08.03.1965
Neðri deild: 51. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

138. mál, læknaskipunarlög

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Sökum þess að hæstv. dóms– og heilbrmrh. er fjarverandi að embættisstörfum, þykir mér hlýða að segja nokkur orð, ekki sízt vegna ummæla hv. 2. þm. Austf. En ég vil taka það fram út af ummælum hv. síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vestf., að við, sem hlýddum á umr. hér á dögunum, erum honum kannske ekki alveg sammála um, hver það hafi verið, sem fyrstur hljóp upp á nef sér í þessu máli.

Út af fyrir sig hygg ég, að menn séu ekki svo mjög ósammála rökum hv. 5. þm. Vestf. í þessu máli, einkanlega varðandi læknissetur á Suðureyri, heldur hafi það frekar verið sá háttur, sem hann setti aths. sínar fram með og raunar einnig hv. 3. þm. Vestf., sem gerði það, að mönnum geðjaðist ekki fyllilega að þeirra málflutningi. En ég hef ekki heyrt neinn halda því fram hér, að þau rök, sem þeir hafa flutt fyrir því, að varhugavert sé að leggja niður læknissetur á Suðureyri, fái út af fyrir sig ekki staðizt. En það er aðalatriðið í þessum málflutningi. Hitt er í raun og veru, að því er mér hefur skilizt, aukaatriði.

En hv. 2, þm. Austf., sem hér talaði, gaf fyllilega í skyn, að það væri af hálfu heilbrigðisstjórnarinnar, ráðh. eða landlæknis eða þeirra í milli og milli þeirrar nefndar, sem samið hefur þetta frv., meiri og minni klofningur. Hv. þm. sagði þetta ekki berum orðum, en það var erfitt að skilja ummæli hans á annan veg. Og eins gerði hann mjög mikið úr því, að vandræði hefðu aukizt, af því að menn hefðu ekki orðið við till. landlæknis, sem hann og hv. 3. þm. Norðurl. e. hefðu tekið upp á þinginu 1961 og 1962. Af því tilefni vil ég taka fram, að það hafa orðið æðimiklar sveiflur á læknisskortinum á þessu tímabili. Ég gegndi embætti heilbrmrh. árið 1962 og lengst af árið 1963 og á því tímabili var um stund svo ástatt, að það varð að stytta læknisskyldu kandidata, af því að ekki var hægt að benda þeim á viðhlítandi héruð úti á landi til þess að leysa þessa skyldu af hendi. Ég hef nú ekki staðreynt það á ný, en ég hygg, að það hafi að vísu ekki þótt fært að skipa þeim að fara í allra fámennustu héruðin, eins og Flateyjarhérað og héraðið norður á Ströndum, þau héruð, sem menn höfðu ekki fengizt í áratugum saman. En þar fyrir utan og í heild var ástandið á þessu tímabili lengst af svo, að það var ekki almennur læknaskortur úti á landi. Það kann að hafa verið erfitt að fá menn til þess að gegna embættunum til frambúðar, en það var hægt að fá menn til þess að gegna embættunum með því að halda fast við kandidatsskylduna og það var ekki hægt að sjá þeim fyrir störfum, og þess vegna varð að stytta þessa starfsskyldu. Hins vegar hefur ástandið svo versnað á ný og þess vegna er þessi löggjöf fram komin. Og til þess að leiðrétta allan misskilning, sem auðvelt var að leiða af orðum hv. 2. þm. Austf., þótt ég hyggi, að hann hafi ekki berum orðum sagt það, er rétt, að það sé alveg ljóst, að frv., eins og það nú er með till. um læknafækkun, er frá n. í heild, en sá böggull er ekki sérstaklega ofan á lagður af ríkisstj. eða heilbrigðisstjórninni, enda kom það alveg glögglega fram hjá hv. 5. þm. Vestf., að hann gerði sér þetta ljóst.

Nú finnst mér, að menn geri allt of mikið úr þessu atriði varðandi læknafækkunina. Það er að vísu svo, að því er mér skilst, — þeir leiðrétti, sem betur vita, ef ég misskil, — að tvö héruð á til fulls að leggja niður samkv. þessu frv., en það eru einungis tvö, en þrjú eru aðeins lögð niður með fyrirvara. Það eru Suðureyrarhérað, Raufarhafnarhérað og Bakkagerðishérað og þau á ekki að leggja niður, fyrr en þau hafa verið auglýst laus til umsóknar þrisvar í röð með sömu kjörum og læknar njóta í læknishéruðum þeim, sem ræðir um í 6. gr., þ.e.a.s. með 11/2 launum, að því er mér skilst, og það er algerlega heimildarlaust að álykta eins og 2. þm. Austf. gerði, að þessum auglýsingum yrði hraðað svo, að það yrði auglýst þegar í stað, þannig að öll héruðin yrðu lögð niður upp úr miðju þessu ári, ef þetta frv. fengi sæmilega greiðan framgang. Hitt er miklu nær sanni og mundi undir öllum kringumstæðum verða lágmark þess tíma, sem hér kemur til greina, sem hv. 2. landsk. þm. sagði, þegar hann miðaði við heilt ár í þessu sambandi. Og vitanlega mundi verða hafður meiri hægagangur á, ef menn hefðu nokkra trú á því, að þessar auglýsingar bæru árangur vegna þeirra bættu kjara, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Það verður með þetta lagaákvæði eins og önnur að gera ráð fyrir því, að það séu góðir og skynsamir menn, hvað sem pólitískum ágreiningi líður, sem með valdið fari menn, sem vilja leysa þann vanda, sem vissulega er verið að reyna að leysa með þessu frv. og þeir, sem andmælum hafa haldið hér uppi, játa, að meginstefna frv. sé einmitt að reyna að leysa. Það er því með öllu ástæðulaust og verður að mótmæla því eindregið, að þessu ákvæði yrði framfylgt með þeim hætti, að það yrði í raun og veru einskis virði. Hitt get ég svo ósköp vel fallizt á, að með hliðsjón af þessu og öðrum ákvæðum, sem ég mun minnast á hér á eftir, sé það í raun og veru algert aukaatriði í þessu frv., hvort þessi læknishéruð verði nú þegar með ákvæðum þessa frv. með öllum þeim skilyrðum, sem sett eru, lögð niður eða heimilt að halda þeim um óákveðinn tíma. Ég sé ekki, að það skipti efnislega í raun og veru nokkru, og þess vegna finnst mér hér að langsamlega mestu leyti deilt um keisarans skegg. Og ég vil minna á, að í 7. gr. frv. er berum orðum tekið fram og það er full ástæða til að benda á það vegna ummæla bæði hv. 5. þm. Vestf. og hv: 2. þm. Austf., — það er berum orðum tekið fram í 7. gr., auk mjög víðtækrar heimildar, sem þar er veitt til þess að ráða 7 aðstoðarlækna héraðslækna og það mundi einnig koma þessum héruðum til góðs, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þess skal heimílt að ráða aðstoðarlækni skemmri eða lengri tíma á tímabilinu frá 1. okt. til 31. maí á ári hverju í Flateyrarhéraði til að sitja á Suðureyri og í Norður- Egilsstaðahéraði til að sitja á Bakkagerði, enn fremur er heimilt að ráða aðstoðarlækni 4 mánuði á ári í Kópaskershéraði til þess að sitja á Raufarhöfn, enda hafi þessi héruð ekki verið skipuð samkv. 1. tölulið ákvæða laga þessara til bráðabirgða.“

Samkv. þessu ákvæði er í raun og veru ætlazt til þess, að það verði sérstakur læknir að vetrarlagi eftir sem áður, ef hann með nokkru móti fæst, á Suðureyri og í Bakkafirði og að sumarlagi, þegar mest er um að vera, á Raufarhöfn. Og ég verð að spyrja, eins og ég sé á hv. 5. þm. Vestf. að hann ætlar: Því er þá verið að gera ráðstafanir til þess að leggja héruðin niður? Ég tek undir það, að mér sýnist, að menn séu hér að deila algerlega um keisarans skegg. (Gripið fram í.) Ef á að halda héruðunum óbreyttum, þarf sérstaka lagaheimild til þess að ráða þessa menn sem aðstoðarlækna annarra héraðslækna. Ég vek athygli á því, að ekki dugir það eitt að halda héruðunum óbreyttum, ef síðan fæst enginn maður í héruðin. Það þarf sérstaka lagaheimild til þess að ráða handa héraðslæknum, sem eru settir til þess að gegna þessum héruðum, aðstoðarlækna, sem eiga að vera staðsettir með þeim hætti, sem í 2. mgr. 7. gr. er ráðgert. Ég hygg, án þess að ég viti það gerla, að einmitt sú sé ástæðan til þess, að þessi ákvæði hafa verið sett inn um niðurlagningu héraðanna, frekar en þar ráði í sjálfu sér efnisástæður svo ýkjamiklu. En ég vil þó benda á, að í grg. frv., og hún er ekki samin af landlækni einum og enn síður heilbrmrh., heldur skilst mér, að hana hafi samið eða samþykkt landlæknir, skólayfirlæknir, yfirlæknirinn Óskar Þórðarson, formaður Læknafélags Íslands, ráðuneytisstjórinn í félmrn., Hjálmar Vilhjálmsson, Jón Thors fulltrúi í dóms- og kirkjumrn. og Kristinn Stefánsson prófessor, — þeir segja hér á síðu 11 í grg. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Flateyjarhérað, Djúpavíkurhérað og Bakkagerðishérað eru nú orðin svo fámenn, að ekki er til þess að hugsa, að læknir fáist þangað framar og hefur þeim undanfarin ár verið gegnt gegn hálfum launum af læknum þeirra héraða, sem nú er lagt til, að þau verði sameinuð.“ Svo vek ég sérstaklega athygli á næstu setningu: „Við skiptingu Kópaskershéraðs í Kópaskers- og Raufarhafnarhérað urðu bæði héruðin óútgengileg, enda hefur enginn læknir fengizt til að gegna þeim undanfarin ár nema báðum í senn og hafa læknarnir ekki talið vandkvæði á þeirri þjónustu. Ekki virðast heldur líkur til, að læknir fáist til að sitja á Suðureyri, sem hefur verið læknislaus um hríð. Hins vegar geta samgöngur við Flateyri verið örðugar í óveðrum á vetrum, þegar aðeins verður komizt á sjó, þó að sjóleið sé stutt. Rétt þykir, að þremur þessara staða, þ.e. Suðureyri, Raufarhöfn og Bakkagerði, verði veitt heimild fyrir sérstakri læknisþjónustu um tíma á ári hverju, bæði vegna aukins mannfjölda á vertíð og einangrunar staðanna (Suðureyrar og Bakkagerðis).“

Þarna er tekið tillit til og rætt um þau atriði, sem menn hafa hér sérstaklega verið að deila á og það er ekki hægt að neita því, að það eru vissar röksemdir, sem þarna eru fram færðar, ef það er rétt, sem þessir lærðu menn, sem um þessi mál hafa fjallað sökum embættis og þekkingar, fullyrða, að í hin smáu læknishéruð hafi menn ekki fengizt, eftir að þau voru gerð smá, en menn fáist í eitt stórt hérað. Þeir, sem vilja fólkinu í strjálbýlinu vel, í þessum smáu héruðum, þeir eiga að einbeita sér að því að hnekkja þessari fullyrðingu, þessari röksemd, sem þarna er sett fram, frekar en að vera með skens til stjórnarinnar, eins og sérstaklega hv. 2. þm. Austf, var með eða fullyrðingar að öðru leyti um það, að menn hafi ekki munað eftir því, að þessi héruð væru innilokuð, eins og báðir hv. þm. Vestf., sem töluðu hér s.1. fimmtudag, lögðu einkanlega ríka áherzlu á.

Út af því, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði hér áðan, þegar hann vitnaði til þess, sem gerzt hefði í Noregi, þá vil ég, — ég geri ekki lítið úr því fordæmi og það er vissulega mikilsvert fordæmi, — en þá er nauðsynlegt fyrir okkur til lærdóms, að við áttum okkur á því, hvað við getum af því lært, að heyra, hvað voru margir menn í þessu héraði í Noregi, sem reyndist svo erfitt að fá lækni til. Sagan er í raun og veru alveg gagnslaus, ef þetta fylgir ekki með. En hún er þó lærdómsrík fyrir okkur, vegna þess að hún sýnir, að það er ekki nóg að beina aðfinningum eða ádeilum að ríkisstj., heilbrigðisstjórn eða Alþingi í þessum sökum. Það verður líka að vekja almenningsálitið, að láta það leggja sinn þunga á læknana, að gera þeim ljóst, að þeir hafi skyldum að gegna í þessu efni og það er einmitt það, sem mér skilst að hafi verið gert í Noregi, ef ég skildi sögu hv. 2, þm. Vestf. rétt.

Ég vil ekki fallast á það með hv. 5, þm. Vestf., að við eigum að segja skilyrðislaust, að við séum samþykkir afstöðu lækna, sem neita að starfa hér, vegna þess að þeir fái hærra kaup í Svíþjóð, en á Íslandi. Við skulum í fyrsta lagi muna það, að þetta læknisleysi er auðvitað ekki eingöngu á Íslandi. Skyldi það ekki vera svo, að íslenzku læknarnir fái störf vel launuð í Svíþjóð vegna þess, að þar sé læknisleysi líka á hinum afskekktari stöðum a.m.k.? Hitt veit ég með vissu og það var vitnað í það hér áðan, að í Stóra-Bretlandi er ástandið þannig, að þar er mjög erfitt að fá lækna víðs vegar í landinu og læknar þar sækja einkanlega vegna framhaldsnáms til Bandaríkjanna, og síðan ílendast þeir í Bandaríkjunum vegna læknaskorts þar, en Stóra–Bretland bjargast að mestu vegna þess, að ýmsir koma úr samveldinu til náms um skemmri eða lengri tíma og ílendast eitthvað í Bretlandi, áður en þeir hverfa heim til sín, sumir e.t.v. ílendast þar fyrir fullt og allt, þá sennilega líka vegna þess, að eins og Bandaríkjamenn borga Bretum, betur en Bretar, þá borga Bretar, betur en samveldislöndin. Svíar í sínum læknaskorti borga betur en við. En þegar talað er um þau laun, sem menn fá, þá verður að miða við það þjóðfélag, sem mennirnir lífa í og hvort þeir fá í raun og veru betri afkomu, svo að við tölum ekki um lífshamingju, með því að hverfa í annarlegt þjóðfélag, þar sem allt aðrar kröfur eru gerðar og kostnaður margvíslega meiri og með öðrum hætti en við þekkjum til. Þetta er í raun og veru með öllu ósýnt og ósannað. Áður en við förum að segja: Við mundum í sporum verkfræðinga og lækna hegða okkur eins og þeir og heimta í krónutölu sambærileg laun við það, sem þeir a.m.k. í einstökum tilfellum geta fengið í öðrum stærri og auðugri löndum, — verðum við þá ekki að fara að heimta gjöld af þessum mönnum fyrir þeirra menntun? Í Bandaríkjunum a.m.k., þangað sem sumir þeirra hafa farið og dansa í kringum gullkálfinn, er það þannig, að menntunin, þ. á m. háskólamenntunin, er ekki ókeypis eins og á Íslandi og þessir menn koma með stórkostlegar skuldir á bakinu eða stórkostlegar kvaðir á sínu foreldri og ættingjum að loknu háskólanámi, sem menn á Íslandi yfirleitt nú á dögum þurfa ekki að gera. Má vissulega líta á það ekki síður en hitt. Og við erum vissulega ekki svo efnaðir, að við höfum ástæður til þess að halda hér uppi læknaskóla fyrir menn í 7–8 ár með ókeypis kennslu eða láta verkfræðingum í té í nokkur ár ókeypis kennslu og láta þá síðan hlaupa úr landi eða setja okkur stólinn fyrir dyrnar, án þess að segja fyrst við þá ungu pilta: Viljið þið skuldbinda ykkur eða taka á ykkur þær almennu þjóðfélagskvaðir, sem því fylgja, að þjóðfélagið hér heldur uppi ókeypis háskólanámi ykkur til handa, veitir ykkur ekki aðeins ókeypis kennslu, heldur stórkostlega námsstyrki, ykkur til hjálpar og heldur uppi þannig þjóðfélagi, að þið samfara ykkar námi getið kostað ykkur að mestu? Eins og ég segi, koma langflestir nú á dögum skuldlausir eða skuldlitlir frá námi, ef þeir eru einhleypir alla sína skólatíð. Að þessu leyti er Ísland nú á dögum nálega einstætt í heiminu, og þeir ungu menn, sem vilja flytjast úr landi og setjast að annars staðar, ættu vissulega að taka þetta með í reikninginn, áður en þeir ofan á þessa þeirra miklu fyrirgreiðslu, sem hefur gert þeim mögulegt að fá sitt nám, heimta af okkur ósambærileg kjör við það, sem við getum veitt öðrum okkar þjóðfélagsþegnum.