08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

138. mál, læknaskipunarlög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ástandið í heilbrigðismálum margra héraða hefur undanfarin ár verið hið bágbornasta. Læknar hafa árum saman ekki fengizt til þess að gegna starfi í mörgum fámennustu læknishéruðunum. Hefur af því leitt margvíslegt öryggisleysi og óhagræði, auk þess sem læknaskorturinn hefur haft í för með sér stórkostleg útgjöld fyrir almenning. Af hálfu heilbrigðisyfirvalda hefur vafalaust verið fyrir hendi einlægur vilji til þess að bæta úr þessu ófremdarástandi, en læknarnir hafa ekki fengizt til þess að fara út í hin fámennustu héruð og við það hefur setið.

Þetta er miklu alvarlegri staðreynd en margir gera sér ljóst. Skapleg heilbrigðisþjónusta er frumskilyrði þess, að fólk geti haldizt við í heimkynnum sínum og notið þess lágmarksöryggis, sem krefjast verður í nútímaþjóðfélagi. Hver yðar, hv. þm., mundi t.d. vilja búa þar til langframa, þar sem ekki verður með skaplegum hætti náð til læknis dögum saman? Mér er kunnugt um, að einmitt læknisleysið hefur verið ein af aðalástæðum þess, að heil byggðarlög hafa farið í eyði, enda þótt þar væri lífvænlegt að öðru leyti, Í Noregi gerðist það fyrir skömmu, að byggðarlag, þar sem reist hafði verið nýtízku sjúkrahús, fékk ekki lækni til þess að starfa þar. Var þetta í Gravdal í Norður-Noregi. Horfur voru á, að hið nýja sjúkrahús yrði ekki tekið í notkun.

Þetta mál vakti alþjóðarathygli í Noregi. Þjóðin spurði: Er það virkilega þannig, að svo sé komið í landi voru á þessari öld menntunar og vísinda, að norska þjóðin verði að horfa upp á það, að hluti hennar eigi ekki kost læknishjálpar og nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu? Norsku blöðin kröfðust þess einum rómi, að sjúkrahúsinu í Gravdal og fólki byggðarlagsins yrði tafarlaust útvegaður læknir. Í Stórþinginu kvöddu 118 þm. af 150 sér hljóðs, til þess að ræða þetta vandamál og krefjast þess, að það yrði leyst án tafar. Og það var gert. Gravdal fékk lækni og mögulegt reyndist að taka sjúkrahús byggðarlagsins, sem miklar vonir voru tengdar við, í notkun.

Ég hef leyft mér að segja þessa sögu hér vegna þess, að hún sýnir glögglega, hvernig nálægar menningarþjóðir líta á þessi mál. Þær telja það beinlínis ósæmilegt, að nokkrum landshluta, hversu fámennur og strjálbýll sem hann kann að vera, sé ætlað að búa við enga eða ófullkomna læknisþjónustu.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, markar að mínu viti verulegt spor í þá átt að fá lækna til þess að taka við héraðslæknisembættum í fámennum læknishéruðum. Kom það og greinilega fram í framsöguræðu hæstv. heilbrmrh., að sá er einn höfuðtilgangur þess. Launakjör héraðslækna í fámennustu læknishéruðunum eru samkv. frv. bætt að miklum mun. Jafnframt eru þeim veitt stórfelld hlunnindi með eins árs orlofi á fullum launum eftir hver 3 ár, er þeir hafa gegnt hlutaðeigandi héruðum, til framhaldsnáms hér á landi eða erlendis. Það er einnig þýðingarmikið nýmæli, að lagt er til, að heimilað verði að veita læknastúdentum ríkislán til náms gegn skuldbindingu um, að þeir gegni héraðslæknisembætti að námi loknu. Stofnun bifreiðalánasjóðs lækna er einnig skynsamleg og merk nýjung. Ýmis fleiri ákvæði eru í þessu frv., sem stefna að umbótum í læknamálum strjálbýlisins: Þau stórbættu launakjör héraðslækna í fámennum héruðum og fríðindi, sem þeim eru heitin, hljóta að hvetja lækna til þess að sækja um þessi héruð.

Þrátt fyrir það, að ég tel þetta frv. fela í sér mikla umbóta möguleika, eru þó atriði í því, sem ég er andvígur. Í því er t.d. lagt til, að Suðureyrarlæknishérað í Vestur-Ísafjarðarsýslu verði sameinað aftur Flateyrarhéraði. Suðureyri var gerð að sérstöku læknishéraði árið 1958. Læknir var settur til að þjóna héraðinu 1. janúar það ár. Hinn 4. ágúst 1959 var læknir skipaður þar og þjónaði hann héraðinu þar til 4. okt. 1963. Var að því mikið hagræði og aukið öryggi fyrir fólkið á staðnum. Súgfirðingar beittu sér fyrir því, að byggður var myndarlegur læknisbústaður með nokkrum sjúkrarúmum á Suðureyri. Hafði almenningur þar mikinn áhuga á að búa sem bezt að lækni sínum og tryggja sér læknisþjónustu til frambúðar.

Suðureyri er eitt af þróttmestu framleiðslubyggðarlögum landsins. Þar er mikil útgerð og fiskiðnaður og íbúum þar fer fjölgandi. Akvegasamband við kauptúnið er aðeins opið yfir sumarmánuðina. Ef læknir Súgfirðinga væri búsettur á Flateyri, yrðu þeir að sækja hann á sjó 6–7 mánuði ársins. Sjúkraflugvöllur er enginn í Súgandafirði og héraðið því ákaflega einangrað að vetrarlagi. Á s.l. ári var settur læknir á Suðureyri í tæpa 3 mánuði. Síðan 15. júní s.l. hefur héraðinu verið þjónað af Flateyrarlækni. Ég tel nær fullvíst, að læknir mundi fást í Suðureyrarlæknishérað, þótt fámennt sé, aðeins um 500 manns, eftir að þær stórfelldu umbætur hafa verið gerðar á kjörum og aðstöðu héraðslækna, sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Ég leyfi mér því að beina þeim tilmælum til hv. heilbr.- og félmn., sem fá mun þetta frv. til meðferðar að lokinni þessari umr., að hún geri þá brtt. við það, að Suðureyrarhérað skuli áfram vera sjálfstætt læknishérað.

Ég tel einnig sjálfsagt, að hið fámenna Flateyjarhérað eigi ekki aðeins rétt á læknisþjónustu frá Stykkishólmi, heldur einnig frá Reykhólum, sem liggja miklu nær eyjabyggðinni. Síðan árið 1943 hafa skipaðir héraðslæknar aðeins dvalið í Flateyjarhéraði frá 5. nóv. 1953 til 1. marz og frá 1. júlí 1956 til 1. okt. 1960. Öðru hverju hafa þjónað þar settir læknar og kandídatar. Síðan 10. okt. 1960 hefur héraðinu verið þjónað frá Reykhólum.

Í Árneslæknishéraði í Strandasýslu hefur aldrei setið skipaður héraðslæknir síðan árið 1944 eða rúm 20 ár. Héraðinu hefur ýmist verið þjónað af settum kandídötum eða læknastúdentum, sem dvalizt hafa í héraðinu nokkra mánuði á ári, eða frá Hólmavik. Síðan 28. júli árið 1960 eða samfleytt s.1. 5 ár, hefur Hólmavíkurlæknir einn þjónað Árneshéraði.

Þegar á þessar staðreyndir er litið, virðist lítt hugsandi, að héraðslæknar fáist til búsetu í þessi tvö örfámennu héruð, en vitanlega þarfnast fólk þar ekki síður læknisþjónustu en aðrir íslendingar. Bættar samgöngur um Breiðafjörð með tveimur nýjum flóabátum, sem nú eru að hefja þar ferðir, ættu t.d. að skapa fólki í eyjabyggðum Flateyjarlæknishéraðs töluvert betri aðstöðu til þess að leita læknis, en áður. Með sköpun akvegasambands milli Hólmavíkur og Árneshrepps í Strandasýslu verður aðstaða fólks þar einnig miklum mun betri, en væntanlega opnast slíkt vegasamband innan skamms tíma.

Á eflingu læknisvitjanasjóðs verður einnig að leggja áherzlu. Mætti með því draga úr hinum óhóflegu útgjöldum fólks í fámennustu læknishéruðunum vegna læknisvitjana. Lög um læknisvitjanasjóði eru löngu úrelt orðin og þarfnast endurskoðunar hið bráðasta.

Jafnhliða setningu nýrra læknisskipunarlaga þarf svo að stuðla að því eftir fremsta megni, að aðsókn að læknadeild háskólans aukist. Sannleikurinn er sá, að jafnvel all fjölmenn kaupstaðar læknishéruð hafa undanfarin ár átt erfitt mjög með að fá héraðslækna. Þess má einnig geta, að örfáir sérfræðingar, svo sem augnlæknar, tannlæknar, háls-, nef- og eyrnalæknar, eru búsettir úti á landi. Veldur það almenningi að sjálfsögðu miklu óhagræði og fjárútlátum. Kjarni málsins er, að einskis má láta ófreistað til þess að bæta heilbrigðisþjónustu og heilsugæzlu í landinu. Ástandið í þessum efnum er í dag víða hið hörmulegasta. Vonandi verður það frv., sem hér liggur fyrir, til þess að bæta úr því, ef að lögum verður, sem fullvíst má telja.