08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

138. mál, læknaskipunarlög

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Það hefur þegar verið nokkuð rætt um þetta frv. og hæstv. heilbrmrh. er fjarverandi og væri því e.t.v. eðlilegast, að við létum orðræður um það falla niður að sinni, þar til á seinni stigum málsins hér í þinginu, en mig langar þó til þess að segja aðeins örfá orð.

Þegar mál þetta var hér til umr, á fimmtudaginn var, tóku hér til máls tveir af hv. þm. Vestfjarðakjördæmis og virtist mér þeim báðum vera allmikið niðri fyrir. Ég varð satt að segja dálítið undrandi á ræðum þessara tveggja hv. þm. Ég veit, að þeir eru báðir miklir velunnarar strjálbýlisins, vilja hlut þess sem mestan í hvívetna. Þess vegna varð ég hissa á því, hvernig þeir tóku þessu frv. til læknaskipunarlaga, sem ég tel eitt hið merkasta mál, sem hefur verið lagt fyrir þetta þing. Með þessu frv. er miðað að því að bæta úr einu mesta vandkvæði, sem fólk í einstökum hlutum strjálbýlisins hefur átt víð að búa. Það er illt að vera vegalaus, það er erfitt að skorta rafmagn, en hvað er það hjá því að vera læknislaus. Og mig undrar það stórlega, að í þeim byggðum, þar sem fólkið er búið að vera árum saman, jafnvel áratugum saman, læknislaust, að þar skuli nokkur mannssál vera enn þá búandi. En það var ekki sérstaklega vegna þessara tveggja ræðna, sem ég kvaddi mér hljóðs, því að hvorug þeirra er umtalsverð, heldur var það ræða hv. 11. þm. Reykv., sem gaf mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð.

Þessi hv. þm. fagnaði frv., mér virtist þó ekki fyrst og fremst vegna þess, að það miði að því að bæta læknaþjónustuna í landinu, heldur af hinu, að það miði að því að bæta kjör héraðslæknanna og ég er honum sammála um, að kjör þeirra þurfi að bæta. En ég er honum algerlega ósammála um það, að þetta frv. gefi nokkurt fordæmi fyrir því, að aðrir opinþerir starfsmenn úti á landinu heimti sömu kjör og þetta frv. miðar að til handa héraðslæknunum. Héraðslæknastarfið er alls ekki sambærilegt við starf t.d. okkar prestanna eða kennaranna. Þetta kemur mjög skýrlega fram í grg. frv. og ég leyfi mér að lesa með leyfi hæstv. forseta — það, sem segir hér í hinni almennu grg., það er 3. töluliður, þar stendur svo:

„Vaktskylda, vinnutími og vinnuskilyrði. Héraðslækni er skylt að sinna kalli jafnt að nóttu sem degi. Fyrir fram á hann sér aldrei vísa hvíldarstund og hann tekur ekki á sig náðir án þess að mega eiga von á, að ró hans verði raskað. Starfið er erilsamt og krefst oft mikils líkamlegs og andlegs þreks og ósjaldan verður læknirinn að tefla á tæpasta vað í ferðalögum. Vinnutími hans er óreglulegur og fer ekki aðeins eftir heilsufari í héraði, heldur einnig iðulega eftir geðþótta héraðsbúa. Svo látlausrar vaktskyldu mun ekki krafizt af öðrum þegnum þjóðfélagsins.“

Ég tek mjög undir þessi orð og þess vegna finnst mér það skylt, af því að ég er einn af hinum fáu opinberu starfsmönnum úti á landsbyggðinni, sem á sæti hér á Alþingi, að taka fram, að ég lít svo á., að þetta frv. gefi okkur ekkert fordæmi til þess að fara fram á sömu hlunnindi og hér er ætlazt til að héraðslæknum séu veitt.

Það er gott að gera kröfur. En því má hv. formaður bandalags okkar starfsmanna ríkis og bæja gá að, að það er rétt að vera hófsamur í slíku sem öðru.