30.04.1965
Neðri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

188. mál, innlent lán

Frsm. 2. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá fjhn., gat n. ekki orðið sammála um afgreiðslu frv. Ég skila sérstöku nál. á þskj. 571 og geri þar í stuttu máli grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Ýmsar ástæður liggja til þess, að ég get ekki fallizt á það að veita ríkisstj. umbeðna heimild til lántöku á innlendum markaði, ekki a.m.k. að svo stöddu máli. Í fyrsta lagi er þess að geta, sem hefur komið fram í þessum umr., að skammt er um liðið síðan hæstv. ríkisstj. fékk hliðstæða heimild til innlendrar lántöku, en það var seint í nóvembermánuði s.l. og í ljós hefur komið, að ríkisstj. hefur ekki enn þá ráðstafað því fjármagni, sem hún fékk samkv. þeirri heimild, nema að nokkru leyti og hún hefur ekki heldur gert Alþ, grein fyrir því, hvernig hún hugsar sér að ráðstafa því fjármagni, sem þar liggur enn óráðstafað. Ég tel, að það sé í rauninni alger lágmarksskylda hæstv. ríkisstj., þegar hún kemur nú og óskar eftir nýrri lántökuheimild, að þá geri hún Alþ. alveg fulla grein fyrir því, hvernig fyrra láninu hefur verið varið og hvernig ætlað er að verja því, sem eftir er af láninu.

Í öðru lagi er svo það, að óskað hefur verið eftir ýmsum upplýsingum frá hendi hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál, en hún hefur ekki enn þá fengizt til þess að gefa þessar upplýsingar. Óskað hefur verið eftir upplýsingum um það, hvernig ríkisstj. ráðgeri að verja því fjármagni, sem afla á, á þennan hátt á þessu ári. Upplýsingar ríkisstj., þær sem hún hefur gefið, eru alveg ófullnægjandi. Svör um það t.d., að verja eigi af þessu fjármagni til hafnargerða 29 millj. kr., segja vitanlega harla lítið fyrir alþm. Það hlýtur að vera í lófa lagið fyrir ríkisstj. að gera grein fyrir því, hvað mikið af þessari fjárhæð er ætlað að gangi til beinna ríkishafnargerða, eins og landshafnanna og hvað mikill hluti af þessari fjárhæð á að ganga upp í önnur ógreidd framlög ríkisins til hafnarmála, því að um annað getur varla verið að ræða, að ríkissjóður sé að afla sér fjár til þess að greiða út í sambandi við hafnarmálefni. Um þetta hefur verið spurt og upplýsingar hafa ekki fengizt í fjhn. um þessi atriði. Ég efast auðvitað ekkert um það, að hæstv. fjmrh, hlýtur að geta gefið þessar upplýsingar og gerir það væntanlega hér í þessum umr., en eðlilegt hefði auðvitað verið; að fjhn:.–menn hefðu fengið þessar upplýsingar, svo sjálfsagðar sem þær virðast vera til upplýsinga í málinu, enda var það í fullu samræmi við það, sem hæstv. fjmrh. gaf beinlínis loforð um við 1. umr. málsins. En þrátt fyrir ítrekanir okkar nm. í fjhn. gátum við ekki fengið þessar upplýsingar. Þá var einnig um það spurt í fjhn., í hvaða vegaframkvæmdir þessar 27 millj. ættu að ganga á þessu ári, sem upplýsingar voru veittar um, að ætti að verja af þessari lántöku til. Það segir vitanlega harla lítið fyrir alþm., þegar sagt er, að af þessu láni skuli verja 27 millj. til vegaframkvæmda. Auðvitað hefur hæstv. fjmrh. gert sér fulla grein fyrir því, í hvaða framkvæmdir þessi fjárhæð á að ganga, um hvaða vegagerðir hér er um að ræða. En þar sem það er nú alveg sérstakt verkefni Alþ. að úthluta á hverju ári því fjármagni, sem á að ganga til vegagerða í landinu, er vitanlega eðlilegt, að þegar ríkisstj. óskar eftir heimild til þess að taka lán og verja til vegaframkvæmda, sé um það spurt, til hvaða vegaframkvæmda féð eigi að ganga. Þess er nú vænzt, að hæstv. fjmrh. gefi hér upplýsingar um þetta atriði, sem ekki fengust fram í fjhn. Ég tel fyrir mitt leyti, að meðan upplýsingar um atriði eins og þessi og ýmis önnur, sem ég hef hér minnzt á, fást ekki, vil ég ekki samþykkja það að veita ríkisstj. nýja lántökuheimild. Þeir einir verða þá að standa að því að veita slíka heimild, sem um það fá að vita, í hvað fjármagnið á að fara.

Þá er það einnig ástæða til þess, að ég hika við að styðja þessa lántökuheimild, eins og málið liggur nú fyrir, að lánskjör þau, sem ákveðin voru af ríkisstj. í fyrra tilfellinu, þegar hún fékk hliðstæða heimild þeirri, sem hér er óskað eftir, eru að mínum dómi þess eðlis, að það á ekki að leggja blessun sína yfir slíkt. Það er nú upplýst, að lánskjörin voru í aðalatriðum þessi: Vextir af þessum skuldabréfalánum voru 7.2% og einnig var um sérstaka vísitölutryggingu að ræða, þar sem miðað var við byggingarvísitölu. Byggingarvísitalan var, þegar þetta lánsútboð fór fram, 220 stig, en er orðin nú 237 stig. Er því alveg ljóst, að vaxtakjörin á þessu skuldabréfaláni eru þegar orðin í kringum 8%. En auk þess hefur svo sjálfur stofn lánsins hækkað um það bil 8%. Það fer vitanlega ekki á milli mála, að hér er um ákaflega óhagstæð lánskjör að ræða fyrir ríkissjóð. Eftir nokkur ár eru allar líkur til þess, að þessi lán verði orðin hreinustu okurlán, að hér verði um sem sagt gífurlega háa vexti að ræða eða sem því svarar. Nú er það upplýst, að það sé ætlunin að viðhafa hér sömu reglur í aðalatriðum. Ég tel því, að hér sé verið að leggja inn á mjög hættulega braut, það sé verið að skapa hér fordæmi um lánskjör, sem eigi ekki að viðurkennast af Alþ. Og ég álít líka, að það reki engin nauður ríkissjóð til að taka slík lán sem þessi. Afsakanir eins og þær, sem maður heyrir hér stundum, að það sé verið að hugsa svo mikið um sparifjáreigendur, að það eigi að borga hér óhóflega háa vexti með einum eða öðrum hætti til þess að vernda þá, koma hér ekki til greina. Vitanlega á ekki að taka hér fáa sparifjáreigendur út úr í sambandi við slíkar ráðstafanir, en það yrði eðlilega afleiðingin, þegar um útboð á slíku láni er að ræða, sem auðvitað er mjög takmarkað, en aðrir sparifjáreigendur, sem fara eftir hinum almennu leiðum, verða að búa við allt önnur kjör. Ég er því mjög á móti þeim lánskjörum, sem ákveðin voru á fyrra láninu og gefið er í skyn, að enn eigi að viðhafa á því láni, sem nú er leitað eftir heimild fyrir. Þá er ég einnig á þeirri skoðun, að það sé rétt að taka fram í sambandi við útgáfu á skuldabréfum sem þessum og spariskírteinum, að þau skuli skráð á nafn, til þess að koma í veg fyrir, að það sé sköpuð sérstök aðstaða til skattsvika, því að það gefur alveg auga leið, að ef á að hafa þessi skuldabréf ein allra skuldabréfa án þess að þau séu framtalsskyld og ekki heldur skráð á nafn, opnar þetta sérstaka leið til skattundanskots og það er alveg ástæðlaust, að ríkið standi sjálft fyrir slíku.

Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því, að ég vil ekki fyrir mitt leyti samþykkja þessa heimild, eins og hún liggur hér fyrir eða tel, að það þurfi að gera bæði breytingar á frv. og eins þurfi hér að koma fram ýmsar skýringar og upplýsingar, sem hafa ekki fengizt fram enn í þessu máli.

Þessi lántaka ríkissjóðs er út af fyrir sig býsna athyglisverð. Hvað er það, sem er raunverulega að gerast, þegar ríkisstj. kemur nú tvisvar sinnum á 6 mánaða tímabili til Alþ. og óskar eftir því að fá heimild til þess að taka innlent lán upp á 150 millj. kr., til þess m.a. að greiða skuldir ríkissjóðs, eins og fram er tekið eða beinan hallarekstur hjá ákveðnum ríkisstofnunum og svo til þess að leggja í ýmsar sérstakar ríkisframkvæmdir? Hvað er það, sem raunverulega er verið að gera með þessu? Með slíkri lántöku sem þessari er í rauninni verið að gera nákvæmlega það sama og að afgreiða fjárl. ríkisins með greiðsluhalla. Á því er enginn munur. Það er býsna athyglisvert, að þeir menn skuli sérstaklega standa að því að fara þessa leið, sem mest hafa talað um þá ógæfu, sem sé fólgin í því að afgreiða fjárlög ríkisins með greiðsluhalla. Það hefur verið talið algert grundvallaratriði, frá því mætti ekki víkja, að fjárlög yrðu ekki afgreidd með greiðsluhalla. En þegar fjárl. eru afgreidd á þann hátt, að það þarf að koma til Alþ. á eftir og óska eftir heimildum til sérstakrar lántöku til þess að útvega ríkissjóði aukið fjármagn til þess að standa bæði undir rekstrarútgjöldum og í sambandi við stofnframkvæmdir, er vitanlega ekki um neinn eðlismun á því að ræða og að afgreiða fjárl. með greiðsluhalla. Á því er enginn munur. Það er hins vegar annað mál, að ég er ekki sammála þeim, sem telja, að afgreiðsla fjárlaga með greiðsluhalla sé svona voðaleg. Ég álít, að það geti vel komið til mála að afgreiða fjárlög með greiðsluhalla undir vissum kringumstæðum og sérstaklega þegar svo stendur á, að það þykir rétt. að ríkið ráðist í ýmsar fjárfrekar stofnframkvæmdir, sem rétt getur verið að taka lán til með einum eða öðrum hætti og dreifa stofnkostnaði þeirra á fleiri ár en eitt. En hitt er samt alveg ljóst, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að til þess mætti ekki koma, að fjárlög yrðu afgreidd með greiðsluhalla. En með því, sem hún er að gera með því að óska eftir heimildum til að taka lán, eins og hún fer fram á samkv, þessu frv., er hún raunverulega að gera nákvæmlega það sama og kemur út úr því, ef fjárlög eru afgreidd með greiðsluhalla. Á því er enginn munur. Þessi lántaka bendir auðvitað til þess, að svo sé nú komið, að ríkissjóður hafi ekki nægilegar tekjur til sinna föstu útgjalda og ekki nægilegar tekjur til þess að þoka áfram þeim framkvæmdum, sem ríkið hefur með höndum, með eðlilegum hætti. Og þá er valin þessi leið, að efna til lántöku með sérstöku innanlandsláni, og með því er auðvitað verið að ráðstafa að nokkru leyti nú tekjum næstu ára. Nú þykir sem sagt ástæða til þess að ráðast í meiri framkvæmdir, en hægt er að afla tekna til og ætlunin er að leggja byrðarnar af þeim framkvæmdum, sem nú á að ráðast í, á næstu ár, sem vitanlega verða að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum lánum, sem nú á að stofna til.

Annað atriði er það einnig í sambandi við þessa lántöku, sem er nokkuð sérstakt. Á þennan hátt, með því að afla fjár með þessum hætti fær ríkisstj. nokkra aðstöðu til þess að geta svo til óáreitt af Alþ. ráðstafað allmiklu fjármagni til ýmiss konar framkvæmda, sem eðli málsins samkv. eiga að ráðstafast af sjálfu Alþ. Þó að Alþ. sé búið að afgreiða fjárlög og ákveða þar fjárveitingar til hafnarframkvæmda í landinu og til vegagerða og til flugmála og til ýmissa annarra málaflokka og búið sé að skipta þessu nákvæmlega niður og miklar deilur að standa um það, hvernig þessu fjármagni hafi verið skipt, fær ríkisstj. aðstöðu til þess á eftir með slíkum lántökum sem þessum, að hún getur breytt allri þessari skiptingu, hún getur ákveðið það, að af þessu láni skuli fara viðbótarfjármagn til þessarar vegagerðar og viðbótarfjármagn til þessarar hafnarframkvæmdar, langt umfram það, sem Alþingi áður hafði ákveðið í sinni úthlutun. Þetta gerir hæstv. ríkisstj. m.a. gegnum hina svonefndu framkvæmdaáætlun ríkisins. Ríkisstj. upplýsir, að hana skorti fé til þess að geta komið saman tiltekinni framkvæmdaáætlun, þar sem gert er ráð fyrir ýmiss konar framkvæmdum. Ég hef gert það hér að umtalsefni áður, að ég álít, að þessa framkvæmdaáætlun ríkisins eigi að ákveða í samráði við Alþingi og það eigi að láta Alþ. fylgjast með gerð þessarar áætlunar, sem sjálfsagt er að ríkisstj. hafi forustu um að gera. Alþm. eiga að hafa fulla aðstöðu til þess að geta komið fram brtt. sínum í sambandi við gerð þessarar áætlunar. En ríkisstj. hefur haldið þannig á málinu, að framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir s.l. ár, árið 1964, hefur ekki enn þá birzt alþm. Það eru aðeins fáir alþm., sem hafa haft aðstöðu til þess að sjá slíka áætlun í ýmsum stofnunum úti í bæ, eins og t.d. í bönkum landsins, en þar er slik áætlun lögð fram. Þeir hafa getað fengið að sjá þessa áætlun, en alþm. yfirleitt hafa ekki fengið að sjá framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir árið 1964. Alþ. var aðeins beðið um að veita ríkisstj. heimild til lántöku upp á 75 millj. kr., svo að ríkið gæti notað af því fé til þess að koma framkvæmdaáætluninni fyrir árið 1964 fram. Og nú er það einnig vitað, að framkvæmdaáætlun ríkisstj. fyrir árið 1965 hefur verið gerð. Ríkisstj. hefur unnið að gerð þessarar áætlunar og ríkisstj. hefur m.a. snúið sér til bankanna í landinu og leitað eftir ákveðnu fjármagni frá þeim, til þess að hún geti tryggt framgang þessarar framkvæmdaáætlunar. Hún hefur því gert bönkum landsins, ýmsum a.m.k., grein fyrir þessari framkvæmdaáætlun. En þegar ríkisstj. leitar hér til Alþ. eftir heimild um það að mega taka innlent lán upp á 75 millj. kr. til þess að afla fjár í því skyni, að hægt verði að standa við framkvæmdaáætlun ársins 1965, og þegar alþm. óska þá eftir því, að þeim verði sýndur ekki minni trúnaður en t.d. starfsmönnum í bönkum landsins, þeir fái að sjá drögin að þessari áætlun, sem ábyggilega liggja fyrir, er þeim synjað um það. Enn sem komið er hefur alþm. verið synjað um að fá að sjá þessa áætlun.

Hæstv. fjmrh. sagði við 1. umr. þessa máls, að Alþ. mundi verða birt framkvæmdaáætlunin fyrir árið 1965, áður en Alþ. lyki. En það er nú harla snubbótt lýðræði í þessum efnum að afhenda mönnum einhverja slíka áætlun svona rétt í veganesti, um leið og alþm. ganga hér út úr húsinu og eru að fara af þingi. Úr því hafa þeir vitanlega ekki mikla aðstöðu til þess að koma fram aths. í sambandi við þessa áætlun eða nokkrum till. til breytinga á henni. Ég álít, að þetta séu með öllu óverjandi vinnubrögð. Ég álít, að það eigi að hverfa frá þessum vinnubrögðum og ríkisstj. eigi að viðurkenna, að það á að gera þessa framkvæmdaáætlun, sem nú er orðin hefð að gera fyrir hvert einstakt ár, það á að gera hana í fullu samráði og samstarfi við Alþ. Þingflokkarnir a.m.k. eiga að fá að hafa aðstöðu til þess að koma fram till. sínum til breytinga á þessari áætlun, eftir því sem þeim þykir ástæða vera til og það nær vitanlega ekki nokkurri átt, að Alþ. geri ráðstafanir til þess að veita ríkisstj. sérstaka aðstöðu til fjáröflunar til framkvæmdaáætlunar, sem Alþ. hefur ekki fengið að sjá.

Nú skil ég ekki í því, hvernig stendur á því í þessu tilfelli, að fjhn. gat ekki fengið að sjá þau sömu drög a.m.k. að framkvæmdaáætlun fyrir yfirstandandi ár, sem hægt hefur verið að sýna bönkum landsins. Ég skil ekki, hvernig stendur á því, því að hér getur ekki verið um neitt leyniplagg að ræða, allra sízt þar sem fjmrh. hefur nú gefið yfirlýsingu um það, að Alþ. muni verða afhent þessi áætlun núna eftir eina viku eða 10 daga. Ég vil vænta, að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að leggja nú hér a.m.k. fyrir fjhn.–menn þessi drög að framkvæmdaáætlun fyrir árið 1965, sem til eru og aðrir hafa fengið að sjá, áður en mál þetta fer út úr d. eða verður afgreitt frá Alþingi. En hinu verður auðvitað ekki breytt, úr því sem nú er komið, um samningu áætlunarinnar á þessu ári. Það verður aðeins til eftirbreytni síðar. Ég álít, að það eigi að taka upp þá reglu fyrir næsta ár, að sú framkvæmdaáætlun eigi að gerast, eins og ég hef sagt hér, í samráði við Alþ. og í rauninni ætti hún að samþykkjast hér á hv. Alþ.

Hér hefur nokkuð verið vikið að því, hvaða áhrif slíkt lánsútboð sem þetta mundi hafa á aðrar peningastofnanir í landinu. Ég held, að það geti enginn vafi leikið á því, að megnið af þessu fjármagni hlýtur að verða tekið einmitt út úr bönkum landsins. Það getur varla komið frá öðrum. Og þegar það er einnig haft í huga, að með þessu lánsútboði er boðið upp á miklum mun hagstæðari vaxtakjör, en bankarnir hafa heimild til að bjóða fyrir það sparifé, sem kemur til þeirra, held ég, að það geti enginn vafi leikið á því, að ýmsir þeir, sem hafa geymt fé sitt í bönkum, noti tækifærið og flytji fjármagnið yfir í þessi ríkistryggðu skuldabréf, þar sem vaxtakjörin eru svona miklum mun betri, en á innstæðufé í bönkunum, enda er það upplýst í þessum umr., að þannig hafi reyndin orðið á í hinu fyrra tilfellinu, þegar ríkið bauð út skuldabréfalán sitt á s.l. hausti. Ég held því, að það sé enginn vafi á því, að útboð á láni á þennan hátt verður til þess að þrengja kosti viðskiptabankanna. Og það, sem er auðvitað alvarlegast í þeim efnum, er það, ef þetta leiðir til þess, að viðskiptabankarnir geti þá ekki lengur staðið undir því verkefni sínu með eðlilegum hætti að veita nægilega mikil rekstrarlán, því að það vitum við, að það er ekki hægt að halda uppi eðlilegum atvinnurekstri í landinu, án þess að til komi allmikið fjármagn í formi rekstrarlána. Og auðvitað er hægt að þrengja svo að viðskiptabönkunum, að þeir séu ekki lengur færir um að veita atvinnuvegunum nægileg rekstrarlán. Ég held nú, að það sé fyrir nokkru komið svo, að viðskiptabankarnir veiti tiltölulega mjög lítið af stofnlánum eða fasteignalánum. Slíkar lánveitingar eru að mestu komnar inn í alls konar stofnlánasjóði og beina stofnlánabanka og verkefni viðskiptabankanna eru að yfirgnæfandi meiri hl. orðin í sambandi við fyrirgreiðslu til veitingar á beinum rekstrarlánum. Það getur því verið mjög háskalegt, ef slík lánsútboð sem þessi verða til þess að draga verulega úr getu bankanna frá því, sem nú er, til þess að veita nauðsynleg rekstrarlán. Slíkt er vitanlega hættulegt. En ef þetta yrði aðeins til þess, að viðskiptabankarnir minnkuðu þá að sama skapi lánveitingar sinar til annarra stofnframkvæmda, er í rauninni ekkert við því að segja. Þá mundi þessi aðferð í rauninni aðeins þýða það, að það er verið að taka þarna ákvörðunarvaldið af bönkunum og ráðstafa tilteknum hluta af því fjármagni, sem þeir mundu annars veita til stofnlána, veita því fjármagni í þessar framkvæmdir. Við það hef ég út af fyrir sig ekkert að athuga. En verði þetta til þess að minnka verulega möguleika viðskiptabankanna til þess að geta veitt eðlileg rekstrarlán, tel ég, að það sé mjög hættulegt og því er ekki að neita, að það hefur heyrzt hjá bönkunum og það æði oft, þegar um slík lánsútboð er að ræða sem þessi, að nú sé svo að þeim þrengt, að þeir geti ekki veitt jafnhá rekstrarlán og þeir höfðu þó gert áður. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. þyrfti að huga vandlega að þessu vandamáli, áður en hún fer í það að bjóða út nýtt lán af þessari tegund eða áður en hún heldur lengra á þessari. braut.

En það er rétt að undirstrika það, að aðalágreiningurinn við hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál er þó í rauninni fyrst og fremst fólginn í því, hver vinnubrögð ríkisstj. hefur haft í sambandi við afgreiðslu málsins. Hún hefur ekki viljað gefa Alþ. eðlilegar upplýsingar og hún hefur ekki viljað ganga inn á tilteknar mjög eðlilegar breytingar í sambandi við framkvæmd málsins. Ef hægt hefði verið að fá slík sjónarmið viðurkennd, sem hér hafa komið fram hjá okkur í minni hl., mundi hafa getað tekizt samkomulag um að efna til þessa lánsútboðs upp á 75 millj. kr., því að það skal fúslega viðurkennt, að það er gert ráð fyrir því að veita þessu fé í ýmsar framkvæmdir, sem eru gagnlegar út af fyrir sig og þarf að reyna að þoka áfram. En jafnvel þó að um fjáröflun sé að ræða til gagnlegra framkvæmda, er ekki hægt að gera það með hvaða skilyrðum sem er. Það er ekki hægt að ganga inn á það, að fjárins sé aflað með óeðlilegum lánskjörum eða öðrum þeim aðferðum, sem mundu í rauninni skapa hér aukna erfiðleika í ýmsum öðrum tilfellum.

Ég er meðflm, að brtt. á þskj. 567. Fyrir þessum till. þarf ég ekki að tala frekar, en ég hef þegar gert. Það hefur verið gert af 1. flm. þeirra till. Ég tel miklu skipta að fá fram þessar breytingar á frv. Fengjust þær samþykktar, mundi ég eftir atvikum samþykkja frv. þrátt fyrir það, hvernig undirbúningur málsins hefur verið að ýmsu leyti mjög óeðlilegur.