03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það var mjög athyglisvert að hlusta á hæstv. samgmrh. hér áðan, þegar hann var að tala um reglugerð þá, sem honum ber að setja samkv. l. um loftferðir varðandi lágmarkshvíldartíma flugmanna. Hæstv. ráðh. færði fram afsökun fyrir aðgerðarleysi sínu í þeim efnum, afsökun, sem alls ekki er hægt að finna í þeirri lagagr., sem hann las hér upp. Þessi lagagr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ráðh. setur í reglugerð ákvæði um lágmarkshvíldartíma flugmanna til að tryggja fyllsta öryggi, að fengnum till. félagssamtaka flugverja, flugfélaga og flugmálastjórnar.“

Það aðgerðarleysi að hafa enn þá ekki sett reglugerð um þetta efni skýrði hæstv. ráðh. með því, að hann væri að bíða eftir samkomulagi milli flugmanna og flugfélaganna um þetta mál. Þetta er hreinn misskilningur hjá hæstv. ráðh. Það þarf ekkert slíkt samkomulag til að setja þessa reglugerð. Það þarf ekki annað, en ganga eftir till. frá þessum aðilum og ef þessar till. berast ekki innan ákveðins tíma, hefur ráðh. að sjálfsögðu heimild til þess að setja reglugerðina, því að það er ekki ætlazt til þess, þó að þessir aðilar fái tillögurétt um þetta mál, að þeir eigi að geta tafið það von úr viti, hvenær reglugerðin er sett. Ég álít, að það verði ekki hjá því komizt, að hæstv. ráðh. setji þessa reglugerð hið fyrsta, og ég sé ekki neina ástæðu til þess, að það þurfi að taka neinn verulegan tíma úr þessu. Mér finnst, að hæstv. ráðh. gæti vel sett þessum aðilum tíma, 1/2 mánuð, 3 vikur eða eitthvað svoleiðis, til að skila sínum till. um þetta, þ.e. flugverjum, flugfélögum og flugmálastjórninni og að þeim till. fengnum getur hæstv. ráðh, sett þá reglugerð, sem honum sýnist. Hann er alls ekki bundinn við það að fara eftir þessum till., en að sjálfsögðu má ganga út frá því, að hann mundi haga reglugerðinni þannig, að flugmenn og flugfarþegar teldu, að þessi reglugerð um lágmarksvinnutíma flugmanna skapaði nægilegt öryggi í sambandi við flugið.

Ég er alveg sömu skoðunar og kom fram hér s.1. föstudagskvöld, að álit okkar erlendis sem flugþjóðar gæti verið í mikilli hættu, ef þessi reglugerð verður ekki sett hið fyrsta. Ég held, að það sé ekki gott til afspurnar erlendis, vegna þess að okkar flugfélög fljúga mikið þar, ef sú vitneskja bærist út fyrir landssteinana, að engin slík reglugerð væri í gildi um þetta atriði. Ég held, að það mundi ekki skapa þá tiltrú til íslenzkra flugfélaga, sem þeim er nauðsynleg og þjóðinni er nauðsynleg, til þess að þau geti tekið þátt í samkeppni á alþjóðlegum vettvangi. Þess vegna er það algerlega óverjandi af hæstv. ráðh., hve lengi hann hefur dregið að setja þessa reglugerð og þarf enga afsökun fyrir því, að hún verði ekki sett mjög fljótlega úr þessu eða innan mjög fárra vikna.

Ég skil ekki þær röksemdir, sem hér hafa komið fram hjá einhverjum aðila og mér skilst, að jafnvel flugmálastjórnin sé borin fyrir, að það muni taka svo og svo marga mánuði að setja þessa reglugerð. Ég held, að þessir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, flugmenn, flugfélög og flugmálastjórn, eigi að ráða yfir það mikilli vitneskju í þessum efnum, að það ætti ekki að taka þá neinn verulegan tíma að ganga frá till. um það, hver lágmarkshvíldartími flugmanna eigi að vera og þegar þær till. eru svo fram komnar, er það ráðh. að ganga endanlega frá reglugerðinni og hann hefur algerlega óbundnar hendur um það, hvernig reglugerðin verður. Það þarf ekki að taka tillit til þeirra till., sem fram koma, frekar en hann sjálfur telur eðlilegt. En það er líka algerlega óforsvaranlegt, ef einhver af þessum aðilum, hvort sem það eru flugmenn eða flugfélögin eða flugmálastjórnin, dregur að leggja sínar till. fram og ráðh. í skjóli þess dregur það svo að gefa út reglugerðina. Ef einhver af þessum aðilum reynir að tefja framgang málsins á þann hátt að skila ekki neinum till., hvort sem það eru flugmenn eða einhverjir aðrir, fellur að sjálfsögðu niður réttur þess aðila til þess að skila till. og ráðh. er ekki bundinn af því að bíða eftir þeim.

Ég endurtek það enn, að ég álít það óhjákvæmilegt vegna álits okkar út á við og vegna álíts flugfélaganna út á við og svo vegna flugöryggisins ekki sízt, að þessar reglur verði settar tafarlaust og ég vil þess vegna beina þeirri fsp. til hæstv. samgmrh., af því að hann er nú farinn að svara fsp., hvort ekki megi vænta þess, að hann láti þessa reglugerð frá sér koma mjög fljótlega. En ég tel það algerlega vandalaust fyrir hann t.d., svo að ég nefni tímatakmark, að hafa gengið frá þessari reglugerð fyrir 1. júní n.k. Það sýnist mér vera leikur einn.

Þessar umr. eru nú komnar á lokastig og ég held, að það megi fullyrða, að þessi deila sé á ýmsan hátt sú óvenjulegasta, sem lengi hefur verið háð hér á landi. Hún er m.a. óvenjuleg vegna þess, að það er búið að standa hér verkfall í rúman mánuð og þó virðist málið horfa þannig við, að það hefði átt að verða tiltölulega auðvelt að leysa þessa deilu. Mér sýnist, að það hefði átt að vera tiltölulega auðvelt að leysa þessa deilu, þegar annar aðilinn gengur strax í upphafi verkfallsins svo langt til samkomulags, að hann slær um 20% af sínum kröfum. Ég er líka sannfærður um það, að stjórnendur Loftleiða hafa frá upphafi gert sér ljóst, að það verði heppilegast fyrir félagið að semja, heldur en að stefna út í eins langt verkfall og orðið er, með því tapi, sem af því hefur hlotizt, og jafnvel tapi, sem getur orðið erfitt að vinna upp eða tekur nokkurn tíma að vinna upp. Þegar litið er á þetta tvennt, er það alveg óskiljanlegt, hvað þessi deila hefur staðið lengi. Og hvað er það, sem hefur valdið því, að þessi deila hefur staðið svona lengi? Svarið við þeirri spurningu er að finna í grg. eða ég vil segja árásargrein, sem birtist frá Vinnuveitendasambandi Íslands rétt eftir að verkfallið hófst. Það var látið líta svo út, að þetta væri hlutlaus grg. um deiluna, en það er nú upplýst, að svo rangt hefur þar verið á málum haldið, að kröfur flugmanna eru sagðar mörgum hundruðum þús. kr. hærri, en þær voru, þegar þessi grg. var birt, vegna þess að það er ekkert tillit tekið til þess, að þeir voru búnir að lækka kröfurnar um 20%. í framhaldi af þessari furðulegu grg. Vinnuveitendasambandsins, þar sem reynt var að afflytja málstað flugmannanna á þennan hátt, voru af ýmsum aðilum, sem standa nærri þessum félagsskap, hafnar hinar furðulegustu árásir á flugmennina. Það var sagt, að það þyrfti enga sérstaka hæfileika eða sérstaka menntun til að stunda þetta starf, þetta væri eiginlega ekkert, að vera flugstjóri á svona stórri vél væri eiginlega ekkert ábyrgðar meira en að aka bíl og þar fram eftir götunum og þess vegna ætti að miða kjör flugmannanna, að því er manni skildist, við kjör bílstjóra og á þennan og annan hátt var málið flutt. Það var sem sagt hafin hér hin svæsnasta árásarherferð á annan aðilann, sem stóð að deilunni. Og hvers vegna var þetta gert? Þetta var gert vegna þess, að það var frá upphafi tilgangur Vinnuveitendasambandsins að nota þessa deilu til þess að knýja fram lögþvingaðan gerðardóm og skapa þar með fordæmi fyrir því, að slíka leið mætti fara í þeim deilum, sem eru fram undan og allir vita um. Það er eingöngu Vinnuveitendasambandið og síðan ríkisstj., ég kem að því síðar, sem ber ábyrgð á því, hve lengi þessi deila hefur staðið. Og það er vegna þess, að það hefur verið tilgangur þess, eins og ég sagði áðan, að nota þessa deilu til þess að skapa fordæmi til lausnar öðrum deilum, sem koma síðar, á þann veg, sem það telur sér heppilegast. Og vegna þess hafa flugmennirnir verið teknir þannig fyrir, orðið fyrir þeim árásum, sem ég lýsti og reynt að sverta þeirra málstað á allan mögulegan hátt, vegna þess að Vinnuveitendasambandið vildi skapa sér aðstöðu til þess að koma þeirri leið fram, sem þetta frv. fjallar um, til þess að skapa fordæmi til lausnar vinnudeilum síðar. Meðferð málsins hefur svo öll verið í þessum anda, sem kom fram í áðurnefndri árásargrein Vinnuveitendasambandsins. Sáttasemjari hefur að sjálfsögðu fundið, að afstaða Vinnuveitendasambandsins, sem fór með mál Loftleiða í þessari deilu, var þannig, að það mundi vera tilgangslaust að halda langa sáttafundi og það mundi vera tilgangslaust að leggja fram miðlunartill., vegna þess að Vinnuveitendasambandið mundi sjá um það, að hún yrði felld. Á þennan veg og allan annan var stefnt að því af þessum aðila að koma í veg fyrir það, að sættir gætu náðst, að samkomulag gæti náðst, til þess að knýja fram þá leið, sem þetta frv. fjallar um.

Mér finnst rétt af þessu tilefni að fara nokkrum orðum um vinnuveitendasamtök og afstöðu þeirra í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu eru vinnuveitendasamtök nauðsynleg, og þau geta verið hin gagnlegustu á margan hátt, ef þau starfa í þeim anda, sem réttur er, ef þau starfa með skilningi á afstöðu þess aðila, sem þau semja við og ef þau starfa í anda þess að gera sér grein fyrir afstöðu þeirra aðila, sem þau þurfa að semja við. En oft vill það fara þannig, að vinnuveitendasamtök lenda ekki undir stjórn þeirra manna, sem eru heppilegastir til að hafa þar forustuna. Oft vill fara svo, að vinnuveitendasamtök lenda undir stjórn þeirra, sem eru afturhaldssamastir og stundum undir stjórn þeirra, sem lakast reka sín fyrirtæki og þess vegna er afstaða þeirra til kaupgjaldsmála oft og tíðum miðuð við afkomu jafnvel lökustu fyrirtækjanna og byggð á algeru skilningsleysi á afstöðu launþeganna, sem þau þurfa að semja við. Það virðist vera svo með marga vinnuveitendur eða þá, sem oft komast til áhrifa í þessum félagsskap, að þeir sjá eiginlega ekki neinn annan kostnaðarlið í sínum rekstri, en kaupgjaldið og það byggist allt á því að halda kaupinu sem mest niðri. Þeir gera sér ekki nægilega grein fyrir því, að það er ekki síður mikilvægt fyrir atvinnureksturinn að vinna að því að búa við sæmileg lánsfjárskilyrði, að búa við lága vexti og vinna að sem mestri hagræðingu í sínum eigin atvinnurekstri og bæta afkomu sína á þann hátt, heldur fyrst og fremst hugsa þeir um það að halda kaupinu niðri. Alþýðublaðið lýsir því nokkuð 1. maí, hvernig viðhorf margra vinnuveitenda er nú í þessum samningum til þeirra samninga, sem eru fram undan, júní samninganna svokölluðu. Því farast þannig orð í forustugrein, með leyfi hæstv. forseta, þar sem það er að ræða um væntanlega kaupsamninga á komandi sumri:

„Ekki verður annað betur séð en bæði ríkisstjórn og verkalýðssamtök hafi fyllsta hug á samkomulagi. Hins vegar er þegar hafinn skipulegur barlómur atvinnurekenda, meira og minna studdur af ýmsum spekingum. Slíkur tónn er ekki nýr, hann hefur heyrzt oft áður.“

Og vissulega er það rétt hjá Alþýðublaðinu: Hann hefur heyrzt oft áður og slík afstaða hefur heyrzt oft áður. Og það er þessi afstaða, sem hefur ráðið því, hvernig Vinnuveitendasambandið hefur haldið á flugmannadeilunni, vegna þess að þar hefur það haft í huga samningana, sem eru fram undan og vill skapa sér afstöðu til að leysa þá á þann veg, sem það ætlar nú að knýja fram að þessi deila sé leyst.

En þá kem ég að því atriði, sem ég tel langsamlega alvarlegast í þessu sambandi og það er það, að ríkisstj. hefur tekið að sér í þessari deilu, — og þar með má álykta, að það verði einnig svo í framtíðinni, — að hún hefur tekið að sér að vera fulltrúi atvinnurekenda, ganga fram undir merki atvinnurekendanna, hinna afturhaldssömu atvinnurekenda, sem ráða Vinnuveitendasambandi Íslands. Í þessari deilu hefur ríkisstj. í einu og öllu komið fram sem hinn trúasti fulltrúi atvinnurekendasambandsins og þess vegna hefur hún léð máls á því að leysa þetta mál eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég vil leggja sérstaka áherzlu á þetta vegna þess, að mér finnst, að þetta spái ekki góðu um framgang þeirra samninga, sem fyrir höndum eru milli verkalýðsstéttarinnar og atvinnurekenda. Mér sýnist alveg sérstaklega á þessu máli, þar sem ríkisstj. hefur gerzt fullkominn fulltrúi atvinnurekendanna, að hún sé einnig líkleg til að þjóna þeim í þeim átökum, sem hér eru fram undan. Og þótt margt sé alvarlegt við þessa deilu, tel ég þetta vera það langsamlega alvarlegasta. Ég tel, að það sé mikil nauðsyn fyrir launþega, sem eiga harða baráttu fyrir höndum, að gera sér þetta ljóst, og alveg sérstaklega er það nauðsynlegt fyrir þá launþega, sem fylgja stjórnarflokkunum að málum, að gera sér þetta ljóst og reyna að hafa áhrif á þann veg, að ríkisstj. gerist nú ekki í annað sinn fulltrúi atvinnurekendanna, heldur reyni að líta hlutlaust og heiðarlega á málin. Og ég get vel trúað, að það sé rétt, sem kemur fram í Alþýðublaðinu 1. maí, að það sé á vissan hátt vilji ríkisstj. að reyna að leysa júní deiluna, sem fram undan er, með samkomulagi. En ég óttast, að það komi í ljós, alveg eins og í þessari deilu, að það sýni sig, þegar á reynir, að þá er ríkisstj. fulltrúi atvinnurekendanna, en fylgir ekki launþegunum að málum, meti þeirra málstað minna, en málstað atvinnurekendanna. Og það er heldur ekkert óeðlilegt, því að það vita allir, að það er mjög vel innangengt á milli Vinnuveitendasambands Íslands og Sjálfstfl. Það er meira að segja vitanlegt, að þeir menn, sem mestu ráða hjá Vinnuveitendasambandinu, ráða líka mestu í Sjálfstfl.

Ég álít, að þetta mál undirstriki það alveg sérstaklega, hvílík hætta er á ferðum; ef ríkisstj. lætur í annað sinn atvinnurekendurna leika með sig og hafa sig að leiksoppi, alveg eins og þeir hafa gert í þessu máli. En vitanlega er, eins og ég hef rakið, fyrst og fremst tilgangurinn hjá atvinnurekendum með því að fá þessi lög fram að skapa fordæmi til þess að fara hina sömu leið í þeim deilum, sem fram undan eru.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að ræða öllu meira um þetta mál. En það, sem ég vildi alveg sérstaklega leggja áherzlu á með ræðu minni, var það, að þó að margt sé alvarlegt í þessari deilu, álit ég það langalvarlegast, að ríkisstj. hefur hér tekið afstöðu með atvinnurekendum eða Vinnuveitendasambandinu réttara sagt og það spái ekki góðu í framtíðinni.

Ég vil svo að lokum minnast aðeins nokkrum orðum á það, sem ég gerði að vísu einnig að umtalsefni í ræðu minni við 2. umr., en það er, að nauðsynlegt sé, ef nokkur möguleiki er á því, að koma þeirra skipan á, að flugfélögin geti sem mest staðið utan vinnudeilna hér innanlands vegna þess, hve mikið þau starfa á erlendum vettvangi. Og ég vil enn einu sinni undirstrika það, að til þess að ná því marki sé það höfuðnauðsyn, að flugfélögin séu ekki aðilar að stéttabaráttunni í landinu, séu ekki aðilar að stéttasamtökum, að þau séu ekki aðilar að Vinnuveitendasambandi Íslands, því að ég held, að aðild þeirra að Vinnuveitendasambandi Íslands geti dregið þá inn í margar hættulegar deilur, fleiri en þessa. Mér sýnist öll reynslan í þessari deilu sýna og sanna það, að hún væri löngu leyst, ef Loftleiðir væru ekki aðili að Vinnuveitendasambandinu og ég verð að segja það, að mér finnst Loftleiðir fá lítil laun fyrir þá góðu greiðslu, sem þær verða að inna af hendi til Vinnuveitendasambandsins og áreiðanlega skiptir mörgum hundruðum þús. kr. á ári, þegar uppskeran er nú ekki önnur en þessi, að það er mánaðar verkfall á stærstu samgöngutækjum félagsins. En það er í raun og veru sú þjónusta, sem Vinnuveitendasambandið hefur innt hér af höndum fyrir Loftleiðir, því að ef það hefði ekki átt þátt í þessari deilu, væri löngu búið að leysa hana. Og mér finnst, að af því eigi Loftleiðir og flugfélögin að læra og vera ekki lengur aðilar að stéttasamtökunum í landinu með aðild sinni að Vinnuveitendasambandi Íslands. Með öðrum hætti held ég, að sé ekki hægt að koma þeirri skipan á, sem þarf að komast á, að flugfélögin geti staðið utan við verkföll og kaupdeilur hér innanlands. Ég benti á það hér við 2. umr., að flugmennirnir hafa sinn skilning á þessu, með því að þeir hafa fyrir nokkru gengið úr Alþýðusambandi Íslands og þess vegna væri enn þá eðlilegra og sjálfsagðara, að flugfélögin gerðu slíkt hið sama.