09.03.1965
Neðri deild: 52. fundur, 85. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

138. mál, læknaskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hafa tekið undir mínar hugmyndir hér, hv. 5, þm. Vestf. og 5. þm. Reykv., og jafnframt segja nokkur orð út af því, sem hæstv. menntmrh. sagði. Hann sagði, að ég hefði álitið, að höfuðorsök þessara vandkvæða væri, að of lítið væri útskrifað af læknum, hélt því síðan fram, að það gæti ekki verið rétt hjá mér, að hér væru of fáir læknar útskrifaðir, vegna þess að hér væri útskrifað eins mikið af læknum og á Norðurlöndum. Það er rétt hjá honum, að það eru útskrifaðir eins margir læknar hér að tiltölu og á Norðurlöndum, en það eru útskrifaðir of fáir læknar á Norðurlöndum, þannig að þótt það sé þjóðfélagsmein á Norðurlöndum, megum við ekki hugga okkur með því, að það sé sama þjóðfélagsmeinið hérna. Við verðum að reyna að bæta úr því hér hjá okkur. Þó að við vildum taka allt frá Norðurlöndum, sem er þar til fyrirmyndar, skulum við ekki taka það, sem er gallað. Við þurfum að útskrifa miklu fleiri lækna hér. Það stendur áreiðanlega fast, sem ég sagði og það þurfa vorir góðu frændur á Norðurlöndum líka að gera.

Í öðru lagi sagði hæstv. menntmrh:, að það mætti fullyrða, að það væri enginn vilji hjá yfirvöldum háskólans til að torvelda það, að menn gætu orðið læknar og tekið sitt próf. Og ég vil taka þessi orð hans alveg góð og gild og leyfi mér þess vegna að vænta, að nú þegar verði afnumdar allar tímatakmarkanir viðvíkjandi prófum í læknadeild háskólans, að nú þegar verði breytt einkunna takmörkunum í læknadeild Háskóla Íslands og að þegar verði afnumdar þær takmarkanir, sem eru á tannlæknanámi og líffræðinganámi. Og þá kemur sönnunin á því, að hann hafi einmitt rétt að mæla og það vona ég, að hann hafi.

Þá að síðustu viðvíkjandi námslaununum. Hann sagði, að það væri nú kannske um nokkurn orðaleik að ræða þarna hjá okkur. Svo að það sé alveg skýrt, hvað ég meina, þá meina ég full námslaun, á meðan þeir eru við nám. Það þýðir, að þeir séu launaðir, þannig að þeir geti lifað af því, á meðan þeir stunda sitt nám. Það þýðir, að þessa 8–9 mánuði ársins, sem þeir stunda sitt nám, fái þeir laun, sem þeir geta lifað af.

Hæstv. forsrh. talaði um, að það væri mjög hollt, að þeir menn, sem ættu að verða menntamenn, væru að sumri til innan um verkamenn, sjómenn og bændur og ynnu með þeim og ég er honum fyllilega sammála. Við höfum báðir sem námsmenn vafalaust lifað það að vinna sjálfir þannig og það er engum efa bundið, að það er mjög gott og heilbrigt. Og það hefur alltaf orðið mikil hjálp okkar þjóð að draga úr því djúpi, sem ella hefur víða verið milli menntamanna og vinnandi stétta, sem vinna með sínum höndum fyrst og fremst, að menn hafa unnið þannig að sumri til, þeir sem seinna hafa orðið embættismenn. Og ég vildi meira að segja segja í viðbót, að það gæti verið alveg ágætt, eftir að menn væru orðnir embættismenn, við skulum taka sem dæmi t.d. efnahagsráðunaut ríkisstj., hagfræðinga hennar og aðra slíka, að þeir væru sendir að sumrinu til þess að velta tunnum á síldarplönunum og hafa þar verkamannakaup, þannig að þeir kynntust því alveg, hvernig fólkið lifir, jafnvel líka að þeir færu út og færu að slá með bændum og kynntust mjög vel og nákvæmlega ekki bara því, hvernig var á stúdentsárunum eða menntaskólaárunum, heldur líka síðar meir. Og ég þykist vita, að hæstv. forsrh. sé mér sammála og muni gera slíkar ráðstafanir og ég efast ekki um, að það mundi hafa bætandi áhrif á viðkomandi hagfræðinga og aðra slíka. Hins vegar er það því miður svo, að það er af, sem eitt sinn var, að sumarvinna geti hjálpað fátækum námsmönnum til þess að lifa af veturinn. Það er búið að vera. Þar kemur líka oft til, að jafnvel helmingurinn af stúdentum nú eru giftir menn og hafa jafnvel fyrir fjölskyldu að sjá og ástandið er þannig hér hjá þeim, sem ekki eiga ríka menn að í Reykjavík, að menn verða að þræla, menn verða að þræla að vetrinum til þess að reyna að hafa ofan af fyrir sinni fjölskyldu og stunda háskólanám um leið, verða að þræla til þess. Og ég trúi ekki öðru, en menn þekki sjálfir persónulega þó nokkur dæmi um menn, sem stunda næstum fulla kennslu og eru að reyna að stúdera í háskólanum jafnvel læknisfræði. Og það er gefið, að slíkt halda menn ekki út. Það, sem ég á sem sé við, er þetta: að greiða læknastúdentunum full námslaun, frá því að þeir byrja, þann tíma ársins, sem þeir eru að stúdera. Við skulum bara láta þá vinna að sumrinu, það er alveg rétt að halda því áfram, það hef ég alltaf álitið.

Viðvíkjandi hinu, sem ég sagði, að ég álít, að ríkið ætti að reyna að semja við þessa menn og tryggja sér þá sem starfsmenn sína framvegis og a.m.k. í gamla daga, þegar orðtakið um þá atvinnulausu menntamenn var mikið notað, þá hefði manni fundizt það allmikið öryggi að geta samið um það við stjórnarvöldin að geta, frá því að maður settist í háskólann, tryggt sér svo að segja öruggt starf alla ævi einmitt í þeirri grein, sem maður sóttist eftir. Nú hins vegar, ef menn hugsa þarna öðruvísi seinna meir og vilja breyta þessu, þá er náttúrlega hægt að láta gilda þá reglu, að þá skuli svo og svo mikið af því, sem þeir hafa fengið sem námslaun, reiknast sem lán. Ef þessir menn kjósa seinna meir að vera ekki í þjónustu ríkisins, heldur fara í það, sem ég talaði um áðan, ef það er farið að sækja svo á menn að gerast praktíserandi og slíkt, er hægur vandinn að breyta til um slíkt. Og meira að segja, ef ég man rétt, mig misminnir það nú kannske, að í núverandi námslaunakerfi, þar sem er að nokkru leyti lán og að nokkru leyti styrkur, er meira að segja gert ráð fyrir svona möguleika, þannig að það mundum við áreiðanlega koma okkur saman um, þannig að, ef hæstv. ríkisstj. færi inn á þetta, væri held ég, engin hætta á, að menn þyrftu að finna sig eins og þræl hjá ríkisvaldinu. Þeir, sem væru svo frjálshuga, að þeir gætu ekki hugsað sér það að vera starfsmenn ríkisins ævilangt, það væri sannarlega hægt að losa þá undan þeirri kvöð, en þá væri líka um leið hægt að tryggja annars vegar þeim, sem vilja starfa í þjónustu þjóðfélagsins, frá því að þeir setjast í háskólann og til dauðadags og hafa hæfileika til þess, það væri hægt að tryggja þeim það öryggi að geta gert það og þjóðfélaginu það öryggi að fá þeirra vinnukraft. Þess vegna vonast ég til þess, þegar við höfum rætt þetta svona hér, að þetta verði a.m.k. mjög alvarlega athugað hjá hv. nefnd.