29.04.1965
Neðri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1298 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, var flutt í Ed. og var afgreitt þaðan í dag. Frv. er flutt eftir að verkfall hefur staðið alllengi hjá Loftleiðum, þar sem atvinnuflugmenn, sem stjórna Rolls Royce 400 flugvélum Loftleiða, hafa neitað að vinna við þau kjör, sem þeim standa til boða. Það var í lengstu lög ætlað, að sáttasemjara ríkisins tækist að finna lausn á þessari deilu, enda hafði hann haldið um 7 fundi, áður en þetta frv. var flutt. Síðan frv. var flutt, hefur sáttasemjari haldið tvo fundi og ræddi ég við hann fyrir stuttu og taldi hann, að málin stæðu þannig, að litlar líkur væru til að ná frjálsum samningum, enda væri búið að reyna mikið til þess. Það er staðreynd, að þessar dýru flugvélar Loftleiða, Rolls Royce, eru ekki notaðar. Flestir munu hafa verið ánægðir yfir því, þegar þessar vélar komu til landsins á s.l. ári, og sýndist það vera vottur um framfarir og sókn í íslenzkum flugmálum. Síðan þessar tvær flugvélar komu, hafa Loftleiðir fest kaup á tveimur sams konar flugvélum.

Loftleiðir eiga í harðri samkeppni við erlend auðfélög. Það hefur verið tekið eftir Loftleiðum og sókn þessa félags um heim allan. Ísland hefur stækkað við það, að Loftleiðir hafa haslað sér völl á erlendum vettvangi og annast ekki aðeins flug landa í milli, heldur og ekki síður heimsálfa í milli. Hjá Loftleiðum vinna mörg hundruð manns og óhætt að segja, að þúsundir hafi lífsframfæri af atvinnu hjá félaginu. Þegar þetta er sagt, er enginn dómur á það lagður, hvort Loftleiðir út af fyrir sig eiga einhverja sök á því, að ekki hefur samizt, frekar en flugmennirnir. Það, sem fyrir liggur, er sú staðreynd að verkfallið hefur staðið síðan 4. apríl, að margir sáttafundir hafa verið haldnir án árangurs. Ríkisstj. telur, að við svo búið megi ekki standa. Ríkisstj. telur, að það verði að leysa þetta mál og meiri hl. hv. alþm. í Ed. er á sama máli með því að afgreiða málið út úr d. til þessarar hv. deildar.

Í frv. þessu er lagt til, að verkfall það, sem boðað var 3. apríl, sé óheimilt eftir gildistöku þessara l. að telja. Það er gert ráð fyrir, að skipaður verði af hæstarétti gerðardómur þriggja manna, sem sker úr um það, hvaða kjör eðlilegt er að flugmenn á þessum flugvélum hafi. Samkv. 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að gerðardómurinn við ákvörðun launa og vinnutíma og annarra starfskjara hafi hliðsjón af kjörum annarra sambærilegra launþega hér á landi. Það hefur verið talað um, að það væru engar aðrar hliðstæður til, engar sambærilegar stéttir til hér á landi til þess að miða við. Þetta er vitanlega regin misskilningur. Við höfum flugmenn á öðrum flugvélum, DC 6 flugvélum og Viscount-flugvélum. Það er vitanlega eðlilegt, að gerðardómurinn hafi þær stéttir til hliðsjónar. Það er vitað mál, að það þykir eðlilegt, að flugmenn á Rolls Royce vélunum hafi hærra kaup og e.t.v. styttri vinnutíma, en á þeim flugvélategundum, sem ég nefndi, vegna þess að Rolls Royce eru hraðfleygari og þær eru stærri. Það þykir eðlilegt, að þotuflugmenn hafi hærra kaup og styttri vinnutíma en þeir, sem verða að fljúga hæggengari og minni flugvélum. Nú er það svo, að Rolls Royce eru ekki þotur í eiginlegri merkingu. En þær eru allt að því 50% hraðskreiðari heldur en DC 6, þegar venjulegar þotur eru helmingi hraðskreiðari en DC 6. Það sýnist þess vegna vera hægt fyrir gerðardóminn að skapa sér þar viðmiðun, þegar um það er að ræða að finna sambærilegar stéttir.

Þegar Rolls Royce vélarnar komu til landsins s.l. sumar, munu Loftleiðir hafa gert lauslega samninga við flugstjóra á þessum vélum um allmikla hækkun, sumir hafa sagt 80 þús. kr. hærri árslaun, en á DC 6 vélunum, aðrir hafa sagt allt að 100 þús. kr., sem miðast við það, að vélarnar eru stærri og hraðskreiðari, en hinar eldri gerðir. Samkv. 4. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að verkföll í því skyni að knýja fram aðra skipan, en lög þessi ákveða skuli óheimil. Og samkv. 5. gr. er gert ráð fyrir, að gerðardómurinn skuli gilda frá gildistöku laganna til 1. febr. 1966, en til þess tíma eru í gildi samningar við atvinnuflugmenn yfirleitt. Þessum l. er þess vegna ekki ætlað að gilda nema takmarkaðan tíma. Þá er gert ráð fyrir, að kostnaður við gerðardóminn, þar á meðal laun gerðardómsmanna, verði greiddur úr ríkissjóði og að um brot gegn l. þessum fari að hætti opinberra mála og brot valdi sektum.

Það kom fram í Ed., að hv. alþm. litu á þetta mál misjöfnum augum. Þeir voru ekki margir, en það kom þó fram, að ýmsir vildu koma með sleggjudóma og stóryrði í sambandi við þetta mál og ríkisstj. væri að níðast á einni stétt manna, nota bolabrögð, taka samningsréttinn af flugmönnunum o.s.frv. Ég skal engu spá um það, það kemur vitanlega í ljós undir umr. hér í þessari hv. d., hvort einhverjir líta svipuðum augum á þetta mál og kom fram í Ed. En ég vildi nú vænta þess, að hv. þm. vildu halda sig við staðreyndirnar og skoða málið í réttu ljósi og gera sér grein fyrir því, að ríkisstj. skiptir sér ekki af þessu máli, fyrr en í óefni var komið, fyrr en sýnt var, að ekki var von um, að sáttasemjara tækist að leysa málið. Og mér dettur ekki í hug að ætla, að nokkur hv. þm. telji eðlilegt, að þetta verkfall standi áfram. Tjónið af þessu verkfalli er ómetanlegt. Það er ekki aðeins fjárhagslegt tjón Loftleiða, sem byggir starfsemi sína á því að flytja erlenda menn yfir hafið, 95–96% erlenda menn, sem hafa keypt farmiða langt fram í tímann, heldur er það ekki síður áhætta um, að þetta félag missi traust fyrir framtíðina, félag, sem er í harðri samkeppni við erlend auðfélög á þessum leiðum, og það hefur komið fram, að farþegar, sem höfðu keypt sér farmiða með Rolls Royce, hafa kvartað undan því að þurfa nú að vera með DC 6 vélum, sem eru hæggengari, en þær vélar, sem þeir ætluðu sér að ferðast með. Og það skapar ekki ánægju hjá farþegunum. Það getur smitað út frá sér og orðið til þess, að næsta ár verði minni aðsókn að farmiðasölunni hjá Loftleiðum, en verið hefur og samkeppnisaðstaðan versni þess vegna. Enginn hv. alþm. vill það. En það mætti vera, að einhverjir segðu: Loftleiðir hafa þó alltaf þann kostinn, þeir geta samið, þá munar ekkert um það að ganga að kröfum flugmannanna og semja. Þannig er það alltaf, þegar til verkfalls eða vinnudeilna er boðað. Það er enginn vandi að aflétta þeim með því, að gengið sé að kröfum annars aðilans, sem að deilunni stendur. En þegar tveir deila, skulum við ætla, að það sé ekki aðeins annar aðilinn, sem á sökina. Við skulum frekar trúa því, að það séu báðir aðilar, sem eiga einhverja sök. Og hér er deila, sem hefur staðið alllengi og það er komin stífni í málið. Það er deilt um kaupið. Það er líka deilt um vinnutímann. Og hvers vegna ekki að viðurkenna staðreyndir, að deilan er óleyst? Hvers vegna ekki að taka til greina það, sem sá reyndi maður, sáttasemjari ríkisins, fullyrðir, að hann treysti sér ekki til að leysa þetta mál með frjálsum samningum? Hvers vegna að berja höfðinu við steininn og segja, að það sé allt annað fyrir hendi, en raunveruleikinn.

Það er ástæðulaust fyrir mig að vera að gera því skóna, að hv. Nd.–þm. ætli að gera þetta. En þannig var það í Ed. Þetta kom fram í Ed., að stjórnarandstæðingar vildu ekki viðurkenna staðreyndir og ég held, að það sé afsökunarefni hjá mér, þótt ég segi að nokkru leyti frá gangi málsins þar.

Eins og ég sagði áðan, var kaup til flugstjóra á Rolls Royce vélunum hækkað all mikið á s.l. sumri, þegar þær voru teknar í notkun, frá því, sem flugstjórar á DC 6 B hafa og nú gerðu flugstjórar á Rolls Royce vélunum kröfur um að fá ársgreiðslur 808 þús. kr. Þetta skiptist í 5 liði og hefur verið deilt um, hvort ætti að líta á þetta sem kaup eða annað. Ég skal ekki fullyrða um það. En til glöggvunar tel ég rétt að rifja upp, í hverju þessar greiðslur eru fólgnar.

Það er í fyrsta lagi grunnkaup á mánuði, 38 þús. kr. eða 456 þús. kr. á ári. Það er í öðru lagi flugstundatrygging miðað við 60 stundir á mánuði, 15 þús. á mánuði eða 180 þús. á ári. Það er í þriðja lagi dagpeningauppbót, 4.167 kr. á mánuði eða 50 þús. kr. á ári. Það er í fjórða lagi ný aukagreiðsla, 5 þús. á mánuði eða 60 þús. á ári. Og það er í fimmta lagi lífeyrissjóður, 5.175 kr. á mánuði eða 621.00 á ári. Samtals 808.104 kr. Þetta eru ársgreiðslur. Menn geta svo hins vegar deilt um það, hvort þeir líta á þetta sem kaup, t.d. lífeyrissjóðstillagið. Það er nú reiknað sem kaup hjá opinberum starfsmönnum og annað þess konar.

En það geta menn deilt um. En ársgreiðslurnar voru þetta, en síðan hafa flugmenn slakað til um 25%, þannig að mánaðargreiðslur væru 51– 52 þús. kr. Hins vegar hafa Loftleiðir boðið 5% hækkun plús vísitöluhækkunina, 3.05% og verður þá ársgreiðslan til 1. flugstjóra 530.460 kr. En þeir, sem ekki fá hæstu laun, fá 88% af þessu eða tæplega 500 þús. kr. Að þessu vildu flugstjórar ekki gang, og ætla ég engan dóm á það að leggja, hvort það var sanngjarnt eða ekki, látum það liggja alveg á milli hluta. Ég ætla ekki heldur að leggja dóm á það, hvort flugstundatíminn er eðlilegur, 60 stundir, eins og þeir fara fram á, eða 65 stundir, eins og þeir hefðu viljað ganga inn á. Hitt má hins vegar upplýsa, að víða er flugstundafjöldi hjá erlendum flugfélögum 80 og jafnvel upp í 85 stundir. Og vissulega væri fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hvaða laun flugstjórar hafa hjá öðrum flugfélögum. Hjá Evrópuflugfélögunum eru launin 4–5 þús. pund á ári eða 500–600 þús. kr. og er þá miðað við þotur. Laun aðstoðarflugmanna eru frá 1300–1900 pund á ári. En laun flugstjóra hjá Pan American eru upp í 12 þús. pund á ári, ekki helmingi hærri en hjá Evrópufélögunum, heldur allt að því 200% hærri. Og ég býst við, að það megi kalla Pan American flugfélagið auðfélag og það má vera, að það sé. Ég veit ekki um flugstundatímann þar eða hlunnindi, en ég ætla, að það sé miklu eðlilegra fyrir okkur að miða kaup og kjör okkar flugstjóra við það, sem gerist hjá evrópskum félögum heldur en amerískum, býst ég við.

Nú er það svo, að þessi deila hefur staðið, eins og kunnugt er og er raunveruleg. Við erum áreiðanlega sammála um, að íslenzkir flugstjórar hafi unnið gott verk og séu dugandi menn. Við erum áreiðanlega sammála um það, að þeim beri að hafa góð kjör og það sé eðlilegt að búa vel að þeim. Það erum við sammála um. Og ég held, að við hljótum að vera sammála um, að það megi ekki og eigi ekki undir neinum kringumstæðum á þeim að níðast. Nú hefur verið talað um, að það sé níðingsverk að koma með gerðardómslög í sambandi við þessa deilu, það sé hreint og beint níðingsverk. Það hefur hins vegar verið á það bent, að stórar starfsstéttir, eins og t.d. bændur og opinberir starfsmenn, geta ekki ákveðið sín launakjör sjálfar. Þeir fara ekki í verkfall, heldur er það opinber aðili, sem ákveður verðið á afurðum bænda, ef ekki verður samkomulag í 6 manna nefnd. Og kjaradómur ákveður kaup opinberra starfsmanna, ef ekki næst samkomulag. Þetta er varanlegt og þetta er hjá láglaunastéttum. En hér er um aðeins tímabundinn gerðardóm að ræða, sem ekki á að standa lengur en til 1. febr. næsta árs. Og hér er lagt til, að settur verði gerðardómur til þess að forða frá vandræðum.

Ég met íslenzka flugmenn mjög mikils og það má vel vera, að það sé eðlilegt, að þeir hafi þreföld eða jafnvel fjórföld laun miðað við margar aðrar stéttir, ég ætla ekki að leggja neinn dóm á það. En það er staðreynd, að þeir

hafa það með þeim boðum, sem þeim hafa verið gefin. Og ég held, að það sé ekki eðlilegt að segja, að það sé verið að níðast á þeim, þótt nú sé lagt til að leysa þessa deilu með þeim hætti, sem hér er lagt til. Ég held og reyndar veit, að margir flugmenn vilja heldur, að deilan sé leyst með þessum hætti, heldur en að hún standi áfram. Ég veit, að flugmenn hafa gert sér grein fyrir því, að það getur skapazt hættulegt ástand og allt of mikið tjón af því, að þetta verkfall standi áfram. Þeim er það annt um hag þess félags, sem þeir hafa unnið hjá og gengi flugmálanna yfirleitt, að þeir meta það miklu meira, en stundarhag eða það, hvort hægt verður að segja, að þeir í bili hafi farið með sigur af hólmi í þessu máli. Þeir vilja, að það takist áfram að efla flugið hér á landi. Ég hef rætt við flugmenn. Ég veit, hvernig þeir hugsa. Þeir gera kröfur fyrir sig og sína stétt. Þeir vita, að þeirra starf er mikilvægt og ábyrgðarmikið. Þeir telja sig eiga að bera mikið úr býtum og við erum sammála um það. En þeir standa í deilu, sem virðist vera óleysanleg með frjálsum samningum, en þessi deila verður að leysast.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að svo stöddu, en vil að lokinni þessari umr. leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.