17.12.1964
Neðri deild: 31. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1151)

105. mál, hjúkrunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til hjúkrunarlaga, á þskj. 158, er í senn almenn endurskoðun á hjúkrunarkvennalögum nr. 27 frá 19. júní 1933 og felur auk þess í sér nokkur nýmæli, sem ég skal nánar gera grein fyrir.

Eins og fram kemur í grg., var málið undirbúið af landlækni og borgarlækni hér í Reykjavík í samráði við hjúkrunarkvennasamtökin í landinu, stjórn Hjúkrunarskóla Íslands og fleiri aðila. En tilgangurinn með endurskoðun hjúkrunarkvennal. var sá að koma inn í löggjöfina breytingum, sem líklegt þótti, að gætu stuðlað að því, a.m.k. að nokkru leyti, að ráða bót á hinum tilfinnanlega hjúkrunarkvennaskorti, sem verið hefur í landinu að undanförnu. Og að álíti þeirra aðila, sem undirbjuggu málið, var talið, að ein leiðin til þess að bæta nokkuð úr þessum skorti væri sú, að þjálfa sérstaka stétt aðstoðarfólks, sem ynni við hjúkrunarstörf undir stjórn hjúkrunarkvenna. Það er vitnað til þess, að sú leið hafi verið farin í nágrannalöndum okkar, þar sem svipaðir erfiðleikar hafa verið og hér, og reynzt nokkuð vel. Þetta svo kallaða aðstoðarfólk eða sérstaklega þjálfað fólk hlýtur aðallega verklega þjálfun um skamman tíma, nokkurra mánaða skeið og starfar ekki upp á eigin spýtur, heldur undir stjórn hjúkrunarkvenna. Um þetta, sem er helzta nýmælið, er ákvæði í 8. gr. frv. Og það er gert ráð fyrir þeirri tilhögun, að Rauði kross Íslands muni taka að sér þá verklegu þjálfun, sem hér kann að verða um að ræða. Af þessu mun leiða nokkurn kostnað, þó ekki ýkja mikinn. En mér hefur verið tjáð, að þeir, sem undirbjuggu málið, geri ráð fyrir, að hann nemi kannske árlega um 150 þús. kr., svo að það er ekki verulegt atriði, ef það getur orðið til þess að leysa að einhverju leyti úr þeim vanda, sem við er að glíma.

Að öðru leyti er, eins og ég sagði, nokkur endurskoðun á eldri lögum, hjúkrunarkvennalögum. Þetta er nú kallað frv. til hjúkrunarlaga, en það heiti byggist á því, að nú eru einnig til hjúkrunarmenn og kom því til álita að taka upp bæði heitin, hjúkrunarkonur og hjúkrunarmenn, en eins og fram kemur í 7. gr. frv., þótti sá háttur betur við eiga, að ákvæði 1.–6. gr. skyldu einnig taka til karla, sem ljúka hjúkrunarnámi og hafa þá rétt til að kalla sig hjúkrunarmenn.

Það er svo nýmæli í 1. gr., að þar er gert ráð fyrir því, að fleiri hjúkrunarskólar, en Hjúkrunarskóli Íslands geti verið reknir hérlendis og hjúkrunarkonur, sem útskrifaðar eru úr hjúkrunarskóla, gangi undir sérstakt viðurkennt próf, áður en þær eru taldar hæfar til hjúkrunarstarfa og öðlast rétt til að kalla sig hjúkrunarkonur.

Að öðru leyti held ég, að sé nokkuð auðskilið, hvað í frv. felst, með þeirri grg., sem fylgir hinum einstöku greinum En ég vil láta þess getið, að við mig hafa haft samband fulltrúar frá stjórn Hjúkrunarfélags Ísland og hafa borið fram ósk um, að það yrði stofnað sérstakt embætti hjúkrunarkonu á vegum ríkisstj. Íslands, þ.e. eins konar embætti hjúkrunarkonu við hlið landlæknis eða hjá landlæknisembættinu. Þær hafa vitnað til þess, að þessi háttur hafi gefizt vel, sérstaklega hjá Dönum og öðrum nágrönnum okkar. Hins vegar hefur verið nokkuð óljóst, hvernig ætti að koma því fyrir og hvert ætti að vera afmarkað verksvið slíkrar embættishjúkrunarkonu. Ég hef óskað eftir því, að þær legðu fram till. um það og stjórn Hjúkrunarfélags Íslands samþykkti á stjórnarfundi 30. okt. að skipa nefnd til þess að undirbúa tillögur um þetta atriði, um starfssvið og starfsskiptingu slíkrar embættishjúkrunarkonu. Mér hafa ekki enn borizt þær í hendur og ég hef ekki talið ástæðu til að setja ákvæði um þetta inn í lög. Að vísu gæti komið til álita, að það væri heimildarákvæði í slíku frv. um að stofna slíkt embætti hjúkrunarkonu, sem vikið hefur verið að, en þó taldi ég það ástæðulaust. Ég hygg, að þetta sé fyrst og fremst framkvæmdaratriði, sem ráðh. gæti ráðið fram úr án sérstaks ákvæðis í l., ef það teldist æskilegt, þegar fyrir liggja hinar endanlegu till. frá stjórn Hjúkrunarfélags Íslands. Ég geri ráð fyrir því, að n., sem fær þetta til meðferðar, muni berast þær till., ef þær koma undir meðferð málsins í þinginu og málið megi þá athugast nánar, þegar þar að kemur.

Að svo mæltu legg ég til, að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. heilbr.– og félmn.