03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Áðan las ég frvgr., sem var alveg svar við fsp., sem spurt var um og mér kom þess vegna á óvart, að það væri verið að spyrja. Nú ætla ég að lesa lagagr. úr loftferðal., sem líka er svar við fsp., sem hv. 5. þm. Vestf. var með hér áðan í sambandi við reglugerðina um hvíldartíma flugmanna. Það segir í 52. gr. loftferðalaganna:

„Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“

M.ö.o.: Þegar rn. hefur fengið till. flugverja, flugfélaga og flugmálastjóra, getur það sett reglugerð. Þessar till. hafa enn ekki borizt, en það er þó vitað, að ráðuneytisstjórinn í samgmrn. hefur rætt um það við þessa aðila, hvort þeirra væri von. En hér er um samningsmál á milli flugfélaganna og flugverjanna að ræða. Og ef rn. færi nú að úrskurða með reglugerð hvíldartímann, við skulum segja á móti vilja flugmanna eða fara einhvers staðar mitt á milli, er það ekki nema það, sem við viljum sízt gera. Við viljum reyna á það, að flugmenn og flugfélög komi sér saman um þetta og sendi till. til rn. Það hafa engar till. komið. En það, sem rn. mun gera, er að kalla eftir þessum till. og vitanlega er ætlazt til þess, að þessi reglugerð komi. (Gripið fram í: Hefur það ekki verið að kalla í heilt ár eða svo? ) En það er ekki eðlilegt og það var nú varla hægt að skilja það hjá hv. 5. þm. Vestf., það var ekki neinn ásökunartónn hjá honum í garð rn.; þótt þessi reglugerð væri ekki komin, því að vitanlega skilur þm. það, að það er ekki hægt fyrir rn. að setja þessa reglugerð, fyrr en till. koma og rn. mun hlutast til um það, eftir því sem föng eru á, að fá þessar till. En þetta er samningsmál, sem flugmenn og flugfélög hljóta að verða að koma sér saman um fyrir framtíðina. (Gripið fram í: Samkv. gerðardómnum.) Gerðardómurinn er tímabundinn. Hann á ekki að gilda um framtíðina. Gerðardómurinn og lagasetningin nú, er neyðarúrræði, það var ekki annað fyrir hendi. Þess vegna er þetta tímabundið. Ef ríkisstj. hugsaði sér, að flugmenn og flugfélögin byggju að þessum gerðardómi alla tíð, væri ekki verið að setja tímatakmark. En það er sett tímamark, af því að það er ætlazt til, að þessi mál verði leyst með frjálsum samningum, en ekki með l., nema í ýtrustu neyð.