðnrekenda, lækkun á tolli íu 100% í 80%. Hvað j-liðinn snertir, þá er þar um orðalagsbreytingu að ræða samkvæmt ábendingu frá Félagi skókaupmanna, og sama máli gegnir um k-liðinn. Hvað snertir l-liðinn, þá er um það að ræða að hækka nokkuð toll á götuljóskerum, en í ljós kom, að hér var um innlenda framleiðslu að ræða, svo að þetta var í samræmi við þá tollvernd, sem hliðstæð framleiðsla nýtur að öðru leyti. Hvað snertir m-liðinn er þar um þá breytingu að ræða, að gelatínbelgir utan um lyf eru teknir út úr þessu tollskrárnúmeri og tollur af þeim lækkaður úr 100% í 15%, en eðlilegt þótti, þar sem hér er um að ræða umbúðir um lyf, að þær væru í sama tollflokki og lyfin sjálf.

Þá kem ég að 2. brtt., a-lið. Þar er um orðalagsbreytingu að ræða varðandi skilyrði fyrir því, að fatlað fólk njóti tollafvilnunar á tilteknum fjölda farartækja. Áður var þetta orðað þannig, að menn nytu því aðeins þessara ívilnana, að þeir gætu ekki farið ferða sinna án farartækis. Ef þetta væri bókstaflega skilið, munu þeir sjálfsagt vera fáir, sem geta ekki undir neinum kringumstæðum komizt ferða sinna án farartækis, og þess vegna var samkv. tilmælum þeirra, sem fjalla um úthlutun þessara bifreiða, gerð sú orðalagsbreyting á, að þetta sé orðað þannig, að fólkið eigi erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. B-liðurinn þarf að mínu áliti ekki nánari skýringa við, en sú breyting er gerð samkv. tilmælum Blindravinafélagsins.

Þetta eru þær brtt., sem n. í heild leggur til að gerðar verði á frv. Eins og ég áður gat um, hefur hv. minni hl. borið frsm allmiklu víðtækari brtt á þskj. 490. Nú væri út af fyrir sig auðvitað æskilegt að geta framkvæmt þá tollalækkun, sem þar er um að ræða, en tvær ástæður liggja til þess, að meiri hl. sér sér ekki fært, að mæla með samþykkt þessara till., a.m.k. ekki að svo stöddu. Er önnur ástæðan sú, eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv., þegar það var lagt fram, að hvað snertir tolla á vélum, þá er það mál enn til ýtarlegrar endurskoðunar og gert ráð fyrir, að till. tollskrárnefndar í þeim efnum liggi fyrir næsta haust. Það sama hefur einnig komið fram í þeim viðræðum, sem fjhn. hefur átt við tollskrárnefndina. Hvað snertir önnur meginatriði þessara till. lækkun tolla af heimilistækjum og endurgreiðslu tolla af byggingarefnum eftir þeim reglum, sem hér er gert ráð fyrir, þá mundi hér óhjákvæmilega verða um allmikið fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð, en með tilliti til þess, að fjárl. hafa þegar verið afgreidd, þá telur meiri hl. ekki fært að mæla með slíkum breytingum að þessu sinni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um málið. Afstaða meiri hl. er í stuttu máli sú að mæla með samþykkt frv. með þeim brtt., sem ég nú hef lýst. En rétt þykir mér að vekja athygli á því, að það er þegar farið að valda talsverðum óþægindum, að sá dráttur hefur orðið á afgreiðslu málsins, sem raun er á, — óþægindum fyrir innflytjendur þessara vara og þó sérstaklega notendur þeirra. Að vísu felur frv. ekki í sér neina róttæka breytingu eða allsherjarendurskoðun á tollskránni, en samt er hér um allþýðingarmikla vöruflokka að ræða, sem tollur er lækkaður á, og má þar fyrst og fremst nefna handverkfæri. En það er eðlilega farið að valda allmiklum óþægindum, að innflutningur á þessum vörum hefur verið svo að segja stöðvaður frá því um miðjan febrúar. Það má sérstaklega í þessu efni benda á það, að gert er ráð fyrir lækkun tolla á landbúnaðarverkfærum og garðyrkjuverkfærum, að vísu ekki eins mikilli lækkun og hvað önnur verkfæri snertir, af því að þessar vörur voru í lægri tollflokki áður, en þó nægilega mikilli til þess, að innflytjendur munu ekki telja sér fært að taka þessa lækkun á sig. Með tilliti til þess væri mjög æskilegt, að hægt væri að flytja afgreiðslu málsins sem mest í hv. d., og rétt er, að það komi fram, að þó að fjhn. hafi að vísu ekki átt fulla samstöðu um málið, hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar þar sýnt hina mestu samvinnulipurð hvað það snertir að láta málið ekki tefjast í n. lengur en nauðsyn var á.

Tollamálin eru vissulega stórmál, og ekkert við því að segja, þó að menn óski eftir að ræða þau. En hvað snertir þá almennu hlið fjáröflunar ríkíssjóðs, þá vildi ég leyfa mér að benda á það, að næstu daga mun skattafrv. koma til umr. hér í hv. d. Þá mun gefast tækifæri til þess, að því leyti sem mönnum liggur slíkt á hjarta, að ræða hina almennu hlið fjáröflunar ríkissjóðs, og ég býst við, að það mundi ekki verða eins óvinsælt, þótt ekki sé meira sagt, þó að einhver dráttur kynni að verða á álagningu skatta og innheimtu þeirra, eins og hitt, að þeir mörgu, sem stunda garðyrkju- og landbúnaðarstörf, gætu ekki keypt nauðsynleg verkfæri. Á þetta vildi ég að lokum leyfa mér að benda. Felst auðvitað ekki í því, að ég mælist undan því, að menn ræði efni þessa frv., eftir því sem þeir hafa löngun til. En hvað snertir almennu hliðina, þá vil ég leyfa mér að benda á þann möguleika að taka hana til meðferðar, þegar skattafrv. kemur til umræðu.