16.03.1965
Efri deild: 55. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

155. mál, eftirlaun

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Nýlega samdi ríkisstj. við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um launauppbót þeim til handa; 6.6%. Samkv. l. frá 1963 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fá þeir, sem ellilífeyri taka samkv. þeim l., af sjálfu sér sams konar uppbót á ellilífeyri og opinberir starfsmenn hafa fengið á sín laun. Það þykir sjálfsagt, að þeir, sem fá eftirlaun samkv. 18. gr. fjárl., njóti þess sama og efni þessa frv. er að fá heimild til slíkra greiðslna. Ég vænti þess, að frv. fái góðar undirtektir hv. þdm. og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.