03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1124)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki margt, sem þarf að svara í ræðu hv. 5. þm. Reykv. og ég hefði vel getað setið undir því, þótt hann hefði haldið sig að því að skamma ríkisstj. og mig, sem hef verið talsmaður þessa frv. En vegna þess að hann ræðst á hæstarétt og gerir því skóna, að hæstiréttur verði ekki hlutlaus, þegar hann skipar gerðardóminn, tel ég sjálfsagt að mótmæla slíkum getsökum. Hv. þm. fullyrti það, að ríkisstj. hefði tekið afstöðu með vinnuveitendunum gegn flugmönnunum. En hvað gerir ríkisstj. með þessu frv.? Hún gerir ráð fyrir því, að hæstiréttur tilnefni 3 menn í gerðardóm, sem ákveði kjör flugmanna á flugvélum af gerðinni Rolls Royce 400. Gert er vitanlega ráð fyrir því, að hæstiréttur skipi menn í gerðardóminn, sem líta á þessi mál hlutlausum og réttlátum augum og það er ekki sæmandi hér í hv. Alþ. að gera ráð fyrir því, að þeir, sem fara í gerðardóminn, kveði ekki upp úrskurð eftir beztu samvizku eftir að hafa kynnt sér málið. Ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu gegn flugmönnunum með Loftleiðum. Ríkisstj. hefur ekki heldur tekið afstöðu með Loftleiðum gegn flugmönnum. Ríkisstj, hefur ekki gert annað, en það að gera ráðstafanir til þess, að deilan verði leyst, með því að fela hæstarétti að skipa 3 hæfa menn í hlutlausan gerðardóm til þess að úrskurða flugmönnum kaup og kjör í tiltölulega stuttan tíma.

Það má vel vera, að hv. 5. þm. Reykv. reyni að afsaka þetta, sem hann sagði hér áðan í fljótfærni, því að í fljótfærni hefur það verið gert og óhugsað. Hann hefur ekki ætlað sér að ráðast á hæstarétt. Hann hefur ætlað sér að halda sig að því að deila á ríkisstj., en af einhverjum ástæðum glopraðist þetta út honum, sem ekki verður þolað, því að okkar réttarfar byggist á því, að við höldum hæstarétti, æðsta dómstóli landsins, utan við deilurnar.

Ég tel svo ekki ástæðu til að segja meira um þetta, því að fullyrðingar þær, sem fram komu hjá hv. þm., voru þannig vaxnar, að þær geta farið fyrir ofan garð og neðan. Þrátt fyrir skýlaus ákvæði í lögum um reglugerðina, telur hv. þm., að það sé enginn vandi að gera hana á tiltölulega stuttum tíma. .Álit flugmálastjóra, álít flugfélaganna og álit flugmannanna er þó þannig, að það hljóti að taka nokkurn tíma, því að þeir vilja helzt geta samið um þetta, en ekki að rn. ákveði einhliða um vinnutímann. En vitanlega gæti að því komið, ef þessir aðilar gefast upp, við það að gera till. til rn.