20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal enn einu sinni endurtaka það, sem ég hef sagt út af ræðu hv. 1. þm. Norðurl. v. Hann vill ekki sætta sig við staðreyndir, sá hv. alþm. Hvað eru vaxtakjör af láni? Heyrir það ekki undir vaxtakjör af láni, hvort það á að greiðast með vísitöluálagi eða ekki? Vaxtakjör eru í fyrsta lagi, hvað rentufóturinn á að vera, í öðru lagi lánstíminn og í þriðja lagi, hvort um er að ræða vísitölubundið lán eða ekki. Það heyrir óneitanlega undir vaxtakjör og heimildin til að breyta þessum vaxtakjörum er skýlaust veitt í 6. gr. núgildandi l. um húsnæðismálastjórn. Ég skal ekki fara lengra út í og ekki endurtaka oftar þetta. Þetta liggur alveg ljóst fyrir, enda var það svo, að þetta var þrautrætt hjá félmrn. af þeim mönnum, sem þar mega gerst um vita og niðurstaðan var þessi, sem ég nú hef sagt.

Þá vildi hv. 3. þm. Vestf. ekki fallast á, að sú lánveiting, sem hér væri stofnað til, væri hagkvæmari lántökum eða húsbyggjendum, heldur en lánveitingar til þeirra hefðu verið nokkru sinni áður. Ég skal nú ekki þreyta hann með því að fara út í að ræða þetta, en ég held óhikað fram því, að þessi lánveiting sé meiri, en hún hefur nokkru sinni áður verið. Hann vitnar í og heldur fram sinni gömlu röksemd, sem oft hefur komið fram hér, en er þó langt frá því að vera haldgóð, að byggingarkostnaðurinn í krónutölu hefur vaxið á þessu tímabili. En það hefur fleira vaxið en byggingarkostnaður. Það hafa t.d. líka vaxið launagreiðslur almennings og möguleikar til að standa undir auknum byggingarkostnaði þar með vaxið. Það er þess vegna ekki nokkur leið að bera saman byggingarkostnaðinn í krónutölu og lánveitingarnar í krónutölu, heldur verður sá eini rétti samanburður að bera saman, hvað lánið er mikill hluti af byggingarkostnaði hverju sinni, og ef hv. þm. vill reikna út, hvað 70 þús. kr. lán á árunum 1956–57 var mikill hluti af byggingarkostnaðinum þá og hversu mikill hluti af byggingarkostnaðinum 280 þús. kr. eru nú, þá hygg ég, að hann komist að þeirri niðurstöðu, að þetta framlag húsnæðismálastjórnar nú eða lánveitingar hennar nú séu stórum hagstæðari en áður hefur verið.

Það var raunar aðalerindi hv. þm. í ræðustólinn að gagnrýna það ákvæði, sem í frv. er, að það verða ekki veitt lán til annarra, en þeirra sem hafa fengið lánsloforð fyrir fram.

Í fyrsta lagi vildi ég um þetta segja það, að þetta ákvæði er í samkomulaginu, sem gert var í júnímánuði s.l. Þar er sagt, að loforð fyrir lánum skuli veitt fyrir fram, og náttúrlega verður þá að sækja um þau, til þess að það loforð sé hægt að gefa. En hugsunin, sem á bak við þetta liggur, er sú, að það verði reynt að hafa hemil á byggingarstarfseminni innan vissra takmarka. Það hefur verið talið að fróðustu manna yfirsýn, að það sé hæfilegt, að byggðar verði 1.500 íbúðir á ári og þar af styrki eða láni húsnæðismálastjórn til 750 íbúða. Nú hefur byggingarstarfsemin verið að því leyti mjög óregluleg, að það hafa byrjað kannske yfir 2.000 manns á einu ári á sinni byggingarstarfsemi og orðið svo að bíða eftir lánum í 2–3 og kannske 4 ár. En með þessu er hugsunin sú, að ekki verði hafin bygging á fleiri íbúðum, en lán eru veitt til, enda sé byggingarþörfinni fullnægt með þeim íbúðafjölda. Það getur vel verið hastarlegt, að allir geta ekki byrjað á þeim tíma, sem þeim þóknast að byrja, en með því móti er ekki hægt að fá skipulag á þessa byggingarstarfsemi, og það geta allir sagt sér það sjálfir, hvort það er ekki heppilegra að veita lán til 750 íbúða á ári, ef 750 menn hafa byrjað á árinu, heldur en að veita lán til 750 íbúða á ári og kannske yfir 2.000 manns hafa byrjað samtímis og þess vegna dregst í 3 ár að þeir fái lán. Þetta finnst mér mjög auðskilið mál og var einn af grunnþönkunum í því samkomulagi, sem gert var og tilraun til þess að reyna að koma skipulagi á byggingarstarfsemina, að ekki byrjuðu allt of margir í einu og lánveitingar til þeirra drægjust úr hófi, þó þannig, að ekki kæmu í heild fleiri íbúðir út úr byggingarstarfseminni heldur en hefðu fengizt, ef það hefðu ekki byrjað nema 750 í einu. Ég held, að það sé heilbrigð hugsun, sem á bak við þetta liggur og það sé misskilningur hjá hv. þm. að vera að gagnrýna hana.