09.03.1965
Neðri deild: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

138. mál, læknaskipunarlög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég á nú raunar ekki rétt á því að taka til máls oftar við þessa umr., ég hef talað tvisvar, hefði svo sem raunar getað fallið frá orðinu, en ég ætlaði samt að gera tvær aths. Áður en ég geri það, úr því að ég er kominn hingað, vil ég nú beina athygli hv. þm. að hugmyndum hv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, um, hvort námslaun mundu nú ekki verða sú lausnin, sem drýgst kynni að verða til þess að leysa þann mikla þjóðfélagsvanda, sem hér er verið að kljást við. Alveg er ég a.m.k. sannfærður um það, að það mundi drjúgum stuðla að lausn vandans í grundvallaratriðum.

Aths., sem ég ætlaði að gera, voru í sambandi við ræðu hæstv. forsrh. hér í gær, aðeins tvær. í fyrsta lagi vil ég segja, að það var mér mikil ánægja að heyra, að hæstv, forsrh. er mér sammála um það, að ákvæði frv. um að leggja. niður 5 læknishéruð. — og einmitt þetta er á bls. 8 í þskj. talið sem nr. 1 undir helztu nýmælum frv., að leggja 5 læknishéruð niður, — að þetta megi í raun og veru hverfa út úr frv., þetta ákvæði, og af þeirri ástæðu, að það er ekki sparað neitt fé með því og þjónar engum tilgangi, nema það hefur slegið óhug á íbúa þeirra læknishéraða, sem eiga að verða fyrir barðinu á þessu ákvæði laganna. Það hafa verið borguð hálf önnur læknislaun í þessum læknishéruðum, sem hér er um að ræða, þegar læknirinn þar þjónar nágrannahéraði, og svo á það að verða samkv. þessu frv. Það er, held ég, enginn ávinningur að því að slá því föstu, að ekki verði áfram leitað eftir að fá lækna í þessi héruð, engin nauðsyn til að leggja þau niður samkv. lögum þjónar engum tilgangi. Um þetta erum við hæstv. forsrh. sammála, og ég er því að gera mér vonir um, að frá því verði horfið að halda fast við þetta ákvæði um að afnema þessi læknishéruð með lögum, heldur halda áfram einmitt undir hinni nýju skipan með hinni bættu aðstöðu, sem frv. að öðru leyti mótar, til þess að fá lækna í þessi héruð og fá reynslu af því, hvernig það gefst.

Hæstv. forsrh. ræddi um, að það væri jákvætt í frv., að þegar búið væri að leggja þessi læknishéruð niður, væri þó gert ráð fyrir því, að læknirinn í héraðinu, sem á að þjóna þannig tveimur núverandi læknishéruðum, fengi heimild til þess að fá aðstoðarlækni, og það væri ekki ónýtt fyrir Súgfirðinga að eiga von á því að fá aðstoðarlækni til þess að þjóna hjá sér, t.d. að vetrinum. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta atriði líti sómasamlega út á prenti, á pappír, en ég er alveg sannfærður um, að þetta er pappírsgagn eitt og kemur ekki að notum, kemur hvorki Súgfirðingum né öðrum að notum. Sé það útilokað að fá héraðslækni til að starfa í Suðureyrarhéraði, geri ég mér ekki vonir um það, að þangað sé hægt að fá aðstoðarlækni, sízt af öllu að vetrinum, þegar þeir þurfa þess mest. Ég held því, að þetta ákvæði yrði í reyndinni ákaflega lítils virði.

Þá ræddi hæstv. forsrh. nokkuð um það ískyggilega ástand hjá okkur, að milli 80 og 90 íslenzkir læknar skuli vera starfandi, nokkrir þeirra þó við nám á erlendri grund og þjóni þannig ekki hér á Íslandi, þar sem læknaþörfin er þó svo brýn sem raun ber vitni. Þetta er vissulega ekki ánægjulegt. Hæstv. ráðh. sagði, að við hefðum bókstaflega ekki efni á því að halda hér uppi læknadeild, til þess að læknarnir, sem útskrifuðust þaðan, þjónuðu svo erlendis öðrum þjóðum. Það er nokkuð satt í þessu, ég er ekki fjarri því að vera honum sammála um það. En ekki vil ég halda því fram, að þetta, að læknarnir streyma svona til útlanda og eru þar milli 80 og 90, það stafi af því, að þessir menn séu verri Íslendingar en við, þá skorti þjóðernistilfinningu, ættjarðarást og mér er nær að halda, að hæstv. forsrh. drótti því ekki heldur að þessum mönnum. Hitt er rétt hjá honum, að þessir læknar, sem fara til útlanda, vitandi þó um læknaskortinn hér, hljóta að dragast þangað af einhverjum ástæðum og það er þá fyrst og fremst munurinn á raunverulegum launakjörum lækna í Svíþjóð og hér. Vissulega er dýrt að lifa í Svíþjóð og mun dýrara en hér og launin verður, eins og hann sagði, að meta með tilliti til þess, hversu dýrt sé að lifa í viðkomandi landi. En íslenzku læknarnir, sem kjósa heldur að vera í Svíþjóð, hljóta að meta það þannig, að launakjör lækna í Svíþjóð og aðstaða öll, miðað við, hve dýrt er að lifa þar, sé betri en á Íslandi. Nú er ég ekkert viss um, að þessi munur sé gífurlega mikill og er frekar þeirrar skoðunar, að hann sé hægt að jafna. Og ég held, að ef við erum t.d. rétt neðan við þetta mark, sé skynsamlegast að bæta þar úr, lagfæra launakjörin hér, svo að þeir teldu þar ekki verulegan mun á, því að ég held, að það sé íhaldssemi í launamálum, sem ekki borgar sig, að vera þarna eitthvað neðan við það mark, sem gerir launakjör lækna hér jafngóð raunverulega og í Svíþjóð og missa svo læknana. Ég held, að það borgaði sig betur að fá þessa dýrmætu sérfræðinga heim í þjónustu fyrir okkur, sem þurfum svo mjög á þeim að halda, þótt það kosti okkur það að bæta nokkuð launakjör þeirra. Í þá átt stefnir líka frv. að nokkru, og ég vil vona, að þess sjáist merki, þegar farið verður að framkvæma það, að þau atriði í frv. séu til bóta og ráði hér nokkra bót á. En ef það nægir ekki til fulls, en bætir úr að nokkru. sýnir það okkur, að við séum á réttri leið og verðum að sætta okkur við það að kaupa þessa sérfræðiþekkingu til okkar með því að borga hærri laun.

Út í hin atriðin, um það, hvort það sé alveg útilokað, að launauppbætur megi eða eigi réttilega að koma til annarra stétta, þó að út á þessa braut hafi verið farið, að því er snertir læknastéttina, skal ég ekki fara. En ég brosi í kampinn yfir því, að hv. þm. hafa farið hér í stólinn eins og eftir skipun æðri stjórnarvalda til þess að vitna eins og herkerlingar um það atriði.