03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið undan því kvartað, að ég væri nokkuð fáorður í þessum umr. Það hefur verið sagt frá því í Þjóðviljanum, að ég hafi verið kveðinn í kútinn og mér finnst nú satt að segja, að þeir, sem það hafa gert, ættu að geta unað sínum hlut nokkuð vel. En sannleikurinn er sá, að ég hef verið tiltölulega fáorður í þessum umr. Ég hef ekki sett mig í dómarasæti og tekið afstöðu með öðrum aðilanum. Ég hef hins vegar sagt, að þegar tveir deila, þá er það sjaldan öðrum aðilanum að kenna. Hitt er svo annað mál, að þeir, sem hafa talað hér, hafa verið að gera mér upp orð, sem ég hef aldrei sagt. Sannleikurinn er sá, að þær fsp., sem hafa verið lagðar fyrir mig, hafa verið þess eðlis, að þeir, sem spurðu, vissu um það og báðar samgmn., þessarar d. og Ed., kölluðu fyrir sig flugmennina, flugmálastjóra og forsvarsmenn Loftleiða og fengu svarað þeim fsp., sem fyrir þessa aðila voru lagðar.

Í þessu máli er ákaflega litlu að svara, þegar hv. þm. spyrja, eins og t.d. hv. 3. þm. Vestf. (SE), beinlínis um það, sem stendur í frv. sjálfu. Hann spyr: Eiga flugmenn að fljúga á gamla kaupinu mánuðum saman, ef gerðardómurinn tæki sér nú verulega langan tíma til þess að kveða upp dóminn? Hv. þm. spyr um þetta, þótt það standi í 5. gr. frv.: „Ákvarðanir gerðardóms skv. 2. gr. skulu gilda frá gildistöku laga þessara til 1. febr. 1966.“ Svo er verið að spyrja um, hvað þetta þýði. Það er ekki hægt fyrir mig að svara þessu betur en frvgr. gerir. Og það er verið að spyrja að því, hversu langan tíma það taki hjá gerðardómnum að kveða upp dóminn? Ekki get ég svarað því. Hitt man ég, að það tók ekki mjög langan tíma hjá gerðardómnum að kveða upp úrskurð í verkfræðingadeilunni. En gerðardómsmennirnir verða vitanlega að hafa þann tíma, sem þeir telja sér nauðsynlegan og flugmenn geta unað því vegna þessa ákvæðis í 5. gr. frv.

Það hefur verið talað hér um andstæðinga flugmanna. Hverjir eru það? Eru það þeir, sem vilja leysa þetta verkfall eða eru það þeir, sem vilja halda verkfallinu áfram? Það er talað um, að eigi að gefa frest til samninga. Það var gert fyrir helgina. Það hafa verið reyndir samningar síðan, en þeir hafa ekki tekizt. Hv. 5. þm. Austf. (LJÓs) talar um, að það eigi að skipa sáttanefnd, sem starfi með sáttasemjara svo sem eina viku. Það er þá ljóst, að hann gerir a.m.k. ráð fyrir því, að það taki viku enn þá verkfallið, jafnvel þótt sáttanefnd kæmi.

Hins vegar tel ég það ekki rétt að ásaka sáttasemjara ríkisins fyrir slælega framgöngu í þessu máli og áður en þetta frv, var flutt, var rætt við sáttasemjara um útlitið í þessu máli. Þá hafði hann haldið marga sáttafundi án árangurs og það bar svo mikið á milli, að hann taldi ekki líkur til, að málið leystist að sinni, þótt haldið væri áfram sáttatilraunum, og það er ekki fyrr en þá, sem ríkisstj. skerst í leikinn og leggur fram frumvarp þetta og þá fyrst.

Það er talað um, að það sé æskilegt, að þetta mál leysist með samningum. Hver tekur ekki undir það? Hver skyldi ætla, að það væri æskilegra að leysa þessa deilu með lögum, en með frjálsum samningum? Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar vilja, að deilumál séu leyst með frjálsum samningum og ríkisstj. hefur aldrei og mun ekki skerast í leikinn, nema brýna nauðsyn beri til, eftir að samningatilraunir hafa farið út um þúfur. Það er þetta, sem liggur fyrir. Þetta eru staðreyndirnar í málinu og þær eru augljósar. Verkfallið hefur nú staðið í mánuð og þetta er tjón, ekki aðeins fyrir Loftleiðir, ekki aðeins fyrir flugmennina og þeirra nánustu, heldur einnig fyrir annað starfsfólk Loftleiða, en það, sem þó vegur þyngst, það er tjón fyrir þjóðina í heild og það er tjón fyrir flugmálin. Það gerir okkar samkeppnisaðstöðu verri við erlend auðfélög, sem allir hv. alþm. og flugmennirnir vissulega vilja ekki gera veikari.

Það er talað um, að ef þetta frv, verði að l., muni flugmennirnir ekki hlíta þessum, þá muni þeir fara frá Loftleiðum, sennilega fara úr landi. Ég skal ekkert fullyrða um það. En eitt veit ég, að flugmenn eru ekki allir sammála um þessa yfirlýsingu, sem í blöðunum hefur birzt og sú yfirlýsing getur ekki af okkur alþm, verið notuð sem rökstuðningur fyrir því, að við eigum ekki að halda okkar striki og samþykkja frv. Ég held, að flugmenn þeir, sem að þessari yfirlýsingu standa, hafi, ef þeir þá margir standa að henni, gert það í hita dagsins og ég er sannfærður um það og þekki orðið marga flugmenn það vel, að þeir munu fara að lögum, þeir munu virða íslenzk lög og hefur aldrei annað til hugar komið. Og mér finnst nú satt að segja, að það sé ekki eðlilegt að gera því skóna, að flugmenn ætli sér að brjóta lög.

Því sem hv. stjórnarandstæðingar hafa verið að spyrja í þessum umr., er búið að svara. Og það er engu við það að bæta. Ef samningar hefðu tekizt, var það æskilegast, við erum sammála um það. Það hefur verið reynt og samningafundur var síðast í gær og deiluaðilar virðast ekki hafa nálgazt. Ríkisstj. vill ekki, að þetta verkfall haldi áfram. Stjórnarandstæðingar vilja, að verkfallið haldi áfram. Ég ætla, að flugmenn vilji ekki, að verkfallið haldi áfram. Ég ætla, að þeir vilji, að það leysist sem allra fyrst. Þeir vilja vitanlega helzt, að það leysist með frjálsum samningum, en ég hef sagt það hér áður, að ég telji,og hef nokkuð fyrir mér í því, að a.m.k. margir flugmenn vilji heldur, að það sé leyst með þessum hætti ,heldur en að verkfallið haldi áfram. Og það er vegna þess, að flugmenn hafa gert sér grein fyrir því, hvað þetta verkfall gildir, það veldur tjóni og getur valdið varanlegu tjóni, ef það heldur áfram. Og það kemur þá bæði í bráð og lengd einnig við þeirra hagsmuni, auk þess sem flugmenn, alveg eins og alþm. og aðrir góðir íslendingar skilja, hvað það þýðir, ef íslenzkt flug lamast og samkeppnisaðstaðan við erlend auðfélög verður verri. Það er þess vegna, sem er vart um annað að ræða til lausnar deilunni, úr því sem komið er, heldur en samþykkja frv. En vissulega get ég tekið undir með hv. 5. þm. Austf., að það væri æskilegast, að það væri leyst með frjálsum samningum. En sú leið virðist vera lokuð og hefur verið þrautreynd með mörgum fundum, sem sáttasemjari ríkisins hefur stjórnað og mér kemur ekki til hugar, að sáttasemjari ríkisins hafi haft önnur og lakari vinnubrögð í frammi með tilraunir til að leysa þessa deilu heldur en aðrar deilur. Ég held, að það sé alkunnugt, að sáttasemjari ríkisins hafi sýnt alúð og dugnað einmitt í sambandi við það að leysa vinnudeilur og þá þessa ekkert síður en aðrar.