03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

188. mál, innlent lán

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki eyða löngum tíma. Ég kem hér aðeins upp til að gera grein fyrir atkv. mínu, en ég mun við þessa umr. greiða atkv. gegn þessu frv. Ástæðan til þess, að ég geri það, er sú, að fjöldi atvinnufyrirtækja á nú í hreinum vandræðum vegna mikils lánsfjárskorts. Lánsfjárskorturinn hefur þegar valdið stórkostlegum erfiðleikum hjá mörgum fyrirtækjum og hætta er á því, að hann fari vaxandi. Þetta veldur því m.a. og ekki hvað sízt, að fyrirtækin eiga örðugt með mörg hver að rísa undir því kaupgjaldi, sem starfsfólk þeirra þarf að fá. Það, sem veldur þessum lánsfjárskorti öðru fremur, er það, að viðskiptabankarnir geta ekki leyst úr þeirri þörf, sem fyrirtækin hafa í þessum efnum, vegna sparifjár frystingarinnar. Það er augljóst, að sú lántaka, sem hér um ræðir, mun verða til þess að auka enn á erfiðleika viðskiptabankanna til þess að fullnægja þeim þörfum, sem viðskiptavinir þeirra, þ.e. í þessu tilfelli atvinnufyrirtækin, þurfa að fá leyst úr. Það hefði kannske verið réttlætanlegt að heimila þessa lántöku, ef það hefði jafnframt verið gert, sem lagt var til af minni hl. hv. fjhn. við 2. umr. þessa máls, að hætta sparifjárfrystingunni. En á þá till. var því miður ekki fallizt og þess vegna verður þetta frv., ef samþ. verður, til þess að auka enn á vandkvæði viðskiptabankanna, því að hér er fyrst og fremst verið að keppa við þá um það fjármagn, sem ríkið fær hér að láni, og þar af leiðandi mun ég greiða atkv. gegn þessu frv. Því er haldið fram, að ríkið hafi þörf fyrir þetta lánsfé. Það má vei vera, en ríkið hefur marga aðra möguleika til þess að fá þetta lánsfé, heldur en þann að keppa við viðskiptabankana. T.d. er mjög auðvelt fyrir Seðlabankann að lána ríkinu þetta fé af því sparifé, sem hann hefur bundið.

Þar sem ég tel það liggja í augum uppi, að þetta frv., ef samþ. verður í þessu formi, verður til þess að stórauka erfiðleika atvinnufyrirtækjanna og gera þeim örðugra fyrir að verða við þeim sjálfsögðu kaupkröfum, sem bornar verða fram á næstunni, mun ég greiða atkv. gegn frv.