04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hér liggur fyrir á þskj. 290 frv. til læknaskipunarlaga. Orsök þess eru þeir miklu erfiðleikar, sem á undanförnum árum hafa komið í ljós við það að búa fólkinu í hinum dreifðu byggðum þá aðstöðu, að það hefði góða læknisþjónustu, sambærilega við þá, sem í þéttbýlinu búa eða a.m.k. góða og fullnægjandi læknisþjónustu. Tilgangur frv. er að reyna að leysa úr þessum vandræðum með breytingum sem lagt er til að gerðar verði á læknaskipuninni, og öðrum ákvæðum í frv.; sem stefna að sama marki og ég skal síðar koma að.

Þetta er ekki nýtt vandamál, sem hér er á ferðinni, heldur hefur það verið um langan aldur. Það má segja, að það hafi reyndar á allri þessari öld meira og minna mistekizt að tryggja það á hverjum tíma, að læknar fengjust til að gegna embættum í hinum eintöku læknishéruðum. Hitt er svo annað mál, að vandræðin hafa farið vaxandi og orðið meira áberandi við ýmsar breyttar þjóðfélagslegar aðstæður, þegar þéttbýlið hefur vaxið og aukizt og þar hefur verið um meiri og síaukna læknaþjónustu að ræða, en hins vegar örðugleikarnir samhliða vaxið við að tryggja góða læknisþjónustu úti í dreifbýlinu, þar sem fólki hefur jafnvel á sumum stöðum verið að fækka.

Mönnum er nokkuð ljóst, hvernig þetta er, af fyrri og síðari umr. hér í þinginu. En eins og ástandið nú er, fer nokkuð fjarri því, að fastir læknar séu í hinum einstöku héruðum, og núna munu vera 6, sem eru algerlega læknislaus og 9 gegnt af læknakandidötum, sem eru eingöngu til bráðabirgða. En jafnframt þessu liggur það fyrir, að fastir umsækjendur hafa ekki fengizt um 15 eða 16 læknishéruð. Og það er talið, að enda þótt fram til þessa hafi tekizt að afstýra stórvandræðum, ef svo mætti segja, sé mjög ólíklegt, að það takist til lengdar án sérstakra aðgerða. Nú er því ekki til að dreifa, að okkur vanti læknisfróða og menntaða menn á þessu sviði. Og það hefur komið fram við síðustu athugun, að um 82 læknar eru við framhaldsnám erlendis eða störf erlendis og auk þeirra eru 67 læknakandidatar ýmist erlendis eða hérlendis við nám eða bráðabirgðastörf. Ástæðan er einfaldlega sú ískyggilega staðreynd, að ungir læknar virðast yfirleitt vera því algerlega afhuga, eins og nú er ástatt, að gerast héraðslæknar. Þetta hefur komið fram af könnun á þessu sviði og viðtölum við unga lækna, fjölda lækna og kandidata og á einum stað hér í aths. kemur fram, að af 62 læknum, sem svör bárust frá í sambandi við viðhorf þeirra til starfa á sviði menntunar þeirra, lét aðeins einn það uppi, að hann hefði hug á að gerast annaðhvort héraðslæknir eða almennur starfandi læknir.

Ég sagði áðan, að þetta væri ekki nýtt af nálinni og það hafa oft verið gerðar tilraunir til þess að koma betri skipan á þessi mál, bæði hér á þingi og utan þings. Ég minnist þess, þegar ég hafði um tíma með að gera meðferð heilbrigðismálanna síðustu mánuði ársins 1961, að þá var til meðferðar breyting á læknaskipuninni og löggjöf þar að lútandi, sem Bjarni Benediktsson, sem þá hafði áður farið með heilbrigðismálin, hafði undirbúið og byggt á tillögum landlæknis. Það varð lítið úr úrbótum á þessu sviði í meðferð þingsins. Nokkuð var samþ. og annað fellt og verulegur árangur varð sem sagt ekki af þessarl tilraun til úrbóta.

Landlæknir ritaði mér bréf í aprílmánuði í fyrra, þar sem hann var mjög áhyggjufullur út af ástandi þessara mála og taldi nauðsynlegt, að nú þegar yrðu gerðar ráðstafanir til þess, að í samráði við læknasamtökin í landinu og nokkra aðra aðila verði rækileg endurskoðun látin fara fram á læknaþjónustu dreifbýlisins. Og það var í framhaldi af þessu, að ég skipaði n. í maímánuði s. 1., sem var falið þetta verkefni, að framkvæma endurskoðun á læknaskipunarlögunum, nr. 16 frá 9. apríl 1955, og læknisþjónustu dreifbýlisins almennt, í því skyni að finna lausn á hinu aðkallandi vandamáli, sem stafar af skorti á læknum til héraðslæknisstarfa, einkum í hinum fámennari og afskekktari héruðum landsins. Þessa n. skipaði ég með það fyrir augum, að í hana veldust þeir menn, sem hefðu nánasta og bezta þekkingu á þessum málum, hver á sinu sviði og eins og fram kemur í aths. var landlæknir formaður n., dr. Sigurður Sigurðsson og varamaður hans Benedikt Tómasson skólayfirlæknir, sem hjá honum starfar, síðan Óskar Þórðarson yfirlæknir, formaður Læknafélags Íslands, Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri í félmrn., og svo fulltrúi í dóms- og kirkjumrn., sem þar fer með heilbrigðismálin, Jón Thors. Síðan var gert ráð fyrir einum fulltrúa frá Háskóla Íslands og var það fyrst í stað dr. Sigurður Samúelsson, en síðar Kristinn Stefánsson og dr. Sigurður Samúelsson varamaður hans.

Þessi n. lagði sig mjög fram um það að reyna að finna leiðir til úrbóta og gera tillögur, sem um munaði og mundu geta valdið verulegum áhrifum til góðs og úrbóta í þessu mikla vandamáli. Ég held, að þarna hafi verið saman komnir menn með mjög alhliða og yfirgripsmikla þekkingu, almenna þekkingu og sérþekkingu á þessu vandamáli, sem hér var við að glíma. Og ég get ekki annað sagt en að ég tel, að n. hafi leyst starf sitt mjög vel af hendi, unnið samvizkusamlega og gert till., sem eru mjög athyglisverðar og mótaðar eru í því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég hef haft till. n. til meðferðar frá því í nóvembermánuði, eða það mun hafa verið 7. nóv., sem till. bárust til mín og síðan hefur ríkisstj. verið með málið til athugunar, en það er eðlilegt, að það hafi þurft nokkurn tíma, því að hér er um mjög mikið vandamál og yfirgripsmikið mál að ræða.

Í öllum aðalatriðum er þetta frv. í samræmi við tillögur n. Á því hafa þó verið gerðar nokkrar breyt., en engar öðruvísi, en eftir viðræður við n. og allar í fullu samráði við landlækni.

Í almennri grg., sem fylgir þessu frv. frá n., sem undirbjó það, fylgja hugleiðingar um orsakir læknaskortsins í dreifbýlinu. Ég skal ekki fara mikið út í það, þær eru nú mönnum verulega kunnar. Þær eru bæði persónulegar, félagslegar og fjárhagslegar og af hinum félagslegu og persónulegu ástæðum eru þær helztar, að það er hin starfslega einangrun, sem leggst á lækninn í dreifbýlinu og hin mikla starfsábyrgð, sem leggst á hann einan umfram það, sem nú tíðkast um lækna. Eftir að læknavísindin eru orðin miklu fjölþættari, en áður var, þá er það miklu tíðkanlegra í fjölbýlinu, að læknar geti haft samráð sín á milli og tekið sameiginlegar ákvarðanir, þegar um mestu vandamál er að ræða og líf sjúklingsins veltur á, til hvaða ráða er tekið. Einangrunin í fámenninu gerir lækninum líka mjög erfitt að fylgjast með öllum þeim öru nýjungum á sviði þessara vísinda, sem ella eru fyrir hendi, því að menn eiga mjög erfitt með að fylgjast með slíku af bókum einum, en þurfa bæði að hafa samráð við sína starfsbræður og möguleika til þess að fylgjast raunverulega með því, sem er að gerast á þessu sviði, í sjúkrahúsum og öðrum slíkum stöðum, þar sem tækifæri gefst til rannsókna á þessu sviði. Almennt má segja líka, að það er engin stétt í þjóðfélaginu, sem lögð er eins látlaus vaktaskylda á og læknana og þetta bitnar fyrst og fremst á héraðslæknunum, sem verða að gegna sinni vaktarskyldu 24 klukkutíma á sólarhring allt árið um kring. Þeir vita aldrei, þegar þeir ganga til hvíldar að kvöldi, hvort einhver bankar ekki upp á, á nóttunni og verða þá að gegna skyldu sinni, oft með því að fara í erfið og þreytandi ferðalög og það kannske dag eftir dag. Við lífum á þeim tímum nú, að menn leggja meira

upp úr því að gera sjálfir kröfur, heldur en að krefjast af öðrum og fólkið óskar sífellt meiri og meiri þæginda og þó að menn hafi kannske möglunarlaust lagt á sig slíka vaktarskyldu áður fyrr, við aðrar þjóðfélagsaðstæður, eru tímar breyttir og mjög skiljanlegt og eðlilegt, að slíkt leggist mjög þungt á þessa einu stétt þjóðfélagsins, sem þannig er að búið og verður ekki öðruvísi að búið. Það er líka áreiðanlega mjög mikil ástæða í þessu sambandi, hvað læknarnir, hinir nýju og uppvaxandi læknar, virðast vera fráhverfir læknaþjónustu í læknishéruðunum, það er vanmatið á hinum almennu læknisstörfum. Það er alltaf í sífellt vaxandi mæli verið að gera kröfur til sérmenntunar á þessu og þessu sviði og það er svo komið, að fólk vill kannske heldur sækja til almennrar læknisþjónustu, heimili sínu í dreifbýlinu einhvern sérfræðing, sérmenntaðan mann, heldur en almennan lækni, þótt það eigi miklu síður við í þeim tilfellum, sem þar um ræðir. Það er eins og eftir því sem sérfræðingurinn verður sérhæfðari á þrengra sviði, þyki hann færari til allra mögulegra hluta í augum almennings. Það kann að vera, að menn geri ráð fyrir því, að sú almenna kunnátta sé alltaf fyrir höndum hjá hverjum og einum og sérmenntunin sé ekki nema ofanálag á þá almennu þekkingu og leikni, sem fyrir hendi er, en þessu er auðvitað allt öðruvísi varið.

Svo er það einnig, að námið og námsuppeldi læknastúdentanna er ekki miðað við það að ala upp héraðslækna og lækna til almennra starfa. Þeir læra hér að mestu leyti á spítölum og í samvinnu og hópstarfi með öðrum, en þeirra menntun og þeirra lærdómur miðast ekki við almenna starfshætti og starfsskilyrði, sem þeir eiga svo síðar að búa við á læknastofum og í heimahúsum og í læknishéruðum. Þetta vandamál, sem þessi n. fjallaði nokkuð um líka og þarf að taka betur til athugunar, er ekki vandamál, sem bundið er við okkur Íslendinga eina, heldur mjög alþekkt annars staðar, þar sem við þekkjum til í öðrum löndum. Atvinnumöguleikarnir í öðrum löndum hafa líka verið miklir fyrir íslenzka lækna á undanförnum árum og þetta hefur bitnað auðvitað á því að fá þá til læknisstarfa hér heima, enda kom það fram í þeirri háu tölu lækna, sem ég nefndi áðan, sem hefur verið starfandi við læknisstörf í öðrum löndum.

Ég skal nú víkja að því, hvað helzt mundi vera í þessu frv., sem að því miðar að reyna að bæta úr þeim erfiðleikum, sem hér er við að glíma. Helztu nýmæli frv. eru tíunduð í aths. í 9 liðum og þegar við lítum á 1. gr., er þar gert ráð fyrir, að læknishéruð skuli vera á Íslandi 52 talsins, en í því felst, að niður eru lögð 5 núverandi læknishéruð og þau sameinuð nágrannahéruðunum. Þessi 5 héruð eru Flateyjarhérað, Suðureyrarhérað, Djúpavíkurhérað, Raufarhafnarhérað, Bakkagerðishérað. Og þá er loksins felld niður heimild, sem er fyrir höndum til stofnunar Staðarhéraðs. Mér er kunnugt um, að það mætti á sínum tíma, 1961, andstöðu hér í þinginu að leggja niður læknishéruð og var túlkað jafnvel á þá leið, að það væri verið að draga úr læknisþjónustunni í dreifbýlinu. Þetta er síður en svo þannig og menn verða að horfast í augu við staðreyndirnar, eins og þær eru og líta raunsætt á hlutina. Það er ekki hægt að búast við því, að það sé hægt að fá lækna til þess að starfa í þessum litlu héruðum með því fámenni, sem í þeim er og nánar er gerð grein fyrir í aths. og það, sem verið er að gera með því að leggja þau niður, er að sameina þau öðrum héruðum til þess að reyna á þann hátt að fá stærri heild, sem betur gæti tryggt, að fólkið á öllu svæðinu fengi viðunandi læknisþjónustu.

Það er gerð grein fyrir mannfjöldanum í þessum héruðum. 1. des. 1963 er Flateyjarhérað með 119 manns, í Flateyjarhreppi 72 og Múlahreppi 47, Suðureyrarhérað 484 manns, Djúpavíkurhérað 267 manns, Raufarhafnarhérað 479 manns og Bakkagerðishérað 331 maður. Þetta er talinn minni fólksfjöldi, en gera verður ráð fyrir, að nokkur læknir sætti sig við til frambúðar og ef menn vilja ekki horfast í augu við þessa bláköldu staðreynd, eins og hún er, mundi það bara leiða til þess, að sama ástandið heldur áfram, að læknar fást ekki í þessi héruð. Á þessu verður þess vegna að gera einhverja aðra skipan, og það verður ekki með öðru móti gert, svo að séð verður, heldur en að fara í þá átt, sem hér er stefnt með þessu frv., að sameina þessi litlu læknishéruð öðrum læknishéruðum.

Það er að vísu gert ráð fyrir því í ákvæðum til bráðabirgða, að þessi læknishéruð verði ekki lögð niður. Áður en þau verði lögð niður, skuli auglýsa þau þrisvar í röð með þeim kjörum, sem ákveðin eru í 6. gr. þessa frv., en þá eru þau auglýst með allt öðrum kjörum en nú er, og væri þá hugsanlegt, að sú kjarabreyting hefði þau áhrif, að læknar vildu sækja um þessi læknishéruð og mundu þau þá ekki verða lögð niður. Ég skal koma síðar að því, í hverju þessi breyting felst.

Það er annað nýmæli í 2. mgr. 1. gr., að heimilt er að ráða einn lækni með ótiltekinni búsetu til þess að veita neyðarlæknisþjónustu í læknislausum héruðum.

Það er þriðja nýmælið, að heimilt skal að sameina læknishéruðin og koma upp læknamiðstöðvum fyrir hin sameinuðu héruð, eftir því sem nauðsyn krefur og staðhættir leyfa, og þó ekki fyrr en hlutaðeigandi héruð hafa verið auglýst minnst þrívegis án árangurs.

Það er fjórða nýmælið, að við veitingu héraðslæknisembætta skal sá umsækjandi, sem hefur lengstan starfsaldur sem héraðslæknir, að öðru jöfnu sitja fyrir öðrum umsækjendum um stöðuna. Þetta hefur ekki staðið svo í l., en þetta hefur þó lengst af verið sú regla, sem fylgt hefur verið, með alveg sárafáum undantekningum.

Fimmta nýmæli er, að í 17 tilteknum læknishéruðum, og ef nauðsyn krefur í 5 öðrum, en ótilteknum héruðum, skal greiða héraðslækni staðaruppbót á laun og það er ákveðið, að hún skuli nema hálfum launum eða 50% af laununum, eins og þau eru í hlutaðeigandi héraði. Þetta eru fámennustu héruðin og þar sem þá praxisinn, ef svo má segja, er minnstur og aukagreiðslur til læknisins þar af leiðandi minni og í heild eru tekjurnar minni, en kannske annars staðar. Þarna er sem sagt gert ráð fyrir því að reyna að fá frekar lækna til að sækja um héruðin og starfa í þeim með því að búa betur að þeim fjárhagslega, heldur en ella.

Svo er sjötta nýmælið, að í þessum 17 tilteknu héruðum, sem ég skal gera nánar grein fyrir síðar, skal héraðslæknir, sem hefur setið 5 eða 3 ár samfleytt í héraðinu, eiga rétt á að hljóta eins árs frí með fullum launum til framhaldsnáms hér á landi eða erlendis og þetta ákvæði kemur að vísu ekki til framkvæmda fyrr en 2 árum eftir gildistöku laganna, ef þetta frv. verður að lögum og svo eru nánari ákvæði um, hvernig með skuli fara, og skal ég skýra það nánar á eftir.

En sjöunda nýmælið er svo einnig það, að embættisaldur héraðslæknis í sömu héruðum og um ræðir í 5. lið, þar sem nýmælin eru talin í aths., — það eru þessi litlu héruð, — hann skal teljast 5 ár fyrir hver 3 ár, sem hann hefur gegnt hlutaðeigandi héraði, þ.e.a.s. hann fær hærri embættisaldur, en normalt er, en það á að geta haft áhrif á aðstöðu hans til þess að fá önnur betri læknishéruð, eftir því sem hann hefur hærri embættisaldur, eða aðrar stöður á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum landsins.

Svo er gert ráð fyrir í áttunda lagi möguleikum til þess að veita læknastúdentum ríkislán með sérstökum hætti, ef þeir skuldbinda sig til þess að gegna læknisþjónustu í læknishéruðunum.

Og níunda nýmælið er það að stofna bifreiðalánasjóð héraðslækna með framlagi úr ríkissjóði til þess að auðvelda þeim, þegar þeir koma frá námi og byrja í héruðunum, að kaupa sér bifreið, sem oft hefur verið erfitt fyrir þá.

Ég skal svo fara nokkrum nánari orðum, frekar en ég hef þegar gert, um þessi einstöku nýmæli. Fram yfir þessa sameiningu héraðanna og heimildina til neyðarlæknisþjónustu er mikilvægt nýmæli, sem felst í 4. gr., en þar er heimild um sameiningu annarra héraða og jafnframt, ef þau eru sameinuð, þá kannske alveg eins í fjölbýli að koma upp læknamiðstöðvum. Hér er um töluvert nýmæli að ræða og ekki kannske alveg einsýnt, hversu mikil áhrif það kann að hafa, en þó er hugsunin, sem í því felst, að í staðinn fyrir kannske samliggjandi læknishéruð með einn og einn lækni verði læknamiðstöð komin upp með jafnmörgum starfandi læknum á þessari miðstöð. Það leiðir til þess, að fleiri læknar starfa saman, ábyrgðin verður ekki eins þung á hverjum einum, þeim yrði sköpuð aðstaða á þessari læknamiðstöð til ýmiss konar frumrannsókna og frumaðgerða, sem ella væri ekki fyrir hendi, þeim yrði jafnframt að skapa aðstöðu til þess að ná þá engu að síður fljótt til fólksins með farartækjum og flugvélum, eftir því sem aðstæður eru nú fyrir hendi á hverjum stað. Það er gerð nokkru nánari grein fyrir þessu í grg. frá n. um þessar læknamiðstöðvar, og þar er ekki gert ráð fyrir að breyta neinni skipun í 1. flokki læknahéraða, sem þar eru talin, og það eru fjölmennustu héruðin. Síðan eru talin upp í 2. flokki þau smáu héruð, sem gert er ráð fyrir að sameina öðrum, þau 5, sem ég þegar hef fjallað um. Svo í þriðja flokki eru héruð, sem mætti sameina eftir þörfum og koma upp fyrir þau læknamiðstöðvum. Það er hins vegar gerð grein fyrir því, að í þessum héruðum er ekki, eins og sakir standa, við mikla erfiðleika að bú, og það verður auðvitað að fara eftir því, hvort héraðsbúar telja, að slíkt gæti orðið til bóta, sem hér er um að ræða. Það eru þess vegna engin bein ákvæði um læknamiðstöðvar, sem leiddi af slíkri sameiningu héraða, heldur aðeins heimild um sameiningu og stofnun læknamiðstöðva á þann hátt, sem segir í gr. um það efni. Það eru 23 héruð þarna talin og með hverjum hætti mundi henta að koma upp þar læknamiðstöðvum. Þar eru 30 skipaðir læknar, en 3 eru settir læknar þar til bráðabirgða. Svo eru aftur í 4. flokki héruð, sem telja verður örðugt eða ókleift sökum staðhátta að sameina um læknamiðstöðvar.

Allar kunna þessar hugleiðingar að vera álítamál, en þær eru þó mjög athyglisverðar, og mér þykir alls ekki ólíklegt, að á ýmsum stöðum gæti komið til álita, að héruðunum þætti fengur að slíkri sameiningu og þá um leið uppbyggingu læknamiðstöðvar, sem ætti að vera til aukins gildis á þessum stöðum. Það er talið, að læknamiðstöðvarnar eigi að veita frumþjónustu, framkvæma sem traustastar undirstöðugreiningar og aðkallandi aðgerðir, en vísa því vandasamara til þeirra sjúkrahúsa, sem veitt geta alhliða og því tiltölulega örugga þjónustu, að því er tekur til sjúkdómsgreiningar og meðferðar. En frumþjónustan krefst óumdeilanlega mikillar hæfni, ef vel á að vera og því fremur sem hún er fjölþættari og ábyrgðarmeiri en flest önnur störf. Og það eru ýmis atriði, sem koma til álita í sambandi við slíkar læknamiðstöðvar. Þær verða að liggja vel við dreifingu byggðarinnar, með sérstöku tilliti til þéttbýliskjarna á vissum svæðum. Þær verða að liggja vel við mannaferðum, svo sem þeim er eðlilegast háttað í héraði og þær þurfa að vera þannig settar, að þjónustuarmur þeirra sé sem skemmstur til allra átta, enda sé þá lengd hans í hverju tilviki ekki miðuð við mælda vegalengd, heldur einnig hvernig fljótast er hægt að komast yfir vegalengdirnar, hvaða vegir eru góðir annars vegar og þá að hve miklu leyti þyrfti t.d. að beita flugvélum eða öðrum farartækjum, og svo þyrftu þær að sjálfsögðu að liggja sem hægast við greiðfærustu leiðum til sjúkraflutninga, sérstaklega flugvöllum.

Eins og ég segi, er hér um nýmæli að ræða í heimildarformi og n. lætur í ljós, að það sé ekki auðvelt að átta sig á, hversu mikils virði það kunni að vera, en tengir þó nokkrar vonir við það og það er þess vert, að því sé gefinn gaumur.

Þá vil ég koma að 6. gr. og þeim nýmælum, sem í henni eru, en þar segir, að í eftirtöldum héruðum skuli greiða héraðslækni staðaruppbót á laun, er nemi hálfum launum í hlutaðeigandi héraði. Og svo eru talin upp þarna 17 læknishéruð. Þetta þýðir það, að læknarnir á þessum stöðum mundu fá hálf önnur laun eða 50% meira en ella, en það er byggt á því, að hér er um lítil læknishéruð að ræða, og er þetta eitt af meðulunum, sem gert er ráð fyrir að geti orðið til þess að laða menn fremur til starfa þarna en ella væri.

Svo er annað nýmæli í sömu grein og það er um það, að héraðslæknarnir megi fá frí til námsdvalar og ferðakostnað í slíkt frí og er það þá notað með þeim hætti, að ef þeir hafa setið 5 ár, mega þeir fá frí á fullum launum og ferðakostnað fyrir fjölskyldu sína til námsdvalar erlendis í eitt ár og án skuldbindingar um að koma heim aftur. Ferðakostnaðinn heim fær læknir svo ekki greiddan, nema hann skuldbindi sig þá til þess að halda áfram starfi í læknishéraðinu. Hann getur fengið að njóta þessara fríðinda eftir 3 ár, ef hann fer í þetta námsfrí í 1 ár og skuldbindur sig til þess að koma aftur og vera minnst 2 ár starfandi héraðslæknir áfram í sínu læknishéraði. Þetta er vissulega gert til þess að örva menn til þess að fylgjast með eða hafa aðstöðu til þess að fylgjast með í sinni vísindagrein eða í sinu fagi, og það er fullvíst, að margur héraðslæknir hefur saknað þess að hafa ekki haft aðstöðu til slíks og vonir manna standa til þess, að af þessu kunni að geta leitt verulegan árangur í þá átt, að menn fáist freka,r en ella til þess að gegna héraðslæknisembættunum. Þessi aðferð er þekkt annars staðar, t.d. í Norður–Noregi og hefur gefið nokkra raun. Það má segja, að það felist almennt í þessu hlunnindi og svo einnig sérstakt að því leyti, að hér er um að ræða námsdvöl. Læknirinn fær aðstöðu til þess að vera á spítölum og kynnast nýjungum í sínu fagi, en um framkvæmd þessarar námsdvalar og hvernig henni er hagað, mundi verða sett sérstök reglugerð. Það er ekki gert ráð fyrir, að það sé í nema eitt skipti, sem slíkt býðst héraðslækni, en þó er heimild til þess að veita héraðslækni frí öðru sinni með sömu skilyrðum og ég hef nú greint, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Það er álítið, að það væri alveg sérstætt, því að þetta er töluvert miklu meira fyrirtæki ,en menn almennt gera sér grein fyrir, að taka sig upp með fjölskyldu sína, eftir að menn eru setztir að í starfi og fara til annarra landa, hvort sem það er í slíkar námsferðir eða með öðrum hætti. En þó kynni að koma fyrir, að það þætti einsýnt, að það væri full ástæða til þess að veita í einstökum tilfellum slík hlunnindi síðar á ævinni og þess vegna er þessi heimild í höndum ráðh., ef svo ber undir.

Þá er þriðja nýmælið í þessar gr., að í þessum sömu héruðum hljóta læknar, eins og ég sagði áðan, þau hlunnindi, að starfsaldur þeirra reiknast 5 ár fyrir hver 3 og það er gert til þess að bæta aðstöðu þeirra í samkeppni við aðrar betri stöður héraðslækna eða aðrar stöður lækna á heilbrigðisstofnunum ríkisins.

Svo er fjórða nýmælið í þessari grein. Þar er heimild til ráðh. eftir till. landlæknis að láta auk þessara 17 læknishéraða, sem í þessari grein eru talin, 5 ótiltekin læknishéruð njóta framantalinna hlunninda, en þó ekki fyrr en það hefur sýnt sig, að læknir fæst ekki þangað, eftir að þau hafa verið auglýst þrisvar í röð.

Mér er alveg ljóst, að það verður sjálfsagt nokkuð deilt um þessi hlunnindi. Sumum finnst þau allt of mikil, öðrum kannske tæpast nógu mikil. Ég held fyrir mitt leyti, að þau megi ekki minni vera, ef hér á að vænta nokkurs árangurs. Ég tel þau hins vegar mikilvæg, og það, hvað þau eru mikilvæg og ríkisstj. hefur viljað fallast á þessi hlunnindi fyrir sitt leyti, byggist eingöngu á því, hvað ástandið er alvarlegt og hversu algerlega sérstæð aðstaða héraðslæknanna er, sem ég vék að áðan í sambandi við þeirra sífelldu vaktarskyldu og mikla ábyrgðarstarf, sem á þeim hvílir og ég vil lýsa því yfir strax sem minni skoðun, að ég tel enga aðra stétt í þjóðfélaginu koma nokkuð til samanburðar í sambandi við hlunnindi, sem hér eru veitt. Ég hef heyrt menn spyrja, þegar slik hlunnindi verða veitt læknum í hinum minnstu læknishéruðum, hvort þá komi ekki prestar, sýslumenn, kennarar og starfslið þeirra og heimti allt hið sama. Það tel ég ekki taka nokkru tali, ekki ná nokkurri átt og á engan hátt sambærilegt, enda hefur ekki verið við nein sambærileg vandkvæði að stríða. Og að svo miklu leyti sem menn mundu vilja leita fordæmis fyrir þessar eða aðrar stéttir í því nýmæli, sem hér er lagt til, teldi ég, að það sé ekki til neinnar þurftar, hvorki þeim stéttum, sem þar er ætlað að fá einhver hlunnindi og til mestu óþurftar fyrir framgang meginefnis þessa máls.

Eftir 6. gr. eru nú flestar greinarnar samhljóða tilsvarandi greinum í gildandi löggjöf, en þó eru eftir þarna tvö nýmæli í 13. gr. Þar er sagt, að það skuli heimilt samkv. till. landlæknis að fenginni umsögn læknadeildar Háskóla Íslands að veita á ári hverju læknastúdentum ríkislán til náms. Það eru þá sérstök lán í sérstökum flokki, sem sérstakar reglur eru settar um, gegn skuldbindingu um læknisþjónustu í héraði að loknu námi. Það má að vísu ekki veita slíkt lán, fyrr en viðkomandi hefur staðizt fyrsta hluta embættisprófs, og það er auðvitað nauðsyn að setja nánari ákvæði um þetta í reglugerð, en þetta hefur mönnum dottið í hug, að gæti kannske í ýmsum tilfellum orðið til þess, að menn vildu skuldbinda sig til þess að vera tiltekinn tíma í læknishéraði, sem ella væri ekki kostur á, ef þeir fengju að njóta þeirra hlunninda, sem í slíku láni kynnu að felast.

Svo er nýmælið um bifreiðalánasjóð héraðslækna, og það leiðir einnig af því, að mönnum hefur oft orðið það erfitt, menn koma eignalausir og hlaðnir skuldum frá prófborðinu og frá kandidatsstarfi sínu og það er næstum því ógerningur að gegna læknisþjónustu án bifreiðar og ofan á alla erfiðleika við að koma sér fyrir sem læknir bætist þá þessi og því er ekki óeðlilegt að reyna að hlaupa þarna undir bagga með sérstökum sjóði, bifreiðalánasjóði, sem í stofnfé er gert ráð fyrir að sé lögð til úr ríkissjóði ein milljón kr.

Þá vil ég vekja athygli á ákvæðinu til bráðabirgða, að þar er sagt, að áður en þessi héruð, og ég vék nú að því áðan, Suðureyrarhérað, Raufarhafnarhérað, Bakkagerðishérað, sem sameina skal öðrum héruðum skv. 1. gr., verði lögð niður, þá skulu þau auglýst laus til umsóknar þrisvar í röð með sömu kjörum og læknar njóta í læknishéruðum þeim, sem um ræðir í 6. gr., þ.e.a.s. með staðaruppbót og hlunnindum við námsdvöl erlendis o.s.frv., sem ég hef nýlokið við að gera grein fyrir, og fáist þá læknar með þeim hlunnindum í þessi héruð, þá nær það ekki lengra, þá verða þau ekki sameinuð öðrum. Svo er gert ráð fyrir, að þessi hlunnindi í sambandi við námsfrí erlendis komi ekki til framkvæmda fyrr en tveim árum eftir gildistöku þessara laga, og það er gert með það fyrir augum að fá nokkra reynslu af því, áður en verður farið að framkvæma þau, hvernig önnur ákvæði og hlunnindi laganna hafa orðið í framkvæmd, hver áhrif kjarabætur frv. hafa til úrbóta um héraðslæknaskortinn að öðru leyti.

Það fylgir smávegis grg. um áætlaðan kostnað við nýmæli frv. og hann hefur verið áætlaður og þá einkum sem leiðir af þessari svokölluðu staðaruppbót og frá þeim viðbótarkostnaði, sem af henni leiðir, dragast laun í fimm héruðum, sem gert er ráð fyrir að lögð verði niður og þá er ætlað, að kostnaður af þessu verði 850–1.200 þús. á ári. Svo er þetta framlag í bifreiðalánasjóðinn, ein milljón. Hins vegar taldi n. sér ekki fært að áætla þann kostnað, sem leiða mundi af ferðakostnaði og framhaldsnámi, ekki að svo stöddu. Og kostnaðinn við námslán er ekki heldur unnt að áætla nú. Ég tel hins vegar og hef ekki orðið var við það, að mönnum vaxi í sjálfu sér neitt kostnaðurinn í augum en það fer náttúrlega nokkuð eftir atvikum, hversu mikill hann er, og þá meina ég það, hversu mjög menn t.d. hagnýta sér þau hlunnindi, sem felast í því að fá frí frá störfum til námsdvalar erlendis, eins og 6. gr. tilskilur.

Þegar n. skilaði áliti sínu, fylgdu því ályktunartill., sem ég vil leyfa mér aðeins að gera grein fyrir, þótt það snerti ekki beint efni þessa frv., en þær snerta efni málsins.

Fyrsta till. var um breytingu á læknakennslunni. N. telur, að læknakandidötum sé tilfinnanlega vant þjálfunar í almennum læknisstörfum utan sjúkrahúsa. Er því lagt til, að heilbrmrn., eða dómsmrh., fari fram á það við menntmrn., að læknadeild háskólans verði falið að gera till., um slíkt nám og tilhögun þess. Þetta mál hefur ekki enn verið tekið upp við menntmrn., en hér er á ferðinni mál, sem er til meðferðar hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum og annars staðar og alveg sama sagan hefur sagt til sín þar, að læknarnir eru ekki menntaðir né þjálfaðir; meðan þeir eru að nema, til þess að gegna þeirri almennu læknisþjónustu, sem gerð er krafa um til þeirra, sem fara út í héruðin.

Svo er önnur ályktunartill. um sérfræðiréttindi heimilislækna og embættislækna. N. álítur mikilsvert að auka veg almennrar læknisþjónustu og embættislæknisstarfa með því að gera heimilislækningar og embættislækningar að sérgreinum. Leggur n. til, að læknadeild háskólans verði falið að semja reglur um nám í þessum sérgreinum. Þetta er í samræmi við þann ríka hug almennings til þess að meta hina sérmenntuðu menn og hinn ríka vilja læknastúdentanna og kandídatanna til þess að sérmennta sig á einhverju sviði og það kann vel að vera, að hér sé athyglisvert atriði og verður nánar athugað. En sannleikurinn er nú sá, að það er í raun og veru ekki aðeins orðinn skortur á læknum úti í hinum einstöku héruðum, heldur er að verða skortur á almennum heimilislæknum hér í Reykjavík og það er mál, sem þarfnast úrbóta út af fyrir sig. En ég tel nú, að það ætti að vera hægt að greiða úr því, en það standa þannig sakir núna.

Svo er þriðja ályktunartillagan um sjúkravitjanir og sjúkraflutningaflug. N. telur nauðsynlegt, að settar verði ákveðnar reglur um sjúkravitjanir og sjúkraflutningaflug, svo sem hvernig skuli til slíks flugs stofnað, hver skuli vera lágmarksmenntun og flugtími flugmanna þeirra, sem slíkt flug annast, hvers konar farartæki skuli notuð og hver sé útbúnaður þess, enn fremur hvaða aðilar annist greiðslu fyrir flugið og í hvaða hlutföllum. Þetta er einnig athyglisvert mál, sem verður nánar gefinn gaumur og unnið að í ráðuneytinu.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég veit, að þeir sérfræðingar, sem undirbjuggu þetta mál og gerðu till. til þessa frv., unnu af heilum hug og gerðu sitt ýtrasta. Við í ríkisstj. höfum haft málið nokkuð langan tíma til meðferðar og það af skiljanlegum ástæðum. En það er einlæg von mín, að í þessu felist raunhæfar og veigamiklar till, til úrbóta og þær megi mæta góðum skilningi alþm. og ná fram að ganga til hagsbóta fyrir það fólk, sem einkum hefur átt við erfiðleika að stríða að fá almenna læknisþjónustu og njóta góðrar læknisþjónustu í þessu landi. En það er eitt frumskilyrði að mínum dómi til þess að geta talizt menningarríki, að við getum veitt öllum borgurunum viðunandi læknisþjónustu.

Ég legg svo til, herra forseti að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.