11.03.1965
Efri deild: 53. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frv. þetta á þessu umræðustigi. Það er sérstaklega eitt atriði í frv., sem ég vildi þó vekja athygli á nú þegar. Það er ákvæði í kaflanum um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis í 16. gr. frv. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Nú leggur sveitarfélag fram fé til íbúðabygginga í því skyni að útrýma heilsuspillandi húsnæði, annaðhvort óafturkræft framlag eða lán og skal þá ríkissjóður lána jafnháa upphæð á móti, eftir því sem fjárlagaheimild hvers árs leyfir.“

Hér er um breytingu að ræða frá núgildandi lögum, breytingu, sem ég tel vera spor aftur á bak. .Áður var það í lögum, að ríkissjóður var ekki skyldugur til þess að lána til jafns við framlag sveitarfélaganna, heldur skyldi það á ári hverju ákveðið í fjárlögum. En árið 1962 var þessu breytt í það horf, sem það er nú, að lán ríkissjóðs og framlag sveitarfélaga skuli vera jafnt. Fyrir þessu höfðu sveitarstjórnir barizt árum saman, að ég hygg. Og ég minnist þess t.d., að borgarstjórn Reykjavikur lagði á þetta mikla áherzlu 1958 og síðar og skoraði á Alþ. einu sinni eða tvisvar að breyta þessu í það horf, sem því var að lokum breytt í 1962, enda hafði reynslan orðið sú, að ríkissjóður var alltaf á eftír með sitt framlag til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, a.m.k. í Reykjavík.

Þetta tel ég ástæðu til að benda á, vegna þess að hér tel ég tvímælalaust vera stigið spor aftur á bak. Ég tel minni þörf á að ræða að þessu sinni ýmis önnur atriði, sem ég tel þó vert að athuga í nefnd og síðar. Ég skal rétt aðeins minnast á, að það er gert ráð fyrir, að lánin skuli greiðast upp á 25—26 árum. Mér finnst þessi tími mjög stuttur. Ég hefði viljað mælast til þess við hv. nefnd, hvort ekki mundi vera fært að lengja lánstímann nokkuð, þótt ekki væri nema upp í t.d. 35 ár.

Annað atriði, sem ég tel einnig varhugavert og ekki síður, er ákvæðið um, að vextir skuli breytast í samræmi við vísitöluna. Í framkvæmd gæti þetta auðveldlega reynzt þannig, að vaxtakjörin stórversnuðu frá því, sem þau eru ákveðin í upphafi, að vextir raunverulega hækkuðu verulega á tímabilinu. Ég tel þess vegna athugandi, hvort ekki ætti að undanskilja vextina þessu ákvæði um tengsl við vísitöluna, þótt sjálft lánið fylgdi vísitölunni að öðru leyti.

Hæstv. ráðh. minntist á, að það gæti verið til athugunar, hvort ekki ætti að tengja ákvæðin um vísitölu við kaupgreiðsluvísitöluna í stað framfærslu vísitólunnar og er ég alveg sammála um það. Ég tel það vert þess, að það verði athugað, hvort ekki sé sanngjarnara að tengja við kaupgjaldsvísitölu í stað framfærsluvísitölu eins og ákveðið er í frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Tilgangur minn með því að taka til máls nú var aðallega að benda á þetta ákvæði í 16. gr., sem ég tel vera spor aftur á bak. Það er atriði, sem gæti auðveldlega orðið til þess að draga úr þeirri nauðsynlegu starfsemi, sem nefnd er „útrýming heilsuspillandi húsnæðis í kaupstöðunum“.