28.04.1965
Neðri deild: 74. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

188. mál, innlent lán

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur upplýst nokkuð, til hvers þetta eigi að fara. Ég verð nú að segja, að þegar lagt er í jafnstórar fjárveitingar og jafndýrar fyrir ríkissjóð, þá virðist manni, að það ætti að vera nokkuð algilt lögmál, eins og hæstv. ríkisstj. hefur nú stillt málum, að það ætti að vera fyrst og fremst til mjög arðbærra framkvæmda.

Ég verð að segja, að þegar maður heyrir t.d. talað um, að það eigi að vera til vegagerða, svo nauðsynlegar sem þær eru, þá virðist dálitið hæpið að taka lán til vegagerða og það næstum með okurkjörum. Það ætti fyrst og fremst að miða við að taka það til hluta, sem standa undir sér. Það getur sem sé verið álitamál, en gott er að fá það upplýst.

Þegar ríkissjóður tekur lán, þá finnst mér, að við hér á Alþingi eigum að hugsa fyrst og fremst um hag ríkisins í slíku sambandi, en ekki um hag þeirra, sem lánin veita, þannig að fyrsta spurningin, sem hlýtur að liggja fyrir okkur er, hvort ríkissjóður geti ekki fengið hagstæðari lán en þau, sem þarna er stofnað til. Ég geng út frá því, að það sé ekki beinlínis pólitíkin að tryggja fármagnseigendum, t.d. hér í Reykjavík, alveg sérstaka aðstöðu til þess að geta ávaxtað sítt fé örugglega og með háum vöxtum. Að minnsta kosti ef það á að vera einhver hjálparstarfsemi við þá, þá er rétt að það komi fram sem stefnuyfirlýsing.

Ég hef áður gert hér athugasemd við það, þegar mér finnst, að ríkisstj. hafi hagað sér óskynsamlega í slíkum lántökum. Það voru tekin lán hér á árunum, sem við hæstv. fjmrh. báðir munum eftir, af því að við stóðum dálítið að því, í sambandi við skatta eða tolla réttara sagt, sem Sogsvirkjunin á sínum tíma þurfti að borga til ríkissjóðs. Og Sogsvirkjunin, sem ríkissjóður og Reykjavíkurborg eiga í sameiningu, tók lán með rafmagnsvísitölukjörum til þess að borga skatta í ríkissjóðinn. Það þótti mér satt að segja hámark þess, hve vitlaust gæti verið hægt að fara að því að taka lán handa ríkissjóði, enda reyndust þetta einhver dýrustu lán, sem ég man eftir að maður hafi haft með að gera.

Ég held þess vegna, að það sé rétt að athuga það, þegar ríkíssjóður þarf á svona lánum að halda og menn eru sammála um, að það sé rétt að taka þau, hvort ekki eru til aðrir, sem geta veitt þau með beri kjörum en þessir. Og þá verðum við fyrst og fremst að hugsa til Seðlabankans. Ég get því ekki betur séð, en Seðlabankinn sé sá banki, sem eigi að þjóna ríkissjóði bókstafleg í þessum efnum. Og mér er alveg sama um að, þó að það kunni að vera einhver dálitil skuld hjá ríkissjóði í Seðlabankanum. Ríkissjóður er sá aðili, sem á þennan banka og á ráðstafa hans fé og ef þar eru einhverjir embættismenn, sem setja sig á háan hest og vilja ekki ganga inn á eitthvað slíkt, þá er hér sá aðili, sem getur sagt þeim fyrir verkum.

Nú er lagt til, að í fyrsta lagi sé gefin út bréf og það séu sérstök skattsvikabréf, þannig að menn þurfi ekki einu sinni að telji þau fram til skatts. Í öðru lagi er lagt til,að þau séu tryggð með vísitölu. Í þriðja lagi er lagt til, að þau séu með mjög háum vöxtum. Ef maður gengur út frá því, að það sé ekki verið að hugsa um hag lánveitenda í þessu sambandi, heldur um hag ríkissjóðs, þá finnst mér alveg óþarfi af ríkissjóði að bjóða svona kjör: Ríkisstj. er sá aðili, sem ræður Seðlabankanum, og ég veit ekki til annars, en að ríkisstjórnir í nálægum löndum telji það eðlilegt, að seðlabankar láni þeim og þegar þeir láni þeim, láni þeir þeim með mjög góðum kjörum. Ég álít þess vegna, að það, sem gera bæri í þessu sambandi sé, að Seðlabankinn sé skyldaður til að lána ríkissjóði til viðbótar, ef það nægir ekki, að hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstj. segi við Seðlabankann: Okkur vantar meira, en hvað sem skuldin kann að vera, 300 eða 400 millj., okkur vantar þarna meira, við þurfum 75 millj. í viðbót, — og segi við Seðlabankann um leið: Og þetta láníð þið með 2%. — Gagnvart ríkinu er engin ástæða til þess, að ein ríkisstofnun sé að okra á ríkissjóði. Og þetta er sú sjálfsagðasta fjármálapólitík, sem nokkur ríkisstj. getur rekið, ekki sízt í landi, þar sem flestir bankarnir og þar með Seðlabankinn sjálfur eru ríkiseign.

Ég fæ því ekki séð, að það séu nokkur rök til fyrir öðru, en að fyrirskipa Seðlabankanum að lána, ef einhver tregða er þar og ákveða, að það séu mjög lágir vextir, sem ríkissjóður eigi að greiða. Hvaða ástæða er til þess, að seðlabanki taki háa vexti af ríkissjóði? Það er ekki nokkur ástæða til, sem mælir með því. Hver ætli gefi Seðlabankanum möguleika til að hafa einhverja peninga? Það er ríkið. Hann er til fyrir lög hér frá Alþingi, og það er Alþingi, sem ákveður, hvernig hann skuli starfa. Og ef það er verið að reikna háa vexti handa ríkissjóði úr Seðlabankanum, þýðir það bara óbeina skattlagningu á framtíðina.

Stundum er sagt við mig, að ég haldi alltaf sömu ræðurnar hér á Alþingi. En ég man eftir því einu sinni, að ég hafði sérstaklega rætt þetta mál. Það var þegar Björn Ólafsson var fjmrh., og þá átti hann víst í mjög hörðu við þáverandi Landsbanka. Og ég man eftir því, að hann tók mjög vel í þetta og mun hafa haft við orð að sækja um heimild til Alþ. að fyrirskipa bankanum slík lán. Og ég hef sjálfur staðið í því, það eru að vísu um 20 ár síðan, að verða að segja þáverandi seðlabanka, Landsbankanum, með lögum hér frá Alþingi fyrir verk. um um, hvaða lán skuli veita og hvernig. Það var þegar stofnlánadeild sjávarútvegsins var stöðvuð og Landsbankinn hafði staðið í veginum fyrir því í hálft ár og vildi ekki ganga inn á þær till., sem nýbyggingarráð og nýsköpunarstjórnin stóðu að, þ. á. m. að lána með eitthvað 2% vöxtum. Ég held, að ef það sýnir sig, að ríkissjóður þarf á slíku fé að halda, og það býst ég við, að sé rétt og ef það er einhver tregða að lána meira í þessum almennu lánum, sem Seðlabankinn veitir, eigi hæstv. ríkisstj. einfaldlega að fara fram á það við Alþ., að Alþingi fyrirskipi Seðlabankanum, ef þess þarf með, að lána ákveðnar upphæðir til ríkissjóðs og lán, sem séu veitt frá Seðlabankanum til ríkissjóðs, séu með að hámarki 2% vöxtum. Það er engin ástæða, þegar menn eru að taka úr einum vasanum og láta í hinn, eins og úr Seðlabankanum og láta í ríkissjóð, að það sé verið að láta einhvern og einhvern embættismann úti í bæ fara að segja Alþingi og ríkisstj. fyrir verkum um það, að það skuli útbúa einhver skuldabréf handa skattsvikurum með vísitölutryggingu og 7% vöxtum, ekki nokkur ástæða. Og ef hæstv. fjmrh. á í einhverjum erfiðleikum með Seðlabankann í þessum efnum, skal ég vera alveg viss um, að hann fær fullan stuðning hér á Alþ., ef hann segir Alþ., að hann þurfi á svona heimild að halda. Og ég held, að gagnvart Seðlabankanum sé alveg nóg að segja, að hann mundi fara fram á slíkt, þá borgi Seðlabankinn þetta fé út.