04.03.1965
Neðri deild: 50. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1413 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

138. mál, læknaskipunarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að grípa þegar nokkuð inn í þessar umr., áður en lengra er haldið í þeim tón, sem byrjað er á hér hjá þessum hv. þm. Þeir geta barið höfðinu við steininn, þessir menn, og látizt ekki vita, hvernig hlutirnir eru, ef þeim finnst það skemmtilegra og þótzt vera hér málsvarar þorpsins, sem nú á að fara að leggja eitt bölið ofan á annað. Það er ekki nóg, að hafísinn sé kominn, heldur kemur nú þetta frv. hér inn í þingið líka til þess að níðast á þessu fólki, eins og látið er að liggja í þeim ræðum, sem þegar hafa verið haldnar og það var sagt, að það væri ómannúðlegt að leggja niður læknishéraðið á Suðureyri og ýmislegt eftir þessu. Það er sagt, að hreppstjórar og oddvitar skoruðu á þm. o.s.frv. að gjalda varhug við þessu. Sannleikurinn er sá, að hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vestf., var ráðh. heilbrigðismála í 2 ár. Ég man nú ekki eftir neinum úrbótum þá á sviði þessara mála. (HV: Þá var Suðureyrarlæknishérað stofnað, er það ekki ráðh.? ) Já, ég ætla að halda áfram með það, sem ég var að segja. Ég man ekki eftir neinum úrbótum á þessu sviði þá. Héruðin voru jafn læknislaus og ekkert gert nema þetta, sem hv. þm. segir nú, að Suðureyrarlæknishérað hafi verið stofnað, sem síðan hefur ekki verið hægt að fá lækni í. Og þegar verið er að tala svona hérna, er enginn læknir á þessum stöðum. Þá er enginn læknir á þessum stöðum. Það er ekki verið að taka neitt frá fólkinu, sem það hefur. Og menn eru að tala um, að það sé verið að leggja niður læknishéruð og það væri nær, segir hv. 3. þm. Vestf., að skipa lækninum í nærliggjandi héraði að gegna læknisþjónustu hjá fólkinu. Það er eins og þetta fólk fái ekki læknisþjónustu við þetta frv. Læknirinn í hinu sameinaða héraði hefur skyldu til að gegna því. Það er beinlínis verið að tala þannig, eins og það sé verið að taka af þessu fólki réttinn til þess að leita sér læknis, það eigi heldur að fyrirskipa lækninum í nærliggjandi héraði, eins og gert er núna, að gegna og þjóna þessu fólki. En það verður eins og annars flokks fólk í dag í læknislausu héraði miðað við það að hafa sama rétt við fólkið í því læknishéraði, sem það verður sameiginlega með í eftir þessa breytingu.

Svo vil ég segja það út af ræðu hv. 5. þm. Vestf., að Suðureyrarlæknishérað verður ekki lagt niður, ef læknir fæst þar í vaxandi hérað, eins og hann talar um, með þeim hlunnindum, sem þetta frv. tilskilur, ef það verður samþ. Ef þetta frv. verður að lögum, verður það læknishérað auglýst með öllum þeim hlunnindum í bæði launum, námsfríi og á annan hátt, sem gert er ráð fyrir í 6. gr. og annars staðar í frv. og sýni það sig, sem ég vildi gjarnan vona, að það fengist læknir, þá hefur þetta frv., ef samþykkt verður, orðið til þess að fá þangað lækni og þá held ég, að oddvitinn ætti að fara að hugsa betur þarna, áður en hann telur, að verið sé að gera fólkinu einhverja bölvun með þessu. (Gripið fram í.) Það verður ekki lagt niður, það verður sameinað öðru læknishéraði,og læknir í því sameiginlega héraði hefur jafnar og fullar skyldur á við þetta fólk, sem þarna er, eins og annars staðar í héraðinu, ef ekki tekst að fá lækni þar með þeim hlunnindum, sem hér er tilskilið.

Ég tek ákaflega vel öllum þeim till., sem hér munu fram koma til breytinga og umbóta á þessu frv. En ég kann ekki við að heyra þennan tón hjá þessum tveimur hv. síðustu þm. og gera því skóna jafnvel, að það sé borið fram af einhverjum illindum og mannúðarleysi, frv. það, sem hér er komið fram. Ég held, að hér séu till., sem séu þær langmerkustu, sem um langan tíma hafa komið fram á sviði þessara mála hér á Alþingi og engar komið fram, meðan þessi kjaftaskur þarna sat í ráðherrastóli. (HV: Þá var læknir á Suðureyri, ráðherra.) Ég held, að þessi þm. ætti að fá sér lækni til þess að hressa svolítið upp á hugarfarið. (Gripið fram í.) Við erum ekki að kljást við það hérna, hvernig í sjálfu sér læknishéruð eru. Við erum að glíma við þá erfiðleika hér, að fólkið fái læknisþjónustu. Og það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn og segja: Þetta skal vera læknishérað, með 200 manns eða eitthvað svoleiðis og þá er öllu borgið. Þið hafið þann heiður, ágætu íbúar í þessu fámenna héraði, að þið eruð læknishérað, svo að ykkur er alveg óhætt að verða fárveikir. Það er að vísu enginn læknir í héraðinu, en þið eruð læknishérað. — Þetta er það, sem hv. þm. láta sér nægja.

Hv. 3. þm. Vestf. fann að því, að ekki væru auglýst tvö héruðin, sem sameinast eiga öðrum, þ.e.a.s. Flateyjarhérað og Djúpavikurhérað, með hlunnindum þessa frv. Þetta er athyglisverð ábending. Þetta var ekki gert eingöngu vegna þess, að það var að dómi þeirra manna, ég ræddi um það við þá, vonlaust, að þarna mundu fást læknar, jafnvel með þessum hlunnindum. Í Flateyjarhreppi eru 119 manns og í Djúpavíkurhéraði eru 267 manns. Ef þm. vilja breyta þessu þannig, að þessi héruð verði auglýst með hlunnindunum, þá skal ekki standa á mér og ég skal ekki verða því til fyrirstöðu. Það er hins vegar misskilningur hjá hv. 3. þm. Vestf., að það þýði ekkí að hafa ákvæði til bráðabirgða og auglýsa héruðin og það fáist í þau læknir, því að þá sé búið að leggja þau niður. Auðvitað verður með lögskýringu að skilja það, að ef ákvæði til bráðabirgða er samþ. og ef læknir fæst í það hérað, sem þar um ræðir, verður eðli málsins samkv. sú breyting á skipuninni, sem er í 1. gr., að það hérað, sem þar er talað um og er núna, fer út úr því sameinaða héraði, þar sem það er. Þetta er augljóst mál og á ekki að þurfa að valda neinum misskilningi.

Hv. 3. þm. Vestf. vék einnig að því og þótti mjög slæmt og illt þetta nýmæli, sem er í lok 3. gr., að ráðh. getur eftir till. landlæknis leyft héraðslækni að sitja annars staðar, en á lögskipuðu læknissetri, eins og var í gömlu l., og ef nauðsyn krefur utan héraðs. Nú situr læknir utan héraðs í Súðavíkurlæknishéraði, á Ísafirði og hefur enga heimild til þess og honum er látið haldast uppi að vera þarna og ég hef ekki treyst mér til þess að láta flytja hann nauðugan viljugan og betra hefur ekki fengizt en þetta. Í samræmi við þetta er þessi heimild sett inn og ég efast um, að það sé nokkur ástæða til þess að ætla, að neinn sá ráðh. fari með heilbrigðismál, að heimild eins og þessi verði misnotuð.

Ég vil aðeins víkja að því í sambandi við hugleiðingar um, að það lægi nú kannske við að leggja niður þetta læknishérað. (Gripið fram í.) Það er á bls. 11 sem hv. 5. þm. Vestf. las, að ástæða mætti þykja til að fella Súðavíkurhérað, sem löngum hefur verið óskipað, nú þegar undir Ísafjarðarhérað, sem fengi jafnframt heimild fyrir föstum aðstoðarlækni. Þetta er ekki gert, þó að vikið sé að þessu. En aðstaðan er þessi í dag, að læknirinn er ekki í sjálfu héraðinu, hann er á Ísafirði og það er sjálfsagt miðað við þessar staðreyndir, sem er vikið að þessu af n. Hitt er svo annað mál, að það er að mínum dómi full ástæða til þess að ætla, að þau hlunnindi, sem þetta frv. felur í sér, muni tryggja betur en áður, að læknar fáist í þessi fámennu héruð. Mér var alveg ljóst, að þá má um það deila, hvort, eins og talað er um, leggja eigi niður læknishéruðin, þ.e.a.s. þau verða ekki lögð niður í öðrum skilningi en þeim, þessi allra minnstu, að þetta verði hluti í öðru læknishéraði. Þar með er sá háttur á hafður, að sá læknir, sem er í því sameinaða héraði, hefur fulla gegningarskyldu og embættisskyldu gagnvart þessu fólki eins og öðru. Áður eru þetta hálfgerðar hornrekur. Það tekur að sér læknir í nágrannahéraði að gegna og hefur þá skyldu til þess, en aðstaða fólksins ætti a.m.k. á engan hátt að versna við þetta og heldur verða öruggara, að í heild fengist læknir í héraðið.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta núna. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði, að ég mun að sjálfsögðu vilja hlýða á allar þær till. til breytinga og úrbóta, sem þm. vilja flytja fram við þetta frv. En mér þykir leitt, að því skuli mætt á þennan hátt, eins og hér hefur verið gert og vildi vona, að það, sem eftir verður af umr. um þetta, mætti verða á öðrum grundvelli og menn vildu þá sjálfir ekki aðeins í tillöguformi síðar, heldur í sínum ræðum gera grein fyrir, með hverjum hætti öðrum er hægt að bæta betur úr þessum vandkvæðum, heldur en hér er lagt til svo að það mætti athugast, bæði undir umr., meðferð málsins í n. og áður en það hlýtur afgreiðslu úr þinginu, ef það á þá eftir að liggja fyrir því.