26.04.1965
Efri deild: 71. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég held, að hæstv. samgmrh. hafi runníð svolítið í skap, þegar hann var að tala hér áðan og er í sjálfu sér ekki nema gott um það að segja, að mönnum geri það öðru hverju. Ég get þó víst ekki hrósað mér af því, að það hafi verið ræða mín fyrr í dag, sem gaf tilefni til þess, heldur öllu frekar sú ádrepa, sem hv. 9. þm. Reykv. gaf ríkisstj. í sambandi við viðreisnarloforðin og hvernig þau hafa verið framkvæmd. En þetta leiddi til nokkuð sjaldséðs viðburðar nú orðið. Það heyrir nefnilega til tíðinda hér á hv. Alþ., að ráðherrar manni sig upp í það, eins og hæstv. samgmrh. gerði, að verja viðreisnina, þessa efnahagsstefnu, sem einu sinni var og löngu er gengin sér til húðar, þó að hæstv. ríkisstj., sem við hana er kennd, reyni enn að klóra í bakkann frá degi til dags með nýjum sköttum og nýjum styrkjum til þeirra atvinnuvega, sem eru að kikna undan þeirri verðlagsþróun, sem hún ber ábyrgð á. Það var út af fyrir sig lærdómsríkt og skemmtilegt að heyra þetta einu sinni, en ég skal nú ekki eyða löngum tíma í að gera það frekar að umræðuefni, en snúa mér að nokkrum atriðum úr ræðu hæstv. ráðh., sem lutu að því máli, sem hér er til umr., því að hæstv, ráðh. hafði nú þann hátt á eins og stundum áður að umgangast sannleikann nokkuð frjálslega, þegar hann er að segja frá því, hver hafi verið ummæli og hvatir þeirra, sem andmælt hafa honum.

Hæstv. ráðh. taldi það mikið ábyrgðarleysi, að ég hafði lýst því yfir, að ég teldi, að það ætti að fella þetta frv. þegar við 1. umr. Ég gerði þá og skal gjarnan gera aftur grein fyrir, af hverju ég tel, að það beri að gera. Þetta frv., meðan það liggur fyrir þinginu, mun torvelda samninga. Á því er enginn vafi og það liggur einfaldlega í því, að eins og áður munu það vera atvinnurekendur, sem fyrst og fremst telja sér hag af gerðardómi eða a.m.k. munu frekar vera hans fýsandi. Ég minnist þess ekki, þegar gerðardómur hafi verið til umr., að atvinnurekendur hafi beitt sér gegn honum, en launþegar með. Þessi staðreynd segir sína sögu. Það þarf ekki að rekja það lengur. Og mér þykir ákaflega ólíklegt, að Loftleiðir muni verða ginnkeyptar fyrir samningum, meðan þetta frv. liggur fyrir hv. Alþ. Það væri a.m.k. ekki nema mannlegt, þó að þær væru það ekki. Þess vegna álít ég, að það eigi að fella þetta frv. nú þegar. Og ég vil bæta því við, að ég tel það mikið ábyrgðarleysi af hæstv. ráðh. að leggja þetta frv, fram og láta ekki taka það til umr. í 5 daga. Mér þætti ekkert ósennilegt, að samningar væru nú komnir á, ef þetta frv. hefði aldrei verið lagt fram, þó að það verði auðvitað aldrei með neinum hætti sannað eða rökstutt. Þess vegna tel ég, að það eigi sem allra fyrst að skapa þau skilyrði, að samningar verði teknar upp aftur með eðlilegum hætti og með meiri krafti en áður, eins og ég skal koma að nánar, en þau skilyrði verða ekki sköpuð, meðan þetta frv. liggur óafgreitt fyrir hv. Alþ.

Hæstv. ráðh. sagði, að þessi deila, sem hér væri um að ræða, snerti ekki bara þessa fáu flugmenn, heldur þjóðina alla og það er vissulega rétt. Og það gera kjaradeilur og verkföll raunar alltaf, þótt með mismunandi ríkum hætti sé kannske. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, snertir ekki bara eitt félag, Loftleiðir, og þá fáu flugmenn, sem hér eiga hlut að máli. Það snertir líka þjóðina alla, því að hver verður næstur fyrir barðinu á þessum tiltektum hæstv. ríkisstj.? Það er sú spurning, sem launþegar munu nú spyrja sig.

Ég gerði nokkra grein fyrir því í fyrri ræðu minni, að ég taldi, að það hefði átt að reyna samninga betur og meir en gert var, a.m.k. áður en til nokkurra slíkra örþrifaráða væri gripið eins og hér er um að ræða. Þetta kallaði hæstv. ráðh. ómaklegar aðdróttanir að sáttasemjara ríkisins. Ég gerði grein fyrir því, að flugmenn lögðu kröfur sínar fram við vinnuveitendur í febrúarmánuði. Það fengust aðeins haldnir þrír algerlega árangurslausir fundir, þar sem Loftleiðir buðu ekkert fram, áður en þessi deila kom í hendur sáttasemjara og hann hélt sinn fyrsta fund í málinu 1. apríl. Það er enginn efi á því, að á þessu tímabili hefði mátt gera meira en gert var, og það er ekki við sáttasemjara að sakast um það. Það eru þess vegna engar ádeilur á hann í því fólgnar. En má ég spyrja hæstv. ráðh.: Eru það ómaklegar aðdróttanir í garð sáttasemjara ríkisins, þegar ríkisstj. tekur sig til og skipar sáttanefndir honum til aðstoðar, eins og iðulega er gert í erfiðum verkföllum? Af hverju var það ekki gert núna? Þetta er sams konar málflutningur og hv. 10. þm. Reykv. tók svo upp hér strax á eftir, þar sem hann taldi, að það væru líka ómaklegar aðdróttanir í garð hæstaréttar, því að því hefði verið haldið fram hér, að menn teldu, að hann mundi skipa vilhallan gerðardóm. Mér vitanlega hefur enginn maður látið sér þá aðdróttun um munn fara. En það er eigi að siður staðreynd, eins og ég gat um áðan og það hefur alltaf verið svo, að það hafa verið atvinnurekendur frekar en launþegar, sem hafa viljað fallast á gerðardóma.

Hæstv. ráðh. gerði hér mjög að umræðuefni þær launakröfur og þau boð, sem fram hafa verið sett. Ég minntist lítillega á þessi atriði í fyrri ræðu minni við þessa umr. Þegar ég gerði það, var það vegna þess, að mér ofbauð, hvernig maður hefur séð málstað flugmannanna í þessu máli affluttan á opinberum vettvangi og ég vildi gjarnan fá það fram, sem sannara væri í þessu máli. Ég held, að það hafi að verulegu leyti tekizt. Mér er ekki kunnugt um, að þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf, hafi verið í neinum verulegum atriðum rangar. Ég held ekki, enda staðfesti hann það, sem ég sagði hér fyrr, að raunverulegar kröfur til hæstu og elztu flugstjóra mundu nema um 500 þús. kr., þegar frá eru dregnir hlutir eins og lífeyrissjóður, dagpeningauppbót og því um líkt. En það fór þó ekki hjá því, að maður hlaut að taka eftir því, að þegar hæstv. ráðh. lagði þessar tölur fram, taldi hann þó þessa hluti með eins og lífeyrissjóð og dagpeningauppbót, sem munu fyrir þessa menn nema um það bil 100 þús. kr. á ári og að sjálfsögðu eru ekki þeirra laun. Það vakti einnig athygli mína í sambandi við þetta, að hæstv. ráðh. talaði um þessa hæstu, elztu flugstjóra, þeirra laun og kallaði það kröfur flugmanna, eins og það væri flugmannanna almennt, lét þess þó getið á eftir, að þetta mundi vera fyrir fyrstu flugmenn, eins og ég held, að hann hafi orðað það, en einhverjir aðrir mundu hafa 88% af þessu. Hverjir aðrir ætli það séu? Ætli það séu ekki flugstjórar líka? En flugmennirnir, sem eru aðstoðarflugmenn á þessum vélum, þeirra kröfur eru ekki þær upphæðir, sem hér er um að ræða, heldur talsvert langtum minni.

Þá upplýsti hæstv. samgmrh. það, sem kom mér óneitanlega mjög á óvart, að það væri ekki hægt með reglugerð að ákveða lágmarkshvíldartíma fyrir flugmenn. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki hægt, það væri bara hægt að staðfesta samninga, sem gerðir hefðu verið milli flugfélaganna og flugliða. Í loftferðalögunum, sem samþ. voru á Alþ. fyrir ári, segir í seinustu málsgr. 52. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til þess að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“

Nú upplýsir hæstv. ráðh. það, að slíka reglugerð sé ekki hægt að setja nema með því að staðfesta samninga, sem flugverjar og flugfélögin hafi gert með sér og ég verð að láta í ljós þá skoðun, að það hefði verið mun æskilegra, að þessi túlkun hæstv. ráðh. hefði komið fram, þegar loftferðalögin voru til meðferðar, því að mgr., sem ég las, er skýr og það fer ekki á milli mála um það, hvað í henni stendur. Það skulu fengnar till. félagssamtaka flugverja, flugfélaganna og flugmálastjórnar, en ráðh, ber ábyrgð á setningu reglugerðarinnar.

Það er staðreynd, að þegar samanburður var gerður í samningaumleitunum á flugtíma flugstjóra eða flugmanna hjá SAS og hjá Loftleiðum, töldu Loftleiðir, að þeirra flugmenn gætu flogið 85 tíma eins og SAS-flugmenn, og íslenzku flugmennirnir féllust á það með því móti, að þeir hefðu sömu hvíldarreglur og SAS-flugmennirnir. Það fer því ekkert á milli mála um það, að það er skortur á hvíldarreglum flugmanna, sem hefur staðið að einhverju leyti lausn þessarar deilu fyrir þrifum.

Það hefur verið á það bent hér af, held ég, öllum ræðumönnum, sem andmælt hafa þessu frv., að það sé sú aðferð, sem hér á að taka upp enn einu sinni, sem menn geta ekki fallizt á vegna þess fordæmis m.a., sem það mundi gefa. Það hefur verið bent á það, að þetta er ekki mál þeirra fáu flugmanna einna, sem í þessari deilu eiga, heldur launþega allra. Mér virðist það svo lýsa hæstv. ráðh, betur en þeim, sem hann ætlaði að lýsa, að hann skuli hafa látið sér um munn fara þau orð hér áðan, að við, sem andmælt höfum þessu frv., höfum viljað gera flugmennina að píslarvottum, jafnvel aumingjum, sem eigi að vorkenna. Ég veit ekki, hvað svona orðbragð á að þýða eða hvort hann heldur, að það geti unnið málstað hans eitthvert gagn að hafa svona orðbragð um hönd. Það er enginn þeirra, sem andmælt hafa frv., sem hefur talað nokkuð í þessa átt.

Hæstv. ráðh. hefur svo gert það að einu meginatriði í málflutningi sínum, að við, sem höfum andmælt þessu frv., höfum ekkert haft til málsins að leggja í staðinn. Ég skal viðurkenna það, að fyrir það, hvernig hæstv. ráðh. hefur haldið á þessu máli, er það komið í nokkurt óefni, meira óefni en það þyrfti að vera. En hins vegar er það ekki rétt, að við höfum ekki bent á aðrar leiðir, sem ætti að fara í þessu máli. Það á að fara þá leið að koma á sem fyrst eðlilegum grundvelli fyrir áframhaldandi sáttaumleitanir. Ríkisstj. á að taka á málinu með svipuðum hætti og hún hefur gert, þegar hún hefur bezt gert, nefnilega með því að skipa sáttanefnd sáttasemjaranum til aðstoðar til þess að leita nú þegar eftir grundvelli fyrir samninga, sem ég hef trú á, að mundu þá takast fljótlega. En það gerist ekki, á meðan þetta frv. bíður afgreiðslu hér á hv.

Alþ., eða það er a.m.k. afar ólíklegt, að það geti gert það og þess vegna tel ég, að það beri að fella frv. nú þegar og ég vil taka undir það, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði í ræðu sinni hér áðan, þó að hæstv. ráðh. vildi hafa af honum heiðurinn fyrir það, en hann skoraði á hv. þdm. að fella frv, nú þegar við 1. umr.