08.04.1965
Efri deild: 64. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1195 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að tala almennt um þau mál, sem hér eru á dagskrá, húsnæðismálin, þó að margt mætti um þau segja og þau séu óefað meðal hinna merkustu mála, sem Alþingi hefur nú við að fást og fá mál snerti menn jafn almennt eins og þau. Þau mál eru mikið vandamál, það viðurkenna allir. Þau mál hafa verið mikið vandamál, sem hver ríkisstj. á fætur annarri hefur haft við að glíma og hefur yfirleitt ekki tekizt að leysa þar allan vanda, það skulum við líka viðurkenna. Og það er ákaflega hætt við því, að þessi mál verði vandamál framvegis, og kannske verður þetta eitt af þeim eilífðarmálum, sem við verður að glíma. Það er, hygg ég, bezt að ræða þessi mál af nokkurri hófsemi. Ég held, að það sé rétt að gera ekki of mikið úr þeim till., sem felast í þessu frv. og til bóta snúa. Ég held, að það sé sjálfsagt að viðurkenna þær. En ég held líka, að það sé mjög óvarlegt af formælendum þeirra till. að halda því fram eða láta að því liggja, að þar sé allur vandi þessara mála leystur. Það er hætt við því, að svo sé ekki og þau eigi eftir að koma til kasta Alþ. framvegis sem vandamál. En sem sagt, um þessi mál almennt ætla ég ekki að ræða, heldur er ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, sú, að ég vildi aðeins víkja hér að einni brtt., sem fyrir liggur frá hv. meiri hl. heilbr.– og félmn., en það er brtt. nr. 1 á þskj. 401. Sú brtt. er þannig vaxin, að ég vil ekki láta hana hér fram hjá mér fara án þess að óska eftir nokkrum skýringum á henni og gera við hana nokkrar aths.

Ég vil þá fyrst leyfa mér aðeins með örfáum orðum að undirstrika það, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., að þessi brtt. mundi ekki vera á réttum stað, hún eigi ekki heima í sambandi við þá lagasetningu, sem hér er á döfinni, heldur ætti hún heima í sambandi við breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt. Ég tek nú alveg undir þessa skoðun. Og mér finnst það vera ákaflega einfalt mál, svo einfalt mál, að t.d. lögfræðingar, þó að þeir deili nú um margt, ættu varla að geta deilt í alvöru um það, að þessi brtt. á ekki heima sem breyting við lög um húsnæðismálastjórn. En í þessari brtt. er mælt svo fyrir, að það skuli miða eignarskatt við gildandi fasteignamat þrefaldað, eins og þar segir, en síðan bætt svo við: „Þetta gildir þó ekki fyrir þá skattgreiðendur, sem eiga lögheimili á sveitabæjum.“ Þessi brtt. snertir ekki neitt ákvæði í húsnæðismálastjórnarl. eða því frv., sem hér liggur fyrir. Hún er að vísu viðauki við það ákvæði í þeim l., sem segir, að 40 millj. kr. skuli lagðar til þessara mála úr ríkissjóði. En hún ætti því aðeins heima í sambandi við þessi lög, að það væri gert ráð fyrir því, að myndaður væri sérstakur sjóður, húsnæðismálasjóður og þessi aukni eignarskattur ætti beint í hann að renna. En enn augljósara er það, að hún á ekki þarna heima, vegna þess að hún fjallar um og breytir efni annarra l. sem sé l. um tekju– og eignarskatt. Þar er það alveg skýrt fram tekið, — það var í 19. gr. þeirra l., ég skal nú ekki fullyrða, að það sé í sömu gr. núgildandi tekju– og eignarskattsl., — en þar stendur skýrum stöfum, að eignarskattur skuli lagður á eða miðaður við virðingu fasteigna eftir fasteignamati. Ef þessi till. verður að lögum, væri hún að breyta þessu ákvæði í tekju– og eignarskattsl. og þess vegna á hún að vera breyting við þau lög. Þetta er, held ég, ákaflega einfalt og augljóst mál. Og það ætti nú að vera hægurinn hjá fyrir hv. meiri hl. félmn. og öllu heldur þó hæstv. ríkisstj., því að þótt þessi brtt. sé nú flutt í nafni félmn., er hún þess efnis að mér dettur ekki í hug, að meiri hl. félmn. hafi tekið hana upp hjá sjálfri sér, heldur geng ég út frá því, að hún sé runnin undan rifjum hæstv. ríkisstj., — þá ætti að vera hægurinn hjá, fyrst hæstv. ríkisstj. er nú áhugamál að koma fram þessari auknu skattheimtu, að koma henni að í sambandi við breytingu á tekju– og eignarskattsl., því að margbúið er að boða það, að það standi til að breyta þeim l., og ég vil í lengstu lög vænta þess, að ekki sé horfið frá þeirri fyrirætlan, enda hefur verið skýrt frá því í blöðum, að ég ætla, að till. um það efni hafi verið lagðar fyrir viðtalsnefnd verkalýðsfélaga, þannig að það má sjálfsagt vænta þess á þessu þingi, að það komi fram frv. til breytinga á l. um tekju– og eignarskatt. Og því þá ekki að gera þessa breytingu í sambandi við þau lög og ganga frá þessu með þeim hætti?

Hæstv. félmrh. lét þess getið í sinni ræðu, að það hefði verið í ráði að lögleiða sérstakan fasteignaskatt til þess að standa undir þessum útgjöldum, en frá því hefði verið horfið. Það má fara ýmsar leiðir að sama marki. Það er horfið frá því að leggja á fasteignaskatt, en það er fundin þessi sérstæða leið að þrefalda fasteignamat á fasteignum til eignarskatts og á þannig að ná sama árangri. Þetta er að vísu nokkur orðalagsbreyting, en niðurstaðan verður kannske nokkuð svipuð að ýmsu leyti eins og það hefði verið lagður á sérstakur fasteignaskattur. Þarna er ekki gengið beint til verks, heldur farin krókaleið í skattheimtu. Það kann stundum að henta, en ekki er það nú viðfelldið, en hvað um það.

Ég hef nú aðeins bent á þetta formlega atriði í sambandi við þessa brtt., en það hefði ekki verið ástæða til þess, að ég hefði farið að standa upp sérstaklega til þess, vegna þess að það hafði hv. 1. þm. Norðurl. e. bent á og rækilega rökstutt, að þessi brtt., hvað sem efni hennar liði, ætti ekki heima í sambandi við þetta frv. En það er af öðrum ástæðum, sem ég stóð upp, og það er vegna þess efnis, sem í þessari till. felst og ég vil ekki láta fram hjá mér fara, án þess að ég óski, eins og ég sagði áðan, skýringa á því, hvað felst í þessari brtt. og ef það felst í henni, sem ég ætla og augljóst virðist nú vera eftir orðalagi hennar, þá vil ég gera aths. við það. En í þessari brtt. segir, með leyfi forseta:

„Til þess að mæta þessum útgjöldum skal miða eignarskatt við gildandi fasteignamat þrefaldað. Þetta gildir þó ekki fyrir þá skattgreiðendur, sem eiga lögheimili á sveitabæjum.“

Hér er um að ræða, eins og ég hef þegar sýnt fram á, breytingu á l. um tekju- og eignarskatt. En hér er enn fremur að ég ætla, farið inn á alveg nýja braut í skattamálum. Ég þekki þess ekki dæmi, að eignarskattur til ríkis sé misjafn eftir því, hvar skattgreiðendur eiga lögheimili. Ég þekki þess ekki dæmi. Og ég verð að draga. í efa, að þetta sé heppileg regla. Hitt eru dæmi um úr stóreignaskattsl. sællar minningar, að eignir voru metnar mismunandi til þess sérstaka eignarskatts eftir því, hvar þær voru, eignirnar og það getur út af fyrir sig verið réttlætanlegt, a.m.k. þegar um einn sérstakan skatt er að tefla, að meta eignir misjafnlega eftir því, hvar þær eru, þó að vitaskuld eigi fasteignamatið almennt að vera eftir því sníðið og við það miðað. En það var gert í sambandi við stóreignaskattsl., þá voru, eins og við vitum, fasteignir taldar á misjöfnu verði hér í Reykjavík og öðrum kaupstöðum og svo annars staðar. Hæstiréttur, sem um þetta fjallaði, hafði þau orð um þetta, ef ég man rétt, að það yrði ekki talið, að með þessum hætti væri skattþegnum mismunað svo, að það væri ástæða af þeim sökum að fella skattinn niður. En hann gaf það í skyn og það mátti kannske lesa milli línanna, að það hefði ekki mátt mismuna öllu meir, til þess að þetta stæðist. Nú er það auðsætt, að verðmæti eigna getur verið mjög mismunandi eftir því, hvar þær eru staðsettar. Það getur verið rétt hugsun í því að skattleggja þær mismunandi eftir því, þótt, eins og ég sagði áðan, fasteignamatið eigi auðvitað að vera við það miðað. En að fara inn á þá leið, sem hér er gert, að skattleggja eignirnar mismunandi eftir því, hvar eigendur þeirra eiga lögheimili, það finnst mér nokkuð einkennilegt og ég verð að segja eins og einu sinni var sagt: Er þetta hægt, Matthías? Þ.e.a.s., ef maður á heima hér uppi í Mosfellssveit, á stóreignir, fasteignir hér í Reykjavík, á kot uppi í Mosfellssveit og á þar lögheimili, þá á ekki að margfalda neitt fasteignamatið á hans fasteignum? Nei, hann á að greiða af einföldu. En maður, sem á lögheimili hér í Reykjavík, á náttúrlega að greiða af þreföldu fasteignamati þeirra eigna, sem hann á hér í Reykjavík, en líka, ef hann ætti jörð t.d. vestur í Strandasýslu, á hann að greiða af þreföldu fasteignamati þeirrar jarðar. Þetta finnst mér ákaflega einkennilegt. Ég hef að vísu ekki haft það mjög á orði, að stjórnarskráin setti skattlagningarvaldi löggjafans miklar skorður. Það hafa aðrir haft það meira á orði, en ég og dómstólarnir hafa hér komizt að þeirri niðurstöðu, að skattalög eða einstök ákvæði þeirra brytu í bága við stjórnarskrána. Og ég verð nú að segja, að miðað við þá dóma, sem hafa gengið í þeim málum, gæti maður látið sér detta það í hug, að svona skattlagningarreglur stæðust ekki gagnrýni dómstólanna. Annað er það, að jafnvel þó að þessi regla stæðist nú, held ég, að hún sé ekki skynsamleg. Ég held, að hún gæti freistað manna til þess að færa lögheimili sitt, en reglurnar um lögheimili hér hjá okkur eru ekki alfullkomnar. Það segir í l. um lögheimili, að þar skuli lögheimili manns vera, sem maður hefur bækistöð eða dvelst að jafnaði í tómstundum sínum og hefur persónulega muni sína, bækur og fatnað og því um líkt, þannig að það eru engin vandkvæði á því fyrir mikinn fasteignaeiganda hér í Reykjavík og atvinnurekanda hér í Reykjavík að flytja upp á eitthvert kot hér í nágrenni Reykjavíkur og komast þannig á sveitabæ og sleppa þannig við þennan aukaskatt. Ég er ekki að segja, að nokkur muni gera þetta, en þarna er opnuð leið, auðveld leið fyrir menn til þess að komast fram hjá þessu ákvæði og ég held, að þannig eigi lagaákvæði ekki að vera úr garði gerð, að þau gefi mönnum færi á þessu. Og í annan stað vil ég benda á það í sambandi við félög, að okkar ákvæði um það, hvar félög skuli eiga heima, eru ákaflega ófullkomin. Það segir um það t.d. í hlutafélagalögunum, að það skuli tekið fram í stofnsamningi, hvar heimili og varnarþing hlutafélagsins er, þannig að eftir orðum þeirra l. ráða stofnendur hlutafélagsins, — sem sagt hluthafarnir í félaginu, — hvar það a.m.k. tilkynnir sitt heimilisfang vera. Ég er ekki að fullyrða, að það standist í öllum tilfellum, því að uppi eru kenningar um það, að það séu ýmis atriði, sem frekar eigi að miða heimilisfang félagsins við heldur en skrásetningu, en sé miðað við þetta, sem er till. og samsvarandi ákvæði er í samvinnulögum, að það er bara gert ráð fyrir því, að það sé tekið fram í samþykktum félagsins, hvar heimilisfang þess er, er það lagt á vald félaganna og félagsins að ákveða heimilisfang sitt. Það gæti vel svo farið eftir þessu, að félög, sem eiga miklar fasteignir, teldu sér hentara að eiga heima á einhverjum sveitabæ, heldur en í kaupstað. Ég sé ekki, að það sé neitt, sem hindri það. Það er ekkert í þessum ., sem hindrar það og það er ekkert í l. um lögheimill, sem hindrar það, því að eins og menn vita, eru l. um lögheimili bara um einstaklinga, en fjalla ekkert um félög. Ég verð að segja það, að ef þessi merking er í þessari tillgr., sem mér sýnist vera alveg augljóst, því að það er ekki hægt að lesa það öðruvísi, er ég alveg forviða á þeirri lagasetningu og ég efast um, að menn hafi gert sér grein fyrir því, hvað í þessu felst.

Hitt er allt annað mál, ef menn hefðu viljað leggja mismunandi mat á eignirnar eftir því, hvar þær eru. Það er allt annað mál a.m.k., og fyrir því má vissulega benda á viss rök vegna þess, hvað við vitum að fasteignamatið hér er of lágt og alveg óviðunandi og ég er út af fyrir sig ekki að telja það eftir, að fasteignaeigendur legðu meira af mörkum í þessu skyni, heldur en þeir gera nú. Og ég get alveg tekið undir það, að það sé hreint hneyksli, hvað fasteignir eru metnar lágt til skatts. En það á auðvitað að fara þá réttu og einföldu leið í því efni að láta fasteignamatið starfa og breyta fasteignamatinu. Það er hin rétta leið í þessu efni og það er náttúrlega alveg óvíðunandi að láta þau mál vera í þeim ólestri, sem þau hafa verið. Það á auðvitað að leiðrétta fasteignamatið og ná þannig fram réttri viðmiðun í þessu efni. En látum svo vera, á meðan það er ekki gert, að það væri þá miðað við það, hvar fasteignirnar eru. En að miða við það, hvar eigendur fasteignanna eru búsettir, er fyrir ofan og neðan minn skilning.

Mætti ég í þessu sambandi minna á það, úr því að ég er farinn að tala um mismunun á skattþegnum, að ég man ekki betur en hér í Reykjavík yrðu í vetur umr, um það í bæjarstjórn Reykjavikur og kom fram till. frá framsóknarfulltrúunum í bæjarstjórn, ef ég man rétt, að við álagningu fasteignagjalda yrði gjaldþegnum hér í Reykjavík mismunað á þá lund, að fasteignagjöldin yrðu ekki hækkuð hjá mönnum, sem ættu íbúðir, sem væru innan einhverrar tiltekinnar stærðar, — ég man nú ekki, hvar hún var, kannske 100 fermetrar eða eitthvað því um líkt eða kannske hafi verið miðað við rúmmál, en það skiptir ekki máli. En hvað gerði bæjarstjórn Reykjavíkur við þessa till.? Henni var vísað þar frá, af því að hún var talin fela í sér þá mismunun á gjaldþegnum, sem ekki stæðist. Og ég er alls ekki að segja, að þessi úrskurður bæjarstjórnar Reykjavíkur hafi verið rangur, alls ekki. En ef þessi úrskurður hjá bæjarstjórn Reykjavíkur er réttur, hvað mætti þá segja um þá mismunun, sem í þessu felst?

Ég vil nú mælast til þess, að hv. félmn, taki þessa till. til athugunar, annaðhvort taki hana aftur nú við þessa umr. eða taki hana til athugunar fyrir 3. umr., því að ég held, að það sé ábyggilega óeðlilegt að láta ganga atkv. um svona till. Það má að vísu segja, að það megi taka hana til athugunar, eftir að hún hefur verið samþykkt hér við 2. umr., taka hana til athugunar fyrir 3., en það er samt heldur óeðlilegra að vera að samþykkja hana og gæti þá kannske staðið í vegi fyrir því, að menn teldu sig geta horfið frá fyrra samþykki. Ég vildi þess vegna mælast til þess, að þetta mál yrði athugað, ekki af því, að ég hafi hugsað mér að greiða þessari till. atkv., hvernig sem hún fer. Þetta er tiltölulega einfalt mál fyrir mig að því leyti til, að ég mun greiða atkv. gegn henni. En ég held, að það sé hæpið af meiri hl. að samþykkja till., sem svona er úr garði gerð og í öllu falli vil ég leyfa mér að mælast til þess að heyra skýringar á þessu ákvæði frá annaðhvort hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. eða hæstv. félmrh., hvað fyrir þeim vakir með þessari lagasetningu, hvernig þeir geta verið öruggir, miðað við reynsluna, að svona ákvæði standist, af því að þetta ákvæði kemur hér fram skýringalaust. Það er flutt að formi til af meiri hl. heilbr.- og félmn. og í nál. því, sem fylgir með af hans hendi, eru engar skýringar gefnar til glöggvunar á þessari tillögu. Á þetta vildi ég, herra forseti, aðeins leyfa mér að benda við þessa umr., af því að mér fannst þetta ákvæði þannig frá gengið, að ég vildi ekki sitja þegjandi undir því, áður en atkv. væru þar um greidd.