03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Frsm., minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Mér er tjáð, að þegar hin væntanlegu gerðardómslög verða staðfest, þá séu flugmenn um leið komnir á ný í þjónustu flugfélagsins Loftleiða og þar með farnir að vinna upp á hin gömlu launakjör. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. flugmrh., hvað hann álíti, að það líði langur tími, frá því að hin væntanlegu gerðardómslög taka gildi og þangað til gerðardómurinn gefur út sinn úrskurð? Mér er tjáð, að þetta muni geta tekið alllangan tíma, jafnvel margar vikur eða mánuði. Ef það fer svo, að það líða mánuðir svo, að enginn úrskurður fellur hjá þessum gerðardómi, þá er þessum starfsmönnum haldið á gömlum launum með gerðardómslögum, án þess að nokkur gerðardómur kveði upp úrskurð og ef maður litur svo á hitt, að flugmálastjóri hefur talið það geta tekið jafnvel hálft ár að undirbúa tillögur um hvíldartíma flugmanna og það er aðaldeiluefnið, þá sýnist mér ekki útilokað, að svona fari. Um þetta vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvað hann álitur í þessu efni og hvort hann vilji hlutast til um, að þessi gerðardómur kveði fljótt um úrskurð sinn, því að það hlýtur þó að vera tilgangurinn með slíkum lögum.