04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1407 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

138. mál, læknaskipunarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef ekki kynnt mér þetta frv. nægjanlega til þess að ræða um það almennt, en ég hef þó litið yfir það fljótlega, en þessu frv. mun hafa verið útbýtt í gær eða fyrradag hér á hv. Alþingi. Mér þykir þó líklegt, að einhverjum fleiri Vestfirðingum, en mér þyki frv. þetta furðulegt hvað snertir Vestfirði. Það á að leggja þar niður þrjú læknishéruð af fimm, sem á að leggja niður á öllu landinu. En í hvaða tilgangi er þetta gert, að leggja niður læknishéruð með lögum og sameina þau öðrum? Eru þetta út af fyrir sig einhverjar endurbætur á heilbrigðismálum þjóðarinnar? Er fólkið í þessum héruðum eitthvað betur sett á eftir, þegar búið er að leggja héraðið niður sem læknishérað? Væri ekki hægt að lögskipa nágrannalækni að gegna læknishéraði, meðan læknislaust er, í staðinn fyrir að afnema það með lögum? En það er einmitt það, sem á að gera með sameiningunni. Það á að láta nágrannalækninn bæta þessu héraði á sig. En það er alveg eins hægt að gera það með því að lögskipa honum að þjóna þar, ef læknislaust er, en hafa það opið og læknishéraðið í fullu gildi, hvenær sem læknir kynni að koma þangað. Ég get ómögulega séð, hver ávinningur er í þessu, að leggja niður hérað með lögum, þegar hægt er að fá þjónustu frá nágrannalækni með lagaákvæði alveg eins. Afleiðingin er því sú, að ef þessi héruð eru lögð niður með l., pá kemur auðvitað ekki til, að þangað komi nokkurn tíma læknir aftur, því að þá er héraðið ekki til sem læknishérað. Ef læknishéraðið er aftur á móti til, þótt læknislaust sé um tíma, þá geta alltaf skapazt möguleikar til þess að fá þangað lækni, svo að ég veit ekki, hvers konar hugsun liggur hér á bak við.

Ég vil svo alveg sérstaklega víkja að einu héraði, sem þarna á að leggja niður, það er Suðureyrarlæknishérað í Súgandafirði. Og það er alveg sérstaklega eftirtektarvert, að sömu dagana og hafís er að byrgja fjarðarmynnið, heiðin ófær og samgöngur engar við þetta hérað, ekki heldur í lofti, því að þar er enginn flugvöllur, þá kemur fram stjórnarfrv. á Alþingi um að leggja héraðið niður.

Að þessu sinni skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta, en þetta er eitt af því furðulegasta, sem ég hef séð í frv. og það stjórnarfrv. nú í seinni tíð. Ja, þetta fólk, það er ekkí mikils metið. Jafnvel þó að menn sjái fyrir augunum, að þeim eru allar bjargir bannaðar í samgöngumálum, þá á þetta að vera eitthvert úrræði.

Um Flateyjarlæknishérað á Breiðafirði gegnir að vísu nokkuð öðru máli að því leyti, að þar er búið að vera svo lengi læknislaust. En það er ekki um að ræða í Suðureyrarhéraði. Þótt það hafi verið læknislaust á tímabilum, þá hefur þó alltaf öðru hverju fengizt þangað læknir og það um alllangan tíma í einu. Flateyjarhérað á að leggja undir Stykkishólmshérað. Ég skal ekki víta það neitt sérstaklega, ef annað ákvæði fylgdi með, en það er, að íbúum þessa héraðs, Flateyjarhrepps, væri þá heimilt eða hefðu rétt á að njóta þjónustu læknis, sem er þeim næ,r heldur en í Stykkishólmi, eins og gert er skv. 2. gr. þessa frv. Þar er ýmsum hreppsfélögum heimilað að velja um héruð, velja um lækna. Sem dæmi er hér nefnt, að íbúar í Miklaholtshreppi hafa fullan rétt á að sækja lækni, hvort sem er til Borgarness eða Stykkishólm, íbúar í Auðkúluhreppi geta sótt hvort sem er til Þingeyrar eða Bíldudals. Þetta er ákaflega skynsamleg ráðstöfun. En þeir í Flateyjarhreppi mega ekki sækja lækni til Reykhóla, sem er miklu skemmri leið og auðveldari fyrir þá, sem allir eiga báta, enda er ekki þar farið nema á bátum. Nei. Þeir verða að fara til Stykkishóims. Þeir hafa engan rétt á því að leita til læknis á Reykhólum, þótt það sé ekki nema hálftíma til klukkutíma ferð úr Skáleyjum eða Svefneyjum þangað. Þetta vil ég benda hv. n. á, sem fær þetta mál til athugunar.

Í bráðabirgðaákvæði þessa frv. stendur: „Áður en núverandi Suðureyrarhérað, Raufarhafnarhérað og Bakkagerðishérað, sem sameina skal öðrum héruðum skv. 1. gr., verða lögð niður og sameinuð öðrum læknishéruðum, skulu þau auglýst laus til umsóknar þrisvar í röð með sömu kjörum og læknar njóta í læknishéruðum þeim, sem um ræðir í 6. gr.“ Og þessi kjör eru m.a. staðaruppbót o. fl. Þetta er út af fyrir sig sjálfsagt skynsamlegt. En af hverju eru ekki nema þrjú af þeim læknishéruðum, sem á að leggja niður, sem eiga að njóta þessa, ekki hin tvö? Því er Flateyjarhéraði og Djúpavíkurhéraði þarna sleppt? Má alls ekki auglýsa þau? Hvað kemur til? En ég vil alveg sérstaklega spyrja hæstv. ráðh. að öðru: Í hvaða tilgangi á að auglýsa þau? Er það ekki í þeim tilgangi að reyna að fá þangað lækni? En til hvers að fá þangað lækni, ef búið er að leggja þau niður sem læknishérað með lögum? Ég sé ekki nokkurt orð í þessu bráðabirgðaákvæði, sem segir, að héruðin skuli ekki lögð niður, ef læknir fæst. Nei, það á bara að auglýsa þau. Og þó að læknirinn komi og allt sé í lagi, þá er skv. 1. gr. búið að leggja þau niður sem læknishéruð. Þetta skil ég ekki.

Þriðja atriðið, sem ég vil aðeins drepa á, er 3. gr. frv.: „Ráðherra getur, eftir tillögu landlæknis, leyft héraðslækni að sitja annars staðar, en á lögskipuðu læknissetri og ef nauðsyn krefur, utan héraðs.“ Utan héraðs, einmitt það. Já og það er nefnt í grg. sem dæmi, að lækninum í Súðavík hafi verið leyft að sitja á Ísafirði. Er þá ekki héraðið orðið nákvæmlega jafnlæknislaust eftir sem áður, ef lækninum er leyft að sitja utan héraðsins? Og eins og þarna er nefnt dæmi um, situr hann á Ísafirði og getur alls ekki komizt til Suðureyrar eða Súgandafjarðar. (Gripið fram í: Súðavík.) Fyrirgefið, það er Súðavík. Nú, þá var það misskilningur hjá mér, ég hélt það væri Suðureyri, sem nefnt var í gr. Ef t.d. læknir ætti að sitja á Ísafirði, sem á að gegna Suðureyrarhéraði og við skulum segja, að héraðið yrði ekki lagt niður, en lækninum leyft að sitja á

Ísafirði, hvað þýddi það? Það þýddi það, að hann kæmist kannske alls ekki inn í héraðið sitt, hvað sem lægi á. Og þetta er nýmæli í frv. Þetta er nýmæli, þ.e.a.s. að ráðh. geti leyft læknum að sitja utan síns læknishéraðs. Þetta getur komið sér ákaflega illa fyrir þá, sem læknisins þurfa að leita.

Já, það er rétt, að í aths. við 3. gr. er sagt, að þetta hafi verið leyft í Súðavík. En þetta getur ráðh. leyft hvar sem er, þegar hann telur nauðsynlegt, og nauðsynin sýnist mér að geti orðið þessi, að læknirinn fáist ekki, nema hann megi sitja utan héraðsins, t.d. í næsta kaupstað. En þá er alveg eins hægt að fela lækninum í þeim kaupstað að gegna héraðinu eins og að fara að leyfa hinum að sitja þar. Þetta þarf kannske ekki að koma að neinni alvarlegri sök, þar sem samgöngurnar eru góðar og öruggar undir öllum kringumstæðum. En þar sem þær eru ekki öruggar, eins og við sjáum bezt dæmin um núna á Vestfjörðum og víða um Norðurland, þá væri þetta fjarri öllu lagi.

Ég vil að lokum leggja áherzlu á það, hversu fjarstæðukennt það er og ég vil segja ómannúðlegt að leggja niður læknishéraðið í Súgandafirði. Ég mótmæli því alveg harðlega. Það má heita alveg einstök ráðstöfun, ef Alþingi gerir slíkt.

Ég sé ekki nokkurn kost við það að leggja niður þessi fimm læknishéruð í landinu með lögum í stað þess að lögbjóða, að nágrannalæknir skuli sinna þeim, þegar þau eru læknislaus, en síðan megi auglýsa þau og læknir taki þá við, strax og hann fæst einhver, sem er alls ekkert ólíklegt, eftir að farið yrði að greiða staðaruppbót á laun í þessum héruðum.