30.04.1965
Neðri deild: 78. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Réttur launamanna til frjálsra samninga hefur til þessa verið talinn friðhelgur réttur. Svo hefur verið litið á af launþegum sjálfum og öllum sanngjörnum mönnum. Hins vegar ætla ég ekki að fullyrða, að hæstv. ríkisstjórn og hennar fylgismenn telji þennan rétt sérstaklega friðhelgan þessa dagana. En hvers vegna líta menn svo á, að þessi réttur sé friðhelgur? Hvers vegna líta menn svo á, að það beri að virða svo þennan rétt? Ég ætla, að það sé fyrst og fremst vegna þess, að þessi réttur er eitt aðaltæki launþeganna til þess að koma sínum málum fram, þegar til átaka kemur eða deilna. Þetta er eina leiðin, sem þessir menn hafa til þess að skapa sér með kjarasamningum sæmileg lífskjör. Launþegarnir hafa ekki þá bakhjarla, sem viðsemjendur þeirra hafa oft og einatt og ég vil segja oftast. Við höfum bitra reynslu af því, hvernig vinnukaupandinn hefur getað hagnýtt sér þá aðstöðu og það vald, sem hann hefur, á kostnað hinna, sem hann var að semja við. Launþeginn hefur ekkert að selja nema vinnu sína, krafta sína, þolið, viljann til þess að vinna. Og það er því eðlilegt, að hann vilji fá það verð fyrir þessa vinnu sína, að hann geti lífað sómasamlegu lífi með sig og sína. Þjóðfélagið hefur fyrir löngu viðurkennt þennan rétt launþeganna með löggjöf og í framkvæmd. En svo koma fyrir atvik, þar sem bregður út af því, að valdamenn þjóðfélagsins vilji halda í heiðri þennan rétt þeirra, vilji virða samningsréttinn á félagslegum grundvelli, vilji virða það, að mönnum beri að semja frjálst og óhindrað um þetta eina, sem þeir hafa til að selja, vinnuna. Sumir þeirra, sem hér eiga sæti nú, muna sennilega þá tíma, þegar þessi réttur var lítilsvirtur, bókstaflega fótumtroðinn, þar sem vinnukaupandinn hafði valdið og beitti valdinu til þess að knésetja hinn veikari í þessum samskiptum. Vinnukaupandinn hafði venjulega fjármagnið að bakhjarli og fjármagninu fylgir vald. Vinnukaupandinn hafði oft og einatt líka ríkisvaldið að bakhjarli. Og það er ekki hægt að neita því, að svo virðist það vera nú.

Þegar svipta á launamenn þessu frelsi, þessum rétti, rétti til að semja um vinnuna, sem þeir eru að selja, er eðlilegt, að til deilna dragi og til harðra átaka. Þá er eðlilegt, að andstöðu sé beitt og það af fullum kröftum, því að hvað eiga þessir menn eftir, ef af þeim verður tekinn þessi réttur?

Mér kemur til hugar, þegar þessi mál eru rædd nú, atburður, sem gerðist fyrir rúmum 40 árum vestur á Snæfellsnesi, þegar ég átti þar heima. Þá var ekki blómlegt atvinnulíf í landinn, þá var ekki margra góðra kosta völ fyrir verkamennina, sjómennina, fyrir vinnandi fólk. En fólkið þar taldi sér nauðsynlegt að efna til samtaka og stofna þar verkalýðsfélag í fyrsta sinn, því að þar hafði það ekki verið til áður. En þegar til stofnfundar kom, sem auðvitað var öllum opinn, kom þar fram maður, fulltrúi þeirra sjónarmiða, sem eru grunntónninn í þessu frv., sem hér er til umr. og tilkynnti sjómönnum, að ef þeir létu vera að ganga í verkalýðsfélagið, stæði þeim opið skipsrúm hjá stórútgerðinni. Það voru togararnir þá. Þetta voru glæsileg boð. Svona voru vinnubrögðin þá. Þeir létu auðvitað ekki ginnast, sjómennirnir, þeir stofnuðu sitt félag. Þeir létu engin gylliboð villa sér sýn. En þetta er eitt litið dæmi um vinnuaðferðirnar, sem giltu í gamla daga. Ef þeir hefðu orðið við þessum tilmælum og látið vera félagsstofnun, hætt við allan félagsskap, hefðu sjálfsagt kjör þeirra orðið einhver önnur nú en þau eru.

Þetta frv., sem hér er til umr., segir hæstv. ríkisstj., að sé flutt til lausnar á kjaradeilu atvinnuflugmanna og Loftleiða h/f, og hæstv. samgmrh. sagði í framsöguræðu sinni í Ed., að hann væri þess fullviss, að flugmenn væru ánægðari með þess lausn á málinu, heldur en að standa í löngu verkfalli. Þetta var tilkynning til okkar þm. um það, að okkur væri bezt að fylgja málinu, því að þá værum við að gera flugmönnunum gagn, þá værum við að verða við þeim óskum, sem þeir hefðu nú helzt uppi. Og það er sannarlega ekki óeðlilegt, að einhverjir þm. taki tillit til þess, sem hæstv. ráðh. flytur þeim sem nokkurs konar tilkynningu. Það er því ekki nema eðlilegt, að þm. hagi afstöðu sinni til málsins að einhverju leyti í samræmi við slíkan boðskap, sem ráðherra flytur. En hvað var rétt í þessum boðskap hæstv. ráðh.? Hvað var rétt í þessari fregn, að flugmennirnir væru ánægðari með gerðardóm til að dæma sér kaup og kjör en að standa í verkfalli? Við þurfum ekki að leita langt um það, hvað er rétt í þessu efni. Með nál. minni hl. samgmn. Ed. er prentuð umsögn flugmannanna sjálfra um frv. Og hvað segja þeir? Segja þeir þar, að þeir telji rétt að setja gerðardóm, því að þeir þoli ekki langt verkfall? Segja þeir ekki alveg sama og hæstv. ráðh. sagði? Nei, þeir segja þetta ekki. Þeir heita á Alþ. að fella þetta frv. Þeir tilkynna Alþ., að þó að frv. verði samþ., — segir orðrétt — „vilji þeir ekki og munu ekki una því að taka laun fyrir starf sitt nema samkv. frjálsum samningum við vinnuveltendur sína.“ Hún reyndist þá ekki réttari fréttin, sem hæstv. ráðh. birti þm., en þetta. Flugmenn tilkynna Alþ., að þeir vilji heldur standa í verkfalli, en fá á sig gerðardóm, sem skapi þeim kaup og kjör, þvert ofan í það, sem hæstv. ráðh. sagði.

Í umr. um þetta mál, ekki aðeins hér á hv. Alþ., heldur í blöðum nú alllengi, hefur verið skýrt frá þeim kröfum, sem flugmenn hafa gert og hvað eftir annað með stóru letri rætt um 810 þús. kr. launin, sem þeir krefjist að fá. Og auðvitað er þetta gert í ákveðnum tilgangi. Það er gert til þess að vekja andúð á flugmönnum, að þeir skuli gera svo ósvífnar kröfur til vinnuveitanda síns. Það er til að skapa það andrúmsloft um þetta mál, að koma megi auðveldlega fram gerðardómsfrv. hér á hv. Alþingi.

Hvað reynist svo rétt í þessum fregnum? Samgmn. þessarar hv. d. hefur í dag haft þá á fundi með sér, fulltrúa beggja aðila, Loftleiða og atvinnuflugmanna. Og ég varð ekki þess var, að það bæri neitt þar á milli í frásögn þessara aðila um hinar raunverulegu kröfur, sem uppi eru, ekki neitt, sem teljandi er, að vísu í smáatriðum, sem skipta ekki miklu máli. Og þá kemur í ljós, að það eru ekki neinar 810 þús., sem þessir menn krefjast og ekkert nálægt því. Hæsta krafan, sem þessir menn gera í launum, að meðtöldum flugtímum, er 42.800 kr. á mánuði, hæsta krafan eftir 15 ára reynslu hjá flugstjórum í hæsta launaflokki. En þetta samsvarar um 513 þús. kr. launum yfir árið. Og hvað eru nú margir með þessar kröfur? Hvað er stór hópur flugmanna, sem á að komast í þessi laun? Þeir eru 3 eða 4, ég ætla ekki nema 3, því að einn þeirra, sem mundi falla undir þetta ákvæði, flýgur aldrei. Hvað er þá um hina, sem lægra eru launaðir, aðstoðarflugstjóra og flugmenn? Auðvitað eru þeirra kröfur miklu lægri, svo miklu lægri, að þær eru niður í 27.600 kr. á mánuði eða sem svarar 331 þús. kr. yfir árið og flugtímar meðtaldir. Ég ætla ekki að neita því, að það má kalla þetta kannske há laun og ég dæmi ekkert um það, hvort það er réttmætt eða ekki réttmætt að fallast á slíkar kröfur. Þetta hjá hinum lægri slagar upp í helming eða kannske 3/4 af launum hjá hæstv. ráðh, sjálfum, meira er það nú varla, þegar þeirra laun, hæstv. ráðh., eru tíunduð og þó sennilega ekki nema helmingur. Hitt er svo allt annað mál, að kostnaður flugfélagsins Loftleiða af mannahaldinu er auðvitað meiri en launin og það er vitanlegt. Kostnaðurinn, sem flugfélagið hefur, er bæði launin, það eru tryggingagjöld, það eru dagpeningar, það eru einkennisföt og það er sjálfsagt eitthvað fleira, sem ég man ekki. En á nú að telja tryggingagjöldin laun? Ríkissjóður greiðir hluta af mínum tryggingagjöldum, ég hef aldrei talið þau laun, þann hluta. Ríkissjóður greiðir tryggingagjöld fyrir hæstv. ráðh., ég hef aldrei heyrt talað um, að þau séu kölluð laun. Flugfélagið verður að greiða flugmönnunum dagpeninga, þ.e.a.s. peninga til að borga fyrir sig á erlendum hótelum og annan kostnað, sem af því leiðir að dveljast þar. Eru það laun? Þá held ég, að laun sumra hæstv. ráðh, fari að hækka, ef ferðakostnaðurinn allur á að koma ofan á þau? Eru einkennisfötin laun? Menn þurfa að vísu að ganga í fötum. En einkennisfötin eru ekkert annað en auglýsing flugfélagsins, ekkert annað en auglýsing um þetta félag, þar sem maður kemur í þjónustu þess, ber hann það með sér, að hann er frá þessu ágæta félagi. Og ef það væri siður, að hæstv. ráðh. gengju með gyllta hnappa, fengju þeir vafalaust hnappana alla á kostnað ríkisins, en ekki sinn.

Nei, það er rangt að blanda saman kostnaði flugfélags í mannahaldi yfirleitt og þeim launum, sem mennirnir fá sjálfir. Það er gert í blekkingarskyni og engu öðru. Það er gert til þess að skapa tortryggni til þessara manna og andúð. Það er gert til þess, að auðveldara sé að koma fram því gerðardómsfrv., sem hér er til umr.

Ég gat þess hér áðan, hverjar hinar raunverulegu launakröfur væru hjá þeim flugmönnum, sem nú eiga hér í deilu. Við fengum upplýsingar í dag einnig um það, hvernig slík launakjör væru hjá hinu stóra og mikla flugfélagi SAS og virtist ekki óeðlilegt að bera þetta saman. Hæstu launakjör þar hjá flugstjórum eru 592 þús. ísl. kr. yfir árið, eða allmiklu hærri, en hér er um að ræða í þeim kröfum, sem ekki er orðið við. Hjá hinum lægri mönnum er þetta minna, allt niður í 234 þús. ísl. kr. yfir árið, að viðbættum 6%, eða sem svarar 250 þús. ísl. kr. Þar virðast þeir vera lítið eitt lægri, en kröfur íslenzkra flugmanna. Hins vegar er vitanlegt, að það er ekki hægt að bera með fullum rétti saman laun flugmanna í tveimur löndum, nema allt annað sé þá hliðstætt og ég tel ekki, að þessi samanburður, þótt ég nefni hann, af því að þessar upplýsingar komu fram í dag, sanni neitt raunverulega, því að það þarf að kryfja slíkt miklu betur til mergjar, ef á að fá raunverulegan samanburð, sem hægt er að byggja á. Við í samgmn. óskuðum eftir því í dag, að deiluaðilar gæfu okkur upplýsingar um, hversu miklu næmi það, sem ber á milli í tilboðum beggja aðila í þessari deilu. Þar sem það er nokkuð flókið mál að gera grein fyrir því, er erfitt að fara út í þá sálma og var það mjög skiljanlegt, að til þess þyrfti mjög nákvæma athugun, ef það ætti að vera tæmandi. En í stórum dráttum virðist mér, að það, sem mest ber á milli um flugstjóra, nemi um 7 þús. kr. á mánuði, það er hjá þeim hæst launuðu, en miklu minna hjá hinum, sem leiðir af því, að þeir eru á lægri launum og eru engar kröfur gerðar um, að þeir hækki tiltölulega meira en aðrir.

Í þessari deilu er þó ekki kaupgjaldið, launin sjálf, aðaldeiluefnið, heldur er það vinnutíminn eða það mætti eins orða það hvíldartíminn. Um þetta fengum við þær upplýsingar, að vinnutíminn gæti orðið um 105 flugtímar á mánuði að sumrinu til, minna að vetri til, samkv. þeim samningum, sem þessir flugmenn hafa unnið eftir, en flugmennirnir hafa boðizt til þess að fallast á 85 flugtíma.

Þegar á þetta er minnzt, vinnutíma, komum við að öðru atriði, sem er ekki þýðingarminna, en kaupdeilan sjálf, en það er ákvæði gildandi laga, að ráðh. skuli setja reglugerð um hvíldartíma flugmanna til öryggis, þ.e.a.s. til öryggis farþegum, áhöfn og öllum, sem með flugvélum ferðast. Í 52. gr. l. um loftferðir frá því í fyrra segir: „Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“ Þegar loftferðalögin voru til umr. í fyrra, var mikið rætt um þennan lágmarks hvíldartíma flugmanna. Ég átti þá einnig sæti í samgmn., sem fjallaði um það mál. Þar kom fyrir n. að athuga brtt. við frv., sem 4 hv. þm. fluttu þá, þ. á m. 2 úr stjórnarflokkunum og var annar þeirra frsm. fyrir þeim brtt. Í þeim er lagt til, að lágmarks hvíldartími flugmanna yrði ákveðinn í l. sjálfum. M.a. var þar lagt til, að lágmarkshvíldartími eftir 10 klukkutíma flug skyldi vera 10 klst., svo að ég nefni eitt dæmi úr þeirra till. Nú hefur það verið upplýst, að vinnutími flugmanna getur farið upp í 22 klukkustundir á sólarhring, ekki flugtími, heldur bæði flug- og annar vinnutími til samans. Þegar þessar till. lágu fyrir samgmn. í fyrra, var það síður en svo, að nm. vildu ekki afgreiða það eða samþykkja í raun og veru efnislega þessar till. Það eina, sem olli því, að n. varð sammála um, að þetta skyldi vera í reglugerðarákvæði, var það, að hún taldi sig ekki færa til að dæma um, hvaða lágmarks hvíldartími í hverju einstöku tilfelli skyldi vera. Og þess vegna voru l. afgreidd með þessu ákvæði, sem ég las áðan, að ráðh. væri skylt að setja í reglugerð ákvæði um lágmarks hvíldartíma til öryggis. En þessi reglugerð hefur ekki verið sett. Þar með er ekkert ákvæði nema í samningum um hvíldartíma eða vinnutíma flugmanna. Það vantar þarna öryggið. Það vantar þetta öryggi, sem farþegar og áhöfn áttu að hafa í l. eða reglugerð. Og ég tel það alvörumál, að slíkt skuli vanta. Ég tel það mikið alvörumál, að það skuli skorta ótvíræð fyrirmæli hins opinbera um það, hve mikla hvíld flugmaður skuli hafa, til þess að hins fyllsta öryggis sé gætt á flugi. Ég tel það jafn alvarlegt og ef skip siglir á milli landa, sem ekki er haffært. Ég tel það jafn alvarlegt og ef bifreið, sem flytur fólk, er ekki í lagi, hefur ekki hemla í lagi, ekki ljós, ekki kúplingar, ekki stýri. Ég tel það bókstaflega vítavert, að þetta öryggisákvæði skuli enn ekki vera til í l. eða reglugerð, eins og á þó að vera. Og við þetta búa þeir, sem fljúga með þessum flugvélum.

Við stjórnarandstæðingar í samgmn. óskuðum eftir því að fá þær upplýsingar hjá flugmönnum og Loftleiðum, sem ég hef nú nefnt, og við óskuðum einnig eftir því, að flugmálastjóri kæmi á fund n., sérstaklega vegna hvíldartímans og þar með vinnutímans. Við spurðum hann, hvers vegna reglugerð hefði ekki verið sett. Það komu engin bein svör við því, engin bein svör. Við spurðum, hvað það tæki langan tíma að setja þessa reglugerð, setja þessi öryggisákvæði í reglugerð. Hann sagði, að það tæki um hálft ár. Það er nefnilega ekkert farið að undirbúa þau. Það er ekki farið að hreyfa hönd eða fót til þess að setja þessi öryggisákvæði í reglugerð. Og ef ætti að fara að gera það nú, t.d. upp úr þessum umr., tekur það um hálft ár. En þetta á gerðardómurinn svo að gera samkv. þessu frv. Hann á að mæla fyrir um hvíldartíma flugmanna. Hann á að segja fyrir og úrskurða, hver vinnutíminn á að vera. Það, sem tekur flugmálastjórnina a.m.k. um hálft ár að ákveða, á gerðardómur að gera á nokkrum dögum.

En meðan ekkert ákvæði er í gildi um þetta, ekkert öryggisákvæði um hvíldartíma flugmanna, vil ég benda hv. þm. á, að í gildi eru lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum nr. 23 frá 1952. Í 29. gr. þessara l. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Bifreiðastjórar, sem að staðaldri flytja fólk, og stjórnendur þeirra véla, sem mönnum getur stafað sérstök hætta af, skulu að jafnaði ekki hafa lengri vinnutíma en 12 klukkustundir á sólarhring.“

Þó að vanrækt hafi verið að setja ákvæði í reglugerð um hvíldartíma flugmanna í öryggisskyni, eru þessi lög í gildi, þetta ákvæði um vélar, sem getur hlotizt tjón af. Þar segir, að ekki skuli unnið lengur en 13 klst. á sólarhring. En fyrir þinginu liggja nú upplýsingar um, að þessir flugmenn verða jafnvel að vinna allt upp að 22 klst.

Nú kann mönnum að þykja það kannske alveg nóg, að flugmenn og flugfélög semji um þetta atriði sín á milli. Ég lít aftur á móti svo á, að það sé ekki viðhlítandi, að slíkt sé samningsatriði, að öryggisákvæði, sem er sett vegna farþega og áhafnar, sé eitthvert samningsatriði milli hagsmunafélaga. Hefur það nokkurn tíma verið samningsatriði eða verkefni gerðardóms að segja fyrir um, hvernig skip eigi að vera úr garði gert, sem siglir milli landa? Hefur það nokkurn tíma verið samningsatriði eða verkefni gerðardóms, hvernig bifreið eigi að vera úr garði gerð til þess að mega stunda á henni flutninga? Því hef ég gerzt svo orðmargur um þetta atriði, að mér er það ljóst, að líf og limir þess fólks er í veði, sem ferðast með flugvélum, ef ekki er séð rækilega fyrir öllu öryggi hvað þetta snertir.

Fundur var í samgmn. þessarar hv. d. kl. 11 í dag. Eins og ég hef áður nefnt, mættu þar fulltrúar beggja deiluaðila og auk þess flugmálastjóri og gáfu okkur ýmsar upplýsingar. Við fengum þær upplýsingar einnig frá hv. formanni n., hv. 2. þm. Vestf., að ætlunin væri að afgreiða þetta frv. frá þinginu í dag. Og það mun hafa verið ófrávíkjanleg ætlun hæstv. ríkisstj. að gera þetta, þar til nú, að hæstv. samgmrh. segir mér, að hann muni láta 3. umr. málsins bíða til mánudags. En hitt var ófrávíkjanleg fyrirætlun að ljúka þessu máli í dag. Ég veit ekki, hvað fyrir hæstv. ríkisstj. hefur vakað með þessu kappi að koma málinu frá á þessum degi, hvort það hefur verið það, að henni hefur þótt viðeigandi, að gerðardómsl. yrðu staðfest á hátíðisdegi launþega, 1. maí. Það kann að vera, að á morgun tali einhverjir þeir, sem að þessu frv. standa, um friðhelgi samningaréttarins. En ég er hræddur um, að þeir geri það ekki í kvöld. Ég hefði talið æskilegra, að það væri sýnt í verki í kvöld, hversu friðhelgur samningsréttur launamanna eigi að vera, þótt það yrði þagað á morgun.

Á fundi samgmn. í dag gerði ég þá till., að umr. um þetta frv. yrði frestað, þá þegar, til mánudags, en jafnframt yrðu hafnir samningar deiluaðila þegar í stað og tíminn notaður til mánudags og við spurðum báða aðila, flugmenn og fulltrúa Loftleiða, hverju þeir svöruðu þessu. Fulltrúar flugmanna svöruðu, að þeir væru reiðubúnir að ganga nú þegar til samninga að nýju. Fulltrúar Loftleiða svöruðu, að þeir væru einnig reiðubúnir til þess, en þeir hefðu ekki trú á, að það yrði til nokkurs árangurs. En meiri hl. samgmn., stuðningsmenn ríkisstj., vildi ekki fallast á, að afgreiðslu málsins yrði frestað og bar fyrir sig það, að hæstv. samgmrh. hefði óskað eftir, að málinu yrði lokið í kvöld. Með það fóru hinir aðilarnir af fundinum og hugmynd þessari var synjað. Ég tel það illa farið, að þessari málaleitun var ekki, sinnt strax í morgun, þegar við bárum hana fram. Ef það hefði verið gert og einhver vilji sýndur í því að leita nú enn eftir, hvort ekki væri samningsgrundvöllur fyrir hendi, hefði dagurinn í dag, dagurinn á morgun og sunnudagurinn verið notaður í þessu skyni. En ótvíræð fyrirmæli hæstv. ríkisstj. koma í veg fyrir þetta og eðlilega fylgdu stuðningsmenn ríkisstj. í n. þeim óskum ríkisstj. Þannig var komið í veg fyrir þessa tilraun. Það kostar lítið að segja: Það ber engan árangur. — Ekki sögðu flugmenn það. Þeir gáfu ekkert í skyn um það, að það kynni ekki að bera árangur. En fulltrúar Loftleiða aftur á móti töldu litlar líkur til árangurs. En hver gat fullyrt um það í morgun eða getur það enn, hvort slíkir fundir nú um þessa helgi beri árangur eða beri það ekki? Jafnvel þeir, sem ekki hefðu viljað semja, gátu ekkert fullyrt. Þótt annar hvor aðilinn hefði alls ekki viljað semja, þá gat hann ekki heldur fullyrt þetta, því að sá fræðilegi möguleiki var til, að hinn aðilinn gengi að öllum kröfum samningsaðila og þá hlaut hann að semja.

Þetta atvik færir mér heim sanninn um það, að hæstv. ríkisstj. reynir hvað hún getur að koma í veg fyrir samninga. Það hefur verið á það minnzt áður í þessum umr., að þeir samningafundir, sem haldnir hafa verið í þessari deilu, hafa ekki verið með sama hætti og oft áður í deilum, ekki lagður jafnmikill þungi á að reyna að fá lausn á deilunum. Það er skammt síðan farmannadeilan stóð hér yfir, og ég held, að ég muni það rétt, að það hafi verið haldnir fundir dag eftir dag og síðasti fundurinn hafi staðið í 54 klukkutíma. Hvað hafa þeir staðið lengi, fundirnir í þessari deilu?

Hæstv. ríkisstj. segist ætla að leysa þessa deilu með gerðardómsfrv. því, sem hér liggur fyrir. Hvernig verður sú lausn? Það getur vel verið, að þeim takist að leysa deiluna að því leyti, að hún heiti ekki deila lengur. En leysa þeir flugvélarnar? Verða flugvélarnar kannske bundnar eftir sem áður, óhreyfðar? Ég skal engu spá. En hvað þýðir yfirlýsing flugmannanna um það, að þeir vilji ekki og muni ekki sætta sig við það að láta gerðardóm skammta sér laun? Og hver verður þá árangurinn eftir að búið er að samþykkja þetta frv. eftir helgina eða í næstu viku? Jú, gerðardómur sezt á rökstóla. Hann verður kannske fljótur að því að ákvarða launin. Hann verður kannske enga 6 mánuði að ákvarða hvíldartímana, eins og flugmálastjórinn taldi, að það tæki. Hann lýkur þessu kannske á örfáum dögum. En ef flugmennirnir fara ekki að fljúga, þá hvað? Hæstv. ríkisstj. má vera stolt af þeirri lausn — eða hitt þó heldur.

Taki flugmenn til þeirra ráða að hverfa frá þessum störfum, jafnvel hverfa úr landi, hefur mikið óhappaverk verið unnið með þessu frv. Á nú Ísland að sjá enn á eftir nokkrum vel menntuðum og tæknifróðum og ágætum mönnum, af því að ríkisstj. þurfti að fá gerðardóm? Hversu langt á að ganga í því að flæma slíka menn úr landi? Er ekki nóg komið? Launa upphæðin er engin afsökun í þessu. Þeir eru til, sem hærra eru launaðir, en þessir menn, hér í landinu og hefur engum dottið í hug að flæma þá úr landi.

Fyrst hæstv. samgmrh. hefur nú þó brugðið á það ráð að fresta 3. umr. þessa máls þar til eftir helgi, vil ég skora á hann að beita sér fyrir því, að undir eins verði hafnir samningafundir milli deiluaðila. Þótt e.t.v. sé það nú úr sögunni, vegna þess að þessu var neitað í morgun, þá er sjálfsagt að reyna þetta. Það mun ekki standa á deiluaðilum að koma til slíkra funda og því er skylt að reyna þetta.

Nál. minni hl. samgmn. var ekki útbýtt fyrr, en seint í kvöld. Einn hv. nm., hv. 5. þm. Norðurl. v. tók ekki afstöðu til þessa máls á fundinum í dag. Að þessu nál. stöndum við, ég og hv. 5. landsk. þm. í samræmi við það, sem ég hef hér gert grein fyrir, leggjum við til, að þetta frv. verði fellt.