03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég er ekki sammála hæstv. samgmrh. nema um eitt atriði, sem hann sagði nú í seinustu ræðu sinni. Hæstv. ráðh. sagði, að það ætti að halda hæstarétti utan við deiluna og ég er alveg sammála honum um þetta. Það á að halda hæstarétti þannig utan við deiluna, að það þurfi engan gerðardóm að skipa í þessari deilu. Ég álít, að það sé alls ekki verkefni hæstaréttar og það er hvergi gert ráð fyrir því í lögunum um hæstarétt, að hann eigi að vera sérstakur aðili til að útnefna menn í gerðardóm. Ég álit það alls ekki verkefni hæstaréttar og ég álít það að mörgu leyti hættulegt fyrir hæstarétt, að þessi kvöð sé lögð á hann, sem alls ekki er ætlazt til í lögunum um réttinn sjálfan. Dómnum, hæstarétti, er ætlað allt annað verkefni, en að útnefna menn í gerðardóm og ég álít, að það sé nauðsynlegt fyrir réttinn, að honum sé haldið utan við það að útnefna menn í gerðardóma. Og hæstv. samgmrh. hlýtur sjálfur að muna eftir dæmi, sem sannar þetta. Nú á þessu þingi var breytt lögunum um þann gerðardóm, sem ákveður fiskverðið. Hvers vegna var verið að breyta þeim lögum? Í þeim lögum var það ákveðið áður, að oddamaðurinn skyldi ákveðinn af hæstarétti og hann var tilnefndur af hæstarétti. En þessi maður, sem var tilnefndur af hæstarétti, gafst ekki betur, en það að álíti annars aðilans, þ. e. útgerðarmanna og fiskkaupenda, að þeir neituðu að una þessum gerðardómi áfram, ef hæstiréttur nefndi oddamann í hann og þess vegna varð að breyta þessum lögum og tilnefna sem oddamann forstöðumann Efnahagsstofnunarinnar. Þetta var lagabreyting, sem sjálf ríkisstj. stóð að og ég held, að þetta dæmi sýni það bezt, að það sé ekki heppilegt að láta hæstarétt vera að útnefna gerðardóma, enda liggur verkefni hans á allt öðru sviði.

Ég get nefnt annað dæmi í sambandi við þetta, sem sýnir, að það er ekki heppilegt að fela hæstarétti þetta verkefni, þó að hann sé góður á því verksviði, sem honum er fyrst og fremst ætlað í hæstaréttarlögunum og það er að fella dóma og úrskurði út af deilum, sem rísa um það, hvernig á að skilja lög. Hæstiréttur hefur tilnefnt nokkra aðila í kjaradóm opinberra starfsmanna og ég held, að öllum komi saman um það, að sá kjaradómur hefur ekki reynzt vel. Það liggja fyrir í þingtíðindunum skjalföst ummæli hæstv. forsrh., sem sanna það, að þessi kjaradómur, sem er að nokkru leyti útnefndur af hæstarétti, hefur fellt úrskurð, sem ekki var samrýmanlegur lögum. Ég hef nokkrum sinnum lesið ummæli hæstv. forsrh. yfir honum og sýnt honum fram á það, að úrskurður kjaradóms í málum opinberra starfsmanna samrýmist ekki lögum, eftir því sem hæstv. ráðh. hefur sjálfur sagt. Ég álít þess vegna, bæði af þessari reynslu og annarri, að það sé kominn tími til þess, að hæstarétti sé haldið utan við allar vinnudeilur með því að fela honum ekki það verk að nefna menn í gerðardóma í vinnudeilum, því að hann á að sinna allt öðrum verkefnum en þeim.