03.05.1965
Neðri deild: 79. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

187. mál, lausn kjaradeilu atvinnuflugmanna

Björn Pálsson:

Herra forseti. Því hefur verið slegið hér fram, að gerðardómslög í launamálum væru kúgunarlög og það væri ráðizt á helgasta rétt einstaklings með því. Ég lít ekki þannig á málið. Ef það er þannig, er margur kúgaður hér á landi. Þegar verðlagsákvæði eru sett hjá verzlunarmönnum, eru ákveðin kjör þeirra af viðkomandi aðilum, ríkisstj. og einhverjum ráðum, sem ákveða slíkt. Ég veit ekki betur, en ég með minn atvinnurekstur búi algerlega við gerðardóm, bæði hvað snertir landbúnað og sjávarútveg. Ég tel það ekki kúgun, vegna þess að þessir aðilar, bæði útgerðarmenn og bændur, hafa ekki lagt fram till., sem hafa reynzt betur við að leysa þessi vandamál. Sama er með embættismennina. Þeir búa í raun og veru við gerðardóm, ef ekki næst samkomulag. Þessum aðilum er öllum frjálst að semja, en ef þeim tekst ekki að semja, eru viss ákvæði um, að það sé útkljáð af hlutlausum dómstóli. Sama er með sjómennina. Þeir búa óbeint við gerðardóma. Það er ákveðið verðið á síldinni, það er ákveðið verðið á fiskinum og þeir hafa sínar prósentur af þessu, þannig að ef það er ákveðið lágt og við erum snuðaðir, eins og gert var nú í sumar t.d. á síldarverðinu, gjalda þeir þess líka, þannig að ef þetta er að ráðast á helgasta rétt og þetta eru kúgunarlög, sé ég ekki annað, en það sé bara meiri hl. þjóðarinnar, sem býr við það. Að nokkru leyti býr iðnaðurinn eða hefur oft gert a.m.k. og gerir e.t.v. að einhverju leyti enn að búa við verðlagsákvæði og satt að segja, ef hann er tollverndaður, eins og gert var og verndaður líka með innflutningshöftum, er ekki nema eðlilegt, að ríkisvaldið vilji hafa einhverja íhlutun um það, að hann sé ekki að okra á alþýðu manna. Ég álit, að með dómstól, sem ekki er ástæða til að ætla fyrir fram, að sé hlutdrægur, sé ekki verið að brjóta lög á neinum. Við verðum allir að beygja okkur undir lög, við verðum allir að búa við lög og lög eru nauðsynleg, til þess að þjóðfélagið geti gengið. Við vitum þetta. Okkur er ekki leyfilegt að gera hvað sem er í þjóðfélaginu. Og það er ekki hægt að reka þjóðfélag upp á það, að einstaklingar geti gert það óstarfhæft, sama hvaða stétt það er. Og þegar við förum í mál, lítum við á dómstólana sem óhlutdræga aðila, sem dæma um misklíðarefnið og við lítum ekki á, að það sé verið að kúga hvorugan aðilann, þótt dómur sé kveðinn upp. Þótt ég tapi t.d. máli í hæstarétti, tel ég það enga kúgun, heldur það, að samkv. þeim l., sem dómstóllinn dæmir eftir, virðist ég hafa haft rangt fyrir mér. Ég get því ómögulega gengið inn á það, að það sé verið að beita kúgun eða ráðast á helg mannréttindi, þótt það séu einhver ákvæði um það, ef ekki næst samkomulag, að vissir aðilar dæmi, sem ekki sé ástæða til fyrir fram að ætla, að verði hlutdrægir.

Ég hef ekki kynnt mér þetta mál, ekki haft aðstöðu til að kynna mér það rækilega. En það mættu þarna fulltrúar frá báðum aðilum og ég þekki þessa menn ekki persónulega og hef ástæðu til að halla á hvorugan. En mér virtist frekar standa á fulltrúum Loftleiða að semja, mér virtist flugmennirnir vera fúsari til að semja. En mín skoðun er sú, að eins og málum er komið núna, þá sé það engin kúgun, þó að það sé fenginn einhver hlutlaus dómstóll til að dæma þetta og ég held satt að segja, að til að forðast það, að annar aðilinn kúgi hinn, sé báðum fyrir beztu að fá einhvern hlutlausan aðila til að ákveða þetta í þetta sinn. En það haggar því ekkí, að æskilegast er í öllum tilfellum, að aðilarnir komi sér saman um hlutina á sanngjörnum grundvelli.

Svo þýðir náttúrlega ekki alltaf að vera að tala um þetta, einhverjar deilur milli vinnuveitenda og þeirra, sem vinna hjá þeim. Þetta er yfirleitt ákaflega heimskulegt, því að þegar búið er að hækka laun aðilanna meira en atvinnuvegirnir geta borið, er það bara tekið af þeim aftur. Og hvað hefur hafzt upp úr þeim mörgu verkföllum, sem hafa verið gerð hér á landi? Það eru ýmis ákvæði komin í lög, sem eru að verða hrein plága á launafólkinu sjálfu. Ég hef oft nefnt það, t.d. framlögin í atvinnuleysistryggingar. Ég veit ekki betur en þjóðin sé skattlögð þarna um 100 millj. Það kemur að heita allt á alþýðu manna beint og óbeint gegnum ýmiss konar útgjöld, gegnum ríkisútgjöldin, gegnum bæjarfélögin, og svo er kroppað pínulítið af fyrirtækjum líka. Þetta er að verða stærsti sjóður landsins, þetta er notað til þess að raka saman peningum af alþýðu manna í landinu. Þetta stendur óhaggað enn þá. Það var æskilegt að koma upp atvinnuleysistryggingum, en það þarf ekki að skattleggja menn að eilífu fyrir það, þegar engu er eytt úr þeim sjóði. Sama gerðist að nokkru leyti í samningunum í sumar. Það græddu mest á því þeir, sem launahæstir voru. Ég get viðurkennt það, ég hef ekki kynnt mér rækilega laun fólks hjá Loftleiðum, en það var ljóst, að það verður að hækka víð alla hjá Loftleiðum eða það skildist mér á umr., ef hækkað er hjá einhverjum. En ég hygg, að þeir, sem eru lægra launaðir hjá Loftleiðum, séu ekkí á hærri launum en það, að þeir mættu gjarnan fá meira. Hitt vitum við allir, að flugstjórarnir hafa allgóð laun, þótt þeir hafi e.t.v. eitthvað lægri bein laun, en stéttarbræður þeirra hafa hér í Evrópu. En það verður sennilega ekki til lengdar, þótt það verði kannske í nokkra mánuði.

Nei, ég held, að ef við ætlum að búa í þessu þjóðfélagi og stjórna því af einhverju viti, getum við ekki alltaf legið í illdeilum hver við annan. Það er sama, hvort við erum vinnuveitendur eða launþegar, að því leyti til, við verðum að leysa málin á skynsamlegan og sanngjarnan hátt. Ég er ekki í vafa um, að það, sem gerir að ýmsu leyti erfitt fyrir að hækka við flugstjórana núna, er að það standa fyrir vinnudeilur. Það er ekki hægt að neita því, að það hafa allir frekar samúð með því að hækka við þá, sem verst eru settir og lægst launaðir, heldur en við þá, sem eru bezt settir. En það er nú þannig með eftirlætisbörnin, að þau heimta ævinlega mest. Mesta auðfélag landsins er Loftleiðir og Loftleiðir eiga ákaflega þægilegt með að borga meira. Við vitum það, að flugstjórarnir eru líka einhverjir hæst launuðu menn í landinu. En það er bara þannig, að þeir, sem mest fé, krefjast líka mest og við vitum, að eftirlætisbörnin eru heimtufrekust. En þó að það skeði nú, ef foreldrar eiga tvo syni, sem þeir hafa alið upp í miklu eftirlæti og hafa í raun og veru meiri fjárráð, en þeir þurfa nauðsynlega með og eru alls ekkí svangir, þeir færu svo að deila og jafnvel að fljúgast á út af einhverjum matarbita og foreldrarnir taka í axlirnar á þeim og reyna að skilja þá, þá sé ég ekki, að það sé ástæða til að skipta sér mikið af því, nema það sé einhver fólska í foreldrunum, þannig að þeir ætli að meiða þá. Þess vegna er ég að hugsa um að sitja hjá við þessa atkvgr.