26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur nú fengið aðrar viðtökur hjá hv. stjórnarandstæðingum, en ég hafði búizt við. Hv. stjórnarandstæðingar, sem hafa talað, eiga það sameiginlegt að hafa enga till. fram að bera til lausnar þessa máls og þeim báðum finnst það viðunandi, að verkfallið haldi áfram, í rauninni ekkert við það að athuga. Annar ræðumanna lýsti því yfir, að hann mundi greiða atkvæði gegn því, að málið færi í n., að það færi til 2. umr., sem sagt hann vill ekki, að málið fari í n. Það er ekki aðeins það, að þessi hv. þm. lýsi því yfir hér í umr., að hann hafi ekkert til málanna að leggja til lausnar þess og hann vill ekki heldur fá málið í n. til athugunar, ef einhver nm. við nánari athugun málsins hefði eitthvað fram að bera. Þetta er ábyrgðarleysi. Þetta er meira ábyrgðarleysi, en leyfilegt er að hafa hér innan þingsalanna, og ég hefði alls ekki búizt við því af þessum þm., að afstaða hans lýsti sér á þennan hátt.

Eitt er það að hafa skoðun á máli, að vera á móti þessu frv. út af fyrir sig, — en að vilja ekki, að það fari í n. til athugunar fyrir hans eigin flokksmenn og aðra hv. þm., það út af fyrir sig er fyrir neðan allar hellur og alls ekki leyfilegt og eftir þessum málflutningi verður tekið og veit ég ekki, hverju þetta á að þjóna. Ég gæti vel trúað því, að sá hópur flugmanna, — eða ég vænti þess, að það séu flugmenn, sem eru hér uppi á pöllunum, — þeir taki einnig eftir þessu, en auðheyrt er, að þessir tveir hv. ræðumenn, sem hér hafa talað, keppast um að reyna að ná hylli þessara ágætu manna með því að gerast nú talsmenn þess, að þetta frv. verði ekki samþ., gerast talsmenn þess, að verkfallið haldi áfram.

Ég sagði hér í dag í framsöguræðu minni, að þegar tveir deila, þá veldur sjaldan annar aðili öllu. En það er staðreynd, að hér er deila, sem hefur ekki enn tekizt að leysa með samningum, þótt sáttasemjari hafi haldið sex eða sjö sáttafundi — og hann hafi haldið fjóra eða fimm sáttafundi, áður en þetta frv. kom fram, þannig að það er náttúrlega á engan hátt hægt að segja það, að frv. hafi spillt fyrir samkomulaginu. Og enginn vafi er á því, að ef aðilar hefðu viljað frjálsa samninga, grundvöllur hefði verið fyrir því, þá ætti frv. miklu frekar að flýta fyrir því, heldur en að seinka, að samningar tækjust. En staðreyndunum verður ekki neitað og eins og ég sagði í dag: Þetta er ekki deila, sem snertir aðeins þessa fáu flugmenn, sem hér er um að ræða og Loftleiðir, — þetta er deila, sem snertir þjóðfélagið allt og skaðar þjóðfélagið allt og það eru þúsundir manna, sem hafa lífsframfæri sitt hjá þessu félagi. Þetta félag og flugfélögin íslenzku bæði eru í keppni við erlend auðfélög, og það er vitanlega alveg rangt, eins og sagt hefur verið hér í umr., að þessi íslenzku flugfélög séu auðfélög. Því er nú verr, að við getum ekki sagt það með réttu. Bæði þessi félög hafa orðið að tefla djarft fjárhagslega og þau þola ekki mikil áföll, en það væri ekki aðeins skaði fyrir flugmennina, ef illa færi fyrir þeim, heldur væri það skaði og söknuður fyrir þjóðina alla.

Mér fannst koma fram hjá hv. 6. þm. Sunnl., þegar hann sagði, að það hefði ekki verið unnið æskilega að því að leysa þessa deilu, þá fannst mér koma fram ómaklegar ásakanir á hendur sáttasemjara, sem hefur gert allt, sem í hans valdi stendur, til þess að fá lausn á þessu máli. Ég held, að þetta séu alveg ómaklegar aðdróttanir og þetta frv. hefði ekki verið flutt, ef líkur hefðu verið fyrir því að hans dómi, þegar hann var búinn að kynna sér viðhorf deiluaðilanna, ef það hefði verið talið líklegt, að samningar væru á næsta leiti. Það er vegna þess að sáttasemjari sá ekki möguleika á lausn deilunnar um það leyti, sem frv. var flutt, að það var fram sett.

Hv. 6. þm. Sunnl. spyr, hvort flugmenn hafi beðið um gerðardóm. Flugmenn hafa ekki beðið mig um gerðardóm. En flugmenn vilja lausn deilunnar. Það mætti segja mér, að flugmenn væru meira á mínu máli, en hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað. Það mætti segja mér, að flugmenn hefðu skilning á því, að hér er verið að skera á hnút, sem var óleysanlegur. Og þetta frv. er ekki flutt af illvilja í garð flugmanna. Það er ekki flutt af skilningsleysi á þeirra hlutverki. Það er ekki flutt af því, að það sé talið eftir, sem þeir fá í kaup.

Kröfur flugmanna, það er deilt um það, hverjar þær hafi verið. Það er sagt, að það hafi verið skrifað óskynsamlega um þetta mál. Það má vel vera. Það er nú svo margt skrifað, og ég held, að það séu fá blöð, sem hægt er að undantaka algerlega með það, að það sé aldrei skrifað neitt vafasamt í þau. Það held ég, að við getum sagt um Þjóðviljann, Tímann og fleiri blöð. Út af fyrir sig geta blöðin verið ágæt, jafnvel þótt það komi óskynsamlegar greinar við og við í þeim. En vegna þess að kröfur flugmanna voru gerðar að umtalsefni og þær voru eitthvað véfengdar, þá hef ég þær hér á pappír og það er alveg hlutlaust frá sagt, og ég vil — með leyfi forseta — leyfa mér að lesa það hér upp.

Fyrstu kröfur flugmanna og það er náttúrlega alltaf, þegar gerðar eru kröfur, þá eru þær dregnar við hún og það er gert ráð fyrir að slaka til, þegar farið er að semja, — fyrstu kröfur flugmanna voru, að grunnkaup á mánuði skyldi vera 38 þús. eða árskaup 456 þús. Flugstundatrygging, það eru 60 stundir er 15 þús. á mánuði eða 180 þús. á ári. Dagpeningauppbót 4.167 kr. á mánuði, það eru 50 þús. kr. á ári. Þessi dagpeningauppbót, það hefur stundum verið sagt, að það væri í rauninni kauphækkun, það var a.m.k. í fyrstu sett þannig fram, dulin kauphækkun með samkomulagi vinnuveitenda og flugmanna. Svo er það ný aukagreiðsla 5.000 á mánuði, það eru 60 þús., og lífeyrissjóður 5.175 kr. á mánuði, það eru 62.100 kr. Þetta gerir 808.104 kr. Hér er enginn klæðnaður eða þess háttar, sem hv. 6. þm. Sunnl. var að minnast á hér í dag. Ég veit ekki, hvort á að kalla þessa liði alla beint kaup, en þetta eru greiðslur eigi að síður, þetta um 808 þús. Og hér er reiknað aðeins með 60 klst. á mánuði, eins og hámarksvinnutími leyfði skv. kröfunum, en í fyrri dæmum með 65 stundum. Flugmenn kröfðust þess nú, að hámark flugstunda á ári yrði 60 á mánuði eða ca. 660 á ári og miðað við, að möguleiki væri á að nýta flugmenn í 780 tíma, felast hér í jafnframt kauphækkanir, aukaútgjöld fyrir Loftleiðir, sem svara til röskra 15% af heildarlaunagreiðslum félagsins.

Þetta eru nú aðeins athugasemdir, en það er staðreynd, sem ég veit, að flugmenn kannast alveg við, að fyrstu kröfurnar voru þessar, og þær eru í fimm liðum.

Hins vegar hafa flugmenn slakað til og hafa lækkað kröfur sínar um 25% frá því, sem þær voru settar fram í fyrstu, og eru þá komnar niður í mánaðarlaun ca. 51–52 þús. kr. eða rúmlega 600 þús. kr. á ári. Þetta er það raunverulega í því.

Ég skal ekkert dæma um það, hvort þetta er sanngjarnt eða ekki. Látum aðra um það. Ég er ekki tilbúinn til þess að segja, að okkar þjóðfélag standist nú við að borga meira, ef aðrir eiga að fara að bera sig saman við þessa menn, en í því felst dálítil hætta. Það getur vel verið, að læknar gætu borið sig saman, að þeir hafi eins há laun eða hærri, a.m.k. duglegir, praktiserendi læknar. Það getur vel verið, að verkfræðingar, þrátt fyrir gjaldskrána, sem var talað um hér í dag, praktíserandi, geti þolað samanburð við þetta. En allur fjöldinn gerir það ekki og ég get alveg fellt mig við það, að flugmenn, sem gegna svo ábyrgðarmiklu starfi eins og að stjórna þessum stóru millilandaflugvélum, hafi alveg topplaun og ég býst við, að allur fjöldinn gæti ekki með sanngirni ætlazt til þess að hafa eitthvað svipað. En allur fjöldinn, sem er láglaunaður, mundi eigi að síður spyrja: Ef það er nú hægt að hækka laun þeirra hæst launuðu, hvort sem það eru flugmenn, læknar, verkfræðingar eða aðrir, mjög mikið, við skulum segja t.d. um 25% eða 20%, er þá ekki líka hægt að hækka við okkur, sem höfum lægri laun, a.m.k. um það eða meira? Það er þessi samanburður, sem er alltaf í okkar þjóðfélagi. Út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt. Það er alltaf verið að bera sig saman og baráttan hefur lengst af verið fyrir því að hafa nægilegt til hnífs og skeiðar. En nú er svo komið og er ekkert að lasta, að menn sætta sig ekki við það að hafa til hnífs og skeiðar eða sæmilegan fatnað. Menn vilja hafa góð heimili og menn vilja geta veitt sér ýmislegt það, sem menn dreymdi ekki um áður. Þetta er vitanlega vottur um batnandi þjóðfélag og er það ánægjulegt, og það er eðlilegt, að kjörin batni í samræmi við auknar þjóðartekjur og batnandi þjóðfélag og það hefur alveg sérstaklega borið á því núna síðustu 5–6 árin, að kjör manna hafa batnað og kröfur manna aukizt í samræmi við það, og það er viðreisnin, sem hefur bjargað því, og tel ég ástæðu til að taka það sérstaklega fram, vegna þess að viðreisnin var gerð hér að umtalsefni, og skal ég koma að því litillega á eftir.

Ég hef sagt, hverjar voru kröfur flugmanna, þær upphaflegu, en þær miðast við þá flugmenn, sem hafa lengri starfstíma, en aðrir, sem minni starfstíma hafa, hafa ca. 88% af þessu kaupi.

Nú væri fróðlegt að vita, hver væru laun flugstjóra annars staðar. Ég hef ekki skýrslu um, hvað það er hjá SAS, en við vitum, að hjá SAS er vinnutíminn lengri. Það var sagt hér í dag, að það væri vegna þess, að hvíldartíminn þar væri skipulagður. Þetta má vel vera, ég þekki það ekki og það má vel vera, að það megi breyta til hér hjá íslenzku flugfélögunum með hvíldartímann. Það er nokkuð, sem flugfélögin verða að semja um og það er alger misskilningur hjá hv. 6. þm. Sunnl., þegar hann vildi láta liggja að því, að það væri hægt með reglugerð að gera slíka skipulagsbreytingu, áður en vinnuveitandinn og vinnuþiggjandinn, flugfélögin og flugmennirnir, hefðu komið sér saman um það. Það er hægt að staðfesta samning um hvíldartímann með reglugerð og það er það, sem verður gert. Nú hafa flugfélögin í millilandafluginu verið með Viscount-vélar, DC 6 B vélar og þær eru sennilega undir sama klassa, en það er stutt síðan stóru vélarnar komu og það hefur fram að þessu vantað grundvöll undir þessa samninga. Þessir samningar eru ekki komnir. Hvað væri sagt við því, ef rn. færi að gefa út reglugerð og taka þannig fram fyrir hendurnar á flugfélögunum og flugmönnunum um það, sem þeir verða að semja um, þ.e. fyrirkomulagið á hvíldartímanum? Rn. hefur gefið út reglugerð við loftferðalögin að mestu leyti nema þessu, vegna þess að það er beðið eftir því, að það verði samið um þetta. Þetta vil ég aðeins segja hér til upplýsingar, vegna þess að hv. 6. þm. Sunnl. virtist hafa skakkar meiningar í þessu máli. Þetta verður að koma frá flugfélögunum og flugmönnunum og ef það væri hægt að lengja flugtímann með því að breyta eitthvað til í sambandi við hvíldarreglur, þá hlyti það að vera flugfélaginu til góða og skapa flugfélaginu möguleika til þess að hækka kaupið. En þetta er atriði, sem flugfélögin og flugmennirnir verða að koma sér saman um. Það væri ofætlun að halda, að rn. færi að leggja línuna þar, áður en samkomulag er komið á milli aðilanna. Það er ekki stefna mín eða ríkisstj. að skerast í leikinn í svona málum eða öðrum fyrr en nauðsyn ber til.

Hv. 6. þm. Sunnl. talaði hér miklu styttra mál en hv. 9. þm. Reykv. og ég held ég hafi farið hér yfir flest atriði. Ég verð að segja það, að innihald ræðu þessa þm. var þannig, að það benti ekki á neitt til lausnar þessu máli. Látum það vera. Það gat verið eðlilegt, að hann sæi það ekki. En því ófyrirgefanlegra var að lýsa því yfir, að hann mundi greiða atkv. gegn því, að málið færi til 2. umr., til þess að málið gæti farið til n. og til athugunar.

Hv. 9. þm. Reykv. talaði hér langt mál og held ég nú satt að segja, að málið hafi verið svona langt vegna þess, að hann hefur fundið það sjálfur, að hann hefur tekið að sér vafasaman málstað og till. hafði hann engar frekar en 6. þm. Sunnl. til lausnar málínu. En hann hafði það þó fram yfir hv. 6. þm. Sunnl., að hann gaf engar yfirlýsingar um það, að hann væri á móti því, að málið færi til 2. umr. og n., þannig að ég gæti bezt trúað því, að hv. 9. þm. Reykv. vildi láta fara með málið til n. og athuga, hvort það mætti sjá einhverja leið út úr málinu og það er miklu betra fyrir stjórnarandstöðuna að sýna þó nokkra ábyrgð í sambandi við þetta mál.

Hv. 9. þm. Reykv. talaði mikið um, að það væri verið að taka frelsið af þessum ágætu mönnum. Hann vildi reyna að gera þá að píslarvottum. En ég er nú alveg handviss um það, að þessum ágætu mönnum er engin þægð í því, að það sé verið að tala um þá hér eins og einhverja píslarvotta, því að sannleikurinn er sá, að hvort sem þeir eiga rétt á eitthvað hærra kaupi, eitthvað styttri vinnutíma eða ekki, þá eru þetta engir píslarvottar. Þetta eru ekki menn, sem ástæða er til að vorkenna út af fyrir sig. Þetta eru menn, sem vel bjarga sér, sem betur fer og eru ekkert illa settir í þjóðfélaginu. En þegar hv. 9. þm. Reykv. var að tala hér um viðreisnina og brbl., sem hafa verið gefin út, þegar í vanda hefur verið komið, þá verð ég að segja það, að ríkisstj. hefur haldið sér alveg við þá stefnu og heldur sér við þá stefnu enn í dag, sem hún markaði, þegar því var lýst yfir, að það væri stefna ríkisstj., að vinnuveitendur og launþegar semdu um lausn málanna sjálfir og það er þess vegna, sem ríkisstj. skerst ekki í leikinn í slíkum deilum, nema nauðsyn beri til. Það var nauðsynlegt að skerast í leikinn, þegar verkfræðingarnir ætluðu að hækka gjaldskrána upp á eindæmi og ákveða laun sín og kjör upp á sitt eindæmi og það var verkfall. Verkfræðingar lögðu niður vinnu og ef ekki hefði verið skorið þá á hnútinn, þá hefðu engar brýr verið byggðar þetta sumar. Það hefðu verið erfiðar vegaframkvæmdir vegna þess, að það var ekki hægt að mæla fyrir vegunum. Það hefðu ekki fengizt teikningar af byggingum, sem þurfti að vinna að. Það hefði ekki verið unnið að hafnargerðum þetta sumar, framkvæmdir hefðu lagzt niður. Og svo leyfir hv. 9. þm. Reykv. sér að segja það, að lausn verkfræðingadeilunnar hafi ekki verið framkvæmd vegna hagsmuna almennings í landinu. Ef verkfræðingarnir hefðu ekki verið afgreiddir, eins og sagt var hér í dag, með þeim hætti, sem gert var, þá hefði verið hér vinnuleysi þetta sumar og framkvæmdir hefðu legið niðri. Það var almenningur í landinu, sem gerði þá kröfu til ríkisstj., að hún leysti málið. Og þannig hefur það verið, þegar brbl. hafa verið gefin út af núverandi ríkisstj., þá hefur það verið af illri nauðsyn, hvort sem það hafa verið flugmenn, læknar eða verkfræðingar. Og mér finnst satt að segja, að ég hafi sjaldan heyrt meiri öfugmæli en það, þegar hv. 9. þm. Reykv. var að tala um, að það hefði verið í óþökk og á móti hagsmunum alls almennings að hefta það, að læknarnir tækju hjá sjúkrasamlaginu langt fram yfir það, sem þeir hefðu áður fengið, því að ef læknarnir, sem eiga allt gott skilið og eru sómamenn, a.m.k. flestir, hefðu komizt upp með þetta, þá varð að hækka sjúkrasamlagsgjöldin, þá varð hinn fátæki alþýðumaður að borga meira mánaðarlega í sjúkrasamlagið. Og svo vill hv. 9. þm. Reykv. halda því fram, að lausn læknadeilunnar hafi verið gerð gegn hagsmunum almennings. Þetta skilur hver einasti maður og þarf ekki um það að ræða.

Þegar hv. þm. fer að tala um viðreisnina og loforðin, sem hafi ekki verið efnd, þá er þessi hv. þm. sennilega búinn að gleyma því, hvernig ástandið var í landinu, þegar viðreisnin var ákveðin, eftir að vinstri stjórnin hafði verið, hvernig ástandið var út á við og inn á við: Gjaldeyrisskuldir og vandræði, stöðvun á framkvæmdum innanlands. Dýrtíðaralda var risin, sagði forsrh. vinstri stjórnarinnar, ekki samstaða um neitt. Við segjum af okkur, við yfirgefum bátinn. — Hvernig skyldi ástandið vera í flugmálum Íslendinga í dag, ef viðreisnin hefði ekki komið? Ætli við hefðum keypt margar stórar og glæsilegar flugvélar? Ætli við hefðum stækkað skipastólinn, eins og við höfum gert? Ætli við hefðum ræktað landið, eins og við höfum gert, byggt hafnir, gert vegi og brýr? Ætli við ættum gilda varasjóði í gjaldeyri erlendis, ef viðreisnin hefði ekki komið? Það þarf þrek til þess að, að halda slíku fram af hv, þm., sem var stuðningsmaður vinstri stjórnarinnar og var í uppgjafar- og flóttaliðinu.

Ég geri ráð fyrir því, að allur almenningur átti sig á því, hvað hefur gerzt síðustu fimm árin. Atvinnuvegir landsmanna hafa vissulega þróazt. Atvinna er nóg. Ástand þjóðmálanna er þannig, að fólk hefur leyft sér að gera auknar kröfur á hendur atvinnufyrirtækjunum. Tekjur þjóðarbúsins hafa vaxið, vegna þess að ríkisstj. með réttri stefnu hefur unnið að því að auka og efla atvinnuvegina og við hefðum lítið haft að gera með verkfræðinga í þessu landi, ef ekki hefði verið spyrnt við fótum og viðreisnin gerð. Lækna hefðum við vitanlega alltaf þurft, því að sjúkdómar hefðu áreiðanlega sótt á, þótt við hefðum verið efnalega illa staddir, en jafnvel ekki þeir hefðu getað gert kröfur um háa borgun fyrir sín störf.

Ég held, að það sé ekki nema ánægjulegt að minnast þess árangurs, sem viðreisnin hefur gefið og ég held, að það sé ekki nema ánægjulegt að sjá það hvarvetna, að allur almenningur hefur getað látið meira eftir sér nú í seinni tíð, en áður og gerir kröfur og það er ekkert óeðlilegt, þótt gerðar séu kröfur, ef þær eru innan þess ramma, sem efnahagskerfið þolir, sem atvinnureksturinn þolir. Og í sambandi við kröfurnar þarf að vera réttlæti og það þarf að vera samræmi á milli atvinnustéttanna eftir því, hvernig verkin eru metin.

Ég verð að segja, að það er dálítið merkilegt, vegna þess að hv. 9. þm. Reykv. var með skrifaða ræðu, hvernig hann viðhafði ýmsar fullyrðingar hér í dag. Hann var að tala um vaxandi dýrtíð, hann var að tala um hækkaða vísitölu, hann var að tala um það, að ríkisstj. hefði lofað því, að öllum kauphækkunum skyldi velt yfir á atvinnureksturinn alveg tvímælalaust og hann einn látinn bera þær, án þess að það kæmi nokkurs staðar annars staðar fram, skildist mér. Þetta er náttúrlega alveg dæmalaust, að hv. þm. skyldi lesa þetta upp af blaði. Það hefði frekar verið hægt að fyrirgefa honum það, ef hann hefði sagt þetta illa hugsað og ef hann hefði ekki verið búinn að sitja við borð og skrifa þetta niður. En það er ekki ástæða til að fara út í þetta nánar, því að það er vitanlega öllum ljóst, hversu mikil fjarstæða þetta er. Við skulum viðurkenna það, að dýrtíðin hefur hækkað, en kaupgjaldið hefur líka hækkað, tekjur þjóðarbúsins hafa hækkað. Við skulum viðurkenna það, að um allan hinn vestræna og frjálsa heim hefur dýrtíðin hækkað. Hefur ekki kaupgjald og verðlag hækkað í allri Vestur-Evrópu á síðustu árum? Hefur ekki kaupgjald og verðlag hækkað í Bandaríkjunum? Það sem að er, er það, að við höfum alltaf verið dálítið á undan öðrum þjóðum með hækkanirnar og ef okkar framleiðsluvörur hækka ekki á erlendum mörkuðum í hlutfalli við hækkun kaupsins, er það það, sem skapar erfiðleikana. Hv. 9. þm. Reykv. var að tala um togaraútgerðina, það hefði nú alls ekki verið staðið við það af ríkisstj, að hætta öllum bótagreiðslum til útflutningsatvinnuveganna og togararnir bæru sig miklu verr núna en nokkru sinni fyrr. Það skyldi nú ekki vera ríkisstj. að kenna, að togararnir hafa ekki fiskað hin síðari ár? En hvernig var það 1958, þegar togararnir fiskuðu á Nýfundnalandsmiðum, fylltu sig þar á 3–4 dögum? Jú, þá skulu menn nú ætla, að togaraútgerðin hefði getað safnað sjóðum, sérstaklega þegar vinstri stjórnin var nú við völd. En þessi mikli afli á Nýfundnalandsmiðunum dugði varla til þess að standa undir kostnaði togaraútgerðarinnar þá. En nú í seinni tíð hafa togararnir ekki fiskað. Það var vitanlega um tvennt að ræða hjá okkur, annaðhvort að hætta allri togaraútgerð eða styðja hana í einhverju formi. Ég held, að Íslendingar hafi fram að þessu haft svo gott af togaraútgerðinni, að það væri fljótræði að selja alla togarana úr landi, þótt nú hafi verið fiskileysi um nokkurra ára skeið hjá þeim og kannske þá sérstaklega vegna þess, að þeir verða nú að vera utar, utan við 12 mílna línuna, við að fiska. En ég ætla ekki að mæla með því, að þeim verði hleypt inn fyrir 12 mílurnar. En fáránlegt er að kenna ríkisstj. um aflaleysi togaranna og satt að segja er ég alls ekki viss um, að þessi hv. þm. væri tilbúinn að greiða atkv. með því að selja togarana úr landi. Ég gæti bezt trúað því, að ef togararnir væru bundnir hér inni í Sundum, væri hann tilbúinn að halda langa ræðu um það, að ríkisstj. hefðist ekkert að. En útflutningsuppbætur til atvinnuveganna eru vitanlega miklu minni núna tiltölulega, en þær voru á dögum vinstri stjórnarinnar og atvinnureksturinn í heild hefur gengið með ágætum og blómgazt. Við höfum aldrei átt eins góðan fiskiskipaflota með nýtízkutækjum, aldrei eins stóran kaupskipaflota og aldrei verið eins vel búnir að verksmiðjum, vélum og ýmsum tækjum og við erum nú. Og það verður vitanlega að halda áfram að byggja atvinnureksturinn upp og stefna að því hverju sinni, að hann geti starfað styrkjalaust.

Það er nú ástæðulaust út af fyrir sig að vera að tala langt mál út af þessari ræðu hv. þm. Hann telur, að þessi deila sé með öllu óþörf, það væri hægt að semja. Og það er vitanlega alveg rétt, það væri hægt að semja, ef annar aðilinn er tilbúinn að láta undan. En oftast er það nú svo, að þegar komið er í deilur, verður ekki samið, nema það sé mætzt einhvers staðar á miðri leið. Það hafa þessir aðilar ekki getað gert, enn sem komið er. Og eru nokkrar líkur til, að þeir mundu gera það, þótt við legðum þetta frv. á hilluna og segðum: Okkur kemur þetta ekkert við, látum þá um það, hvort þeir semja eða ekki, hvort þeir fljúga eða ekki? — En þetta er miklu stærra mál en það, að það sé aðeins mál flugmanna og flugfélagsins, það varðar okkur alla. Við erum í keppni við erlend flugfélög um flutning á erlendum mönnum yfir hafið og við viljum keppa að því að gera þessa atvinnugrein miklu þrótt meiri en hún er og ná meiri árangri í þessari keppni við hin erlendu flugfélög. Og ég verð að segja það, að það er mjög ánægjulegt, hvernig þessi keppni hefur tekizt fram að þessu. Og það skal öllum þakkað, sem þakkir eiga fyrir það. Ég skal ekkert draga af flugmönnunum. Ég hef oft dáðst að dugnaði íslenzkra flugmanna. Mér þykir gaman að ferðast með þeim, bæði hér innanlands og landa í milli. Og ég veit, að þeir eru þannig skapi farnir, að þeir vilja halda baráttunni áfram í keppninni við auðfélögin og við skulum ekki kalla íslenzku flugfélögin auðfélög, þau eru það ekki. En Pan American, BOAC, SAS og fleiri, það eru auðfélög. Það eru flugfélög í þjóðlöndum, sem hafa milljónatugi á bak við sig. Við erum fáir, og við þurfum að nota öll okkar tækifæri, ef við ætlum að stefna að bættum lífskjörum fyrir alla. Við megum ekki leggja hendur í skaut. Og ég er hér um bil viss um það, að margir flugmenn, sem fyrir fáum árum voru fátækir strákar, umkomulausir, en brutust í að læra flug og eru orðnir flugstjórar, það eru menn með þeirri skapgerð, sem ekki kæra sig um að fara að hopa aftur á bak. Út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt, þó að þeir vilji fá gott kaup. Það er mannlegt og það er eðlilegt. En um leið og þær kröfur eru gerðar, þarf að athuga málin ofan í kjölinn frá fleiri en einni hlið, hvað er skynsamlegt. Og þessir flugmenn okkar hafa ótal tækifæri og þeirra kjör munu fara batnandi, eftir því sem félagið eflist og vettvangur þess verður víðari. Það er líka mannlegt, þegar út í deilu er komið, eins og hér er um að ræða á milli Loftleiða og flugmanna, þótt deilan leysist ekki með frjálsum samningum. Það er komin stífni í málið og það er vitanlega báðum að kenna, en ekki aðeins öðrum. Og hv. 9. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Sunnl. villtust til að tala hér aðeins fyrir annan aðilann. Hvorugur þeirra hefur þó kynnt sér málið ofan í kjölinn. Hvorugur þeirra veit raunverulega, um hvað er að ræða. Það var auðheyrt á þeirra ræðum. Ég skal játa, að mig vantar einnig nógu góðan kunnugleika á þessu. En ég er hér um bil viss um það, að þessi stífni, sem í þetta mál er komin, er beggja sök að einhverju leyti. Það má vel vera, að þessi flugfélög séu rekin með hagsmuni hluthafanna fyrir augum. Ég veit ekki, hvernig hægt er að reka fyrirtæki nema hafa hagsmuni fyrirtækisins fyrir augum. En hvað ætli hluthafar séu margir í þessum félögum? Og hvað ætli þessir hlutir séu stórir? Ég veit það ekki, ekki á ég þar hlut. En vitanlega verður að reka hvert félag, hvort sem það er flugfélag, skipafélag, kaupfélag eða hvað sem er, með hagsmuni fyrirtækisins fyrir augum, annars gengur það ekki. Og fyrirtækið gengur ekki heldur, nema hagsmunir fólksins, sem við það vinnur, séu líka hafðir í huga. Það gengur ekki, nema fólkið geti verið ánægt. Og ég hefði nú haldið, að flugfélögin hafi í öllum aðalatriðum sett sér það mark að hafa flugstjórana og starfsfólkið ánægt, þótt til átaka hafi komið öðru hverju.

Nú vil ég til upplýsingar segja það, sem margir náttúrlega vita, en margir vita ekki, hvað flugstjórum hefur verið boðið. Það sem þeim hefur verið boðið, er fast kaup 20.559 kr. á mánuði, flugstundatrygging miðað við 65 stundir 15.330, lífeyrissjóður 3.608, dagpeningauppbót 4.508, eða á mánuði 44.205 kr. En það, sem þeir hafa boðizt til þess að ganga inn á, skilst mér, eftir að þeir slökuðu til á kröfum sínum, var sem svaraði 51–52 þús. kr. Þá munar þarna 7–8 þús. kr. á mánuði milli þess, sem þeir eiga kost á að fá og þess, sem þeir vilja fá. Látum það alveg vera að setjast í dómarasæti hér í hv. Alþ. og dæma það, hve mikið þeir ættu að fá af þessum 7–8 þús. eða nokkuð, en nauðsynlegt er, þegar um þessi mál er rætt, að alþjóð viti það, að flugstjórunum, fyrstu flugstjórum, er boðið sem svarar 530 þús. í ársgreiðslur. Hvort sem menn vilja kalla það kaup eða eitthvað annað, þá eru það ársgreiðslur, 530 þús., fyrir utan venjulega dagpeninga og fyrir utan föt og eitthvað fleira, sem vitað er, að þeir fá.

Það má vel vera, að læknunum og verkfræðingunum finnist þetta lítið og ég sleppi alveg að fullyrða um það, hvort þetta er nægilega mikið, látum það alveg vera. En öllum almenningi, sem verður að láta sér nægja 150 þús., finnst þetta nóg. En í samanburði við það, hvað önnur flugfélög greiða, verð ég að segja það, að hjá BOAC er það 5.400 pund á ári, sem gerir 646 þús., en þar eru flugtímarnir ekki 60 og ekki 65, – ég hef það ekki í þessu riti, þetta er enskt rit, – en það munu vera 80 eða 85 tímar og þess vegna er kaupið í samanburði við þetta náttúrlega ekki eins hátt. Svo er það BEA, 573 þús. eftir hækkun, sem þeir fengu. Þeir fengu 17% hækkun. Svo er það Pan American. Það er alveg uppi í skýjunum. Það eru 12 þús. pund, sem Pan American greiðir sínum fyrstu flugstjórum. En Swissair greiðir 4.658 pund eða 558 þús. kr. með 75 eða 80 tíma vinnu á mánuði, og Japan Airlines 4.000 pund eða 480 þús.

Þetta er nú það, sem flugstjórar hafa erlendis. En við getum sýnilega ekki borið okkur saman við Pan American, sem greiðir sínum flugstjórum meira, en tvöfalt við það, sem ensku félögin greiða, þrefalt við það, sem Swissair greiðir og japanska félagið. En með þessum kjörum, sem hér eru boðin, 530 þús. með jafnri 65 stunda vinnu, nálgumst við það, sem Swissair borgar og við borgum meira en japanska félagið. Og mér var sagt, en ég hef það ekki staðfest, að SAS væri með eitthvað sem svaraði 4.300 pundum og þá er það svipað og þetta.

Nú vona ég, að það sé alveg rétt, sem ég sagði hér í dag, að flugstjórarnir vilji leysa málið. Og úr því að þeir geta ekki gert það með frjálsum samningum, eins og sakir standa, vilja þeir innst í hjarta sínu, að það sé gert með þessum hætti. Þeim er það ekki hugstætt, en ég held, að þeir brosi að hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 9. þm. Reykv., að því, hvernig þeir tala hér um þetta mál, eins og flugstjórarnir okkar séu einhverjir píslarvottar, jafnvel aumingjar, sem við þurfum að vorkenna, af því að þeir fá ekki nema 530 þús. kr. ársgreiðslu hjá félaginu.

Ég held, að við hljótum að vera sammála um það, að þessi deila á að leysast fljótt. Það er engum greiði gerður, með því að vera að tefja málið hér í hv. Alþ. með málæði. Þó er þm. vitanlega frjálst að tala eins og þeir vilja. En meðan ekki er bent á aðra leið til lausnar, verðum við að halda okkur að þessu og reyna að leysa þetta fljótt. Og ég hef áhuga á því, að við ljúkum 1. umr. í kvöld og málið megi fara til n. og við getum svo tekið það fyrir aftur a.m.k. annað kvöld. Við þurfum ekkert að telja það eftir okkur, þótt við vökum yfir því að skera á þennan hnút, vegna þess að það er nauðsynlegt, að það verði gert.