03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Hannibal Valdímarsson:

Herra forseti. Þetta frv. er í raun og veru eingöngu til þess flutt að afnema um tíma meginákvæði vinnulöggjafarinnar. Frv. er til þess að ómerkja meginatriði l. um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar er löglegum stéttarfélögum ákveðinn og helgaður sá réttur að mega semja um laun og önnur vinnukjör meðlima stéttarfélags og eiga að mæta samkv. þeim l. viðsemjendum sínum, atvinnurekendum, sem jafnréttháir aðilar og útkljá þar sín mál við samningaborð. Hinn meginþáttur vinnulöggjafarinnar er svo sá, að takist ekki samningar með þessum tveimur jafnréttháu aðilum, megi vinnuseljandinn neita að selja vinnu sína og leggja hana fram, þegar ekki hefur samizt um verðið á henni og það heitir verkfall, þá er komið á verkfall. Íslenzk löggjöf heimilar hinum vinnandi manni sem sé þennan rétt, að láta ekki í té vinnu sína, nema því aðeins að um verðið á henni hafi samizt við frjálsa samninga.

En þá kemur þetta frv. og segir: Það skal bannað að leggja niður vinnu, þeim sem eiga að stjórna þessum stórum flugvélum, þó að ekki hafi tekizt að semja um verðið á vinnu þeirra.

Vinnulöggjöfin heyrir undir félmrh., Emil Jónsson, formann Alþfl. Og eiginlega hefði löggjöf, sem afnemur, þótt um stundarsakir sé, vinnulöggjöfina, sem undir hann heyrir, þá löggjöf hefði hæstv. félmrh., formaður Alþfl., að réttu eðli máls átt að flytja. En einhvern veginn hefur hann nú kunnað betur við það að víkja sér undan þessu og skal ég ekki lá honum það og koma þessu yfir á hæstv. flugmálaráðh., kollega sinn, e.t.v. hugsað sem svo: Hæstv. flugmálaráðh. hefur áður flutt sams konar brbl. og það detta nú engir gullhringar af honum frekar, þó að hann bæti því við að flytja á hv. Alþ. frv. að sams konar löggjöf. Og vissulega skil ég það, að hæstv. félmrh. sem formaður Alþfl. hafi lagt nokkuð mikla áherzlu á það að víkja sér undan að vera flm. frammi fyrir Alþ. að svona löggjöf. Það hefur hann gert. En mér finnst, að það hafi verið alveg ástæðulaust fyrir hæstv. flugmálaráðh. að vera að taka þennan beiska bikar frá bróður sínum. Ég sé það líka í hendi mér, að það hefði orðið allbeiskur síðasti sopinn hjá hæstv. félmrh., ef hann hefði flutt frv., því að sakir stóðu hér svo 30. apríl, að þá var fastráðið og forseti lét um það falla orð, að hann ætlaði að afgreiða þetta mál á þeim drottins degi, hvað sem tautaði. En 2. umr. um það stóð fram að miðnætti 30. apríl og þá rann upp 1. maí, alþjóðlegur hátíðar- og kröfudagur verkalýðsins um allan heim og það gat ekki verið lagt slíkt höfuðkapp á það að afgreiða málið að kvöldi síðasta apríl, nema af því að flytjendum málsins hefur þótt það vera alveg tilvalið sem hátíðargjöf til íslenzkrar verkalýðsstéttar, að þá einmitt væru staðfest og látin taka gildi vinnukúgunarlög, þrælalög. En þannig stóðu málin, þegar 30. apríl leið að kvöldi, að þá var að ljúka 2. umr. málsins og 3. umr. átti að ljúka á þeim degi líka, en tókst ekki og þá hlýtur að hafa verið ætlunin að pressa það í gegn alveg sérstaklega, að lögin yrðu staðfest 1. maí.

Ég er nú þannig gerður, að ég ann hæstv. ráðh. alls góðs og ég tel, að það sé ástæða til að þakka þeim fyrir það, að þeir þó á miðnætti 30, apríl sáu, að það var ekki verulega vinsamlegt við íslenzkan verkalýð að ganga þá frá þessari þrælalöggjöf og ætla sér að staðfesta hana 1. maí og ég þakka þeim fyrir það, að þeir hurfu frá því óráði. Þá hefðu þeir áreiðanlega spillt enn þá meira friðarmöguleikum í komandi samningum á næstu vordögum. Þá hefði mörgum hitnað í hamsi, ef slík löggjöf hefði verið gefin út í maí. Sá betri hlutinn hefur því orðið uppi, með því að hæstv. flugmálaráðh. féllst á það síðari hluta dags 30. apríl að hverfa frá sínum áður gefnu fyrirmælum til forseta um að ljúka þá málinu, svo að það kæmi til staðfestingar 1. maí.

Ég held, að ef það hefði gerzt, að þessi lög hefðu hlotið staðfestingu 1. maí, hefði farið langbezt á því, að það hefði verið hinn rétti ráðh., sem hefði gert það, formaður Alþfl., hæstv. félmrh., en ekki sá ráðh., sem í raun og veru ætti ekki að þurfa að taka á sig vanda og óvinsældir af svona réttindaskerðingarmáli eins og þetta er, því að þetta er hreint félagsmál og er sem sé í raun og veru þess eðlis, að vinnulöggjöfin að meginefni er lögð til hliðar, tekin úr notkun ákveðið tímabil. Mér finnst því vera farið ómaklega illa með hæstv. flugmálaráðh. að láta hann standa í þessum óvinsæla málflutningi hér, réttindaskerðingarflutningi í félagsmálum, þar sem hann er ekki sjálfur félmrh. Það er eins í þessu máli og jafnan: sá hljóti skell, sem skyldi. En hvað sem því líður, hver eigi réttilega að bera ábyrgð á svona löggjöf, sem ég tel mig hafa túlkað réttilega, er það víst og það má hæstv. ríkisstj. vita, að því er aldrei vel tekið af íslenzkri verkalýðshreyfingu, að verkalýðurinn sé sviptur sínum helga rétti, samningsréttinum, sem í íslenzkri löggjöf viðurkennir svo verkfallsréttinn, þegar ekki næst samkomulag við samningaborðið um verð vinnuaflsins.

Þó að hér sé um að ræða fámenna stétt með háum tekjum, er það þeirri fámennu stétt jafnhelgur réttur og hinum lægra launuðu stéttum og það er alveg jafnmikil sök af hendi ríkisvaldsins að svipta fámenna, hálaunaða stétt þessum rétti, sem íslenzk löggjöf ætlar henni, eins og þótt ráðizt væri á hinn almenna launþega, sem þó er síður gert, e.t.v. af því að menn viðurkenni, að þar sé enn þá meira í húfi, þar sé enn þá meiri ódrengskap beitt með því að beita þvingunarlögum gegn þeim, sem rétt hafa til hnífs og skeiðar. En e.t.v. er það þó ekkert síður vegna þess, að þar þorir ríkisvaldið síður til, af því að þar er mörgum að mæta. En það er allri verkalýðshreyfingunni að mæta, þegar ráðizt er á þennan helga rétt, hver sem í hlut á. Það má ríkisstj. vita.

Hæstv. ráðh. tók hér til máls áðan og þá hélt ég, að hann ætlaði að gera það, sem hann hafði vikið sér undan áður undir umr. um þetta mál, að svara ýmsum fram komnum fsp., en það gerði hann nú nálega ekki. Hann taldi, að allar þessar fsp. hefðu ekki verið svara verðar og menn hefðu verið að spyrja um það, sem þeir vissu um og fór eiginlega úr ræðustól án þess að sýna neinn lit á því að svara fram komnum fsp. En sumar þær fsp., sem hafa verið bornar fram í þessum umr., áttu fyllilega rétt á sér og þm. eiga rétt á því, að spurningum til valdamannanna, ráðh., sem fram eru bornar í sambandi við mál, sem hér eru á dagskrá og í eðlilegu sambandi við efni þeirra og innihald, sé svarað af hæstv. ráðh Ég taldi, að hæstv. ráðh. víki sér undan yfirleitt að taka til máls, af því að hann vildi umfram allt binda sem fyrst endi á þessar leiðu umr. En hitt datt mér ekki í hug, að hann stimplaði allar þessar fsp. á þann veg, að þær væru ekki svara verðar.

Ég held, að það hafi verið hv. frsm. meiri hl. n., Sigurður Bjarnason, sem skýrði frá því í sinni framsöguræðu, að reglugerð á grundvelli loftferðalaganna mundi verða lokið á næstu mánuðum. Nú hygg ég, að enginn viti um það betur en hæstv, flugmálaráðh., hvaða undirbúningur hefur verið gerður til setningar þessarar reglugerðar, hvernig því starfi hefur miðað áfram, hvernig það standi og hvort þess vegna sé hægt að vænta þess, að reglugerðin á grundvelli loftferðal. um vinnutíma og þar með um rétt flugmannanna til hvíldar verði gefin út. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. um það, hvenær þessi reglugerð muni verða tilbúin. Það skiptir mjög miklu máli í sambandi við þetta stóra mál, því að það er tviþætt, málið. Það er ágreiningur um launakjör flugmannanna og flugstjóranna á stóru vélunum og í annan stað er ágreiningur um vinnutíma þeirra eða rétt þeirra til hvíldar. Og það væri mjög mikið leyst, ef maður gæti fengið vitneskju um það, að reglugerðin um hvíldartíma þeirra kæmi mjög fljótlega og ég skil ekki í, að hæstv. ráðh. dragi það lengi úr þessu, þegar það er búið að dragast frá því, að loftferðal. voru sett, dragast þannig allt of lengi að setja þessa reglugerð. Eins og nú standa sakir, þegar m.a. er deilt um þetta og það er kannske torleystara, en sjálf launamálin, þá trúi ég því ekki, að hæstv. ráðh. dragi það lengi að setja reglugerðina og nú spyr ég hann: Hvenær kemur reglugerðin? Þurfa að líða margir dagar, þurfa að liða enn margar vikur, þangað til hún komi? Er ekki hægt að setja kraft á það að láta sérfróða menn ganga í það að ganga frá þessum atriðum? Lögin eru til, en reglugerðarákvæðin vantar. E.t.v. hefði þessi deila alls ekki orðið svo illkynjuð sem hún hefur orðið og eins torleyst, ef ekki hefði verið deilt um annað en kaupið, ef það hefði verið búið að ákveða þetta atriði með reglugerð.

Mér finnst ekki heldur spurning hv. 3. þm. Vestf. vera út í hött eða óskyld þessu máli, þegar hann spyr um, hve langan tíma gerðardómnum er ætlað að starfa? Þar er hæstv. ráðh. húsbóndinn og hann hlýtur að hafa gert sér einhverjar hugmyndir um það, hvort hann ætlar að veita gerðardómnum langan, kannske ótakmarkaðan tíma til starfa, þannig að deilumál flugmanna sé óleyst um langan tíma. Hitt er rétt hjá honum, sem hann upplýsti, að það er tekið fram í l., að úrskurður gerðardóms, niðurstaða gerðardómsins skuli gilda frá staðfestingu l. Dómurinn, þegar hann kemur, sem við vitum ekkert hvenær er, á að gilda aftur fyrir sig. En samt sem áður eru flugmennirnir í óvissu um það, hver verði niðurstaða gerðardómsins, ef hann situr lengi með málið í fanginu og það skiptir verulegu máli, einkanlega þegar fyrir liggur nú fyrir fram tilkynning frá þeim um það, að þegar loksins gerðardómurinn svo kemur, ætli þeir ekki að una því að vinna eftir ákvörðun gerðardóms, þeir vilji eingöngu vinna við þau kjör, sem ákveðin séu með frjálsum samningum. Hæstv. ráðh. er hins vegar svo bjartsýnn, að hann segir: Ég held, að þeir hlíti l., ég held, að þetta sé sett fram í hita dagsins, ég sem sagt tek ekki mark á þessari fyrir fram aðvörun þeirra. — Hann kallaði það hótun. Ég segi: Þetta er aðvörun af þeirra hendi, því að vissulega er það svo, að ef l. eru sett og það fer eins og flugmennirnir hafa sagt, að þeir vinni ekki eftir úrskurði gerðardómsins, stendur hæstv. ríkisstj. illa í málinu að hafa sett lög, sem svo reynast óframkvæmanleg, sem setja enga flugvél í gang. Þá er orðið ljótt klámhögg úr þessu öllu saman.

Ég vil þó segja, að þó að bjartsýni hæstv. ráðh. yrði sér ekki til skammar og flugmennirnir segðu: Þó að þetta séu þrælalög, sem hafa nítt af okkur lagalegan rétt vinnulöggjafarinnar, ætlum við samt að hlýða þeim, — þá væri ekki allur vandi leystur hjá hæstv. ríkisstj. samt, því að þá væri hún búin að láta dómendur, sem hún mundi a.m.k. telja hlutlausa dómendur, úrskurða um það, hvaða kaup flugstjórar skyldu hafa. Og hvaða kaup er líklegt, að þessir hlutlausu dómendur úrskurði? Það hlýtur að vera kaup einhvers staðar á bilinu milli þess, sem Vinnuveitendasambandið fyrir hönd Loftleiða hefur boðizt til að fallast á, sem mun vera eitthvað í kringum 35 þús. kr. á mánuði og þess, sem flugstjórarnir hafa sjálfir gefið kost á að semja um, sem mun vera í kringum 42 þús. á mánuði. Það kaup, sem dómurinn kæmi til með að ísskurða, mundi vera einhvers staðar á þessu bili, hygg ég. Og hvernig stæði nú hæstv. ríkisstj. að vígi, eftir að tilkvaddir sérstakir hlutlausir dómendur á ábyrgð ríkisstj. hefði úrskurðað til einnar stéttar 35–42 þús. kr. mánaðarkaup? Væri hún ekki komin í neina hættu með það, að til þessarar dómsniðurstöðu hinna hlutlausu dómenda ríkisstj. yrði vitnað og það tekið sem fordæmi fyrir því, sem aðrar sérhæfðar stéttir með langt nám að baki mættu krefjast og vænta að fá kannske, eftir að verkfall þeirra hefði verið stöðvað, með nýjum hlutlausum dómi á ábyrgð ríkisstj.? Hafi hæstv. ríkisstj. óttazt það, að upphæð, sem flugstjórar og Vinnuveitendasambandið semdu um, einhvers staðar á milli 30 eða 40 þús. kr. á mánuði, yrði hættulegt fordæmi í launamálum almennt, sem ég held að yrði nú ekki, ekki a.m.k. almennt, held ég, að niðurstaða dóms á þessum nótum verði miklu hættulegra fordæmi, af því að þetta væri rödd, sem hefði sagt sitt afgerandi orð í umboði sjálfrar hæstv. ríkisstj., í umboði hennar. Dómendurnir eru vinnumenn ríkisstj., hennar hjú og þeirra orð, þeirra dómsorð væri jafnframt orð ríkisstj. í málinu: Þetta skuluð þið hafa. — Og þegar þessi dómur lægi fyrir, hygg ég, að það væri ekkert ólíklegt, að verkfræðingar tækju upp sín fyrri mál, þá kannske beint með það fyrir augum að fá eitthvað svipaða meðferð af tilkvöddum dómendum ríkisvaldsins. Nei, það er ekki alveg vandalaust fyrir hæstv. ríkisstj., jafnvel þótt hún ásetji sér að láta kné fylgja kviði og höggva hér á torleysta hnúta. Hún er kannske að setja sig í aðra flækju, sem ekki yrði henni þægilegri á eftir, þó að færi svo, að flugvélarnar færu hér í gang og flugmennirnir hlýddu löggjöf, sem þeir segðu um: Ja, þetta er þó íslenzk löggjöf, þó að við lítum á hana sem hálfgerð þrælalög.

Ég býst ekki við því, að hæstv. flugmálaráðh. eða hæstv. ríkisstj. hrökkvi neitt í kút og hætti við að setja þessi lög sín núna á þessum drottins degi, þó að ég bendi á í ræðu, að ýmsar alvarlegar afleiðingar getur lagasetningin haft, annaðhvort þannig, að hæstv. ríkisstj. standi uppi eins og þvara og lög standi á pappírnum, en flugmennirnir láti ekki vinnu sína í té og enginn vandi leysist eða þá hitt, að dómsorð hinna tilkvöddu dómenda ríkisstj. yrði tekið upp miklu fremur sem fordæmi í launamálum heldur, en ef frjálsir samningar hefðu leyst þennan hnút milli réttra aðila.

Hér hefur á Alþ. verið rætt um þetta mál eingöngu sem „prinsip“-mál. Hæstv. ráðh, segist ekki hafa talað í málinu sem neinn dómari, og er það rétt að vísu. En hann ætlar þó að tilnefna í sinn stað dómendur til þess að ákveða verðið á þeirra vinnu. Og hv. alþm., sem um málið hafa rætt, hafa rætt um þetta sem „prinsip“-mál, sem árás á vinnulöggjöfina, árás á helgan rétt, samningsrétt verkalýðsstéttarinnar í heild. Þó að þessir menn séu ekki í Alþýðusambandi Íslands, eru þeir í löglegu stéttarfélagi og lögðu að óloknum samningum við sinn rétta gagnaðila út í löglegt verkfall. Það hefur enginn véfengt, að verkfallið væri löglegt. Og þá á að svipta þá verkfallsréttinum og setja lög, sem segja: Eftir að þessi lög eru staðfest, frá og með 3. maí 1965, er verkfallið, sem hófst frá og með 3. apríl 1965, óheimilt.

Ég held, að gerðardómnum verði jafnvel enn þá örðugra um vik að ákveða með úrskurði vinnutíma flugmannanna og önnur starfskjör þeirra, heldur en nokkurn tíma að ákveða þeim launin, sem þeir munu sennilega ákveða einhvers staðar á þessu umdeilda bili. Ég held, að það verði gerðardómi afskaplega erfitt að taka á sig ábyrgðina á því að ákveða vinnutíma þeirra. Það verður annað hvort að gerast með ákvæðum í l. og það hefði átt að vera í loftferðal., sem voru afgreidd á Alþ. á síðasta ári, en þar segir, að það skuli gert með reglugerð og svo kemur reglugerðin ekki. Það held ég, að væri lífsnauðsyn nálega, vil ég segja, að hæstv. ráðh. léti hraða setningu reglugerðarinnar, svo að gerðardómurinn þyrfti ekki að taka á sig þá ábyrgð, sem af því leiðir að úrskurða um það atriði, því að það er vissulega þung ábyrgð, miklu þyngri ábyrgð, sem fellur á þá, sem þá ákvörðun taka, heldur en hvort flugstjórunum eru ákveðin 35 eða 40 þús. kr. mánaðarlaun. Viðgengst það nú, eins og flugmennirnir halda fram og ég hef spurt um, hvort væri rétt, en ekki fengið svar við því, því að spurningar eru ekki taldar þess virði að svara þeim, er það rétt, sem flugmennirnir segja, að samtals geti vinnutíminn farið upp í 22 stundir á sólarhring? Er þetta rétt? Ef þetta er rétt, er það slíkt regin hneyksli, að það má ekki geta gerzt stundinni lengur. Flugmenn, sem hljóta þá að vera orðnir örþreyttir, eiga að stjórna flugfari með allt upp í 200 mannslíf í hendi sér.

Þetta mál er miklu meira, en mál flugmannanna. Þetta er mál allra þeirra, sem Loftleiðir skipta við. Og ef menn láta sér eins annt um æru og heiður og ábyrgð Loftleiða og þeir hafa á orði, ríður á að setja þarna mörk af réttum aðilum, sem veita fullnægjandi tryggingu og séu innan forsvaranlegra marka og e.t.v. er þetta torleystasti punkturinn í deilunni. Ég leyfi mér að spyrja nú hæstv. ráðh.: Væri það ekki mikils virði, að reglugerðin kæmi sem allra fyrst og hyggi á þennan hnút? Er það virkilega verkefni gerðardóms að ákveða þetta, en honum er ætlað það samkv. 3. gr. l., sé ég er? Væri ég til kvaddur í svona gerðardóm, mundi ég algerlega kveinka mér við, biðjast undan, krefjast þess að vera laus við að ákveða með gerðardómsúrskurði, hver vinnutími flugmanna skuli vera. Og úr því að þetta er ekki ákveðið í l., er það einskis manns annars, en hæstv. ráðh., sem verður að bera ábyrgð á slíku reglugerðarákvæði, og þá reglugerð þarf hann að setja, þegar það er liður í svo alvarlegri, langvarandi deilu eins og hér er um að ræða. Ég kemst ekki hjá að láta þá skoðun í ljós, að ég tel, að það sé búið að vefjast allt of lengi fyrir hæstv. ráðh. að setja reglugerðina. Hún þurfti að koma skömmu eftir að loftferðalögin voru staðfest.

Menn hafa látið í ljós mikla hneykslun yfir því, hve háar kröfur flugmanna væru og fram úr öllu hófi í sambandi við íslenzk launamál. En ég hlýt þó að benda á, að þetta er kannske ekki svo undarlegt sem mörgum manni hér heima virðist. Þessir duglegu, djörfu og öruggu menn, sem hafa á sér orð víðs vegar um heim fyrir að bera af öðrum flugmönnum í öryggi og vera færir, afburðafærir í sinni mennt, eru í daglegri snertingu við flugmenn og flugstjóra annarra þjóða, sem eru á miklu hærra kaupi en þeir. Og ekki nóg með þetta, heldur munu þeir um þessar mundir, nokkru áður en deila þeirra hefst og núna meðan deilan stendur yfir, vera við hliðina á amerískum flugmönnum á miklu hærra kaupi, sennilega margfalt hærra kaupi en þeir. Er það nokkuð undarlegt, þó að menn geri samanburð við menn í sama starfi hjá öðrum þjóðum, sem þeir hafa nálega daglega snertingu við og jafnvel við hliðina á mönnum í sama loftfari, sem fengnir eru frá öðrum þjóðum? Nei, ég get ekki fallið í stafi yfir því.

Ég hef frétt það, að frá því að 2. umr. lauk hér um þetta mál 30. apríl um miðnættið hafi verið haldinn einn samningafundur undir forustu sáttasemjara ríkisins. En mér er sagt, að hann hafi ekki verið langur og engin tilboð hafi komið fram. Það er því staðreynd, sem hér hefur verið margsagt: Sáttafundir hafa ekki verið mjög margir í þessari deilu, ekki mjög tíðir, þeir hafa ekki verið langir. Það er eins og það hafi ekki verið reynt til þrautar eða látið sverfa til stáls, og það hefur engin sáttanefnd verið skipuð. Og núna, þegar hlé varð á, var aðeins tíminn notaður fyrir einn stuttan samningafund. Mér virðast samningamálin vera bara til afsökunar. Allt traustið er lagt á, að málið leysist með löggjöfinni, sem við vitum þó að er þvingunarlöggjöf og verður skoðuð sem slík og mun skilja eftir sig ör, ef ekki sár.

Menn hafa verið að segja, að skýringin á því, að þessi löggjöf sé fram borin, sé sú að skapa fordæmi, ef í harðbakkann slái með vorinu, þá skuli, ef það hafi gengið og gefizt vel að setja þessa löggjöf gegn flugmönnunum, aftur farið af stað og sett löggjöf á verkafólkið í vor. Það er alveg áreiðanlegt, að það er rétt, sem hv. 3. landsk. þm., Eðvarð Sigurðsson, sagði í ræðu sinni hér á dögunum: Þetta frv. og lögfesting þess spillir góðu andrúmslofti í samningum þeim, sem fyrir dyrum standa. Ég er í engum vafa um, að það er rétt og ýkjulaust sagt hjá Eðvarð Sigurðssyni. En ég undrast það samt, ef hæstv. ríkisstj, hugsar svona, að ef hún komist fram með þessa löggjöf, komist hún líka fram með löggjöf af sama tagi með vorinu. Nei, það þarf hún ekki að láta sér detta í hug. Ef slík löggjöf yrði sett í vor til þess að lögbinda kaup verkafólksins, held ég, að hæstv. ríkisstj. gerði það hreint og beint sem sjálfsmorðstilraun, þá vildi hún stytta sjálfri sér aldur, og það mundi hún líka gera. Það er enginn vafi á því, að

það andrúmsloft sem þá skapaðist, og þær afleiðingar, sem slík löggjöf fengi, þær afleiðingar stæði þessi hæstv. ríkisstj. ekki af sér, hún stendur ekki fastari fótum en svo nú. Ég óttast ekki þvílíka löggjöf, ef hún er hugsuð og þótt hún kæmi. Það er í raun og veru á hvers mannas vitorði, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki lífað neinu lífi, sem líf gæti heitið, ekki ráðið neinum ráðum í þjóðfélaginu, sem ráð gætu heitið, síðan hún setti sinn fræga kjaradóm. Þá sprakk hún raunverulega. Síðan hefur hún ekkí setið sem nein ríkisstj. Og ef hún hygðist svo sitja eftir að hafa beitt verkalýðinn í landinu þvingunarlöggjöf viðvíkjandi ákvörðun kaups hinna lægst launuðu, þá er ég alveg viss um það, að hún gæti ekki einu sinni hjarað með neinni skuggatilveru. Þá væru hennar dagar taldir. Ég trúi því þess vegna ekki, að þetta hafi vakað fyrir hæstv. ríkisstj., því að það væri mjög barnalegt, ef svo væri, ef hún ofan á það að hafa með sinni stjórnarstefnu fengið á móti sér útgerðarmennina, sem segjast búa við hið mesta kvalræði í bezta uppgripaárferði, sem yfir land og þjóð hefur komið. Fá iðnaðarstéttina á móti sér vegna sýndarráðstafana sinna í frelsisátt með því að fara að flytja inn alls konar iðnvarning og þrengja þannig mjög möguleika íslenzks iðnaðar. Fá iðnaðarstéttirnar þannig líka upp á móti sér, að ýmsu leyti haga sér þannig, að ýmsar greinar kaupsýslunnar segjast búa við hallæri í landinu og ef hún ætlaði svo að færast það í fang að fara í opið stríð við framleiðslustéttirnar sjálfar, væri það gert til þess að komast með dálítið skjótum hætti frá því að heita lengur ríkisstj. og hún væri þá beint að ganga að verki til þess að losna úr þeim ógöngum, sem hún er búin að koma sjálfri sér í með allri sinni stjórnarstefnu. Það gæti líka verið alveg fullgildur tilgangur með svona frv. og endurflutningi þess gagnvart öllum verkalýð landsins á eftir. Það væri alveg opin leið til þess að binda enda á þessa tilveru, sem raunverulega hefur aðeins verið skugga tilvera, frá því að kjaradómurinn bylti öllum launamálum landsins og kom þeim út úr eðlilegu spori fyrir 11/2 ári.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því að segja, að þetta frv. er ekki líklegt til þess að leysa neinn vanda, getur sett hæstv. ríkisstj. sjálfa meira að segja, þegar það er orðið að 1., í meiri vanda en nokkru sinni fyrr. Og ef þetta er hugsað sem inngöngusálmur að sams konar aðgerðum gagnvart verkalýð landsins á komandi vori, eru það áreiðanlega ekki verkalýðssamtökin, sem þurfa neitt að óttast í því sambandi. Þá er það alveg gefið, að það mundi varða tilveru hæstv. ríkisstj.