05.05.1964
Neðri deild: 90. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

148. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. um breyt. á tollskránni, er komið frá E.d., og voru gerðar nokkrar breyt. á því, frá því að það var upphaflega lagt fyrir þingið. Við meðferð málsins hjá fjhn. þessarar d. hafa einnig vaknað nokkrar spurningar um það, hvort ekki þyrfti að breyta nokkrum liðum. Þeir liðir eru nú til athugunar hjá tollskrárnefnd, eins og hv. frsm. meiri hl. greindi frá hér áðan, og eru nm. allir óbundnir af því, hvaða afstöðu þeir taka til þeirra breyt., sem þar kunna að koma.

Fjhn. hefur athugað þetta frv. á nokkrum fundum, og enda þótt við séum allir sammála um, að þetta frv, nái fram að ganga, þykir okkur, sem undirskrifum minnihlutaálit á þskj. 571, ástæða til að gera ýmsar breyt. í sambandi við tollskrárlög, og þess vegna stöndum við hér að sérstöku nál. og gerum örfáar brtt., sem lagðar eru fram á þskj. 572.

Þegar l. nr. 7 frá 1963 voru samþ. hér á hv. Alþingi, var með þeim gerð veruleg formbreyting á tollskránni. Hins vegar voru þá engar verulegar breyt. gerðar á tollheimtunni sjálfri. Það voru að vísu jafnaðir nokkuð tollar, þannig að hæstu tollarnir voru nokkuð lækkaðir, en aðrir voru einnig hækkaðir, þannig að heildarbreyting var ekki veruleg að öðru leyti en því auðvitað, að söluskattur, sem lagður hafði verið á nokkur undanfarin ár og talinn var vera til bráðabirgða, var nú lögfestur til frambúðar, þar sem hann var tekinn inn í verðtollinn og reiknaður sem hluti af honum. Þannig hefur tollheimtan í reynd stórlega aukizt að undanförnu. Um þetta liggja fyrir svo ljósar tölur, að ekki er þörf á að hafa þær yfir hér, og mun ég ekki heldur gera það.

Frv., sem hér liggur fyrir, felur ekki í sér neina stefnubreytingu að þessu leyti. Hér er ekki um neinar málsmetandi tollalækkanir að ræða. Hér er hins vegar verið að leiðrétta ýmislegt ósamræmi og ýmsa galla, sem fram hafa komið á tollskrárlögunum frá því á síðasta Alþingi. Það er auðvitað eðlilegt, að þegar svo gagnger breyting er gerð eins og þá var, þá sé ýmislegt, sem betur megi fara og komi í ljós við notkun, og því er eðlilegt, að þessar lagfæringar séu gerðar, og við í minni hl. teljum einnig, eins og meiri hl., að þessar breyt. séu flestar til bóta, svo langt sem þær ná, en við fullyrðum, að þær hafi mjög óveruleg áhrif á heildartollheimtuna.

Þegar mál þetta var til meðferðar í hv. Ed., báru tveir fjhn.-menn þar, þeir Karl Kristjánsson og Helgi Bergs, hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 6. þm. Sunnl., fram nokkrar brtt., sem gengu í þá átt að breyta stefnunni í þessum málum. Þessar brtt., sem þeir báru fram, stefndu aðallega að tvennu: Annars vegar að lækka tolla af vélum og tækjum til framleiðsluatvinnuveganna og til þess að gera samræmingar á milli þeirra, en á því virðist vera þörf. Þeir gerðu till. um, að þessar vörutegundir yrðu yfirleitt tollaðar með 4% tolli, en þær munu nú yfirleitt í 35% tolli. Mundi með því móti hafa fengizt mikilsverð lagfæring fyrir framleiðsluatvinnuvegina, sem þeir hafa fulla þörf fyrir. Hinn megintilgangurinn með brtt. minni hl fjhn. Ed. var að lækka toll af rafknúnum heimilistækjum. Þau eru nú í 80% tolli, en till. þeirra var um að færa hann niður í 0%. Rafknúin heimilistæki má orðið telja til nauðsynja á hverju heimili, og því þótti þeim rétt að freista þess að fá á þessu lagfæringu, því að verðlag þessara hluta er nú svo hátt, að ekki geta eins margir notið þeirra og æskilegt væri. Auk þess er svo þess að gæta að með frv. því, sem hér er til umr., er einmitt tollur af varahlutum til þessara tækja lækkaður, eins og þarna var ráðgert, og það þykir eðlilegt og er í beztu samræmi, að sami tollur sé af tækjunum og varahlutum til þeirra. Sé það ekki, þá hefur reynslan oft sýnt, að það er ekki heppilegt.

Þessar till. voru allar felldar í hv. Ed., enda þótt gild rök væru færð fram fyrir nauðsyn þeirra og fyrir réttmæti þeirra. Við í minni hl. hv. fjhn. Nd. sjáum ekki ástæðu til að flytja þessar till. á ný hér í hv. Nd. og gerum það því ekki.

Hins vegar höfum við freistað þess að flytja nú tvær brtt. við tollskrárfrv., ef ske kynni, að hægt væri að fá þótt ekki væri nema þær litlu lagfæringar, sem þar er farið fram á.

Við höfum leyft okkur að taka upp brtt. frá minni hl. fjhn. Ed., sem gengur út á það, að ríkissjóður endurgreiði húsbyggjendum aðflutningsgjöld, sem nema 110 kr. á rúmmetra, að hámarki 360 rúmmetra íbúð. Það er kunnara en frá þurfi að segja og óþarfi að rifja það upp hér einu sinni enn á hv. Alþingi, að eitt af því, sem hvað mestu veldur um hinn háa framfærslukostnað, sem hér á landi er nú, er einmitt hinn hái húsnæðiskostnaður, og yfirleitt er ástandið í húsbyggingamálunum þannig, að það er óhugsandi annað en að grípa verði til róttækra ráðstafana til þess að ráða bót á þeirri meinsemd. Sú till., sem hér er flutt, er aðeins örlítið skref í áttina að þessu markmiði, því að hér er ekki farið fram á lækkun nema sem nemur um 35 þús. kr. tollaIækkun á hverja meðalíbúð. Þegar það er haft í huga, að meðalíbúð, eins og það hugtak er skilgreint t.d. hjá Efnahagsstofnuninni, kostar nú um það bil 700 þús. kr. og nokkur hluti af því a.m.k. stafar af álögum ríkissjóðs, þá er ekki farið fram á mikið, þó að till. sé flutt um, að þessi tollabyrði sé lækkuð um sem svarar 35 þús. kr. Það er ekki farið fram á lækkun almennt á tollum til bygginga, þannig að þeir, sem byggja stærri íbúðir en 360 teningsmetra, verða að greiða fulla tolla af því byggingarefni, sem fer til byggingarinnar umfram þessa meðalstærð.

Ég vil leyfa mér að vænta þess, að þessi till. fái hér betri afgreiðslu en samsvarandi till. fékk í hv. Ed., því að hér er hreyft miklu nauðsynjamáli að mínum dómi og full þörf á því, að húsbyggjendur fái einhverja lagfæringu a.m.k. á mínum miklu vandamálum.

Hin brtt., sem við í minni hl. fjhn. flytjum hér að þessu sinni, er um það, að heimilað verði að endurgreiða innflutningstolla af jarðýtum og skurðgröfum til ræktunarsambanda. Alþingi hefur borizt bréf frá búnaðarmálastjóra, sem dags. er 21. apríl. Efni þess bréfs er að koma á framfæri samþykkt, sem gerð var á fulltrúaráðsfundi ræktunarsambandanna. Þessi fundur var haldinn hér í Reykjavík í Bændahöllinni 12. og 13. febr. s.l. og gerði nokkrar ályktanir og m. a. eina þess efnis, að fundurinn skoraði á hv. Alþingi að afnema innflutningstolla af jarðýtum og skurðgröfum til ræktunarsambanda. Þessa till. höfum við nú leyft okkur að taka upp og bera hana fram sem viðbótarheimildarákvæði fyrir hæstv. ríkisstj.

Brtt. okkar eru lagðar fram á sérstöku þskj., 572. Þær eru við 2. gr., um það, að við 4. tölul. bætist tveir nýir töluliðir, eins og þar er nánar skilgreint og ég hef nú leyft mér að gera grein fyrir.

Það frv., sem hér er til umr., er, eins og ég áður sagði, fyrst og fremst til lagfæringa og úrbóta á þeim vanköntum, sem komið hafa í ljós á tollskrárlögunum frá síðasta hv. Alþingi. Það er skoðun okkar í minni hl. fjhn. þessarar hv. þd., að ekki verði hjá því komizt að taka alla tollheimtuna til gagngerðrar endurskoðunar til þess að draga úr þeirri miklu byrði, sem þannig er lögð á þjóðfélagsþegnana, og til þess að leiðrétta það misræmi, sem óneitanlega er í tollskránni nú, t.d. á milli einstakra atvinnuvega. Við höfum ekki að þessu sinni flutt till. í þessa átt. Við gerum það hins vegar að till. okkar, eins og segir í nál., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem við leggjum til og ég hef nú gert grein fyrir.