28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

188. mál, innlent lán

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til að heimila ríkisstj. að gefa út skuldabréfalán að upphæð 75 millj. kr. og sú grein er gerð fyrir þessu, að þetta fé eigi að nota í sambandi við framkvæmdir, sem ákveðnar eru í framkvæmdaáætlun ríkisstj. fyrir yfirstandandi ár. Ég hef áður að því vikið við svipað tækifæri og þetta, að það er vægast sagt óeðlilegt að leita til Alþ. með slíkar heimildir sem þessar, til þess að standa undir útgjöldum eftir áætlun, sem Alþ. hefur ekki enn þá fengið að sjá. Það er vitanlega eðlilegt, að þessar framkvæmdaáætlanir séu kynntar Alþ. meira að segja áður en þeim er að fullu lokið, því að hér er um mikilvægar ákvarðanir í fjárhagsmálum ríkisins að ræða. Nú er sem sagt gert ráð fyrir því, að ríkið afli sér fjár, í þessu tilfelli upp á 75 millj. kr., til þess að standa undir tilteknum útgjöldum, sem ríkið á að standa undir. Ég geri ráð fyrir því, að þetta fé eigi að fara til ákveðinna vegalagninga í landinu, nokkurra meiri háttar vegagerða og ýmiss konar annarra framkvæmda, sem ríkið hefur með höndum, en vitanlega hefur ekki verið veitt nægilega mikið fjármagn til á fjárl. En þegar ríkið fer fram á slíkar heimildir sem þessar, er eðlilegt, að sú áætlun liggi fyrir Alþ., sem kallar eftir þessu fjármagni, sem hér er leitað eftir.

Ég tók eftir því, að hæstv. fjmrh. sagði, að framkvæmdaáætlun fyrir yfirstandandi ár mundi verða kunngerð Alþ., áður en því lýkur. Fyrst á sem sagt að samþykkja hér heimildir um lánsútvegun til tiltekinna framkvæmda, sem maður veit ekki, hverjar eru, en svo eiga alþm. að fá í nesti til þess að hafa með heim til sín, hvað þetta væri, sem var verið að afla fjár til. Þetta eru alveg ófær vinnubrögð. Það er búið að standa svona að málum a.m.k. einu sinni áður og það er alveg óþarfi að halda áfram á þessari braut. Ég álít því, að það sé eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. kynni fyrir Alþ. þau drög að framkvæmdaáætlun, sem ég veit að liggja fyrir og að Alþ. fái alveg fulla skýringu á því, um hvaða framkvæmdir er hér að ræða og hvernig fjárhagsmálefnum þessara framkvæmda er í rauninni varið, hvernig á að verja þessu fé, sem á að innheimta á þennan hátt,

Auk þess álít ég, að það sé rétt að gera sér fulla grein fyrif því, að með þessum lántökum, bæði nú og fyrr, er verið að fara að verulegu leyti inn á nýjar brautir í sambandi við fjármál ríkisins. Fjárveitingar, sem ákveðnar hafa verið í fjárl. til tiltekinna framkvæmda, eru ekki nægilega miklar og þá er farin sú leið að taka lán til þess að geta þokað þessum framkvæmdum lengra áleiðis, en með því er vitanlega verið að eyða fyrir fram. Það er með slíkum lántökum sem þessum verið að ráðstafa fjármagni næstu ára, því að auðvitað verður síðar að taka upp á fjárlög vexti og afborganir af þessum lánum. Hefði maður þó viljað halda, að það væru kringumstæður til þess núna, að ríkið hefði þær tekjur, sem ættu að vera nægilegar til þess að standa undir eðlilegum framkvæmdum, sem efnahagskerfið almennt þolir. En þessi leið er valin. Ég vil ekki neita því, að í sumum tilfellum geti verið nauðsynlegt að grípa til þess að taka slík lán sem þessi og ljúka tilteknum framkvæmdum. Það getur vissulega staðið svo á. En mér sýnist nú samt, að það sé verið að leggja hér inn á alveg nýja braut í þessum efnum og standa að framkvæmdum á vegum ríkisins með allt öðrum hætti en hingað til hefur verið gert.

Ég vildi svo aðeins vænta þess, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að kynna a.m.k. fyrir fjhn. d., sem fær þetta mál til athugunar, þau drög að framkvæmdaáætlun, sem fyrir liggja ábyggilega og þar verði gerð a.m.k. full grein fyrir því, hvernig á að verja þessu fé í aðalatriðum, sem hér er farið fram á heimild til þess að taka að láni.