29.04.1965
Neðri deild: 76. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Enn þá einu sinni horfumst við í augu við frv, til l. um að banna eðlileg og lögleyfð samskipti aðilanna á vinnumarkaðinum, atvinnurekenda og vinnandi fólks. Ég þarf varla að taka það fram, að alþýðusamtökin í landinu eru „prinsipielt“ algerir andstæðingar þess, að gripið sé til slíkra úrræða. Tel ég þau óviðeigandi með öllu og óþolandi með öllu og alls ólíkleg til þess að bæta andrúmsloftið milli þessara aðila eða leysa nokkurn vanda, heldur miklu líklegri til þess að skapa ný vandkvæði og torvelda samninga síðar meir, þ.e.a.s. torvelda það, að málin leysist með eðlilegum og lögheimiluðum hætti. Slík löggjöf er því ill löggjöf og það getur varla leitt af sér neitt gott að reyna slíkt úrræði. Það leysir áreiðanlega ekki vanda aðilanna og það leysir ekki heldur þjóðarvanda. Ég held, að það skapi bæði aðilunum í viðkomandi deilumálum aukinn vanda við að glíma og þjóðfélagið hefur ekki bitið úr nálinni með slíkri lagasetningu til þess að banna vinnudeilur. Það er ekki lausn.

Í þessum l.. eru tvö meginatriði: Í fyrsta lagi, að verkfall það, sem hófst 4. apríl s.1. milli Loftleiða og Félags ísl. atvinnuflugmanna, skuli bannað með þessum l. og vera óheimilt frá gildistöku þessara laga. Og í annan stað að setja gerðardóm, sem á að ákveða flugmönnunum, sem í deilu standa, kaup og kjör. Í þriðja lagi er svo bann við öðrum verkföllum, sem kynnu að rísa út af þessum málum, — það er í 4. gr. Verkföll í því skyni að knýja fram aðra skipan, en lög þessi ákveða eru óheimil. Þetta sýnir, að hæstv. ríkisstj. reiknar með því, að út af því, að þetta verkfall sé bannað, kunni önnur verkföli að rísa. Hún veit, að hún er að vekja reiðiöldu, sem getur leitt til þess, að önnur verkföll rísi og þess vegna þykir henni ekki ráð, nema í tíma sé tekið, að reyna að banna þau fyrir fram, því að hún sér hilla undir þau. Ég held, að þetta sé rétt, hæstv. ríkisstj. megi einmitt búast við því, að önnur verkföll rísi út af þessari óhyggilegu og ófarsælu lausn á deilunni milli Loftleiða og flugmannanna. Og ég er ekkert viss um það, að lögbann við þeim dugi, fremur en ég er sannfærður um það, að lögbann leysi Loftleiðadeiluna og þá er miklu verr farið, en heima setið.

Það hefur verið á það minnt hér, að ríkisstj. hefur áður gripið til þess að bera fram frv. á Alþingi um að banna verkföll. Það var tilraun í þá átt, þegar frv. um launamál o.fl. var borið hér fram í desembermánuði 1963, líklega. Það urðu miklar og harðar umr. um það mál og undir þeim umr. brá hæstv. ríkisstj. á það ráð að bjóðast til að falla í bili frá lögfestingu frv., ef samningar væru teknir upp þegar í stað. Það hafði ekki þokazt neitt um samninga, meðan frv. lá fyrir Alþingi, enda er það almenn reynsla, að þegar svona frv. eru komin inn í þingið, þá er loku skotið fyrir alla samningsmöguleika. Sá aðilinn, sem þykist hafa hag af lagasetningunni eða heldur sig hafa það, hann bíður með hendur í skauti, býður ekki neina lausn úr því og ætlast til þess, að lausnin komi með lagastafnum. Það er þess vegna stöðvun á öllum samningum, allri samningaviðleitni, þegar svona frv. er komið fram.

Eftir að ríkisstj. hafði horfið frá að lögfesta frv. um launamál o.fl., hófust samningar og deiluatriðin leystust og það voru þó stórfelld deilumál, sem þá voru á ferðinni. Og það er sannast mála, að með því brá ríkisstj, þá á hið skynsamlegasta ráð og með því fékk hún þá sæmd af lausn málsins, sem hún annars gat fengið af því máli og víst er um það, að hún hefði hvorki flýtt fyrir lausn þeirrar deilu með því að halda lagasetningunni til streitu né heldur getið sér neinn sóma af því að knýja frv. í gegn, þótt hún hefði gert það. Og þess vegna segi ég: Ef það er rétt hjá mér, að það var skynsamlegt í þessu nefnda tilfelli að hverfa frá að knýja bannið við verkföllum í gegnum þingið, þá er það einnig skynsamlegt nú og ríkisstjórnin mundi, úr því að hún fékk sæmd af hinni úrlausninni, ekki síður fá sæmd af því nú.

Hitt veit ég, að það er dálítið erfitt fyrir hæstv. ríkisstj. að manna sig upp í slíka afstöðu, eftir að farið er af stað með frv. um bann við verkföllum. Þetta gerði hún samt þá og það bjargaði því, sem bjargað varð og það held ég, að mundi enn gerast.

Með þessu frv. er nú verið að höggva í annað sinn í hinn sama knérunn, því að banni við verkfalli hefur áður verið beitt gegn Félagi íslenzkra atvinnuflugmanna og er nú verið að beita það þessu harðræði í annað sinn. Þetta er vafalaust gert í skjóli þess, að Félag íslenzkra atvinnuflugmanna er ekki meðlimur í Alþýðusambandi Íslands, ekki meðlimur í heildarsamtökum íslenzkra verkalýðssamtaka og þess vegna kannske reiknað með, að það fái ekki sams konar aðstoð frá öðrum stéttarfélögum og það mundi fá og eiga rétt á, heimtingu á, ef þessi samtök væru í heildarsamtökunum. En einmitt af því að svona stendur á, þá tala ég ekki í þessu máli þann veg, að Félag íslenzkra atvinnuflugmanna sé neinn skjólstæðingur Alþýðusambandsins. Ég tala eingöngu um þetta mál út frá því, að hér er um lögleg stéttarsamtök að ræða í landi okkar, sem eiga að njóta ákvæðanna í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur og ákvæði þeirra laga á ekki að brjóta á þeim, flugmönnunum, fremur en öðrum stéttarfélögum. Það er því ósvinna hin mesta, þegar það gerist nú í annað sinn, að verkfallsbanni á að beita gegn þessari fámennu, en þýðingarmiklu stétt. Ég býst við, að önnur ástæðan sé sú, að þetta sé fámenn stétt og að þessir fáu menn, sem um sé að ræða hverju sinni, þeir megi ekki valda alvarlegri stöðvun á dýrum atvinnutækjum. Þessi rök eru stundum höfð uppi, en þetta eru léleg rök, fánýt rök, því að það er persónuréttur einstaklingsins, sem er verið að vernda með lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur og persónuréttur einstaklingsins í fámennu stéttarfélagi á að vera jafnhelgur og hann á að vera jafntryggður að lögum í lýðræðisþjóðfélagi, eins og þegar um mikinn fjölda er að ræða og hér er verið að ráðast á persónurétt einstaklingsins í okkar svokallaða lýðræðisþjóðfélagi, Íslandi.

Þetta frv. var flutt, eftir að verkfallið hafði staðið nálægt hálfum mánuði, en þá stóð svo á hér á hv. Alþingi, að hlé var gert á störfum þingsins vegna þess, að annar stjórnarflokkurinn var að halda sitt flokksþing og á meðan lá frv. fyrir Alþingi og var ekkert hafzt að um afgreiðslu þess. Afgreiðsla málsins er því búin að taka langan tíma og af þeim drætti hefur leitt langvarandi stöðvun á öllum möguleikum til lausnar með frjálsum samningum. Þetta er næsta óheppilegt. Úr því að til svona óyndisúrræðis var gripið af hæstv. ríkisstj., þá bar henni að velja til þess stund, sem hún hefði tíma til að sinna málinu og sjá um, að svo miklu leyti sem í hennar valdi stóð, að það kæmist fljótt í gegnum þingið og drægi ekki verkfallið á langinn. En þetta var ekki gert. Það var einmitt valinn tíminn, þegar Alþingi átti ekki að starfa hina næstu daga og málið látið liggja. Það hefur ekki orðið neinn óeðlilegur dráttur á afgreiðslu málsins fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar, því fer fjarri. Hér hafa aðeins farið fram eðlilegar umr. um málið og alls ekki langdregnar úr hófi fram í hv. Ed., og það mun ekki heldur verða úrræði okkar stjórnarandstæðinga hér í hv. d. að tefja lausn málsins, með neinu málþófi. Hins vegar er málið svo mikils vert, að um það er skylt og rétt að ræða og ræða ýtarlega og rækilega. Hér er um stórt „prinsip“–mál að ræða og hæstv. ríkisstj. verður að vita það, að sem „prinsip“–mál er þetta með þeim stærstu og stjórnarandstaðan getur ekki látið það fram hjá sér fara, án þess að hæstv. ríkisstj. sé minnt á það hverju sinni mjög alvarlega, að hún er á villigötum, þegar hún hyggst leysa deilumál vinnumarkaðsins með lagasetningu.

Þegar alvarlegar deilur hafa risið á vinnumarkaðinum og sáttasemjari hefur verið uggandi um það, að sér kynni e.t.v. ekki að takast að finna leiðir til sátta og samkomulags, hefur hann stundum beðið ríkisstj. á hverjum tíma þess að tilnefna valinkunna menn sér til aðstoðar í sáttanefnd. Ég tel, að það úrræði hefði átt að reyna nú. Í fyrsta lagi að þrautreyna samninga fund eftir fund, en í þessari deilu hafa fundir verið tiltölulega fáir og strjálir. En það hefur ekki verið reynt að skipa sáttanefnd með sáttasemjara ríkisins. Það hefur þó stundum leitt til lausnar á alvarlegum vinnudeilum, að sáttanefnd hefur komið í málið með sáttasemjaranum og það er enginn, sem getur fullyrt það, að sáttanefnd með sáttasemjara kynni ekki að hafa tekizt að leysa þetta mál á eðlilegan og farsællegan hátt. Það var bara ekki reynt og það ber að víta að grípa til þessa úrræðis, lagasetningarinnar, án þess að hafa reynt allar aðrar hugsanlegar leiðir.

Þá er það og alveg sjálfsagður hlutur skv. ákvæðum laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, að ef deila fer að dragast á langinn, þá sé borin fram sáttatillaga og hún borin undir atkvæði aðila og þannig gengið úr skugga um það, hvort ekki séu finnanleg úrræði til lausnar og að svör aðila, játandi eða neitandi, liggi fyrir. Þetta hefur ekki heldur verið gert. Hér er því rokið af stað með löggjöf, áður en búið er að reyna hinar sjálfsögðustu og venjulegustu leiðir.

Deiluefnið í þessu máli er tvíþætt. Það er annars vegar ágreiningur um kaup nokkurra flugmanna á hinum stóru vélum Loftleiða, Rolls Royce 400, sem félagið hefur nýlega eignazt og í annan stað mikill ágreiningur, alvarlegur ágreiningur um flugtíma þessara manna, um vinnutíma þeirra, og er mér tjáð, að ágreiningurinn sé ekki síður um hið síðarnefnda atriði.

Því er haldið fram, að hér sé um óhóflegar kaupkröfur að ræða, það sé óheyrilega hátt kaup, sem flugstjórarnir á þessum stóru vélum fari fram á. Ekki fæst fullt samkomulag um það, hvernig kröfurnar séu. Talað var um í byrjun, að þetta væru kröfur upp á níunda hundrað þúsund króna árslaun hjá flugstjórunum. Síðan hefur nokkuð úr þessu dregið, en hér nefndi flugmrh. áðan tölur í þessu sambandi og komst upp á níunda hundraðið, nefndi, að alls væru tekjur flugmanna á ári 808 þús. kr. En þar hafði hann nefnt eina þrjá eða fjóra liði, sem enginn heilvita maður nefnir til launa, lífeyrissjóðinn á auðvitað ekki að telja til launa, og hann nefndi fleiri pósta, sem alls ekki er rétt að telja með í launum. Það var ekki heldur á það minnzt, að áður en til verkfalls kom, þá slógu flugmennirnir af sínum kröfum um fjórðung, um 25%, lækkuðu kröfur sínar um 25% og stóðu þá kröfur þeirra þannig, eftir því sem mér er tjáð og ég hygg að sé sanni nær, að flugstundagjald og fastakaup flugmannanna væri 42 þús. kr. á mánuði. Þetta er kaupkrafa hæst launuðu mannanna, sem hér er um að ræða, en sagt er mér, að kaup aðstoðarflugmanna sé hins vegar 60–75% af kaupi flugstjóra. Þeirra tölur verða þannig mun lægri en þessi tala, sem ég nú nefndi.

Ég kann því heldur illa, að hæstv. ráðh. skuli með þeim tölum, sem hann nefndi, gera tilraun til þess að villa um fyrir hv. þm. um það, hvað kaupkröfurnar séu háar, því að séu þær úr hófi fram háar, þá er ósvinna að vera að ýkja þær eða bæta þar nokkru við og ætti ekki að vera þörf á. Ef þær réttu tölur eru svo háar, að almenningsálitinu ofbjóði, þá ætti það að vera sterkast að nefna þær réttu tölur, einmitt til þess að skírskota til almenningsálitsins. En sú tilraun fellur um sjálfa sig og veikir málstað þann, sem er verið að reyna að styðja, að ýkja þessar tölur, þegar blekkingarnar eru afhjúpaðar. Það er mjög óviðeigandi að reyna að beita blekkingum, að því er snertir þær tölur, sem hér er um að ræða. Það á að vera hægt að krefjast þess, að þar sé rétt skýrt frá.

En því miður virtist mér líka gæta tilhneigingar hjá hæstv. ráðh. til þess að blekkja nokkuð, þegar hann nefndi hitt deiluatriðið, vinnutímann. Hann sagði, að það væri víða hærri flugstundafjöldi heimtaður af flugmönnum og nefndi Ameríku og ýmis dæmi í veröldinni, þar sem flugstundafjöldinn væri meiri en hér. Ég efa ekki, að það er hægt að finna þess dæmi. En það er þó ekki óeðlilegt, að flugstundafjöldinn hér hjá Loftleiðaflugmönnunum, sem í deilunni standa, sé borinn saman við t.d. hið norræna flugfélag SAS, en þar mun flugstundafjöldi vera 470, en hjá Loftleiðum á DC 6 vélunum er umsaminn flugstundafjöldi núna 900 stundir. Ég teldi ekki óeðlilegt, að flugstundafjöldinn hér á þessum stærstu vélum væri svipaður og hjá SAS, en þá ætti hann að lækka verulega frá núgildandi samningum, en ekki að hækka. Og ef það er rétt, sem flugmennirnir segja í grg., sem þeir hafa látið frá sér fara, að vinnutími flugmanna geti skv. samningum komizt upp í 22 klst. á sólarhring, allan sólarhringinn nema tvær stundir til hvíldar, þá er ægilegt að hugsa til þess. Það er ekki aðeins misboðið heilsu flugmannanna og gengið fram af öllum hugsanlegum öryggisráðstöfunum. Þetta er mál, sem varðar alla, sem fljúga með vélunum, þetta er mál, sem varðar þjóðina. Það er glapræði að hafa slíkt ákvæði, að heimilt skuli að láta flugstjóra fljúga í 22 klst. samfellt. Þetta er að vísu það, sem þeir segja, að geti komið fyrir. Vinnutími flugmanna getur skv. samningum komizt upp í 22 klst. á sólarhring og hefur hann fyrir baráttu flugmanna þó verið færður niður frá því, sem áður var.

Í þessari kjaradeilu er krafizt breytingar á flugtíma til lækkunar, fyrst og fremst til þess að forðast ofþreytu flugmanna út af næturvökum og vegna þeirrar röskunar, sem mikill tímamismunur á áfangastöðum og hvíldarstöðum veldur. Hvort sem almenningsálitið styður flugmennina eða ekki að því er snertir kaupkröfur þeirra, þá er ég a.m.k. sannfærður um, að almenningsálitið styður kröfur flugmannanna um það, að þetta eigi sér ekki stað og að hvíldartími þeirra verði ákveðinn af meiri ábyrgðartilfinningu, en þetta samningsákvæði virðist bera vott um. Ég er alveg sannfærður um það, að almenningsálitið styður flugmennina í því, að það verði að vera ákveðin ákvæði í samningum um, að flugmönnunum sé ekki ofboðið með of löngum samfelldum flugtíma. Hvíldarákvæðin verða þar að vera ákveðin. Að öðrum kosti er í raun og veru öllu flugöryggi glatað.

Það er ein af röksemdum ríkisstj. fyrir flutningi þessa frv., að það, að vélar félagsins stöðvist í verkfalli, geti spillt álíti Loftleiða á alþjóðavettvangi. Það má vel vera. Þó getur SAS og sérhvert flugfélag orðið fyrir því að lenda í verkfalli og það gerist í Ameríku líka og ekkert síður og það er því ekki annað en það, sem við má búast, að atvinnufyrirtæki eins og flugfélög lendi í deilum, vinnudeilum, verkföllum, rétt eins og aðrir atvinnurekendur. Álit fyrirtækis getur þess vegna ekki hrunið í rúst út af því, að þetta sé neitt sérstakt fyrirbæri.

Hitt er annað mál, að langvarandi stöðvun á rekstrinum getur eins og í öllum tilfellum, þegar vinnustöðvanir standa Iengi, valdið Loftleiðum miklu fjárhagslegu tjóni. Það er vissulega rétt. Og ef Loftleiðir hafa mikið tjón á degi hverjum af verkfallinu, þá er það orðið anzi mikið fjárhagslegt tjón, sem félagið hefur þegar beðið af því að slaka ekki nokkuð til í samningamálunum og leysa heldur deilumálið með því að hækka svolítið kaup flugmanna og losna við fjárhagslega tjónið við rekstrarstöðvunin, og það verð ég að segja, að það tel ég aðeins reikningsdæmi fyrir Loftleiðir, hvort það borgi sig ekki betur fyrir félagið að ganga að eitthvað hærri kröfum, að því er snertir kaupið hjá þessum fáu mönnum, heldur en að tapa kannske margfaldri upphæðinni með langvarandi vinnustöðvun og rekstrarstöðvun þessara dýru fyrirtækja og mannvirkja.

En ef verkfallið spillir álíti Loftleiða á alþjóðavettvangi, þá er ég miklu fremur hræddur um hitt, að langvarandi verkfall spilli áliti Loftleiða innanlands hjá landslýðnum, ef það verður ljóst, að Loftleiðir hiki ekki við að taka á sig margfalt rekstrartjón, í því formi að heyja verkfall, við sína starfsmenn, heldur en að borga þeim eitthvað lítillega hærra kaup. Það held ég, að spilli álíti Loftleiða inn á við, af því að menn vita hér, að Loftleiðir, góðu heilli, hafa vaxið sig fjárhagslega sterkar og geta boðið sínu starfsfólki öllu saman gott kaup.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta verkfall sé þegar orðið miklu dýrara fjárhagslega fyrir flugfélagið Loftleiðir, en lausn málsins hefði kostað án verkfalls með hækkuðu kaupi. Ég held því, að Loftleiðir séu búnar að baka sér fjárhagslegt tjón með því að láta koma til verkfalls. Með þessu fullyrði ég alls ekki, að það sé eingöngu sök Loftleiða, þegar tveir deila. Það má vel vera, að flugmennirnir hafi staðið mjög fast á sínum kröfum.

Ástæður þær, sem hæstv. ráðh. flytur fyrir flutningi þessa frv., eru allar mjög almenns eðlis, að þjóðarnauðsyn heimti að leysa það, mikið fjárhagslegt tjón stafi af stöðvun þessara flugvéla og ástæður yfirleitt, sem eiga við, hvenær sem verkfall skellur á. Það er því víst, að þessar forsendur er hægt að nota hvenær sem til verkfalls kemur, af því leiði tjón, það sé þjóðarnauðsyn, að deilan leysist. Vitanlega er það nauðsyn, að deilur leysist. En þá má ekki heldur láta neitt undir höfuð leggjast til þess að leysa þær eins og lög mæla fyrir um, þrautreyna allar slíkar leiðir vegna þjóðarnauðsynjar, vegna þess hvað það er óhemju mikið í húfi fyrir rekstur þess atvinnurekstrar, sem stöðvast við verkfall. En hér hefur ekki verið gert nándar nærri allt, sem gera bar til þess að forða frá verkfalli og til þess að reyna að leysa það, eftir að það hafði brotizt út.

Þetta frv. er því frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar forkastanlegt í alla staði. Það er auðvelt að nota þessa lagasetningu gegn flugmönnunum sem almenn fordæmi í vinnudeilum og má fyllilega búast við því, að hvenær sem verkfall brytist út, þá væri frv. flutt á ný, þó að láglaunastéttirnar ættu í hlut og verkföll þeirra bönnuð.

Ég er alveg sannfærður um það, að láglaunastéttirnar bera sig yfirleitt ekki saman við þá hæst launuðu í þjóðfélaginu, bera sig ekki saman við verkfræðinga, lækna og flugmenn. Svo mikið er víst, að það liggja góð og gild rök fyrir launakröfum láglaunastéttanna og þeim dettur ekki í hug að grípa til þeirra raka, að láglaunastéttirnar verði að fá hærra kaup, af því að það sé svo mikill munur á launum þeirra og hinna hæst launuðu. Og það hygg ég hafið yfir allan vafa, að almenningsálítið mun fallast á það, að flugmenn verði að hafa hátt kaup. Þeir eiga erfitt og langt nám að baki, í starfi þeirra er lagt á þá óvenjulega mikið álag, sem reynir á heilbrigði þeirra, þeir bera óhemjuábyrgð, ekki sízt þeir menn, sem stjórna flugfari með á annað hundrað manns innanborðs, á þá reynir óhemjumikið við hvert flugtak og hverja lendingu a.m.k. og ofan á þetta bætist, að starfstími þeirra er tiltölulega stuttur, miðað við aðrar stéttir. Hins vegar getur alltaf risið deila um það, hversu hátt kaupið eigi að vera. En það er engin eðlileg lausn til þess að skera úr því vafaatriði, önnur en að fram fari frjálsir samningar og reyndar séu allar sáttaleiðir og sáttatillögur fluttar, sáttanefnd skipuð og öll þau úrræði, sem við þekkjum, reynd til þess að leysa það.

Hæstv. ráðh. gat þess, að þetta frv. væri tímabundið og ætti að gilda frá gildistökudegi og til 1. febr. 1966, af því að þá gengju úr gildi aðrir launasamningar hjá flugfélögunum. Ég er hræddur um, að það verði einmitt þá, sem aðalvandkvæðin byrji og þá komi í ljós, að það hefur sín eftirköst að hafa sett svona löggjöf, og þá er ég hræddur um, að það hefni sín kannske grimmilega.

Annars sýnist mér nú blasa við, að afleiðingarnar af þessari lagasetningu geti orðið allalvarlegar nú þegar og að svo geti farið, að lögfesting frv. leysi lítinn vanda, ekki einu sinni vanda augnabliksins, þegar það liggur fyrir frá hendi flugmannanna svart á hvítu, að þeir lýsa því yfir, að þeir muni ekki una því að taka laun fyrir starf sitt nema skv. frjálsum samningum við vinnuveitendur sína. Ég get ekki ímyndað mér, að flugmennirnir láti slíkt frá sér fara, nema þetta sé þeirra óbifanlega ákvörðun og ef það færi nú svo, að lögin yrðu afgreidd hér, þessi ofbeldislög gagnvart flugmönnunum, verði afgreidd, en flugmennirnir fást ekki til þess að starfa, af því að laun þeirra eru ekki ákveðin með frjálsum samningum við þeirra vinnuveitendur, þá hefur ekkert unnizt með lagasetningunni, en hæstv. ríkisstj. væri það til mikillar vanvirðu.

Það er talinn megintilgangur frv. að forða frá vandræðum með gerðardómi. Ég hef í ræðu minni leitt að því líkur, að gerðardómurinn geti einmitt orðið til þess að leiða til nýrra vandræða og e.t.v. miklu alvarlegri vandræða, en um er að ræða í þessari deilu. Ég hef áður nefnt tvö önnur atriði, þar sem mér fannst gæta tilraunar til blekkingar í málflutningi hæstv. ráðh. Það var viðvíkjandi launamálunum, launakröfunum og viðvíkjandi flugstundafjöldanum, sem krafizt væri. Mér fannst brydda á því sama, þegar hæstv. ráðh. hélt því fram, að frv. væri að vilja flugmannanna. Það hefur þó verið upplýst, að farið er af stað með frv., án þess að Loftleiðir hafi óskað þess og án þess að Félag íslenzkra atvinnuflugmanna hafi óskað þess, en svo kemur ráðh. og segir, að hann viti, að flugmennirnir vilji heldur þessa lausn, en að deilan standi lengi. Mér er ekki kunnugt um, að neitt það hafi komið fram, sem bendi til annars en þess, að flugmennirnir séu eindregnir andstæðingar þess, að laun þeirra séu ákveðin með gerðardómi og hafa haft svo mikið við, að þeir segjast ekki vilja inna störf sin af hendi, ef laun þeirra séu ekki ákveðin með venjulegum kjarasamningum.

Ég harma það, að hæstv. ráðherra skuli hafa gert tilraun til þess að telja hv. þm. trú um það, að þetta væri gert fyrir flugmennina og með þeirra vilja, að leysa málið með þessari þvingunarlöggjöf. Það held ég, að sé alveg áreiðanlega rangt hjá honum og að það liggi fyrir vitneskja um það, að þessa lausn vilji þeir einmitt alls ekki, henni vilji þeir ekki una.

Hæstv. ráðh. sagði, að við værum allir sammála um það, að þessar flugvélar hefðu komið til landsins. Það er enginn vafi á því, að Íslendingar allir gleðjast yfir velgengni Loftleiða og fagna því, að það getur vegna sinnar góðu rekstrarafkomu færzt meira og meira í fang, aukið sína þjónustu í samgöngumálunum, bæði við íslenzka þegna og á erlendum vettvangi. Það er því áreiðanlega vilji allra Íslendinga, að Loftleiðir, þ.e.a.s. forustumenn þeirra, haldi þannig á málunum, að þeir komist hjá deilum og verði ekki fyrir rekstrartruflunum af ágreiningi um kaupgjalds– eða kjaramál. Mér er fyllilega kunnugt um það, að verkalýðshreyfingin á Íslandi vill ekki síður, en aðrir gengi og gæfu Loftleiða. Það er því ekki af neinni tilhneigingu okkar til andstöðu við Loftleiðir, að við mælum gegn þessu úrræði hæstv. ríkisstj., að beita lögþvingunum til þess að leysa þetta deilumál, sem komið hefur upp milli flugfélagsins Loftleiða og starfsmanna þess. Það er miklu fremur vegna þess, að okkur eru Loftleiðir kærar, að við viljum, að allar eðlilegar leiðir séu notaðar til þess að leysa málið með friði. Og það teljum við, að hafi ekki verið gert.

Það er tekið fram í frv., að gerðardómurinn eigi að ákveða laun, vinnutíma og önnur starfskjör flugmanna á flugvélum af gerðinni Rolls Royce 400 með hliðsjón af kjörum annarra sambærilegra launþega hér á landi. Ég hygg, að gerðadómsmennirnir væntanlega mundu komast í þó nokkurn vanda við að framfylgja þessu lagaákvæði. Það eru ekki margir sambærilegir launþegar hér á landi við flugstjórana á þessum stóru vélum. Þeir eru engir til, sem hægt er að segja að séu sambærilegir. Og gerðardómsmennirnir fá því ekki viðhlítandi skýr fyrirmæli um það, á hverju þeir eigi að byggja sína niðurstöðu. Ef til vill skiptir það ekki svo miklu máli, þegar það liggur fyrir, að flugmennirnir af „prinsip“-ástæðum vilji ekki beygja sig undir niðurstöður gerðardóms um sín launakjör, hvort sem þeim yrðu úrskurðuð há laun eða eitthvað lægri. En samt sem áður ber að harma það, að ákvæðið, sem á að afmarka starfssvið gerðardóms, skuli vera jafn ambögulegt og það er. Það gefur í raun og veru enga hugmynd um það, hvernig gerðardómurinn eigi að starfa og við hvað hann eigi að miða, því að viðmiðunin er ekki til, sem á neinn hátt sé sambærileg.

Ég held, að það yrði hinn mesta sæmd fyrir forustu Loftleiða og virðing þeirra yrði ekki skert, hvorki á alþjóðavettvangi né hér innanlands, ef Loftleiðir nú óskuðu eftir því, að þrautreyndar væru allar leiðir og horfið frá lögfestingu þessa frv., a.m.k. í bili, eins og gert var hér um árið. Það var ekki alveg ákveðið, að frv. skyldi ekki skjóta upp kolli aftur, ef samningar leiddu ekki til lausnar. Það var látið bíða, meðan þrautatilraunir voru gerðar til samninga. Frv. vofði þó yfir eftir sem áður. En svo gæfulega fór, að lausnin fékkst og þurfti ekki að lögfesta það, betri lausn fékkst. Ég held það væri Loftleiðum til sóma, ég held, að flugmennirnir mundu fagna því líka og það eru þeirra kröfur, að laun þeirra verði ekki ákveðin með gerðardómi. Og ég held, að ríkisstj. eigi allt of mikið á hættu um að fá vansæmd af málinu og kveikja kannske haturselda, sem hún verður ekki fær um að slökkva, ef hún heldur því til streitu að afgr. þetta frv. sem lög á ábyrgð síns nauma meiri hluta í þinginu. Ég held, að hún losni við þá áhættu með því að reyna þá leið, sem reynd var áður og gafst vel og að hennar sæmd og virðing væri mest að taka það úrræði og reyna í annað sinn.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því, að ég vil taka eindregið undir lokaorð flugmannanna, þar sem þeir segja, að Félag ísl. atvinnuflugmanna skori á hæstv. Alþingi að fella nefnt lagafrv. og þeir láta í ljós eiginlega örugga vissu um það, að samningar milli Félags ísl. atvinnuflugmanna og Loftleiða h/f kæmust fljótt á, ef horfið yrði frá þessari lögþvingunarleið. Ég skora á hæstv. Alþ. að fella þetta frumvarp, af því að ég held, að það stofni til ófriðar og stefni til óheilla og sé engum til þægðar eða ávinnings, hvorki flugmönnum, Loftleiðum né hæstv. ríkisstjórn.