20.04.1965
Neðri deild: 70. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1074)

147. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég skal aðeins segja nokkur orð út af fullyrðingum hv. 3. þm. Vestf. Hann segir, að maður í lægsta launaflokki Dagsbrúnar eigi erfitt með að byggja og það er vitaskuld satt og rétt og það hefur hann átt ekki einasta núna, hann hefur alltaf átt erfitt með það og fyrir þá menn, sem í þeim launaflokkum eru, eru verkamannabústaðirnir fyrst hugsaðir og eru enn. Það er og getur náttúrlega verið fyrir mann með þessum tekjum, sem hann nefndi, mjög erfitt að standa undir kostnaði, sem hann verður að gera vegna kaupa á íbúð í verkamannabústað, þó að það sé auðveldara en greiða lán frá húsnæðismálastjórn.

En það, sem ég vildi halda fram, er það, að hlutur húsnæðismálastjórnar í byggingarkostnaði sé meiri, en hann var áður. Byggingarkostnaður frá árinu 1958 og til dags dato hefur hækkað um 77%. Kaup verkamanna í lægsta launaflokki Dagsbrúnar, sem hv. þm. nefndi, hefur líka hækkað nákvæmlega um 77%, eins og byggingarkostnaðurinn hefur vaxið. Og vita þó allir, að ýmsar launastéttir í landinu hafa fengið laun sín hækkuð meira en þetta.

1958 var lánveiting hjá húsnæðismálastjórn 70 þús. kr. og síðan hefur byggingarkostnaðurinn hækkað um 77%, en lánveiting húsnæðismálastjórnar hefur hækkað úr 70 þús. kr. upp í 280 þús. kr., þ.e.a.s. hún hefur hækkað um 300%, á sama tíma sem byggingarkostnaðurinn hefur hækkað um 77%.

Ég tel þess vegna, að það megi vissulega finna þeim orðum stað, að hlutur veðlánakerfisins nú í byggingarkostnaði sé meiri en hann hefur nokkru sinni áður verið.