13.04.1965
Efri deild: 69. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Við 1. og 2. umr. þessa máls var sýnt fram á og það með óyggjandi rökum, að íbúðalán húsnæðismálastofnunarinnar með 4% ársvöxtum og vísitölubindingu verða að verðbólgunni óbreyttri íbúðabyggjendum miklu þyngri í skauti en kjörin, sem þeir eiga nú við að búa. Til þess að létta að nokkru þessa auknu byrði lagði ég til við 2. umr., að einungis árleg afborgun lánanna skyldi breytast samkv. vísitölu, en vaxtagreiðsla og kostnaðar vera óháð vísitöluhækkun. Þessi till. mín var felld. Þá bar ég fram till. um, að heildargreiðsla vaxta og kostnaðar mætti ekki fara fram úr því, er svaraði til 81/4 % vaxta án vísitölubindingar. Hún var einnig felld af hv. stjórnarliði. Ég minni einnig á, að sömu örlög og báðar þessar till. hlaut 3. brtt., sem fór í sömu átt, en hún var flutt af þeim 1. þm. Norðurl. e. og hv. 1. þm. Vesturl. Hér er að mínum dómi um svo augljóst mál að ræða, að það á að gera kjörin verri, sé reiknað með áframhaldandi verðbólgu. Mér finnst satt að segja mjög ótrúlegt, að hæstv. ríkisstj. vilji gera hlut viðskiptamanna húsnæðismálastofnunarinnar, stórum lakari, en hann hefur verið og margfalt verri, en annarra húsbyggjenda. Þess vegna leyfi ég mér að bera fram brtt. við hér við 3. umr., till., sem fer í svipaða átt og hinar, nefnilega þá að létta undir með húsbyggjendum, ef svo skyldi fara, að verðbólgan héldi áfram næstu árin, eins og raunar sennilegast er.

Þessi brtt. mín er á þskj. 449 og er þess efnis, að þeir, sem lán hljóta hjá húsnæðismálastofnun, verði ekki þvingaðir til miklu verri kjara en nú tíðkast. Ég legg til, að þeim sé gefinn kostur á að velja um, hvort þeir vilji taka lánin í fullu samræmi við reglur laganna með 4% ársvöxtum og vísitölubindingu eða hvort þeir vilji taka þau með 71/4 % vöxtum og án vísitöluálags, en það munu vera svipuð lánakjör og húsbyggjendur nú hafa hjá húsnæðismálastofnuninni. Ef nú þessi brtt. verður einnig felld, hlýt ég að draga af því þá ályktun, að það hafi frá upphafi verið ætlun hæstv. ríkisstj. að skerða lánakjör húsnæðismálastofnunar til stórra muna, en bæta þau ekki, svo framarlega sem verðbólgan héldi áfram. En nú er það einmitt hæstv. ríkisstj., sem hratt af stað nýrri verðbólgu, eftir að júní samkomulagið er gert og sú verðbólga hefur breytt grundvelli samkomulagsins, eins og margbent hefur verið á. Til þessa verður hæstv. ríkisstj. að taka tillit, nema það sé þá ásetningur hennar að níðast á efnaminnstu íbúðabyggjendum í stað þess að létta undir með þeim.

Það er raunar furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli beita sér fyrir þessu máli jafnharkalega og raun ber vitni um. Bændur landsins fá lán til byggingar íbúðarhúsa. Þau lán fá þeir frá stofnlánadeild landbúnaðarins. Ekki hefur hæstv. ríkisstj. beitt sér fyrir því, að þessi lán verði tengd vísitölu, enda er talið líklegt, að bændur muni lítt kæra sig um þau tengsl og það enda þótt vextir yrðu stórlega lækkaðir og ég lái þeim það ekki. Í júní samkomulaginu var því lofað hátíðlega af hæstv. ríkisstj., að komið skyldi á nýju kerfi íbúðarlána fyrir almenna lífeyrissjóði. Ekkert bólar á lagafrv. um þetta efni. Hæstv. félmrh. tæpti á því hér í hv. d. nýlega, að ríkisstj. hefði í huga að verðtryggja öll löng lán, en von á slíku frv. væri ekki á næstunni. Það er sem sé ekki flýtt sér að neinu í þessu efni öðru en því, að lántakendur húsnæðismálastofnunarinnar fái ekki að sleppa. Þeir einir eru teknir út úr, þeir einir skulu ekki fá að hagnast lengur á verðbólgu í landinu.

Á þetta vildi ég benda og með till. á þskj. 449 gera úrslitatilraun til þess að koma vitinu fyrir hæstv. ríkisstj. í þessu efni.