06.04.1965
Efri deild: 63. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Um dagskrármálið almennt mundi ég láta nægja að vísa til ummæla, sem ég viðhafði við 1. umr. málsins og þeirrar ræðu, sem hæstv. félmrh. flutti við upphaf þeirrar umr. En það eru örfá atriði, sem bæði komu fram við 1. umr. hjá hv. stjórnarandstæðingum og síðar, sem ég vildi minnast á, og þá kannske örlitið víkja að nál. 1. og 2. minni hl., sem hér liggja fyrir.

Við 1. umr. málsins var m.a. á það bent, að húsnæðismálastjórn hefði litið sem ekkert gert að því að efla aðrar hliðar starfsemi sinnar, en látið allt sitt starf snúast um lánveitingamálin og sýnist þá sitt hverjum um árangurinn í þeim efnum. Það var m.a. að því fundið mjög sterklega, að húsnæðismálastofnunin hefði mjög lítið gert af grundvallarrannsóknum og lítið eflt tækninýjungar og tilraunabyggingar og annað slíkt. Það er út af fyrir sig rétt, að allt fram til síðustu ára og jafnvel síðustu mánaða hafa fjárráð stofnunarinnar ekki verið slík, að hægt væri að helga sig öðru verkefni en útlánunum og hefur gengið nægjanlega erfiðlega þar, þó að stór skref hafi verið stigin á s.l. 3—4 árum í bataátt í þeim efnum. Hitt ber að hafa, sem sannara reynist og rétt er, að það er staðreynd, að á síðustu 3–4 árum hefur stofnunin varið 2.4 millj. kr. þrátt fyrir þröngan efnahag til tilraunabygginga, stöðlunar á ýmsum hlutum byggingarefnishluta, tækninýjunga og rannsóknarstarfsemi, en húsnæðismálastjórn hefur nú nýlega ákveðið að leggja til byggingarefnarannsóknardeildar háskólans fyrir þetta ár 400 þús. kr., en þá deild atvinnudeildar háskólans er nú verið að endurreisa og við hana eru mjög miklar vonir tengdar um starf í framtíðinni. Þetta vildi ég, að kæmi fram, þannig að umr. um þetta mál ljúki ekki svo, að sannleikurinn um það lægi ekki fyrir.

Þá er hitt atriðið, sem einnig var minnzt á og þó allmiklu meira rætt í blöðum hv. stjórnarandstæðinga að lokinni þessari umr., að við loforð júní samkomulagsins um afgreidd lán hefði ekki verið staðið. Ég held, að ég hafi tekið það fram í minni ræðu þá og reyndar fleiri af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., að þegar hefur verið veitt upp í hið umrædda loforð júní samkomulagsins, þ.e.a.s. 250 millj. kr. loforðið, 185 millj. kr. Eftir er að veita 65 millj. kr., en loforðið hljóðaði upp á það, að fyrir 1. júní 1965, þ.e.a.s. þessa árs, hefði þetta fjármagn verið afgreitt. Það er óhætt að upplýsa það nú, að með aðstoð Seðlabankans væri mögulegt að hefja þá síðustu lánveitingu, sem uppfyllti þetta umrædda loforð, nú þegar eða allra næstu daga, ef ekki væru sýnilegar breytingar á gildandi löggjöf, þær breytingar, sem við erum nú hér að ræða. En af þeim breytingum, sem frv. gerir nú þegar ráð fyrir, hvað þá þeim, sem kynnu að verða á síðari stigum málsins hér á hv. Alþingi, er ljóst, að prenta verður upp öll skuldabréf lántakenda og breyta þeim, áður en afgreiðsla næstu lánveitinga getur farið fram. En fjárhagsins vegna getur hún hafizt innan fárra daga, eins og ég sagði áðan, en afgreiðsla á þeim lánum getur ekki átt sér stað, fyrr en frv. hefur endanlega verið afgreitt frá Alþ. Þetta held ég, að sé nauðsynlegt, að hv. þdm. viti, því að ég vil ekki væna neina þeirra um það, að þeir vilji tefja fyrir afgreiðslu þessa lánsloforðs, enda var svo frá því gengið, að þeir, sem lengst höfðu beðið, þ.e.a.s. þeir, sem áttu fullgildar umsóknir fyrir 1. apríl 1964, sætu fyrir þessum peningum. Fullar líkur eru á, — það er ekki enn þá fullljóst, — að hægt verði að afgreiða alla, sem áttu umsóknir á þeim tíma, þ.e.a.s. fyrir 1. apríl 1964, með uppfyllingu þessa lánsloforðs og þó kannske aðeins rúmlega það. En endanlega verður ekki séð um það fyrr, en næsta lánveiting hefst, sem væntanlega yrði þá þegar í kjölfar samþykktar þessa frv.

Þessar tvennar upplýsingar vildi ég að kæmu fram nú þegar, til þess að þær lægju fyrir mönnum í umr. um málið.

Af þeim nál., sem fyrir liggja, — ég hef því miður ekki átt þess kost að hlýða á framsöguræðu beggja minni hl. heilbr.– og félmn., en af nál., sem fyrir liggja og þeim umr., sem ég hef heyrt, skilst mér, að það sé einkum tvennt, sem hv. frsm. hafa við þetta frv, að athuga. Það er í fyrsta lagi, að lán skuli vera vísitölubundin og í öðru lagi, að sett skuli það skilyrði fyrir lánum, að um þau sé sótt, áður en framkvæmdir eru hafnar og það sé, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það, allt of fortakslaust skilyrði.

Varðandi fyrra atriðið, þ.e.a.s. verðtryggingu lánanna, vildi ég aðeins segja það, að um það atriði sem og önnur í frv. verður það ekki með neinum rétti sagt, að það sé ekki fyllilega í samræmi við júní samkomulagið, þá yfirlýsingu, sem fjallaði um húsnæðismál í því samkomulagi, enda var fullt samkomulag milli okkar, sem sátum í því tilfelli ríkisstjórnar megin við borðið og hinna, sem mættir voru fyrir hönd verkalýðssamtakanna, um þessi atriði. Grundvallarástæðan til verðtryggingarinnar er einfaldlega sú, að kaupgjaldsvísitalan var sett í gang á ný og þau tvö atriði í kjarasamningnum og þessum húsnæðismálakafla hanga því algerlega saman og það eitt, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði hér áðan, að lesa upp mögulega hækkun á, hvað verðtryggingin mundi auka útgjöld lána í ársgreiðslum þeirra, er því ekki nema önnur hlið málsins. Til þess að vera fullkomlega heiðarlegur í slíkum málflutningi þurfti hann að segja okkur, hvað kaupgjald mundi hækka á þeim tíma, sem hann gerði samanburð á. En ég hygg, að það haldist vel í hendur, enda til þess ætlazt og grundvallarhugsunin í því samkomulagi, sem gert var, hinu margnefnda júní samkomulagi. Ég skal svo láta útrætt um það atriði.

En það atriði, sem mér skilst, að báðir aðilar leggi mikinn þunga í, er skilyrðið um fyrir fram umsóknir, að menn sæki um, áður en þeir hefji framkvæmdir, sem einnig var allverulega til umr. hér við 1. umr. málsins. Það gildir sama um það atriði og hið fyrra, sem ég gat um, að það er einnig ákveðið í júní samkomulaginu, að lánsloforð skuli gefið fyrir fram fyrir öllum lánum, sem stofnunin veitir. Lánsloforð verður ekki gefið fyrir fram, nema lánsumsókn liggi fyrir, það er ofur einfalt mál, þannig að það ákvæði er því fyllilega í samræmi við hið margnefnda samkomulag. En hver er þá ástæðan til, að það komi þar inn? Jú, hún er í fyrsta lagi sú, að grundvallarhugsunin í þessu skilyrði er einfaldlega þetta: Það, sem hefur bitnað langverst á lánsumsækjendum, að ekki sé talað um öllu stjórn og starfsliði stofnunarinnar, er hin langa biðröð umsækjenda, sem virtist á tímabili nær óyfirstíganleg og það sáust í umferð innan stofnunarinnar fyrir ekki lengra, en 5 árum, þriggja og fjögurra ára gamlar umsóknir, allt frá því að stofnunin var sett á fót. Síðan hefur húsnæðismálastjórn í skrefum eftir fjárhagsútlánagetu sinni reynt að setja inn í lánveitingarnar tímasetningar, þannig að hægt hefur verið að stytta þessa biðröð allverulega, og er nú þannig komið, eins og ég áðan sagði, að líkur eru á því, að eftir næstu lánveitingu verði þó ekki nema um ársbirgðir umsókna fyrirliggjandi. Nær þessu marki hefur stofnunin aldrei komizt og ef það er meining manna að lofa ekki meiri lánum, en hægt er að standa við, verður að hafa þennan hátt á, af þeim sökum einum. Önnur röksemd er og fyrir þessu skilyrði og hún er sú, að húsnæðismálastjórn verður árlega að gera kröfur á hendur ríkjandi ríkisstj. um fjárútveganir og leggja sín eigin plön um það, hver fjárútlánageta hennar verði næsta ár og gefa sín loforð í samræmi við það. Allar slíkar áætlanir eru gersamlega út í loftið, nema fyrir liggi lánsumsóknir. Á þeim verður að byggja allar slíkar áætlanir. En þær eru nauðsynlegur liður í því að láta menn vita fyrir fram um lánsmöguleikana. Hingað til hafa menn hangið í þessari óvissurólu, svo að árum skiptir, án þess að hafa nokkra minnztu hugmynd um, hvenær að þeim kæmi.

Til gamans skal ég aðeins segja frá því, að það var fyrir u.þ.b. 2–3 árum, 2 árum að ég hygg, þá gekk sú saga, sem því miður var ekki sönn, að húsnæðismálastjórn væri í þann veginn að ljúka við að afgreiða allar fyrirliggjandi lánsumsóknir hjá sér. Og mér er sagt, að þessi stóri áfangi, sem því miður var ekki sannur, hafi verið til umr. hér á mannfundi nokkrum og þá hafi einn af þeim, sem tóku til máls, sagt: Hvernig á þá að segja, að hægt sé að gera nokkrum manni greiða, ef þessum áfanga verður náð? — Hvort sem þessi saga er sönn eða ekki, vil ég samt lýsa því yfir, að ég væni hvorugan frsm. minni hl. um að vilja skapa slíkt ástand. En óhjákvæmilega þýðir riftun þessa skilyrðis eða niðurfelling þess það að viðhalda sama glundroða, æ lengri biðröð eftir þessum lánum, æ fleiri hálfbyggðum húsum, sem í öryggisleysi er verið að reyna að mjaka áfram án nokkurrar vitundar um, hvenær að lánveitingu komi, ef þetta verður niður fellt. Þetta er beinlínis gert til þess, að hægt sé að segja þeim umsækjendum, sem á annað borð er fært að lofa og undir lánareglur heyra, að þeir geti fengið lánið afgreitt í tvennu lagi, eins og júní samkomulagið segir til um, þegar þeir hafi komið íbúðum sínum eða húsum í ákveðið byggingarástand. Á sama hátt þýða till. þeirra, þessara ágætu manna, um hækkun á þessum lánum, — ég skal ekki vefengja það eina einustu sekúndu hér, að það yrði þörf á því að hafa þessi lán miklu hærri, en frv. gerir ráð fyrir, — en miðað við þá fjáröflun, sem til þessarar starfsemi á að verja og mögulegar tekjur er ýtrast hægt að komast í þá upphæð, sem frv. gerir ráð fyrir, ef standa á við gefin loforð. Verði lánin hækkuð, á húsnæðismálastjórn um það tvennt að velja að geta ekki staðið við skuldbindingar eða loforð frá fyrrnefndu samkomulagi um 280 þús. kr. lán til 750 íbúða á ári og fækka lánunum — eða hefja gamla leikinn á ný, lengja biðröðina. Það lætur ákaflega vel í eyrum að tala um að hækka lánin og æskilegt væri að geta komið lánum til samræmis t.d. við nágrannaþjóðir okkar, þar sem lánin eru upp í 60—80% til enn lengri tíma en við gerum. En þessi óskhyggja verður að byggjast á einhverri raunhæfni. Hún verður að byggjast á því, að hægt sé að standa við gefin loforð, því að ég fullyrði það enn og aftur og hv. síðasti ræðumaður, sem er starfandi læknir hér í bænum, er eins vel kunnugur því og ég, hve geysilega niðurdrepandi áhrif hinn langi biðtími hefur haft á húsbyggjendur ásamt endalausri þrælkun í yfir— og næturvinnu við að koma þessum íbúðum sínum áfram.

Við höfum ekkert gagn af því að fjölga hálfbyggðum húsum. Við þurfum að tryggja það, að byggingartíminn verði skemmri. Við gerum það ekki með því að ýta sem flestum af stað út í óvissuna. Þeir, sem fara af stað og hyggja á lántökur hjá þessari stofnun, verða að vita að, að þeim komi, þegar þeir hafi uppfyllt sin skilyrði. Annars erum við vitandi eða óvitandi, sem enginn okkar getur eftir þessar miklu umr. lengur skýlt sér á bak við, að lengja þennan biðtíma á ný, búa til langar biðraðir, sem hafa verið helzti og höfuðágalli á allri þessari starfsemi frá öndverðu. Og ég vil ekki að óreyndu væna neinn þessara manna, sem þó halda hinu gagnstæða fram, um það, að þetta vaki fyrir þeim, að þetta yrði óhjákvæmilega afleiðingarnar.

Ég vil jafnframt skýra frá því, að þær tekjur, sem frv. gerir ráð fyrir til þess að standa við fyrirheit um 750 íbúðir á ári, eftir að þessu ári lýkur, ef hægt verður þá að vinna við allar fyrirliggjandi umsóknir, væri það út af fyrir sig stór sigur og það stærsta skref, sem stigið hefur verið í bataátt, frá því að þetta kerfi tók til starfa. Og það eiga jafnframt að vera möguleikar í framtíðinni til hækkunar á þessum föstu tekjustofnum, sem jafnframt ættu þá að skapa möguleika á hærri lánum. En miðað við tekjurnar, eins og þær eru í dag og eru þá miðaðar við það mikla bjargræðisár, árið 1964, sem var góðæri til lands og sjávar, verður ekki hægt að leggja stærri skuldbindingar á stofnunina, en hér er gert ráð fyrir og að ganga út yfir það þýðir annað tveggja, nema hvort tveggja komi til, að lengja biðröðina á ný, skapa sama óvissuástandið fyrir lántakendur og því miður hefur ríkt of lengi og er ekki jafnað um enn — eða hitt að fækka lánunum.

Þetta eru þau tvö atriði, sem ég vildi sérstaklega gera hér að umræðuefni. En vegna þess að mér er kunnugt um það, að hv. n. hyggst taka málið til athugunar á milli 2. og 3. umr., vildi ég hér að lokum aðeins gefa henni smáábendingu frá mér persónulega. Ef við miðum við, sem ég vona, að við séum allir sammála um, að frv. hljóti endanlega afgreiðslu, áður en þing lýkur störfum, sem væntanlega yrði í næsta mánuði, á húsnæðismálastjórn ekki eftir nema 10 mánuði af kjörtímabili sínu. Og ég teldi það eðlilegt með hliðsjón af því, að frv. gerir ráð fyrir kerfisbreytingu og að nýtt kerfi eigi að taka við með breyttum starfsháttum, þá byrji á því ný stjórn, þannig að ég teldi eðlilegt með hliðsjón af því og hve skammt er eftir af kjörtímabili núverandi stjórnar, að sett yrði bráðabirgðaákvæði aftan við lögin um, að ný stjórn yrði kosin fyrir næsta kjörtímabil.