28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

188. mál, innlent lán

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og samþ. þar með shlj. atkv. Efni þess er það að fá heimild til þess að bjóða út 75 millj. kr. innlent lán eða spariskírteini í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir árið 1965.

Í nóvembermánuði s.1. voru samþ. lög hér á Alþ. um heimild til útgáfu spariskírteina eða lánsútboðs fyrir allt að 75 millj. kr. Þessi upphæð var boðin út í tvennu lagi, fyrst 50 millj., siðan 25 millj. og seldist lánið upp á skömmum tíma.

Það var m.a. svo ákveðið um þessi spariskírteini, sem voru til 10 ára, að þau skyldu bundin eða tryggð með byggingarvísitölu. Nú er ætlunin að fá þessa lánsupphæð hækkaða úr 75 millj. í 150 millj. og bjóða fljótlega út lán að nýju og ég geri ráð fyrir, að kjör og skilmálar varðandi hið nýja lánsútboð verði svipaðir og í nóvember-desember að öðru leyti en því, að vextir verói nokkru lægri, væntanlega um það bil 1% lægri í samræmi við þá vaxtalækkun, sem hér hefur orðið síðan.

Varðandi framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisins fyrir árið 1965 hefur hún verið í smíðum undanfarna mánuði og verður kunngerð Alþ., áður en því lýkur.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn., en vil beina þeim tilmælum til hv. n., að hún afgreiði málið svo tímanlega, að þetta frv. geti orðið að lögum í þessari viku.